Er fíkn þrá eftir faðmlagi? … örlítil umfjöllun um „Rocketman“

Kenning dr. Gabor Maté er að fíkn sé þrá eftir faðmlagi. Skv.. Brene Brown erum við „wired for love and connection“ .. eða víruð til að vera elskuð og í tengslum.

Í myndinni „Rocket Man“ um ævi Elton John, fáum við innsýn í æsku hans og uppeldi og fjölskyldutengsl eða tengslalaleysi. Foreldrar eru sýnd sem fjarlæg og kaldlynd – og hann er alltaf að bíða eftir viðurkenningu foreldra sinna og þráir sérstaklega hlýju og faðmlag frá föður sínum.

Í gegnum myndina eru myndbrot þar sem hann mætir sjálfum sér sem litlum dreng – og það fallegasta er þegar hann loksins tekur sjálfan sig í fangið.

Elton John hefur verið edrú í 30 ár og segir sjálfur að hann væri dáinn hefði hann ekki hætt að neyta hugbreytandi efna. Þegar við heyrum fólk segja að við þurfum að elska okkur sjálf, þá er það nákvæmlega þetta sem átt er við. Að við sem fullorðin – tökum okkur sem börn í fangið. Að við veitum sjálfum okkur athygli og virðingu og tengjumst okkur sjálfum. – Það er auðvitað yndislegt að eiga í fallegu sambandi við annað fólk, en við getum ekki stjórnað hvernig annað fólk er, sérstaklega þá foreldrar okkar.

Þessar væntingar og vonbrigði gagnvart foreldrum virðast vera gegnum gangandi hjá svo mörgum, – og þegar við hættum að ergja okkur yfir framkomu foreldra við okkur sem börn, og tökum fókusinn af þeim og yfir á okkur sjálf – föðmum okkur sjálf, þá hefst batinn. „The healing begins when the blaming game stops“ (Facing Codependence) – Ég hef þýtt það sem: Þegar ásökunum linnir hefst batinn. – Þegar við erum að horfa til baka, þá er það til að skilja okkar uppvöxt og aðstæður og hvers vegna við erum eins og við erum. Hvers vegna við bregðumst við eins og við bregðumst við, en alls ekki til að leita að sökudólgum. Ef við erum fókuseruð á sökudólga – missum við athyglina á okkur sjálfum og eyðum dýrmætum tíma í að reyna að breyta hegðun þeirra sem við höfum enga stjórn á. – Þau einu sem við getum í raun „stjórnað“ erum við sjálf. Svo elskum okkur – viðurkennum – og gefum okkur hlýtt og gott faðmlag, því við erum öll elskunnar virði.

„Ég þarf ekki á neinum að halda“ …

Ég sá eftirfarandi texta á facebook í morgun, reyndar á ensku – en hann talaði svo sterkt til mín og ég vildi deila með öðrum sem kannski þurfa á þessum skilaboðum að halda á íslensku svo ég þýddi hann yfir á íslensku. Skilaboðin eru eiginlega þau mikilvægustu fyrir mig og ég veit þau geta verið mikilvæg fyrir þig. Þetta er það sem ég heyrði fyrst um hjá Brene Brown, sem hún kallar „Power of vulnerability“ – eða þegar að við viðurkennum vanmátt okkar (sem er auðvitað hluti af fyrsta sporinu í 12 spora kerfinu líka) þá höfum við líka tekið fyrsta skrefið í bata. Bata frá áföllum bernskunnar. Áföll sem við kannski vitum ekki að við höfum upplifað. Þau eru allt frá stórum niður í lítil, en þessi litlu eru e.t.v. síendurtekin skilaboð sem láta okkur finnast að við séum ekki mikils virði. Foreldrar nota orðræðu (sem þau lærðu af sínum foreldrum) sem virkar þannig á börnin. Foreldrar eru fjarverandi – líkamlega eða andlega, eða bæði.

Foreldrar fara yfir mörk barna sinna, eða eru ekki heiðarleg gagnvart þeim. Í hvert skipti sem foreldri er ósamkvæmt sjálfu sér upplifir barn einhvers konar áfall – því það þráir eflaust mest af öllu að eiga foreldri sem hægt er að treysta og er til staðar. – En nóg með innganginn – hér kemur greinin. – Þetta er efni eftir Jordan Muench – sem ég fann bara á Facebook! Ég set tengilinn í lok greinarinnar.

