Er hægt að velja hugsanir sínar?

Við erum skepnur vanans, eins og sagt er.  Það þýðir að við höfum tilhneygingu til að gera hlutina eins og við gerðum áður.   Sumir vanar eru góðir og sumir vondir.

Að sama skapi eru sumar hugsanir góðar og sumar vondar.

Það kostar oft svolítinn sjálfsaga að breyta vana.  En eftir því sem við gerum hlutina oftar fara þeir að síast inn og svo kemur að því að við gerum það á ósjálfrátt.

Mér finnst ágætt dæmi t.d. þegar við erum að læra á bíl, þá þarf að hugsa um hvert einasta atriði og svo verður það nokkurn veginn ósjálfrátt hvernig við skiptum um gíra, stígum á bremsu, kúplingu, bensín o.s.frv. –  Fyrst var þetta svolítið flókið – a.m.k. fyrir mig og ég þurfti meira að segja að horfa ofan á stöngina þar sem gírarnir voru sýndir. –

Núna skipti ég bara þegar ég fæ tilfinningu fyrir að það þurfi.

Við gætum verið búin að keyra á vondum hugsunum ansi lengi og erum það býsna mörg. –  Niðurbrjótandi „hvað þykist ég vera“ – „ég á ekki gott skilið“ – „hvernær fattar fólk hvað ég er ómöguleg“  – „ég er ekki nógu ________ (dugleg, klár, mjó, góð …o.s.frv. “ ..

Til að hætta þessu þurfum við að fara að læra á annan bíl og það tekur svolítið á.  Það er miklu auðveldara að keyra bílinn sem við erum vön og þurfum hreinlega ekkert að hafa fyrir því.

Það að fara að læra nýtt tekur smá á og okkur gæti þótt það óþægilegt, kjánalegt,  okkur ekki eðlilegt o.s.frv. –  það er kostnaðurinn – en eins og tókst að kenna okkur að hugsa vondar hugsanir í eigin garð og annarra þá ættum við sjálf að geta lært góðar hugsanir og önnur viðhorf ekki satt?

Æfingin skapar meistarann.

Það sem fólk sem hefur reynslu notar er það sem kallað er „jákvæðar staðhæfingar“ – sem eru eins og mótstaða við hinum neikvæðu.  Hinar neikvæðu koma okkur bara í vandræði og bílnum er ekið í blindgötu og við verðum stopp.

Það þarf því hreinlega að aga sig til að fara að taka upp jákvæðar staðhæfingar, komast í gegnum „kjánahrollinn“ og komast yfir þegar að gamla þú ferð að setja út á það að þú segir við þig í spegilinn „ÉG ELSKA ÞIG“ –

Það er frelsun að tala fallega til sín,  – frelsun frá niðurlægingu, ótta og skömm.

Louise Hay er sú besta sem ég veit til sem notar „Positive affirmations“ – og ef við sjálf eigum erfitt með það,  er gott að nýta sér hennar orð,  það er eins og að fá andlegt vitamín. –  Seinna getum við svo farið að tala svona sjálf við okkur.

„Ég er dásamleg, yndisleg vera og Guðs góða sköpun sem mér hefur verið falið að bera ábyrgð á.  Ég ætla að sinna þessari sköpun vel og ég fyrirgef mér allt það vonda sem ég hef sagt í eigin garð og dómhörkuna í eigin garð.  Ég er þakklát fyrir lífið og allt það sem það hefur fært mér,  ég skil ekki alltaf það sem að mér er rétt, en oftast geri ég það eftir á. “  ….

Þetta er svona dæmi um fallegt sjálfstal.  Þegar við förum að tala fallega til okkar sjálfra verður líka miklu,  miklu auðveldara að tala fallega til annarra.

„Konan mín segir aldrei neitt fallegt við mig, hrósar mér aldrei né þakkar og veitir mér ekki athygli “ – sagði maður nokkur.

Ég spurði hann „Segir þú einhvern tímann eitthvað fallegt við þig, hrósar þér, eða þakkar og veitir þú þér athygli?“ – spurði ég á móti.

Ég veit að þið vitið svarið.

Þegar við virðum okkur ekki sjálf,  þá er mjög ólíklegt að aðrir geri það.  Samt er auðvitað til fólk sem er „vaknað“ og er tilbúið að veita hinum „sofandi“ athygli.

Þau sem eru „vöknuð“ í raun og veru dæma ekki hin sem eru enn „sofandi“ – því að þá erum við ekki vöknuð nema að hluta til.  Vöknuð til meðvitundar að við erum öll eitt og þurfum að sýna skilning.

Færum okkur rósir, gleði, þakklæti og fyrirgefningu og veitum okkur athygli.  Það er ekki eigingirni, það er okkar leið til að kunna betur að gefa.

Að sjálfsögðu festumst við ekki í því að vera bara góð við okkur, – því að fullur bikar af elsku verður endalaus uppspretta elsku og þá höfum við af nógu að gefa.

Við þurfum að æfa góðu hugsanirnar og yrða þær upphátt svo að vondu yfirgnæfi þér ekki.   Æfingin skapar meistarann og við erum öll meistarar eigin lífs.

Okkur er ætlað að vera besta eintakið af okkur sjálfum, í því felst meistari okkar.

Hér er tengill á Louise Hay og skora á ykkur að skoða sögu hennar, en það er mikið efni á Youtube. http://www.youtube.com/watch?v=nuKklYvceOE

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s