Vinsamlega hættu þessu, mér þykir þetta óþægilegt! ..

Ég lenti í því nýlega að fullorðinn – bláókunnugur, maður  tók utan um mig  eftir athöfn,  þar sem ég var að þjóna sem prestur á höfuðborgarsvæðinu kom upp að hliðinni á mér og greip með handleggnum utan um mig og svona þreifaði eftir síðunni með hendinni.  –  Hann gerði þetta í tvígang, – og svo krækti hann höndinni í minn handlegg og spurði:   „Eigum við  ekki að gifta okkur?“   ..  Þetta var mjög taktlaust og langt yfir mín mörk,   en eina orðið sem ég kom upp (vegna málstols)  var  „jæja“ sem átti að þýða  „jæja er ekki nóg komið?“      Það var margt sem fór samt í gegnum hugann,  og m.a. að ég vildi ekki gera mál og læti.    Ég var þannig stödd að ég vissi hreinlega ekki hvernig ég ætti að bregðast við.
Tilfinningarnar voru að mér þótti þetta óviðeigandi og mjög óþægilegt – og eftir að hafa rætt þetta við fólk sem mér er náið,   var ég fljót að sjá að ég var ekki vandinn – en ég féll í smástund í þá gryfju að hugsa:  „hvers vegna kunni ég ekki að bregðast við?“   „Af hverju „leyfði“ ég þetta?“  o.s.frv. –       En sú gryfja varð aldrei djúp. –
Ég vil læra af öllum þeim uppákomum sem verða í lífinu og ég hef lært þetta:

Mér þótti þetta óþægilegt, ég breyti ekki fullorðnum karli og hans hegðun og markaleysi og e.t.v. kunnáttuleysi í samskiptum.   Ég veit ekkert um hann og hann gæti verið á einhverju rófi sem hann kann ekki mörk.   En nú veit ég hvernig ég myndi bregðast við ef ég gæti spólað til baka.    Ég myndi bara segja eins og er:  „Vinsamlega hættu þessu,  mér þykir þetta mjög óþægilegt“ ..   „Tell it like it is“   Eða;  segja bara nákvæmlega það sem mér finnst.
Ég ákvað að blogga um þetta, – eða skrifa opinberlega því við lendum mörg í svona uppákomum og verðum „málstola“  vegna þess m.a. að yfirleitt eru þær óvæntar og kannski í erfiðum aðstæðum. –

Ég ætlaði að kalla manninn fífl,  en mér leiðist að kalla fólk fífl,   og kannski er hann bara kjáni og veit ekki betur,   ég er löngu búin að fyrirgefa honum í huganum til að losna undan þeirri óþægindaupplifun þegar farið er svona yfir mörkin mín. –

Þetta get ég gert sem fullorðin manneskja,  þ.e.a.s.  sagt „hættu þessu“  en það getur verið erfitt fyrir börn eða unglinga eða þau sem eru valdaminni en sá sem á þeim brýtur.   Ábyrgðin er að sjálfsögðu alltaf hjá þeim sem beitir ofbeldi,   en það er samt gott að hafa einhver ráð í pokahorninu sem styrkja mann til að segja  „NEI“ eða „STOPP“  .. það er veldissprotinn eða valdatækið okkar.

stop