—–

Það að eiga erfitt með að þiggja aðstoð eru viðbrögð við áfalli eða trauma.

Það að segja: „Ég þarf ekki á neinum að halda. Ég geri það bara sjálf/ur“ .. er leið þín til að þrauka eða komast í gegnum lífið. Þú þurftir á því að halda til að verja hjarta þitt fyrir ofbeldi, vanrækslu, svikum og vonbrigðum þeirra sem gátu ekki verið til staðar fyrir þig eða vildu ekki vera til staðar fyrir þig.

Frá foreldrinu sem var fjarverandi og valdi að yfirgefa þig eða foreldrinu sem var aldrei heima vegna þess að það var í þremur störfum að brauðfæða þig og eiga fyrir þaki yfir höfuðið. (Smá innskot frá mér: þarna er oft um forgangsröðun að ræða, sumir foreldrar vinna þrjár vinnur til að eignast stærri hús og bíla – en ekki endilega bara til að eiga fyrir lágmarksútgjöldum, en það er efni í annan pistil).

Frá elskendunum sem buðu upp á kynferðislega nánd, en buðu hvorki upp á öryggi né virtu hjarta þitt.

Frá vinunum og fjölskyldunni sem ALLTAF tóku meira en þau nokkurn tímann gáfu.

Frá öllum þeim aðstæðum þar sem einhver sagði við þig „við erum saman í þessu“ eða „Ég passa upp á þig“ en yfirgáfu þig síðan, til að safna þér saman þegar hlutirnir urðu erfiðir, og þú varðst að sjá um þinn hluta og þeirra líka.

Frá öllum lygunum og öllum svikunum.

Þú lærðir einhvers staðar á leiðinni að þú gætir bara ekki treyst fólki. Eða að þú gætir aðeins treyst fólki upp að vissu marki.

Ofursjálfstæði (Extreme Independence) er vandinn við TREYSTA.

Það sem þú lærðir: „Ef ég kem mér ekki í aðstæður þar sem ég þarf að treysta einhverjum, þarf ég ekki að upplifa vonbrigði þegar þau bregðast mér – eða klikka … vegna þess að þau munu alltaf koma til með að bregðast – rétt?

Það gæti verið að þér hafi verið kennd þessi varnarháttur, viljandi – af kynslóðum særðra formæðra- og feðra.

Ofursjálfstæði eru fyrirbyggjandi varnarviðbrögð við hjartasári.

Svo þú treystir engum.

Og þú treystir ekki sjálfum/sjálfri þér til að velja fólk.

Að treysta er að vona, að treysta er að vera berskjölduð og viðkvæm.

„Aldrei aftur, „segir þú.“

En alveg sama hvaða búningi þú klæðist til að virka stolt/ur – og lætur það líta út fyrir að vera eins og þig hafi alltaf langað að vera svona sjálfstæð/ur, þá er sannleikurinn sá að það er þitt særða, örum stráða og brotna hjarta – á bak við múrvegginn.

Höggheldur múr. Ekkert kemst inn. Enginn sársáuki kemst inn. En engin ást kemst heldur inn.

Virki og vopnabúnaður eru fyrir þau sem eru í orrustu, eða þau sem trúa að stríðið sé yfirvofandi.

Þetta eru viðbrögð við áföllum.

Góðu fréttirnar eru að áföll sem eru viðurkennd eru áföll sem hægt er að heila.

Þú ert þess virði að fá stuðning.
Þú ert þess virði að eiga sanna félaga.
Þú ert þess virði að vera elskuð/elskaður.
Þú ert þess virði að einhver haldi utan um hjarta þitt.
Þú ert þess virði að þér sé sýnd aðdáun.
Þú ert þess virði að þér sé sýnd væntumþykja.
Þú ert þess virði að einhver segi. „Hvíldu þig. Ég skal sjá um þetta.“ og standi við það loforð.
Þú ert þess virði að þiggja.
Þú ert þess virði að þiggja (Já það er endurtekið viljandi).
Þú ert verðug
Þú ert verðugur

Þú þarft ekki að vinna fyrir því.
Þú þarft ekki að sanna það.
Þú þarft ekki að semja um það.
Þú þarft ekki að betla eða biðja um það.


