Viðbrögð við pistli Bjarkar Jakobsdóttur –

Eftirfarandi pistill er skrifaður sem viðbrögð við pistli Bjarkar Jakobsdóttur – en ég vil geyma það sem ég skrifaði hér á bloggsíðunni minni. Eins og sumir vita skrifaði ég pistilinn „Meðvirkni er ekki góðmennska“ fyrir nokkrum árum – og hægt að lesa hann hér á blogginu líka – eða „gúgla“ hann.

„TW“

Elsku fólk – hverrar þjóðar sem þið eruð!

Ég skrifa þessi orð vegna þess að mér er orðið mál að bregðast við grein Bjarkar Jakobsdóttur. Grein sem var skrifuð undir formerkjum góðmennsku, en er í raun bullandi meðvirkni og meðvirkni er ekki góðmennska (og þó ekki illmennska) miklu frekar þannig að hún styður ómeðvitað óæskilega hegðun. Manneskjan veit oft ekki betur – eða kann ekki betur.

Hópurinn sem greinarhöfundur óttast bannfæringu og útskufun af, er væntanlega fólk sem hefur barist gegn ofbeldis- nauðgunar-og þöggunarmenningu, ef menningu skyldi kalla.

Björk talar um að hjartað sitt gráti „í hvert skipti sem nýr einstaklingur sé tekinn af lífi á samfélagsmiðlum“ – seinna í greininni talar hún um að umræðan eigi ekki að fara fram með upphrópunum – ….en það er oft talað um að praktisera það sem maður prédikar og í mínum huga er það upphrópun að tala um að „fólk sé tekið af lífi“ á samfélagsmiðlum.

Hjartað hennar grætur. Grætur vegna hverrra? – Er það vegna þeirra sem hafa lent í ofbeldi. Nei það grætur vegna þeirra sem eru nafngreindir og afhjúpaðir fyrir að hafa t.d. misnotað sér aðstöðumun, aldur og frægð. Það er valdamunur. Á dönsku er talið um „at voldtage“ – eða taka vald af einhverjum.-

Hvað erum við – þessir meintu hópar – að reyna að gera? Jú, að stöðva valdníðslu og menningu sem samþykkir þöggun.

Það að vera mannleg og ófullkomin er ekki nægileg afsökun fyrir því að misnota – kúga eða beita valdi. „Úps – ég gerði mistök“ – „Úps ég fór yfir mörk einnar konu … eða jú, þegar betur er að gáð voru þær þrjár“ … eða voru þær fleiri? –

„Að fara yfir mörk“ – hljómar frekar sakleysislega og ég myndi hreinlega vilja fá skýringar á hvað fólst í því hjá þeim sem sagði það.

„Að taka feilspor – kemur fyrir okkur öll, en þegar feilsporið felur í sér það að meiða eða særa mjög alvarlega – þannig að blæði hjá þeim sem stigið er á, þá þarf að axla ábyrgð á því spori. (Hinn meðvirki hefur tilhneygingu til að taka þá ábyrgð af viðkomandi).

Það er himinn og haf á milli þess feilspors að segja óviðeigandi brandara eða „gera eitthvað sem telst kynferðisleg áreitni“ (Orð Bjarkar hér í gæsalöppum)

„sem TELST kynferðisleg áreitni“ aftur er smættað – og gert lítið úr. Í samfélaginu er ekki bara verið að gagnrýna eitthvað sem TELST kynferðisleg áreitni. Það er verið að gagnrýna kynferðislega áreitni, misnotkun, nauðgun og þá sem stunda slíkt.

„Vinsæla liðið?“ ákveður ekkert að leggja einhvern í einelti. –

„Vinsæla liðið“ er væntanlega sá hópur fólks sem sem vill afnema ofbeldismenningu t.d. fólk sem styður #metoo – byltinguna, sem býður þeim sem hefur lent í ofbeldi að segja frá í skjóli hópsins. Að þar sé hægt að segja frá án þess að hrekjast sjálf frá. Segja frá svo að mennirnir sem verið er að STÖÐVA (ekki leggja í einelti) haldi áfram að misnota – nauðga og fara yfir mörk stúlkna alveg niður í barnsaldur. –

Var verið að leggja Jón Baldvin í einelti þegar tugir kvenna sögðu frá upplifun sinni af honum? Ein kvennanna er vinkona mín en hann sleikti á henni hálsinn þegar hún var í grunnskóla – kennarinn hennar. – Talandi um unglingadeild … hmmm… Já og hann fór VEL yfir mörk. Hún er hluti af „liðinu“ …

Hegðun hans gagnvart þessum konum hefur haft áhrif á allt þeirra líf.

