Hatursfull og/eða óviðeigandi athugasemd í athugasemdakerfi getur orðið til þess að þagga niður í öðrum sem höfðu hug á að leggja vitrænt orð í belg og hrekja þá í burtu. –

be kind

Ég var að horfa á áhugaverðan fyrirlestur á Youtube um „Gaslighting.“  Fyrirlesarinn talaði um bernsku sína og sambandið við móður sína sem beitti hana ofbeldi.

Gaslighting  er  aðferð sem er notuð í andlegu ofbeldi  þar sem fórnarlambið fer að efast um eigin geðheilsu og  sýn á raunveruleikann.

Fyrirlesarinn tók dæmi:   Það var partý heima hjá henni og gestirnir komu inn í herbergið til hennar,  foreldrarnir voru „bóhem“ og   þetta var oft á virkum dögum.   Þegar hún kvartaði við móður sína,  sagði móðir hennar að þetta hefði aldrei gerst og væri tilbúningur í henni.

Ég ætlaði að fara að lesa athugasemdir  „Comment“ við þennan fyrirlestur og sá þá eftirfarandi:

„Comments are disabled on this video. We made this difficult decision for the TED Archive because we believe that a well-moderated conversation allows for better commentary from more people and more viewpoints. Studies show that aggressive and hateful comments silence other commenters and drive them away“

Þarna er m.a. verið að segja að ekki sé leyft að koma með athugasemdir við þennan pistil.  Hatursfull og/eða óviðeigandi athugasemd í athugasemdakerfi geti orðið til þess að þagga niður í öðrum sem höfðu hug á að leggja vitrænt orð í belg og hrekja þá í burtu.

Það sem er líka alvarlegt við þetta,  er að þegar einn kemur fram með reynslu sína,  getur verið að aðrir hafi hug á því líka,  en ef þeir sjá  hatursfullar eða óviðeigandi athugasemdir,  e.t.v. hæðst að fólki,   þá draga þeir e.t.v. í land.  –

Hægt er að smella á umræddan fyrirlestur hér fyrir neðan,   en innihald þessa pistils míns – eða kjarninn í honum eru þeir sem hlusta og viðbrögð þeirra.

Fyrirlesturinn

 

 

 

 

 

 

„Ég vil ekki sjá sálfræðing eða lækni – ég vil bara fá að tala við prestinn minn“

Ég var að lesa – enn og aftur í athugasemd –  um að það væri nú gáfulegra að láta peningana sem fara í starfsemi kirkjunnar  í sálfræði – eða geðlæknisþjónustu.  –

Ég hef starfað  sem prestur úti á landi og til mín hefur leitað fólk á öllum aldri.   Stundum fólk í mikilli örvæntingu sem á erfitt með að sjá ljósið eða tilgang með lífi sínu. –    Sérstaklega er mér minnistæður eldri maður,  bóndi,  sem átti margar innibyrgðar sorgir,  en náði að ræða þær við mig.   –  Eftir tvö til þrjú viðtöl fannst mér rétt að vísa honum áfram á sálræðing,  því við prestar gefum okkur ekki út fyrir að vera meðferðaraðilar,   en þá sagði  bóndinn:  „Ég vil ekki sjá sálfræðing eða lækni – ég vil bara fá að tala við prestinn minn“ ..
Það er gott að hafa þennan valkost,  að geta valið að tala við prestinn,  sálfræðinginn eða lækninn.   Vissulega er það svo að allir geta leitað til prestanna og  þeir þurfa ekki að greiða fyrir það viðtal –  viðtalið er greitt  í launum prestsins,  á meðan  það er rándýrt að fara til sálfræðings,   –     en það hlýtur að mega niðurgreiða sálfræðiþjónustu án þess að reka alla prestana – eða taka þá af launaskrá! –

Presturinn er líka til staðar  24/7  .. það er að segja að þegar að kemur slys eða dauðsfall eigum við alltaf von að það sé hringt og við stökkvum af stað og stígum inn í erfiðar aðstæður –   og erum til halds og trausts.   Þetta er ekki  þjónusta sem veitt er af sálfræðingum  og  það er bara hreinlega önnur „vídd“ í þessari þjónustu  en sálfræðingar hafa að bjóða.     Það er margt sem prestur kann ekki sem sálfræðingurinn kann,  en um leið er það margt sem presturinn kann sem sálfræðingurinn kann ekki,  þannig að við komum ekki í stað hvers annars.

Einhver segir:  „Ég vil ekki sjá prest eða djákna – ég vil bara fá sálfræðinginn minn“ ..    en það þýðir ekki að  það sé í boði að reka alla presta og djákna,  ekki frekar en það sé í boði að fella niður sálfræðiþjónustu þó að einhverjum finnist betra að tala við prestinn sinn.

Ketó – mataræðið, hvað má borða ..

 

keto-food

Ketó mataræði snýst um  að  innbyrða mikla fitu, mátulega mikið af próteinum og lágkolvetna fæði.    Þetta mataræði var upprunalega notað m.a.  til að hjálpa börnum sem voru með flogaveiki,  –   en margir hafa nýtt sér það til að losna við óæskilega fitu og  finnast þeir verða orkumeiri og sumir hafa lýst því yfir að þeir hafi losnað við alls konar kvilla með því að nýta sér þetta mataræði.