Þú ert mikils virði.
Verðmæt/ur
Af þeirri einföldu ástæðu að
Þú ert til.

—–
Lokaorð frá sjálfri mér: Það var mér mikilvægt að uppgötva þetta fyrir sjálfa mig. Ég hef „glímt við“ sjálfsverðugleika minn alla tíð. Að ég sé ekki nógu … eitthvað og hef barið mig niður fyrir það. Ég geri MITT besta og ég veit líka að þú gerir ÞITT besta. En aðal málið fyrir okkur öll er að við erum fædd verðmæt og verðum að hætta að láta fólk eða samfélag telja okkur trú um annað.

Látum ljós okkar skína – þannig erum við besta útgáfan af sjálfum okkur og þannig erum við sjálf.


Hér er upphafleg grein á ensku:

Í blíðu og stríðu … þýðir það að maður (kona) á að verja maka sinn þegar hann hegðar sér ósæmilega?

Þegar fólk talar um að hjón eigi að standa saman í blíðu og stríðu, hvað þýðir það? Þýðir það að sama hvernig annað þeirra hagar sér, jafnverl brýtur af sér gagnvart öðrum manneskjum, að hjón eigi að standa saman og t.d. konan að verja gjörðir eiginmanns síns?

Við höfum alveg séð dæmi um þetta, sérstaklega þegar menn eru sakaðir um áreitni eða jafnvel kynferðislega misnotkun. Annað hvort yfirgefur konan manninn, eða hún stendur með honum áfram – eða jafnvel setur sig fyrir framan hann sem skjöld.
Kannski er það óbærileg hugsun fyrir konuna að fara frá honum, sjálfsmynd hennar stendur og fellur með þessum manni, og þá er „auðveldara“ að trúa því að hann sé saklaust fórnarlamb óprúttinna kvenna sem ljúga upp á hann? –
Hún stendur og fellur með manni sínum. Við höfum séð dæmi um það að konan stendur frekar með manninum en barninu sínu – svo það verður rof í fjölskyldunni, en hjónin standa saman. Best er ef konan er svolítið ritfær og getur skrifað um óréttlæti heimsins gagnvart maka hennar. Við hin hugsum kannski; Trúir hún þessu einlæglega, eða er afneitunin bara sterkari en allt annað? –
Mannlegt eðli er svo skrítið. Við gerum þetta öll, förum í vörn fyrir OKKAR og það sem við trúum á. Ég held það sé mikilvægt að við skiljum hvað býr að baki. Það er óttinn við að missa. Kannski að missa einhvers konar status – t.d. þann status að vera eiginkona í stað þess að vera fráskilin kona. Sumum konum finnst það hræðilegt. Já, það er enn einhver „skammarstimpill“ sem fylgir skilnaði. Að okkur hafi ekki tekist að halda einhverju gangandi sem var okkar að halda gangandi. – Það eru kol-kol-kolröng skilaboð.
Ég spurði einu sinni eldri konu hvers vegna hún skildi ekki við eiginmanninn, – þegar að hann hafði beitt hana ítrekuðu ofbeldi. – Hún svaraði: „Hvað segir fólk?“ Henni þótti sem sagt verri tilhugsunin um hvað fólk segði um hana ef hún yfirgæfi eiginmanninn, en að sitja áfram í hjónabandi og þola ofbeldi af hans hálfu. Á meðan hún gat falið það var það í lagi, þá vissi fólk ekkert og fólk héldi að þau væri í „fyrirmyndarhjónabandi“ …

Já hvað segir fólk?

Faraldurinn að vera ekki nógu … eitthvað

Við fæðumst „nógu“ eitthvað – eða alla veganna er ekki búið að telja okkur trú um að okkur vanti eitthvað. Við höfum ekki „móttakarann“ til að taka á móti því strax.

En alveg eins og fólk sem fer að láta planta í sig brjóstapúðum og sprauta í sig bótoxi – um leið og það hefur aldur til – vegna þess að það er búið að fá „upplýsingar“ um að það sé ekki nógu „eitthvað“ .. nema fá þessa aukahluti og gerfi inn í líkamann, þá erum við að planta og sprauta í börnin (rang) hugmyndum um að þau séu ekki nóg nema … eitthvað.
Sjálfsmynd þeirra fer að byggja á því hvernig þau líta út og hvað þau gera.