„Svei okkur að leggja hann svo í einelti!!! … Konan hans var ein af þeim sem skrifaði „loksins, loksins, undir grein Bjarkar. – Ekki skrítið – því hún er líka ein af þessum sem hjartað grætur vegna meðferðarinnar á honum – kæru samlandar!! –

Að við skulum koma svona fram við þessa aumingjans menn! –

„En það er líka gerandameðvirkni að standa hjá og segja ekkert á meðan ofbeldi á sér stað á netinu.“ … segir Björk.

Ofbeldi gagnvart hverjum? – Getur verið að þessi grein sé ofbeldi gagnvart þolendum? – Ég álít það sé svo, – þannig að ég er sammála Björku, – þess vegna stend ég ekki hjá og þegi yfir grein hennar.

Langmest af þeim greinum gegn ofbeldi – eða baráttan gegn ofbeldi er háð vegna réttlátrar reiði. Reiði vegna þess að menn hafa komist svo lengi upp með háttsemi sem er óásættanleg. Reiði hjálpar okkur að setja mörk – og við segjum hátt og skýrt: „þetta er ekki í boði lengur“ – þessi „nýskilgreinda“ áreitni 🙂

Þegar fýkur í fólk þá segir það stundum miður fallega hluti – talar ekki fallega um þá sem beita ofbeldi. Það má kalla það dómhörku – og auðvitað er til fólk sem „fer yfir mörk“ – í dómhörkunni, en verðum við ekki að sýna þeim sama skilning og mönnunum sem stíga feilspor og fara yfir mörk? –

Er Björk kannski með dómhörku í garð þeirra hópa sem vinna gegn ofbeldi með því að kalla þá „vinsæla liðið?“ – hvað er það?

Fólk lærir ekki af mistökum sínum, nema það viðurkenni þau og geri ekki lítið úr þeim. Að viðurkenna vandann er fyrsta sporið. Stór hluti þeirra manna sem hafa verið ásakaðir um ofbeldi – og margar frásagnir eru af, viðurkenna ekki ofbeldið sem þeir hafa beitt, eða gera lítið úr því, ítreka að ég myndi vilja vita hvað það væri sem er kallað „að fara yfir mörk konu“ – Er það að nauðga? Er það að káfa? Er það að misnota vald sitt. „Valdarán?“ –

Það hefur ítrekað verið farið yfir mín mörk – og þó að káf – hljómi ekkert „alvarlegt“ – þá er það ógeðslega vont og veldur skömm hjá þolanda – til dæmis þegar um ungar stúlkur er að ræða sem kunna ekki að stoppa menn sem fara yfir mörk. Þær taka á sig skömmina og ábyrgðina – sem er ekki þeirra – en er stöðugt verið að ýta að þeim og sérstaklega var það svoleiðis. Því erum við að breyta.

Björk talar um að við séum að taka burt möguleika fólks á að bæta sig. – Tali hún fyrir sjálfa sig. Það er akkúrat meðvirknin sem birtist í þessum skrifum sem tekur burt möguleika geranda á að bæta sig.

Grein eins og hún skrifar dregur úr alvarleika ofbeldis – og gerir gerandann í raun að fórnarlambinu sem við eigum að vorkenna, – þetta séu nú bara mannleg mistök og öllum geti orðið á, aumingja hann. –

Meðvirkni virkar þannig að hún stöðvar ferilinn á milli orsaka og afleiðinga. – Einhver gerir eitthvað alvarlegt – en sá/sú meðvirki/meðvirka gerir lítið úr því – fegrar – tekur fallið af þeim mistökin gerir. „Mamma segir að ég sé ekkert svo slæmur“ „Konunni minni finnst ég góður“ –

Vandamál verða ekki leyst – hvað þá rædd – nema þau séu viðurkennd. – Við erum með vandamál sem heitir ofbeldismenning og þöggunarmenning.