Þetta hefur gagnast mér persónlulega mjög vel og hef ég t.d. getað hætt á blóðþrýstingslyfjum og hef lést um ca. 12 kíló  þegar þetta er skrifað, –  en það er á tæpum fjórum mánuðum.

 

Hvað „má“ borða á Ketó? 

 • Góða fitu    (hreina fitu)
 • Protein
 • Sterkjulaust grænmeti   (sem vex ofanjarðar)
 • Einstaka ávexti
 • Flesta mjólkurvöru sem er feit.

#1 Góð fita 

keto-coconut

Okkur þykir það eflaust skrítið að eiga að innbyrða mikla fitu.  En góð fita er í fyrsta sæti í Ketó mataræði  og í Ketó mataræði þarf að passa sig að fá næga fitu – og hátt prósentuhlutfall yfir daginn.

Hvers vegna?

Ketó mataræðið virkar betur með miklu fituinnihaldi,  þannig að þú ert líklegri til að viðhalda ástandi sem er kallað Ketósis.   Ekki gleyma að fita er seðjandi,  þannig að við verðum södd lengur.

Náttúruleg fita  og  olíur 

Með því að bæta þessum náttúrulegu fitum og olíum í matseldina,  muntu   tryggja ketósis ástandið.

 • Smjör
 • Ghee
 • Hnetu  og  fræ olíur (Kókós, sesam, hörfræ, möndlu, hnetu .. o.s.frv. )
 • Ólífuolíu
 • Avokadóolíu
 • Fitu frá dýrum
 • Kókóssmjör
 • Kókósolíu
 • MCT olía

Hnetur og fræ

Hnetur og fræ eru ketó-vinsamlegt snarl.    En varið ykkur á því að sumt er með kolvetnum og ber að varast.   Það sem er best eru:

 • Pecan hnetur
 • Brasilíuhnetur
 • Macademia hnetur
 • Valhnetur
 • SólblómafræHér vil ég bæta við möndlum, –  en höfundur greinar telur þær ekki upp!

Feitur fiskur 

keto-salmon

Feitur fiskur passar vel á Ketó mataræði og er þessi bestur:

 • Lax
 • Silungur
 • Sardínur
 • Túnfiskur
 • Makríll

Ávextir

Eini ávöxturinn sem er  ketó – vinsamlegur er:

 • Avókadó

Prótein: 

keto-chicken

Næstum allt kjöt er gott á Ketó vegna þess að það eru ekki kolvetni í kjöti:

 • Kjöt –  Nauta,  lamba, kálfa,  svína.
 • Fuglakjöt  –  kjúklingur, kalkúnn,  gæs
 • Innmatur –  lifur, nýru,  hjörtu,  tunga,  væntanlega sviðahaus 🙂
 • Fiskur –    lax,  silungur, ansjósur, silungur,  túnfiskur,  makríll.
 • Sjávarfang –  Humar, krabbakjöt,  hörpuskel, smokkfiskur,  rækjur.
 • Egg –   egg frá „frjálsum hænum eru best.

Nú er komið að því að velja feitu bitana,  borða t.d. fituna af lambahryggnum,  velja dökka kjötið á kjúklingnum o.s.frv. –    Síðan gilda þær reglur í þessu sem öðru að velja frekar organic  kjöt –   frá dýrum sem eru alin á grasi eða heyi frekar en mjöli.

Það þarf að passa að taka próteinið inn í hófi.

Sterkjulaust grænmeti

keto-vegetables

Það er mismunandi kolvetnainnihald í grænmeti og besta leiðin til að greina á milli hvað er gott á Ketó og hvað ekki,  er að velja það sem vex ofanjarðar.   Við sleppum því rótargrænmeti.    Einnig er gott að vita að flest ketó grænmeti er litríkt – og þá flest grænt.    Hugsaðu þá:  „Grænt og ofanjarðar“

Hér er listi yfir besta grænmetið  (það efsta er með minnstu kolvetnum)

 • Vatnakarsi
 • Sellerí
 • Spínat
 • Aspas
 • Salatblöð

Annað lágkolvetna er:

 • Agúrka
 • Brokkólí
 • Blómkál
 • Hvítkál
 • Græn paprika
 • Eggaldin
 • Grænkál
 • Rósinkál
 • Grænar baunir

 

Fitumiklar mjólkurvörur 

 

 • Hrein fitumikil jógúrt  (Hrein/grísk)
 • Kotasæla
 • Rjómi
 • Sýrður rjómi
 • Harðir ostar

Annað extra á Ketó mataræði

Krydd og jurtir

Best er að nota ekki kryddblöndr því í þeim gæti verið eitthvað sem ekki passar og best er auðvitað að nota kryddið í sem náttúrulegasta formi,  t.d .kaupa lifandi dill

 • Salt
 • Pipar
 • Steinselja
 • Kóríander
 • Dill
 • Basil
 • Oregano
 • Minta
 • Cayenne pipar
 • Kanill
 • Múskat
 • Negull

Drykkir

keto water

Til að sleppa við aukaverkanir Ketó  er mikilvægt að þorna ekki upp og drekka:

 • Vatn
 • Ósætt svart kaffi og  te   (nota smá rjóma í kaffið ef að þið drekkið kaffi með mjólk)
 • Jurtate
 • Seyði  (grænmetis eða kjötseyði)(Sumir spyrja um áfengi – og það er hægt að finna svör við því inni á síðu sem heitir Diet doctor –  ég hef valið mig frá áfengi,   en  það er í lagi „spari“ en þá vissar tegundir skárri en aðrar)

Matur sem þarf að minnka á Ketó

Þetta er eitthvað sem er í lagi,  en ekki að innbyrða daglega.

