„Teiknaðu broskall“ ….

Á fundi með eldri borgurum í Biskupstungunum í dag – óskuðu þau eftir að ég kynnti mig og ég sagði þeim frá ævi minni frá 101 Grettisgötu til 801 Skálholt – og það var ekki undan því komist að segja frá þeirri lífsreynslu að missa dóttur mína í janúar 2013.

 

Ég hafði verið með fjóra einstaklinga með fötlun, í sjálfstyrkingarnámskeiði m/meiru  á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands um vorið,  og ég hafði ætlað að gefa vorönnina frá mér vegna aðstæðna minna.   Það var svo ákveðið að fresta þeirri ákvörðun og í mars var ég mætt í kennslustofuna.

Á haustönn höfðum við haft þann sið að hver tími hófst með því að ég teiknaði broskall á töfluna.   Vegna þess að við ætluðum jú,  að vera mjög jákvæð 🙂

Ég þurfti að taka á honum stóra mínum og anda djúpt – þegar ég gekk inn í fyrstu kennslustundina, – mér leið satt að segja ekkert voða vel og vissi ekki alveg hvort ég gæti komist í gegnum þetta.  –   Þá heyrðist í einum af nemanda mínum segja hátt og skýrt:  „Teiknaðu broskall!“ ..

Mikið svakalega létti mér og ég fór að hlæja og teiknaði að sjálfsögðu broskall á töfluna!  ..

Þetta var svona: „Life goes on“  .. eða „Lífið heldur áfram“ .. stund .. og í raun stundir ..

Það var gaman að segja frá þessu og eldri borgararnir hlógu með mér – þegar ég sagði söguna,  en skildu kannski eins og ég hversu mikilvægt er að fólk sé bara eðlilegt sem tekur á móti manni eftir áföll…   sýni samúð og hlýhug ..  en sé þau sömu og áður! ..

Þarna steig ég stórt bataskref – lífið hélt áfram ..

bros

 

Er sjónvarpið altari heimilisins? …

Þar sem ég hef verið að heimsækja ungt fólk – og eldra,  hef ég tekið eftir risastórum sjónvarpsskjáum í miðju heimilisrýminu.  Yfirleitt í stofunni.  Á tímabili voru sum heimili með sjónvarp í hverju herbergi.  Ég kom einu sinni inn á svoleiðis heimili, – og þar var klósettið ekki undanskilið. –

Þegar elsta stelpan mín var u.þ.b. fjögurra ára,  fórum við saman í bankann og hún lék með kubbaspjaldið og legókubba,  og ég fór að borga reikninga (augljóslega fyrir tíma heimabanka).    Þegar ég var búin gekk ég að kubbaborðinu og þar hafði hún smellt kubbum í hring á spjaldinu og einn kubbur í miðjunni.   – Ég spurði hana hvað þetta væri og hún svaraði að bragði:  „þetta er heima hjá okkur“ .. og svo spurði ég út í kubbinn í miðjunnni og þá var svarið:  „Þetta er sjónvarpið“ ..

Barnið sá s.s. sjónvarpið sem miðju – eða kjarna heimilisins og ungu mömmunni brá.  Þegar ég kom heim,  fluttum við sjónvarpið – sem hafði staðið í stofunni – í kjallarann.  Það er ekki alltaf hægt – þegar rýmið er þröngt – að flytja sjónvarpið,  og kannski enn síður þegar það er orðið risastórt.   En það er ein lausn sem ég hef séð hjá sumum,  og það er að breiða fallegan dúk yfir skjáinn þegar það er ekki í notkun,   því þá verður það ekki svona afgerandi.

Auðvitað skiptir máli hvernig við notum sjónvarpið –  hvort það er dynjandi allan daginn með alls konar skilaboð sem okkur í raun koma ekki við – en virka jafnvel sem einhvers konar heilaþvottur.  😦      En þetta er alla veganna eitthvað til að hugsa um.

Ef stelpan mín væri fjögurra ára aftur og sæi mömmu sína núna,  myndi hún eflaust kubba konu með tölvu framan á sér.    Það eru mín skilaboð,   því ég ver of miklum tíma í tölvu.  Sem betur fer get ég gert margt gott,  eins og að vekja til umhugsunar – í tölvu.   En stundum er það bara hangs og tímaeyðsla.   Það er fyrir mig að íhuga og annað fyrir aðra.

Það er alltaf gott að íhuga hvað það er sem við erum að gera og hvernig – og hvaða upplýsingar við erum að taka inn og hvernig.

Kannski upplagt við upphaf nýs árs – að velja sér annað „altari“ ..  en sjónvarpið – eða tölvuna?

10708620_10204534098006208_4729771913170074469_o