Erum við að ENDURSKILGREINA „það sem telst áreitni“ – hvers vegna skrifar hún „það sem telst?“ – Áreitni er bara áreitni. Áreitni hefur alltaf verið áreitni.

Björk skrifar:

„Margar konur og menn hafa upplifað einhverskonar form af áreitni eða ofbeldi, þar á meðal ég en það er stórhættulegt að leggja allar þessar upplifanir að jöfnu.“

Hver er að leggja þessar upplifanir að jöfnu?

Ástæðan fyrir að menn eru beðnir að draga sig í hlé, þegar þeir eru afhjúpaðir er af tillitssemi við þolendur. Þolandi á að geta kveikt á útvarpi eða sjónvarpi án þess að þurfa að horfa í andlit eða hlusta á rödd geranda síns. Það triggerar.

Áfram skrifar Björk:

„Ég skil vel að áföll kalli á reiði og sársauka og öll höfum við mismunandi mörk eftir því hvernig lífið hefur mótað okkur.“ sammála …

Björk talar um að fjandsamlegar færslur fái fólk til að bera ör til æviloka. – Jahérnahér … Ef að fjandsamleg færsla á samfélagsmiðlum fær fólk til að bera ör til æviloka – hvað þarf þá þolandi ofbeldisins að bera til æviloka? –

Ég er langt í frá að styðja hatursfærslur í garð gerenda, en EKKI TAKA ábyrgðina frá gerandanum – það er, já, haldið ykkur fast: „gerendameðvirkni“ – og ég veit að orðið er tískuorð en það er einhver ástæða fyrir að það er mikið notað í dag, vegna þess að það eru því miður allt of margir gerendameðvirkir og færsla Bjarkar ber þess merki og allir sem læka eða hjarta hana eru því miður að ástunda slíkt hið sama. –

Það er ekki af illmennsku – og flestir álíta sig örugglega mjög góða og sanngjarna – og hokna af reynslu lífsins. Sú sem þetta skrifar er reyndar ekki fædd í gær og hefur alveg farið illilega í gegnum meðvirknipakkann og er kannski þess vegna þekki ég hvernig þetta virkar.

Við „reynslumikla“ eldra fólkið höfum heldur betur staðið okkur illa í að stöðva ofbeldiskeðjuna – svo ég held við getum ekki klappað okkur á öxl og þanið brjóst og þóst vita eða kunna betur en komandi kynslóð.

Björk skrifar:

„Stundum vildi ég bara að þetta unga baráttufólk fengi lánaða smá lífsreynslu og umburðalyndi frá okkur sem eldri erum.“

NEIIIIIIII… alls ekki, við höfum einmitt haft allt of mikið af umburðalyndi fyrir dónaköllum – káfurum og hegðun sem ekki er í lagi.

Björk heldur áfram:

„Við megum ekki gjaldfella alvarlega ofbeldisglæpi með því að kalla allt nauðgun eða kynferðisafbrot.“

Hver er að kalla ALLT nauðgun eða kynferðisafbrot.“ – Skil ekki?

„Það er líka að mínu mati mikið á ungar sálir lagt sem vilja ræða upplifun sína að vita að það kallar á tafarlausa bannfæringu geranda. Ég er viss um að það eykur í mörgum tilfellum á andlegan sársauka og letur fólk frekar en hvetur til að opna sig. Ef við virkilega viljum hjálpa, þá ættum við að hjálpa fólki að tala saman um mismunandi upplifanir og mörk og draga af því lærdóm. Og kannski einn daginn, fyrirgefa.“ =

Ábyrgðinni á líðan geranda komið á þolanda … enn eina ferðina.

„Ef þú segir frá verður gaurinn sem misnotaði þig – eða beitti þig valdi, útskúfaður … hugsaðu þig nú vel um væna – hvað ÞÚ ert að gera honum!!“

Já það fylgir því skelfilegur sársauki að vera útskúfuð á samfélagsmiðlum. – Er það þolendum að kenna? – Eða þurfa gerendur að læra að það eru afleiðingar af gjörðum eða hegðun ÞEIRRA.

Ef þú meiðir – ferð yfir mörk – káfar – nauðgar … Þú kemur þér sjálfur út í kuldann – færð ekki að vera með = afleiðingar af þínum eigin gjörðum.