#1 Mjólk

Feita mjólk má drekka, en í mjög litlum skömmtum.

#2 Ávextir 

Það eru örfáir ávextir sem má borða á Ketó,  en einungis „spari“:

 • Jarðarber
 • Kirsuber
 • Bláber
 • rifsber

Það allra versta á Ketó – mataræði

Forðast:

#1 Sykur

keto sugar

Forðast allar tegundir sykurs –  einnig þennan sem er falinn í matvælum.

 • Hvítur sykur
 • Púðursykur
 • Frúktósi
 • Glúkósi
 • Agave síróp
 • Hunang
 • Maple síróp

#2 Korn

 

Kornvörur eru hlaðnar kolvetnum.   Þannig að ekki borða vörur sem eru unnar úr korni.   (hveiti, hafrar, korn o.s.frv.  )

Hér eru dæmi um kornvörur sem á ekki að borða:

 • Brauð  (Hveitibrauð, heilhveitibrauð, rúgbrauð, kornbrauð o.s.frv.)
 • Hrísgrjón
 • Kínóa
 • Morgunkorn
 • Hafrar
 • Kous kous
 • Hveiti

Ef við viljum baka brauð, er möndlumjöl góður kostur –  einnig kókóshveiti.  Oft er blandað t.d. eggjum og osti í uppskriftina.     Brauð sem ég hef bakað er t.d. þessar bollur og þær voru mjög góðar og saðsamar.   Smellið hér til að fá uppskrift. 

#3 Belgjurtir

Belgjurtir,  baunir og linsur eru allar með miklu sterkjuinnihaldi.   Þær eru mjög næringarríkar,  en háa kolvetnisinnihaldið  heldur okkur frá ketó-ástandinu.  Ekki borða eftirfarandi á Ketó mataræðinu:

 • Kjúklingabaunir
 • Linsubaunir
 • Nýrnabaunir
 • Pintobaunir
 • Gular baunir

#4 Grænmeti með mikilli sterkju

 • Kartöflur
 • radísur
 • Sætar kartöflur
 • næpur
 • Gulrætur
 • sellerírót

#5 Flestir ávextir 

Allir ávextir,  nema þeir sem nefndir eru hér að ofan eru of sætir fyrir Ketó mataræðið.

#6 Unnar matvörur 

 • Sælgæti
 • Kartöfluflögur – eða hvers konar flögur.
 • Skyndibiti
 • Ís
 • kökur
 • Unnar kjötvörur
 • Kex

#6 Óhollar fitur og olíu 

Sleppa:

 • Grænmetisolíum eins og t.d. korn og Canola
 • Smjörlíki
 • Transfitum

Fimm bestu matvörur til að borða á Ketó mataræði

 

#1 Kókósolía

 

Kókóshnetuolía er 100 prósent hrein góð fita og núll kolvetni.

#2 Avókadó

Eini ávöxturinn sem fær „grænt ljós“  á Ketó mataræði er avókado.   Samsetning næringar í avókadó passar vel inn í Ketó í 100 grömmum eru 14. 7 grömm af góðri fitu og aðeins 1.8 grömm af kolvetnum og síðan 2 prósent  prótein.  Avókadó er einnig fullt af góðum næringarefnum og vitamínum sem líkaminn þarfnast.

 

#3 Lax 

Laxinn er kallaður  „superfood“    Í 100 grömmum  eru  6. 3 grömm af góðri fitu,  19,8 grömm af próteini og kolvetnalaus.
Laxinn er hlaðinn vitamín B og er góð uppspretta selenium.   Það er talað um að borða lax hjálpi til að við lækka insúlín og bæta ónæmiskerfið.

 

#4 Egg

Egg  er „fullt hús matar“  –    Þau eru góð uppspretta kalks og ýmissa vitamína sem eru okkur nauðsynleg.

#5 Spínat

Spínat hefur þennan „Ofur-græna“  titil og er mjög gott fyrir Ketó mataræðið.

 

Gangi okkur vel …

keto avocado

Þessi grein er þýdd upp úr erlendri grein –   þar sem vitnað er í heimildir og farið dýpra í hvert atriði.   Hægt er að nálgast þessa grein  ef smellt er HÉR HÉR HÉR 

 

Fimm sjálfshjálparráð úr Biblíunni

Oft þegar ég er að lesa alls konar ráð og lífsreglur,  þá tek ég eftir að ég hef lesið það áður í annarri bók.   Bók sem heitir Biblían.    En það átta sig kannski ekki allir á hversu mikil speki er falin í þessari bók. –

Hér ætla ég til gaman að minnast á fimm sjálfshjálparráð sem eru nokkuð þekkt.
Hægt er að smella á hvert ráð og lesa pistla sem tengjast því á einhvern hátt.