Þetta er eins og faraldur – eiginlega verri en covid, því hann er miklu lúmskari. Þetta er faraldur þess að vera ekki nægilega mikils virði eins og við erum. „Epidemic of unworthiness“

Of mörgu fólki finnst það hvorki eiga nóg – né vera nóg. Það kemur m.a. til vegna þess að það er að bera sig saman við annað fólk – og stundum falskar fyrirmyndir. Við höldum að við þurfum að breyta okkur – kannski að miklu leyti til að öðlast hamingjuna. Hamingjan komi þegar við erum laus við x mörg kíló, höfum náð ákveðnu prófi, eignast íbúð, bíl – maka o.s.frv. En hvenær er nóg nóg? Verður ekki alltaf eitthvað sem vantar uppá – eins og að við séum í fjallgöngu og það kemur alltaf nýr tindur? –
Hvað ef það að vera bara ÉG eða þú að vera bara ÞÚ sé eina leiðin að gleðinni. Að sættast við sjálfa/n sig? Hvað ef ÞÚ ert gjöfin þín til þín – nákvæmlega eins og þú ert núna? Hvað ef það sem er „rangt“ við þig er styrkur þinn? („Your „wrongness“ is you strongness“? … Þetta „rangt“ er í gæsalöppum því það er ekki rangt að vera með þunnar varir eða hrukkótt/ur – þannig að það þurfi að blása í það bótóxi – það er ekki rangt að vera með lítil brjóst – þannig að það þurfi að skera í líkamann til að bæta þar inn í brjóstapúðum.

Hvað ef það sem verið er að segja að þurfi að bæta – þarf alls ekki að bæta? Að upphaflega hafir þú bara verið allt í lagi – en einhver hafi farið að planta hugmyndum í þig sem barni að þú værir ekki allt í lagi. Það hafi brenglað þig og þú þurfir kannski bara að fjarlægja þessar hugmyndir – því þær valdi þér meiri skaða en gleði?

Pæling!

Um Jesú með brjóst …

Ég var einu sinni með fermingarnámskeið og las eftirfarandi texta fyrir börnin:

„Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu“ (1 Mós 1:26–27).“

Ég bað börnin um að teikna þá mynd sem þeim birtist af Guði eftir þennan lestur. Myndirnar voru fjölbreytilegar – allt frá þeirri sem við köllum hefðundnasta; Eldri mann með hvítt skegg yfir í það að vera ljósgeisli. Ein stúlka teiknað Guð sem var bæði karl og kona. Eftir þetta spunnust rökræður í hópnum og einn drengur varð reiður og barði í borðið og sagði: „Guð er karlmaður og hana nú“ ..Hinn sögulegi Jesús var svo sannarlega maður (eftir okkar bestu vitund). Orðið varð hold. Orðið varð maðurinn Jesús. En Jesús er líka Guð – og guðsmyndin okkar er örugglega fjölbreytt, eins og þessara barna á námskeiðinu.Mér finnst viðbrögðin þar sem fólk hneykslast og segir sig úr þjóðkirkjunni vera á sviuðum nótum og drengsins sem varð reiður – og kannski sár.Það var verið að „brengla“ hans guðsmynd sem var þessi gamli góði afi – með síða skeggið. En mér finnst við ekki getað ætlast til að allir hafa okkar guðsmynd.

Ef öðrum finnst Guð vera „kærleikur“ og teiknar hjarta þá er það hans/hennar guðsmynd.Jesús sagði sjálfur að við mættum honum í hans minnsta bróður. Þegar við gefum hungruðum að borða gefum við honum að borða. Þá myndum við teikna mynd af hungruðum betlara – myndi fólk hneykslast á því?


-Mannréttindi og frelsi til að vera þau sem við erum – og elska þau sem við elskum eru að aukast. Ekki fyrir svo mörgum árum hneykslaðist fólk og sagði sig kannski úr þjóðkirkjunni vegna þess að réttur samkynhneigðra til hjónavígslu var viðurkenndur.Fólk þarf kannski bara tíma til að aðlagast og átta sig ?Ég ætla ekki að hneykslast á þeim sem hneykslast … því þá endum við öll hneyksluð.