Björk biður um að við hættum að heimta að fólk sé í ákveðnu liði … en það er hún sjálf sem skiptir okkur í lið er það ekki? – Hver var að tala um „vinsæla liðið“? Svo segir hún að börn læri það sem fyrir þeim er haft – AKKÚRAT – hver kenndi börnunum að fara mætti yfir mörk – að þegja þegar ætti að segja frá – að vera ekki leiðinleg þegar einhver fer yfir mörkin þín? – Það er þessi reynslumikla illa meðvirka kynslóð. – 🙁

Ég legg til að unga fólkið taki við – ég veit þau munu hafa réttlátara samfélag. EKKI læra af foreldrum ykkar, það erum við eldri kynslóðin sem höfum klúðrað þessu!! –

Heimur batnandi fer … þrátt fyrir allt … og þrátt fyrir okkur miðaldra sem reynum að stöðva batann með því að troða inn gömlu hugmyndafræðinni sem hefur ekki virkað hingað til…

Það þarf að rugga bátnum – það þarf að hafa hátt – Það þarf að stöðva ofbeldi og búa til öruggari heim fyrir börnin okkar þar sem þau eru ekki í vafa hvað er ofbeldi og hvað ekki … og já, það er strákunum í hag líka.

Ég VONA að einhver skilji hvers vegna okkur mörgum leið alveg svakalega illa yfir þessari grein Bjarkar og líka fundum við sorg þegar við sáum öll lækin og deilingarnar …. við upplifðum afturför í baráttunni gegn ofbeldi. Svo einfalt er það.

Smá fræðsla um gerendameðvirkni

Hvers vegna er gerendameðvirkni skaðleg? –

Vegna þess að hún firrir geranda ábyrgð og möguleika á að taka á sínum málum, um leið og ábyrgðin færist þá oft á þolanda. Sá sem segir frá eða stendur með þeim sem afhjúpar geranda (oft þolandi) er gerður ábyrgur fyrir afleiðingum. –

Dæmi: Vinsæll uppáhaldssöngvari þjóðarinnar er afhjúpaður sem gerandi í það alvarlegu máli að þolandi (þolendur ) er í miklum sárum. Hefur þó hikað við að koma fram, nákvæmlega vegna þess að söngvarinn er hálfgert óskabarn þjóðarinnar.

Eins og móðir ver barnið sitt og trúir engu illu upp á það – þá stígur ekki bara fram ein móðir – heldur her mæðra sem neitar að trúa einhverju illu upp á óskabarnið. Gerir frekar lítið úr því sem hann gerði, bara mistök – hann missteig sig o.s.frv. – Talar jafnvel um að verið sé að leggja hann í einelti. Oft er það ein sem stígur fram, ein sem er vinsæl – þekkt af því að vera skynsöm góð kona og mælir fram í allri ienlægni – því hún trúir einlæglega á drenginn. –

Svo fylgja aðrir – „já loksins steig einhver fram og varði óskabarnið“ –

Í allri athyglinni á að skilja drenginn, fyrirgefa honum og vilja vel. Já, hvar er umburðarlyndið fólk? – Þá sitja þolendur hans í skugganum og hugsa, – „hefði ég ekki átt að koma fram?“ – „Er ég að skemma einhverja ímynd fyrir fólki?“ – Hvað þá með þá þolendur sem EKKI hafa komið fram – sem hafa þagað? Hvað með framtíðarþolendur, ekki bara óskabarnsins, heldur almennt. „Borgar sig ekki að fá einhverja fræga leikkonu til að „verja“ sig?

Það hafa stigið fram „talsmenn“ eða „talskonur“ gerenda – og hreinlega valta yfir þolendur og „talsmenn“ eða „talskonur“ þolenda. Setja upp varnagla áður en þau byrja ræður sínar: „Ég veit sko að ég verð ekki vinsæl en ….“ Jú, þú verður vinsæl meðal þeirra sem hópast í gerendameðvirknihópinn að baki þér. Það hefur bara komið fram undanfarið og hef ég séð það hér á netinu.

Konur sem meina svo innilega vel – en gera sér enga grein fyrir skaðanum sem þær valda. – Ég skrifaði grein til að útskýra skaðann af einni svona grein. Ég fékk viðbrögð frá þolendum sem voru þakklátir því þeir höfðu upplifað grein talskonunnar sem blauta tusku í andlitið. –

Punkturinn með því að útskýra skaða gerendameðvirkni er að þegar verið er að VERJA gerendur – er um leið verið að SKAÐA þolendur m.a. með því að draga úr áreiðanleika þeirra og alvarleika þeirra árása sem þeir hafa orðið fyrir.