 1.    Elskaðu náungann EINS og sjálfan þig. 
  Það segir sig sjálft, – að elska EINS og okkur sjálf, hvorki MEIRA né MINNA,  og til að elska náungann þurfum við að kunna að meta okkur sjálf og virða – og ELSKA.
 2. Sannleikurinn gerir okkur frjáls.
  En ekki hvað? –   Að byggja á heiðarleika og heilindum er frelsandi og það eru leyndarmálin sem halda okkur frá lífshamingjunni.   „Leyndarmál lífshamingjunnar er að hafa ekki leyndarmál“ .. Sannleikurinn er frelsandi, en hann getur vissulega verið sár. –    Heiðarleiki er undirstaða allra góðra sambanda og samskipta,  hvort sem um ræðir í viðskiptum eða hjónabandi.
 3. Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum, morgundagurinn hefur sínar áhyggjur. 
  Með öðrum orðum,  það er gott að æfa sig á því að njóta þess að lifa í Núinu. –12091407_10208128750474091_2519156810573685744_o
 4. Haltu hvíldardaginn heilagan.
  Það er mikilvægt að muna eftir að eiga daga til að slaka á og hlaða batteríin.
 5. Ekki setja ljós þitt undir mæliker.  
  Athugaðu að líf þitt og þá ljós þitt er gjöf Guðs til þín. –  Almættið ætlast ekki til að þú felir þig eða haldir ljósi þínu einungis fyrir sjálfa/n þig. -Láttu ljós þitt skína!  🙂

Við réttlætum hegðun sem er óréttlætanleg … vegna þess að við lentum í áföllum sem börn .

Ég var að hlusta á tvo af mínum uppáhalds „spekúlöntum“  ræða saman um  Donald Trump og Hillary Clinton.   Þá Gabor Maté og Russel Brand.   Þeir segja að þar sé um að ræða „Two traumatized leaders who are trying to rule a traumatized world“ ..
Trump hafi lent í margs konar áföllum sem barn – meðal annars föður sem beitti hann ofríki og niðurlægði hann – og að bróðir Trumps hafi drukkið sig í hel. –   Menn fara misjafnt að til að flýja sjálfa sig.

Hillary sé þannig að  meira að segja þegar hún var með lungnabólgu hélt hún áfram í kosningabaráttunni,   því það er það sem okkur er kennt, –  að sýna ekki „vulnerability“ eða  að við eigum að vera „dugleg og bíta á jaxlinn“ –    Vulnerability er ekki veikleiki,  – það er berskjöldun,  að sýna sig eins og við erum í raun og skammast okkar ekki fyrir það.  Ef við erum veik,  þá erum við bara veik og það er ekki skömm.

Hillary lét það yfir sig ganga að maðurinn hennar hélt fram hjá henni, –   og í raun réttlætti það.   Kannski ekki vegna þess að henni þótti það í lagi, eða aða að öllu leyti hans vegna  – heldur kannski vegna þess að hún gat ekki hugsað sér að missa manninn sinn /stöðu sína eða hvað það var sem hún var hrædd við að missa.    Einnig kemur hér stolt við sögu, –  „engin kona tekur manninn minn af mér“ ..     Auðvitað er forsenda hjónabansins brostin, –   eða kominn stór brestur í grunninn og spurning hvort að það sé þá ekta eftir það eða ekki? –

En nóg um Trump og Hillary.   Mér þykir þessi punktur um að réttlæta eitthvað fyrir sér,  –  vegna þess að óttinn við að missa er það mikill að það er horft framhjá  misgjörðinni eða óheiðarleikanum, eða hann málaður nýjum litum.

Við þekkjum það alveg að geta verið dómhörð í garð ókunnugs fólks, –   segjum að einhver hafi  beitt ofbeldi og við erum með það alveg á hreinu að þetta er óþverri þessi ofbeldismaður.    En um leið og það væri einhver nærri okkur,  þá koma aðrir faktorar inní, –  kannski er þetta maki okkar?    Hvað þá.    Ef okkur finnst óbærilegt að missa þennan maka – eða þá stöðu sem hann veitir okkur,   Þá förum við að búa til afsakanir og réttlætingar.     Þetta getur líka átt við samstarfsfólk.  Segjum að  það sé þín skoðun að samstarfsmaður þinn hafi ekki komið rétt fram við skjólstæðing,  – en  þú vilt ekki segja honum það því  það skapar  óróleika og leiðindi á vinnustað.     Þú heldur friðinn.  Það er auðveldara,  og kannski peppar þennan samstarfsmann upp –  „hva,  þú varst nú ekki svo dónalegur“ ..    en samt finnst þér annað. –

Við gerum þetta –   og þetta kallast í mörgum tilfellum meðvirkni og við verðum einmitt meðvirk  vegna einhvers sem við lærðum í bernsku.    Það er gott að líta í eigin barm og spyrja sig:  „Er ég að réttlæta eitthvað – einhverja hegðun sem er ekki réttlát vegna þess að ég vil halda í maka minn,  halda starfinu mínu,  halda friðinn? –

Vandamálið við að halda ytri frið, –  getur kostað okkur innri frið 😦   ..