„Nobody knows the trouble I´ve seen, nobody knows but Jesus“ … eru þetta ekki skilaboð að allt fólk getur speglað sig í Jesú Kristi og hann skilur. Það eru til milljón „hefðbundnar“ myndir af Jesú – og það ætti ekki að trufla meðalmann eða -konu þó að ein birtingarmyndin sé einhvers konar trans einstaklingur. Mér finnst það bara vera að víkka veggi kirkjunnar – skilaboð um að allt fólk sé velkomið (og ekki vanþörf á).

„Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.“Galatabréfið

Ég ætla að ljúka þessum pistli með upphafslínum í laginu „Wash away those years“ með hljómsveitinni Creed þar sem upplifun af kynferðisofbeldi er lýst sem að bera þyrnikórónu. Um leið tengir maður við það að það sé Jesús sem skilji tilfinninguna við að vera auðmýkt.

„She came calling
One early morning
She showed her crown of thorns
She whispered softly
To tell a story
About how she had been wronged
As she lay lifeless
He stole her innocence
And this is how she carried on
This is how she carried on“

Fiskimaðurinn og viðskiptamaðurinn …


Þessi saga er eftir rithöfundinn Paulo Cohelo en ég þýði hana hér á íslensku:

Einu sinni var viðskiptamaður sem sat við ströndina í litlu brasilísku þorpi.
Þaðan sem hann sat, sá hann brasilískan veiðimann sem réri litlum báti til strandar og hafði hann veitt þó nokkur marga stóra fiska.

Viðskiptamanninum þótti mikið til koma og spurði fiskimanninn, „Hversu langan tíma tekur það fyrir þig að veiða svona mikinn fisk?“

Fiskimaðurinn svaraði: „Aðeins stutta stund.“
„Hvers vegna ertu þá ekki lengur á sjónum og veiðir enn meira?“ – spurði viðskiptamaðurinn hissa.“
„Þetta er nóg til fæða alla fjölskylduna“ svaraði fiskimaðurinn.

Það spurði viðskiptamaðurinn, „Hvað gerir þú þá restina af deginum“?

Fiskimaðurinn svaraði, „Sko, ég vakna venjulega snemma, fer út á sjá og veiði nýjan fisk, þá fer ég aftur heim og leik við börnin. Síðdegis legg ég mig ásamt konu minni, og á kvöldin hitti ég vini mína í þorpinu og við fáum okkur drykk saman – við spilum á gítar, syngjum og dönsum fram á nótt.“

Viðskitamaðurinn lagði fram tillögu til fiskimannsins.

„Ég er með háskólagráðu í viðskiptafræðum. Ég gæti hjálað þér til að ná meiri persónulegum árangri.
Héðan í frá, ættir þú að eyða meiri tíma á sjó og reyna að veiða eins mikinn fisk eins og mögulegt er. Þegar þú hefur safnað nógu miklum peningum, gætir þú keypt stærri bát og veitt jafnvel enn meiri fisk. Fljótlega munt þú þá hafa efni á að kaupa fleiri báta, stofna eigin fyrirtæki, eigin framleiðslufyrirtæki með niðursöðuvörur og dreifikerfi. Þá munt þú hafa flutt burt úr þessu þorpi til Sao Paulo, þar sem þú getur sett upp höfuðstöðvar fyrir hin útibúin þín. „

Fiskimaðurinn heldur áfram að spyrja. „Og eftir það?“
Þá hlær viðskiptamaðurinn einlæglega. „Eftir það getur þú lifað kóngalífi í þínu eigin húsi, og þegar rétti tíminn kemur, getur þú farið með hlutabréfin þín inn í hlutabréfamarkaðinn og þú verður ríkur.“
Fiskimaðurinn spyr. „Og eftir það?“
Viðskiptamaðurinn segir. „Eftir það getur þú loksins sest í helgan stein, þú getur flutt í hús í sjávarþorpinu, vaknað snemma hvern morgun, veitt nokkra fiska, síðan haldið heim á leið til að leika við börn, fengið þér vænan síðdegisblund með konunni þinni, og þegar kvölda tekur getur þú hitt félaga þína í drykk, leikið á gítar, sungið og dansað fram á nótt.“

Fiskimaðurinn varð ringlaður, „Er það ekki það sem ég er að gera núna“?


