Spánarævintýrið – Formáli

Ég er í veikindaleyfi …    af hverju?   Jú:  það er vegna líkamlegra og andlegra áfalla undanfarinna ára, sem hafa verið bæld en hafa verið að koma upp á yfirborðið. –   Breytingar eru flestar til góðs,  en stórar lífsbreytingar taka á – og mínar hafa verið margar,  skilnaðir, flutningar,  veikindi,  dauðsföll og alls konar minni áföll hafa safnast upp. –    Loksins fór ég til læknis,  sem skrifaði veikindin og áföllin á vottorð. –   Ég var því í veikindaleyfi frá júní – október.   Í lok október var ég beðin um að leysa af í mánuð – og ákvað að stökkva á vagninn,  því ég vil helst vinna og þá fæ ég betri framfærslu en af því að vera á spena á sjúkrasjóði BHM. –    Þá komst ég að því að ég var ekki nógu hraust.

Stiklað á stóru um orsakir.

Faðir minn lést þegar ég var sjö ára gömul,  árið 1969 og þá var engin áfallahjálp eða sálfræðingur sem ræddi við neinn. – Mamma var ein með fimm börn átta mánaða til ellefu ára,  og það var ekki mikil geta til að sinna okkur tilfinningalega eins og gefur að skilja.   Besta vinkona mín lést í janúar 2008 úr krabbameini. –  Ég greindist með krabbamein 2008,  og það tók sig upp í eitlum um áramót 2014/15  – var skorið og ég fékk geislameðferð – og ég er í eftirliti á sex mánaða fresti  (skanna og fl. ) fram til 2020 og þá á árs fresti.   Dóttir mín lést úr blóðsjúkdómi í janúar 2013,    í framhaldi af því fékk ég heilkenni sem heitir „Burning Mouth Syndrome“  sem er einhvers konar taugasjúkdómur og upplifunin er brennandi tunga og munnur, – en þannig var það til að byrja með en hefur jafnað sig mikið.   Ég finn þetta þó alltaf reglulega og hefur það áhrif á lífsgæðin.   Móðir mín féll svo frá sama árið og dóttirin en í septembermánuði. –  Það var svo í vor – núna 2017 – að ég fékk vefjagigtargreiningu hjá gigtarlækni, en var búin að gruna það lengi.    Eins og áður sagði, hafa bæði tíðir flutningar og sambandsslit  (og stundum leiðindi sem hafa leitt til þeirra)  haft áhrif,  auk þess að ég vann á vinnustað þar sem fólk kom illa undan vinnuveitandanum, og var ég ekki undanskilin.  –

Allt þetta þýðir að ég hef ekki fulla orku né starfsgetu.   Ástæðan fyrir að ég er að greina frá orsökum, er ekki til að benda á sökudólga,  heldur ástæður fyrir andlegu og líkamlegu þroti. –

EN ég er s.s. að byggja mig upp og er alltaf að því í raun, svona meðfram, – annars væri ég nú ekki sú sem ég er í dag.   Ég fór í Heilsuborg í haust á 8 vikna námskeið – í hreyfingu og núvitund og hjálpaði það mér mjög mikið.   Einnig sótti ég helgarnámskeið í Heilsustofnun Hveragerði sem gerði mér gott. –     Ég hef fengið fimm mánuði greidda úr sjúkrasjóði,  og mér skilst að ég geti fengið fjóra í viðbót, –   enda telur ráðgjafinn minn að ég eigi ekki að fara að hugsa um vinnu fyrr en eftir ca. 4 – 6 mánuði. –

SPÁNN

Hvað er þá til ráða?  –   Jú, ég hef fylgst með fólki sem hefur farið til Spánar og blómstrað heilsufarslega.   Ég ákvað þá að gera það líka og 13.  janúar nk.  er ég að fljúga út – reyndar ásamt systur minni sem ætlar að vera með mér fyrstu vikuna.    Við byrjum í kósý íbúð við ströndina í Torrevieja  –    svo flýgur hún heim þann 20. janúar  og þá verð ég eftir þar í fimm daga,  en svo hafði ég séð þátt á RUV um fólk sem passaði hunda í útlöndum og fékk húsnæði í staðinn,   svo ég dreif mig inn á síðu sem heitir Trusted House sitters,  og fékk „vist“  í litlu þorpi sem heitir La Romana,  eða rétt þar hjá.   Ég byrja að passa lítinn hund sem heitir Ela,  –  þann 20. janúar og verð til 8. febrúar.    Það er fyrri hlutinn,   en svo óskuðu þau eftir að ég væri aftur frá 26. febrúar – 14. mars og ég ákvað að stökkva á það. –

Ég er í ráðgjöf hjá Virk og skrifaði undir samning þess eðlis að hreyfa mig daglega og svo fæ ég skype sálfræðing til að spjalla við.   Er það ekki snjallt? –    Ég hef engar áhyggjur af félagsskap á Spáni,  ég á fullt af kunningjum þar sem ég hlakka til að spjalla við og kannski fara í göngutúra með o.fl. –

Þetta er s.s. allt að fara að gerast, – passinn er tilbúinn og ég búin að fá evrópskt sjúkratryggingaskírteini – og er bara eftir að pakka! –

Homes