Hvað ætli séu margir Trumpar og Hillary-ar   þarna úti, –   menn með mikilmennskubrjálæði og konur sem verða að vera duglegar og standa með manni sínum  „no matter what“ –  þá það kosti þær sjálfsvirðinguna? –

Hvað segir það um heiminn að þessi tvö hafi verið að keppa um að verða forsetar Bandaríkjanna – eða a.m.k. um Bandaríkin?    og að Trump hafi verið kosinn?     Jú,  það er reiði heimilisfaðirinn sem fólkið trúir,   þessi sem það innst inni er hrætt við en það er þessi óttablandna virðing sem það kannski ólst upp við sjálft? –

Við getum ekki stjórnað Trump eða Bandaríkjunum,  en við getum, hvert og eitt litið í eigin barm og spurt okkur hvar við erum stödd.   Líka hér á Íslandi,  hvers vegna kjósum við hina pólitísku leiðtoga sem eru við völd,   erum við með okkar Trump og Hillary?     Erum við sjálf að einhverju leyti að hegða okkur eins og þau. –

Endum þetta bara á Gandhi …

Verum breytingin sem við viljum sjá í heiminum …

 

4909647697_0b51baa80a

 

 

Prédikun í Uppskeru-og þakkarmessu í Minningarkapellu sr. Jóns Steingrímssonar, 4. nóvember 2018.

„Að tala er að sá – að hlusta er að uppskera.“

Þennan málshátt heyrði ég í fyrsta skipti við setningu Uppskeru-og þakkarhátíðarinnar hér á Klaustri sl.  fimmtudagskvöld.

Það var hún Eva Björk Harðardóttir,  oddviti Skaftárhrepss,  sem fór með þessi fleygu orð.  –  Orð sem eiga vel við á setningu uppskeruhátíðar og orð sem eiga vel við í Uppskeru – og þakkarmessu. –

Jesús segir dæmisögu af sáðmanni – og lýsir því hvernig fræið fellur í mismunandi jörð.     Við erum þessi jörð,  hvert og eitt okkar og hvernig við tileinkum okkur orðið sem við heyrum –  hvernig við hlustum og tileinkum okkur,  þá uppskerum við. –      En alveg eins og  þegar við erum að hlú að fræjum sem er sáð með að vökva og reita arfa,   eins þurfum við að hlú að því orði sem við heyrum og viljum svo sannarlega tileinka okkur. –

Það er alveg sama hversu margar bækur við lesum –  t.d. sjálfshálparbækur og við kinkum kolli og  segjum með sjálfum okkur;  já,  ég ætla sko að gera þetta!! – En ef það gleymist um leið og bókinni er lokað – þá hefur orðið fallið í grýtta jörð. –

Að tala er að sá – að hlusta er að uppskera.

Nú er það ég sem tala – og ég fæ að sá fræjum Guðs orðs, –  og eitt af því fallegasta af guðs orðum er orðið  „Þakklæti“   og  við  höfum útbúið styttingu á þessu orði og segjum einfaldlega „Takk“ –   „Takk fyrir mig“   og þegar við segjum Takk – og ástundum þakklæti fara töfrar að gerast,   og við getum sagt að „Takk sé töfraorð“ …     Þetta er ekki einungis eitthvað sem ég trúi eða aðrir,   það er hreinlega vísindalega sannað að fólk sem ástundar þakklæti  er glaðara og líður betur – en fólk sem  veit að það er gott að þakka,  hefur lesið um það – notar það jafnvel „spari“  –   en ástundar ekki þakklæti eða iðkar. –

Það var nefnilega gerð rannsókn  á stórum hópi fólks sem átti við þunglyndi að stríða.     Hópnum var skipt í tvennt –    og  annar hluti hópsins  var fenginn til að ástunda þakklæti með því að skrifa þakklætisdagbók.  –    Á hverju kvöldi í mánuð  skrifaði fólkð  niður a.m.k.  þrjú atriði í dagbókina sína sem það var þakklátt fyrir.    –      Hinn hluti hópsins var bara látinn halda áfram að gera það sem þau voru vön að gera. –      Hóparnir voru svo rannsakaðir eftir mánuð og þau sem höfðu ástundað þakklætið leið  mun betur en þeim sem höfðu ekki gert það og voru hamingjusamari.    Þessi grein – um hamingjuna og þakklætið birtist   í blaði sem kallast „The Harvard Magazine“   –   en eins og þið vitið er Harvard virtur háskóli,    en greinin bar nafnið  „The Happiness advantage“   eða „Hamingjuforskotið“ –
Ég heillaðist svo af þessari grein og þessum upplýsingum,  að ég fór með þessi fræði inn í kennslustund hjá Símenntunarmiðstöð –   en þar var fólk statt sem var í endurhæfingu eftir alls konar áföll og heilsubrest og var á leið út á vinnumarkað á ný. –       Ég lagði þetta verkefni fyrir hópinn að skrifa þakklætisdagbók,  og  viku síðar spurði ég hvenig hópnum gengi.   Sumir litu nú bara niður,  því þeir voru augljóslega ekki byrjaðir á þakklætisdagbókinni sinni,  en flestir voru farnir að prófa.  –   Ung kona rétti upp hönd og vildi deila sögu sinni með hópnum.    –  Hún sagði okkur frá því að hún hafði keypt bók fyrir sig og einnig fyrir strákana sína tvo,  en annar þeirra var haldinn miklum kvíða og átti erfitt með að sofna á kvöldin.     Hún ákvað að bera „orðið“  áfram til þeirra.   Þessi unga móðir sagði frá því að sonur hennar hefði sagt við hana:  „Mamma nú á ég auðvelt með að sofna,  því nú er ég ekki að hugsa um það sem ég óttast og kvíði –   því  nú hugsa ég   hvað ég á að þakka fyrir næst og hvað ég á að skrifa í bókina mína!   –
Það að hugsa fallegar hugsanir – og að hugsa um þakklætið  lætur okkur líða vel og við verðum glaðari.  –