:-/ … pælið aðeins í því. Gerendameðvirkni = þú stendur að baki geranda – þú ferð í „lið“ með geranda gegn þolanda.

Hér eru nokkrar setningar sem ég hef kóperað – sem upplifun eftir að pistill Bjarkar Jakobsdóttur var birtur og eftir að ég rýndi í hann:

„Ég las greinina hennar Bjarkar Jakobsdóttir og var í sjokki eftir að lesa hana!!“

„Ad.skrolla.yfir lækin vid thennan pistil er eitt sf thvi sársaukafyllsta.sem.eg hef upplifad.a.fb. eins og 1000 hnifar i hjartađ. Studningur folks med kynferdis og ofbeldisfolki gegn tholendum i formi emoja med hjörtum og knusum er eitt thad ògeđfelldasta.sem èg hef sèđ.“

„Ég er buguð yfir þessari orðræðu og viðkvæmni fyrir gerendum 😪 þolendur sem stíga fram og segja sögu sína fá ekki nærri eins mikil viðbrögð og þessi ömurlegu skrif.“

—-

„Verandi ein af þeim sem steig fram í þáttunum Heimilisofbeldi því èg vildi gera eitthvað gott með það ofbeldi sem ég hef orðið fyrir fannst mér skrif Bjarkar svo mikið skref aftur á bak! Og sjá allan meðbyrinn sem hún fékk var ömulegt!“

“ Svo gott að fá þessa grein eftir grein Bjarkar. Mikið sem ég var aum og lítil í mér eftir að lesa hana. Ég er alin up við þessa þöggun og þorði ekki að segja frá þar sem maðurinn var guð almáttugur að mati allra í minni fjölskyldu. Ég var því miður ekki eini einstaklingurinn sem lennti í honum. Svo koma svona risaeðlur eins og Björk og henda manni til baka í barnæsku og unglingsár.“

Þetta er bara brot af viðbrögðum, en vonandi nóg til að skilja AFLEIÐINGAR skrifa sem áttu að vera úr hjarta sem grét vegna meðferðar á geranda. Ef það er ekki gerendameðvirkni þá heiti ég ekki Jóhanna Magnúsdóttir. –

Gerendameðvirkni – og meðvirkni er aldrei jákvæð. Meðvirkir einstaklingar eru ekki vont fólk og meinar ekkert illt – og meinar reyndar gott. En fattar kannski ekki að með því að verja og vernda einn er það að skaða annan. 😦

Ástæðan fyrir því að ég þekki þetta svona vel er að ég hef verið í gerendameðvirka „liðinu“ oft og mörgum sinnum. Ég var í hjónabandi þar sem ég var sífellt að verja manninn minn eða „fegra“ hegðun hans eða afsaka. Ekki síst gagnvart sjálfri mér. Mér fannst ég oft eiga sök á hans hegðun. Tók á mig sök.

Ég var aðstoðarskólastjóri þar sem ég varði (framan af) hegðun skólastjóra, skrifaði bréf í hans nafni.

Meðvirknin verður oft til vegna þess að það er svo erfitt að horfast í augu við sannleikann – við raunveruleikann. Að einhver sem maður elskar/virðir hafi gert eitthvað á hlut náungans. – Getur það verið? Við viljum taka „höggið“ á okkur. Fara í skaðaminnkandi aðgerðir svo fólkið OKKAR meiði sig ekki.

Þetta er stundum notað sem „tæki“ hinna gerendameðvirku – gagnvart þeim sem vilja segja frá: Kona sem kom til að segja frá kynferðisofbeldi innan kirkjunnar var spurð eitthvað á þessa leið: „Hvað um sjúka og aldraða móður þína, verður þetta mál ekki of erfitt fyrir hana – viltu ekki bara halda þessu fyrir þig?“ –

Nóg komið í bili – er þreytt eftir að skrifa þetta, en ég hef þörf fyrir að fólk skilji hvernig við hreinlega virkum. Ég trúi að við getum öll lært þetta.

Sannleikurinn mun gera okkur frjáls – jafnvel þó hann sé sársaukafullur.