Hér má sjá „orginalinn“

Að losna við ranghugmyndir…

Við þekkjum öll covid19 – þennan faraldur sem hófst 2019 og við vitum ekki hvar eða hvort endar. Faraldurinn er nú um allan heim.
Ef við hugsum okkur nú að hugmyndir og hugsanir smituðust eins og vírus. Ef þær ferðuðust með andrúmsloftinu og í orðunum sem „lentu“ á okkur og í okkar haus. Hvað ef við svo héldum bara að það væru OKKAR skoðanir og OKKAR hugmyndir.
Hverjar eru í raun okkar hugmyndir og skoðanir? Hvað af því sem við hugsum og ályktum er EKKI frá foreldrum, skólum, félögum, fjölmiðlum? –
Hvernig nálgumst við það sem við vitum og okkur er okkar „genuine“ hugmynd.
Ég heyrði lagahöfund segja frá því að oft vissi hann ekki hvort hann hefði samið lagið eða hvort hann hefði heyrt það, það væri erfitt að vita hvað sæti fast þarna í heilanum.

Sem betur fer eru flestar hugmyndir fallegar og innihalda fallega siðfræði og kærleika. En það er hugmyndafræði sem blossar stundum upp og verður að faraldri, eins og nasisminn varð í Þýskalandi. Fullt af fólki tók þátt í því og taldi það rétta hugmyndafræði. Það má kannski segja að það hafi „sýkst“? – Enn er fólk sem aðhyllist fasisma og nasisma. Kannski – ef réttar aðstæður væru fyrir hendi – og ég eða þú værum fædd inn í þannig þjóðfélag færum við að aðhyllast það sem okkur finnst hræðilegt í dag.

Í febrúar sl. fór ég að læra aðferð sem heitir „Access bars“ – og það snýst um að snerta ákveðna punkta á höfði fólks, þetta er orkuvinna og markmiiðið er að hjálpa fólki að losna við það sem því hefur verið kennt – sérstaklega varðandi dómhörku. Það er til þess að fólk sjái skýrar og eigi auðveldara með að nálgast sinn eiginn sannleika. Þetta hljómar pínku eins og töfrar, og það er rétt – fyrir mér eru þetta töfrar og ég kann í raun ekkert að útskýra það mikið betur.


„Ég drekk ekki eins mikið og hinir“ …

Ég held að 90%  af þeim vandamálum sem hafa lent inni á mínu borði séu tengd áfengisneyslu.   Stundum beint og og stundum óbeint.    Algeng „sena“ er að til mín kemur kona og kvartar undan fjarlægð eiginmannsins,  að hann sé í nánari „tilfinningatengslum“  við flöskuna en hana.   Kannski eru hjónin bara alveg hætt að tala saman,  nema svona „hvað verður í matinn?“ … spurningar –  þ.e.a.s. um praktíska hluti.

Við vitum flest hvernig áfengi virkar;   það breytir hvernig okkur líður.    Sumir drekka þegar þeim líður illa, kannski vegna þess að raunveruleikinn er leiðinlegur eða of erfiður.   Aðrir drekka til að „lyfta sér upp“ ..   skála með vinum eða vinkonum og verða „hress“ eða hressari.     Það eru til allskonar ástæður fyrir að „fá sér í glas“…
Það getur verið sárasaklaust – og bara mjög gaman og sérstaklega þegar við sjálf stjórnum því,  en það er verra þegar áfengið – eða guðinn Bakkus er farinn að stjórna.

Hvað gerist? –   Þú ætlaðir að fá þér 1 -2 glös,  en ert allt í einu orðin/n óstöðvandi og tekur endalaust við.   Verður drukkin/n  – skemmtileg/ur / leiðinlegur?   Fer eftir því hver fylgist með.    Dómgreindin er kannski farin hjá okkur sjálfum.   „Ha var ég full/ur?“ …  „Ég drakk nú ekki eins mikið og hann Halli / hún Sigga“ …   og við byrjum að benda á annað fólk til að taka athyglina frá okkur og eigin óstjórn.  –

Þetta virkar kannski saklaust –  á meðan við meiðum engan eða særum.   En svo er það þegar farið er yfir mörkin og við verðum veik, stjórnlaus, munum ekki það sem við segjum og gerum.    Keyrum kannski bílinn?  –
Alkóhólisminn verður hættulegur þegar við missum dómgreindina,  eins og að aka undir áhrifum.   Þá verðum við lífshættuleg.    Hann er líka hættulegur þegar að uppsafnaðar neikvæðar tilfinningar brjótast fram með alkóhólismanum og sá sem er undir áhrifum fer að öskra,  særa og meiða –  og svo berja eða slá.