Við uppskerum eins og við sáum segir Páll postuli í Galatabréfinu, –  og reyndar skrifar Páll postuli líka um það að Jesús hafi sagt að það sé betra að gefa en að þiggja.   En „Trixið“ við það –  þar sem ég var að tala um töfra hér á undan,  er að þegar við gefum,  erum við að þiggja um leið! –

Auðvitað er skemmtilegra að gefa þegar að þau sem taka við gjöfinni segja takk fyrir, –    því þakklætið er í raun endurgjöfin.   Og svo langar okkur svo miklu frekar að gefa þeim sem kunna að meta það sem við gefum,  því það gefur okkur meira.   –   Hugsið ykkur ef að enginn hefði komið að dansa á dansiballinu sl. föstudag –   þar var mætt hljómsveit til að gefa  skemmtileg lög.   En ef enginn hefði hlustað,  nú eða dansað – þá hefði það verið leiðinlegt fyrir þá sem voru að gefa – nú eða ef enginn mætti á myndlistarsýningu eða upplestur –   að gefa og þiggja virkar nefnilega eins og átta –  það fer fram og til baka.   Alveg eins og þakklætið og gleðin spilar saman,  það er engin gleði án þakklætis.

Ímyndið ykkur  að Guð se húsmóðir,  sem er búin að vera heima allan daginn og skrúra, skrúbba og bóna og laga dýrindis mat.   Fjölskyldan kemur heim og tekur öllu sem sjálfsögðum hlut –   sest svo við matarborðið og gúffar í sig matnum,  sem kannski tók marga tíma að undirbúa  – svona eins og jólamaturinn –  og svo myndu allir fara frá matarborðinu án þess að þakka fyrir sig.- reyndar er einn fjölskyldumeðlimur í einhverri ólund  og mætir ekki að matarborðinu –  og segist ætla að fá sér eitthvað annað síðar. –    Húsmóðirin sæti ein eftir eftir kvöldmáltíðina  –  eða væri staðin upp til að ganga frá.     Ætli hún sé glöð í hjarta –  hún mun eflaust  gera þetta aftur,   en ekki með þeirri gleði sem fylgir því  .. eða kannski missir hún bara áhugann á að halda heimili? –     Erum við nokkuð að gleyma að meta það sem Guð er að gera fyrir okkur?

Hvað er Guð að gera fyrir okkur hvern einasta dag? –   Hverjar eru gjafirnar okkar sem við gætum þakkað fyrir.     Í fyrsta lagi þá getum við öll hér inni dregið andann – svo við fáum súrefni.    Það gæti virkað sjálfsagt,  en það er því miður ekki alltaf sjálfsagt og sumir geta hreinlega ekki andað af sjálfsdáðum og þurfa því að vera tengdir við súrefniskúta.

Það er voðalega margt sem hægt er að þakka fyrir og í raun er listinn óendanlegur, – einhvers staðar stendur: „Það er alltaf, alltaf, alltaf,  eitthvað til að þakka fyrir“ ..

Þetta er  spurning um fókus –  á hvað erum við að einblína? –    Eigum við að hugsa um allt sem við höfum ekki og það sem okkur vantar, –  og þannig ástunda skorthugsun,  eða ætlum við að stilla okkur inn á það sem við höfum og þannig hreinlega lifa í þakklætinu? –

Allt sem þú veitir athygli dafnar og vex, –  og  það á ekki síst við um fólkið okkar.    Um húsmóðurina sem vill gera vel við fólkið sitt. –    Hvernig væri að við gætum glatt Guð,   með því að þakka fyrir  náttúruna,  fjöllin,  vindinn, – þakka fyrir fólkið okkar og svo framvegis.    Sælla er að gefa en að þiggja og við getum gefið Guði –  um leið og við þiggjum og veitum athygli allri þeirri dásemd sem hann gefur okkur. –

Leyfum okkur að hvíla í þakklætinu um stund – og svo áfram.  Tökum þessa Uppskeru – og þakklætishátið  inn í hjartað okkar og látum hana endast í heilt ár, alveg þangað til  hún verður haldin að ári. 

 

„Ég þekkti þig af afspurn … „

Prédikun flutt í Skálholtstsdómkirkju í október  2016   ..

Þú mátt vita að. . .

 

Þú getur ekki verið öllu fólki allt.

Þú getur ekki gert alla hluti í einu.

Þú getur ekki gert alla hluti jafn vel.

Þú getur ekki gert allt betur en allir.

Þú ert mannleg/ur eins og allir aðrir.

 

Svo. . . .

 

Áttaðu þig á því hver þú ert, og vertu það sem þú ert.

Taktu ákvörðun hvað er í forgang, og gerðu það.

Finndu styrkleika þína, og notaðu þá.

Lærðu að keppa ekki við aðra,

vegna þess að enginn er í keppni við þig,,  að vera þú.

 

Þá munt þú ..

 

Læra að samþykkja hversu einstök vera þú ert.

Læra að setja hlutina í forgang og taka ákvarðanir.

Læra að sýna þér þá virðingu sem þú átt skilið.

Og þú verður sprellifandi dauðleg vera.

 

Hafðu hugrekki til að trúa . . .

 

Að þú sért yndisleg, einstök vera.

Þú sért einstök persóna í mannkynssögunni.

Að þú hafir meira en rétt til að vera sá/sú sem þú ert.

Að lífið sé ekki vandamál til að leysa,

heldur gjöf til að virða og þú getir staðið með sjálfri/sjálfum þér

gegn hverri persónu eða hlut sem reynir að brjóta þig niður.

 

Það sem ég var að lesa hér,  er texti sem ég féll fyrir á elrendri netsíðu og þýddi.   Það sem kveikti hugrenningatengsl við texta dagsins var þessi setning:  „Hafðu hugrekki til að trúa“ ..  og að vera „sprellifandi dauðleg vera“ ..

 

Á hverjum mánudegi  opna ég „kirkjudagatalið“  á kirkjan.is,  – til að finna guðspjallstexta dagsins.  Það minnir pínkulítið á jóladagatal með súkkulaðimolum,   nema í þessu tilfelli eru molarnir guðspjallstextar.   Ég las áðan fyrir ykkur „mola“ dagsins eða texta ú 4. Kafla Jóhannesarguðspjalls, sem er texti þessa dags 21. Sunnudags eftir þrenningarhátíð.    Molarnir eru frekar ólíkir og ég verð að viðurkenna að ég tengi misvel við þá.   Stundum finnst mér þeir full rammir,  eins og mér þótti texti síðasta sunnudags,  þar sem orðalagið var svona varla við hæfi barna,  en hér í kirkjunni voru u.þ.b.  tíu börn undir fermingaraldri. –   Ég tók það fram þá og geri það aftur nú,  að auðvitað þurfum við að framreiða það í messu – eins og veislu –  sem er við hæfi þeirra sem mæta. –   Ég talaði um að molarnir væru súkkulaði, –  ekki vilja nú allir borða súkkulaði – svo við getum líka haft þá sem ávexti – að hver texti sé eins og epli eða banani J ..

Þegar ég sá textann,  um mann sem var að missa son sinn,  – og Jesú sem sagði: „hann lifir“ – þá minnti textinn mig á guðspjallstextann sem var lesinn 11. September sl. eða 16. Sunnudag eftir þrenningarhátið  – um ekkjuna sem var að fylgja syni sínum til grafar –  en Jesús kom þar að og sagði „„Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“  Sá texti var í Lúkasarguðspjalli.   Textinn í dag er frábrugðinn að ýmsu leyti – því þar er sonurinn ekki dáinn – heldur dauðvona.   Jesús ávarpar hann ekki beint, heldur er það faðirnn sem fær að heyra:  „sonur þinn lifir“ ..

Á undan hafði hann sagt:

„Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“

Það kemur svo fram að syninum hafði batnað – á meðan faðir hans hafði verið að tala við Jesú og einnig að allt fólkið hans hefði tekið trú EFTIR það. –

 

Það er auðveldara að trúa – EFTIR að við höfum séð það, er það ekki.   En er hægt að trúa því ef við höfum aldrei séð það?    Myndum við ekki efast?

 

Hverju erum við beðin um að trúa – í báðum þessum „kraftaverkasögum“  um soninn sem rís upp frá veikindum sínum og syninum sem rís upp frá „meintum“ dauða sínum? –    Við erum beðin um að trúa á lífið.  „Hann lifir“ ..      „Ég lifi og þér munuð lifa“ ..

 

Í bókinni  „A course in Miracles“  stendur þessi fallega setning:

„Nothing real can be threatened.

Nothing unreal exists.

Herein lies the peace of God.“

 

„Engu sönnu verður ógnað.

Ekkert óraunverulegt  er til.

Hér er friður Guðs fólginn.“
Engu sönnu verður ógnað ..    lífið er satt og því verður ekki ógnað…

Ættingjar piltsins sem hjaraði við eftir veikindi hans,  tóku trú – EFTIR kraftaverkið.   En Jesús hafði sagt „Þið trúi ekki NEMA þið sjáið undur og stórmerki“ ..

Stóra áskorunin okkar er að trúa –  án kraftaverkanna og án sannanna.  Það er að trúa því að líf sé alltaf líf.    Og þó að einhver deyi,  höldum við samt áfram að trúa á lífið.