Kannski er einhver sem er verri,  en það afsakar aldrei okkar eigin misnotkun á áfengi.

Þegar ég var ung keyrði ég bíl undir áhrifum áfengis.   Ég var á tjaldstæði og ég hafði drukkið minna en hin svo ég tók að mér að keyra á sveitaballið.    Ég man að ég keyrði mjög hratt og fannst það fyndið.   Ég skammast mín alla tíð fyrir þetta, –  það er ekki mér að þakka að ég drap ekki einhvern með þessu háttalagi mínu.

Hvað finnst mér í dag? –
Mér finnst að við eigum að fara varlega í að vera með áfengi í kringum börn.  Fullorðnir breytast þegar þeir drekka.  Sumir verða kátari – kærulausari,  aðrir verða daprari og grófari í hegðun,   en það verður alltaf einhver breyting.   Kannski upplifa börnin að mamma eða pabbi verða þreytt (timbruð) morgunin eftir djammið og finnst það óþægilegt.    Ofbeldi er oft fylgifiskur áfengisneyslu.
Í Danmörku tengist það „hygge“ að drekka áfengi.   En „hygge“  getur kannski breyst í andstæðu sína og orðið „ó-hygge“  eða óhuggulegt.

Fyrir tveimur vikum síðan ákvað ég að taka það alvarlega sem ég prédikaði, þ.e.a.s. að vera breytingin sem ég vildi sjá í heiminum – og ákvað að hætta að drekka vín.    Það er partur af því að vilja vera góð fyrirmynd.   Ekki bara eigin barna og barnabarna,  heldur mín eigin fyrirmynd.    Ég hef oft hugsað þetta,  en treysti mér aldrei alveg að „sleppa“  – og fannst eins og væri verið að taka eitthvað af mér.     Svo fattaði ég það að ég gat alveg eins sett sódavatn og sítrónu í fallegt glas og skálað í því.    Þetta var bara eitthvað félagslegt –  „að vera með“ ..     Ég er afskaplega þakklát sjálfri mér að hafa tekið þessa ákvörðun,  en ég þurfti að vera tilbúin – en svo er það mikill léttir.

Þarf ekkert að útskýra meira  – en langaði til að segja þér frá þessu.

skömm

 

Erum við hætt að hringja? …

Þegar ég var unglingur kvaddi ég vinkonur mínar, – hljóp heim og svo hringdi ég í mína bestu og við héldum áfram að tala.    Þegar boðið var í saumaklúbb hringdi maður á línuna og bauð.  Afmæliskveðjan var gjarnan að hringja í viðkomandi á afmælisdaginn, þ.e.a.s. ef maður var ekki boðin/n í afmælisveislu.
Við hringdum mikið – a.m.k. innanlands,  en verðskráin var þannig að ódýrara var að hringja í þá sem voru nálægt en þá sem bjuggu t.d. úti á landi (minnir mig) og fokdýrt var að hringja til útlanda.    Þá skrifaði fólk sendibréf,  þegar símtölin voru orðin of dýr.
Nú hefur hið rafræna tekið við.   Tölvupóstur og skilaboð með „messenger“  og  facebook.
Maður sendir afmæliskveðjur til vina og vandamanna – ég reyndar reyni að hringja a.m.k. í mína allra nánustu.    Að hringja verður því  „til hátíðarbrigða“ ..
Við erum pínku hætt að hringja,  … kannski er elsta kynslóðin ennþá þar.

Tímarnir eru breyttir –  og meira að segja hefur sms fækkað.   Skilaboðin koma í gegnum skilaboðaskjóðuna á facebook,  eða whatsapp eða hvað þetta nú allt heitir.

Kannski kemur að því að við getum bara sent hugboð og látum þar við sitja.

Þetta kerfi hentar mér vel,  mér finnst best að mæta fólki augliti til auglitis eða skrifa.  Það að hafa rödd í eyra –  er í þriðja sæti hjá mér.   Sérstaklega þykir mér þetta óþægilegt þegar ég þarf að hringja og fá þjónustu í Danmörku,  því ég skil ekki alltaf og ekki viss um að ég skiljist.   Ef ég skrifa,  er auðveldara fyrir mig að lesa svarið en bara að hlusta í símanum.

Er þetta afturför?

Ég  hef séð fleiri en einn facebook vin kvarta yfir því að allir væru hættir að hringja.   Ég held að því ætti ekki að taka persónulega.   Fólk hefur bara samband á annan hátt,  það sendir skilaboð eða skrifar eitthvað fallegt á síðuna hjá viðkomandi.    Ef við viljum enn halda sambandi í gegnum símtöl,  verðum við kannski sjálf að taka upp tólið og hringja í þau sem við söknum að heyra frá.

Ég man eftir góðum fyrirlestri sr. Sigfinns sjúkrahússprests,   en hann sagði að í stað þess að hringja í vini eða ættingja og fara að skamma þá fyrir að hringja ekki eða ala með þeim sektarkennd,  – og segja:  „Þú hringir aldrei“ .. að tala út frá hjartanu  og segja eins og er:  „Ég sakna þín“ ..  og kannski í framhaldi –  „mig langar að heyra röddina þína því mér þykir vænt um þig.“

 

phonecall_banner

Tölum aðeins um sorgina …

SORG  er yfirheiti yfir margar tilfinningar.   Eins og risastórt mengi sem inniheldur margar tilfinningar sem við flokkum oft sem neikvæðar, svo sem, doða,  reiði, söknuð, vonbrigði, vonleysi, depurð, máttleysi, afneitun, þunglyndi .. en sorgin á líka tilfinningar eins og von, þakklæti og sátt.

Við höldum stundum að sorgarferlið sé slétt og fellt .. og byrji með einni tilfinningu og færist svo yfir á aðra og endi bara í þakklæti og sátt.   Það er ekki min upplifun,  stundum geta allar tilfinningarnar komið á einum degi.

Fyrst hafa þær erfiðu þó oftast yfirhöndina – og maður trúir því ekki að maður komist yfir t.d. saknaðarpollinn.  Svo kemst maður uppúr og yfir og labbar á þurru í einhvern tíma,  en þá kemur kannski úrhelli og þá kemur nýr pollur,  þó oftast minni en þeir voru í fyrstu.    Maður hefur enga stjórn á því hvenær tilfinningarnar koma.     Það er þó ýmislegt sem getur „triggerað“ þær – eitthvað lag,  eitthvað sem er sagt – staður sem minnir á og svo framvegis.

Eitt dæmi um „trigger“ hjá mér – og að mér fannst veröldin grimm var þegar ég var send í jáeindaskanna til Danmerkur,  áður en hægt var að fara í þennan skanna hér á landi.   Skanninn var til húsa á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn.    Eva mín dó á Ríkisspítalanum og mér fannst þessi bygging eins og ófreskja.   Mér þótti það óhugnanleg hugsun að fara sjálf og leggjast í skanna  – í sama spítala,  en það skrítna var að það var gott þegar upp var staðið.   Bara að mæta ófreskjunni! …      Þess vegna tel ég ekkert endilega betra að forðast að hlusta á lög sem minna á þau sem við höfum misst – eða staði sem tengjast þeim á erfiðan hátt, eins og mér fannst með spítalann.

Annað sem er mikilvægt við sorgina við missi okkar nánustu,  er að muna eftir þeim sem eru enn lifandi.   Að eftirsjáin eftir hinum dánu verði ekki það sterk að við getum ekki horft fram á við og á þau sem eru hjá okkur hér og nú í lifanda lifi.     Nota það að missa einhvern úr þessu jarðneska lífi,  til að minna okkur heldur á að sinna enn betur þeim sem við þó höfum hjá okkur og höfum enn tækifæri til að eiga í samskiptum við.

Meira ætlaði ég ekki að skrifa í dag …  en það er gott að muna eftir þessum „elementum“ sorgarinnar …  von, þakklæti og sátt –  því það eru hinir græðandi og heilandi þættir.

15178161_10210161959699233_5359295073652597802_n