Ung kona og móðir fór að heimsækja móðursystur sína sem lá banaleguna á elliheimilinu Grund, eins og það hét þá.   Móðir hennar og önnur móðursystir sátu yfir henni og hjúkrunarfræðingur kom til þeirra og sagði að það gætu varið klukkutímar og einnig dagar,  þar til hún skildi við.   Unga konan varð allt í einu eitthvað þreytt og sagðist ætla heim og leggja sig. –   Hún keyrði heim til sín, alla leið í Garðabæinn.   Lagðist í rúm dóttur sinnar,  og sagði krökkunum sínum að hún ætlaði að halla sér aðeins.    Hún vissi ekki alveg hvort þetta var í draumi eða vöku,  en henni fannst hún sjá fyrir ofan sig einhvers konar göng, –  jafnvel fæðingarveg ..      hún hugsaði með sér,   „Ef hún frænka mín er dáin núna trúi ég á einhvers konar  endurfæðingu“ ..  –   hún kallaði á krakkana sína og spurði þau hvað klukkan væri.  Hún er fjögur var kallað til baka. –    Hún tilkynnti krökkunum að hún ætlaði aftur á Grund,  hún væri eiginlega viss um að frænka þeirra væri búin að kveðja.  Þegar hún kom þangað spurði móðir hennar hissa,  „hvers vegna ertu komin aftur?“ –  Þá spurði hún:  „er frænka mín ekki dáin?“ .. Jú,  hún var að kveðja núna klukkan fjögur. –

Þetta eru eiginlega undur og stórmerki,  og ég hef þessa sögu frá fyrstu hendi, – því ég sjálf er þessi fyrrverandi unga kona.   Mér hefur alltaf þott þetta mjög sérstakt, og er reyndar ekki eina undrið sem ég hef fengið að þiggja.  Við erum reyndar öll að upplifa eitthvað undur,  en tökum kannski ekki eftir því.  –    Mér er í dag orðið tamara að tala um fæðingu til eilífs lífs en um „dauða“..     Kjarnaboðskapur kristinnar trúar er um upprisu til eilífs lífs, – svo það er nákvæmlega ekkert ókristilegt við það.

Það er mikil huggun sem felst í því að trúa að lífið sé eilíft og að ástvinir sem hafa „dáið“ – haldi hreinlega áfram að lifa í eilífðarlandinu – sem við sjálf erum hluti af.   Það má ekki gleyma því að við sjálf erum raunveruleg og við sjálf erum lifandi.

Jesús kom –  Guð sjálfur kom til að eiga mannlega tilveru.  –

Það er mikilvægt að trúa – „no matter what“  eða skilyrðislaust,   vegna þess að við vitum að trúin er ótrúlegt afl – sem svona næstum flytur fjöll.    Hún flytur fjöll að því leyti að hún hjálpar okkur að bera hið óbærilega og hún getur hjálpað okkur til að lifa lífinu í gleði yfir því hversu lífið er í raun stórkostlegt og raunverulegt.    Lífið er raunverulegt –  þó við getum ekki „komið við það“   …

Þegar við fæðumst til jarðneska lífsins – þá öndum við inn –  og þegar við fæðumst til andlega lífsins þá öndum við út. –   Síðasti andardráttur jarðneska lífsins er út.    Andardráttur í þakklæti fyrir  lánið á líkamanum.

Margt fólk talar um það hafi sína barnatrú,  – en barnatrúin ein og sér nær ekki utan um það þegar að fólkið þeirra kveður.     Sumt fólk trúir bara „að dauða“  ..   Hvað ef að sonurinn í frásögu Jesú hefði ekki lifað af veikindin? –  Hefði fólkið tekið trú?   Auðvitað spyr fólk sig,  bíddu, bíddu – Jesús læknaði fólk og reisti upp frá dauðum?   Hvers vegna ekki  barnið mitt,  systur mína, bróður minn – móður mína eða föður minn?

Var hann ekki bara að sýna þeim undur og stórmerki vegna þess að þau vildu sannanir fyrir eilífa lífinu? –

Þau sem trúa án sannanna –  án skilyrða –  jafnvel eftir að hafa misst allt sem þeim finnst nokkurs virði  – hafa ekki lengur „barnatrú“ –  heldur þroskaða og djúpa trú,   sem er samofin hverri frumu líkama þeirra og gerir þau  að sigurvegurum þessa lífs.    Það er saga í Biblíunni, nánar til tekið í Jobsbók –  um góða og grandvara manninn Job,  sem gerði allt rétt – og hann trúði að ef hann gerði allt rétt,  þá myndi ekkert slæmt koma fyrir hann   – en til að gera langa sögu stutta  missti hann allt,  heilsuna sína, fólkið sitt og allt það sem hann átti – nema sjálfan sig.   Job eignaðist sanna og einlæga  trú  – þegar hann áttaði sig á því að ekkert raunverulegt deyr – lífið deyr aldrei –  og við skulum enda þessa hugleiðingu á hans orðum þegar hann ávarpaði Guð.

„Ég þekkti þig af afspurn – en nú hefir auga mitt litið þig“ ..

Hafðu hugrekki til að trúa …

Guðspjallstexti dagsins:

Guðspjall: Jóh 4.46-53
Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“
Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“
Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“
Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.
Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk.