Hvað ef? …..

Ég man eftir sögu um bóndason sem fór að biðja sér konu. –

Hann mætti á heimili ungu konunnar og þetta var á þeim tíma og stað þar sem siður var að biðja foreldra um hönd dótturinnar. –  Foreldrarnir tóku honum fagnandi og dóttirinni leist vel á mannsefnið.

Móðirin bað dóttur sína að fara niður í kjallara og sækja öl til að þau gætu skálað fyrir ráðahagnum og það gerði dóttirin.

Þegar dóttirin var komin hálfa leið niður í kjallara leit hún upp og sá exi sem var búið að hengja upp í rjáfur til geymslu.  –

Hún settist í stigann og hugsaði,  hvað ef ég og bóndasonurinn værum búin að gifta okkur, og hvað ef við værum nú búin að eignast son,  og hvað ef að hann væri orðinn fullorðinn og hvað ef við kæmum að heimsækja foreldra mína og hvað ef að amma hans myndi biðja hann um að fara niðrí kjallara og sækja öl og hvað ef að exin myndi þá losna og lenda í höfðinu á honum og opna æð og hvað ef að honum myndi blæða út?

Hugsunin varð henni óbærileg og hún fór að gráta óstjórnlega.

Til að gera langa sögu stutta, – þá fór móðurinni að lengja eftir dóttur sinni og ölinu og fann dótturina sitjandi hágrátandi í tröppunum,  dóttirin sagði móðirinni frá hugsunum sínum og móðirin settist hjá henni og fór að hágráta.  Það sama gerðist með föðurinn.  Öll sátu þau og hágrétu yfirkomin af sorg, –  vonbiðillinn kom svo síðastur og varð mjög hissa á þessari fjölskyldu,  og ég man hreinlega ekki endinn á orginal sögunni,  en honum fannst þau a.m.k. mjög heimsk.

Hversu oft segjum við ekki „hvað ef?“ og búumst við hinu versta?

Hversu oft erum við ekki komin með kvíða og áhyggjur af því sem e.t.v. aldrei verður og lifa í huganum atburð sem verður kannski og kannski ekki,  en fara í gegnum alla vanlíðanina.  Kannski grátum við ekki eins og fólkið í kjallaratröppunum,  en við engjumst um af kvíða,  „hvað ef?“ …

Stundum er þetta kallað „að mála skrattann á vegginn“ ..

Ég býst við að vonbiðillinn hafi stungið upp á því að taka exina niður,  það hefði amk útilokað þennan vofeifilega atburð sem bóndafjölskyldan var búin að sjá fyrir sér.   En oft er það sem er „yfirvofandi“ eitthvað ósýnilegt og ekki hægt að festa hendi á. –  Engin exi til að taka niður,  aðeins hugsunin um það sem hún gæti valdið.

Það er hægt að breyta sögunni, – hvað ef að unga konan hefði tekið eftir exinni og hugsað aðra hugsun? –  Hvað ef að í framtíðinni einhvern tímann kæmu þau í heimsókn og faðir hennar væri búinn að vera úti höggva við með exinni og hvað ef að hann setti viðinn í arininn og hvað ef þau sætu nú öll,  hún, eiginmaðurinn, sonurinn sem þau væru búin að eignast, og e.t.v. fleiri börn,  hvað ef að svona góðir hlutir væru framundan? –

Hugsunin um atburðinn er núna,  hún er að hafa áhrif á líðanina núna og hefur í raun ekkert með framtíðina að gera.

Hvernig líður mér með hugsanir mínar,  hugsa ég jákvætt eða hugsa ég neikvætt?   Er ég að búast við hinu versta,  eða búast við hinu besta, eða leyfi ég bara hlutunum að gerast? –

Við skulum sjá fyrir okkur að við stöndum á árbakka lífsins,  lífið er fljót og það er stundum lygnt og stundum beljandi og þar eru flúðir og ýmislegt spennandi.

Ég hef prófað að fara í svona flúðasiglingu og ég var miklu hræddari þegar ég stóð á bakkanum og heyrði leiðsögumanninn segja frá öllu sem „gæti gerst“ og hvernig ég ætti að bregðast við ef svo bæri undir,  heldur en þegar ég var komin af stað. –  Flúðasiglingin var stórskemmtileg og mikið ævintýri, okkur kitlaði í magann og svo var rólegt og við flutum áfram.

Engum datt í hug að setja út árnar og reyna að stöðva siglinguna með bátnum, heldur að takast á við það sem framundan væri. –

Við róum ekki á móti straumnum,  þannig virkar mótstaðan og þannig virkar þegar við förum að hugsa um að exin gæti lent í hausnum á okkur eða okkur nákomnum. –  Þannig virkar óttinn,  eins og handbremsa á farartækið okkar. –

Við höfum val um að hugsa jákvætt eða neikvætt,  við höfum val um líðan okkar hér og nú.  Við getum svo sannarlega ekki ráðið við allar aðstæður, það þekkjum við og þess vegna biðjum við Guð um æðruleysi. –

Æðruleysi til að sætta okkur við að lífið er stórfljót með alls konar uppákomum, góðum og slæmum.

Kjark til að róa fram hjá stóru steinunum,  velja leiðir og hlæja þegar báturinn vaggar.

Vit til að skilja að við getum ekki breytt ánni, en við getum róið í var eða valið stefnu.

Ef við ætlum að komast á leiðarenda og upplifa allt sem lífið hefur að bjóða, þá verðum við að fara í bátnum. –  Við getum flúið upp á bakkann,  en við komumst þá ekki áfram fyrr en við ákveðum að fara aftur í bátinn og takast á við ána á ný. –  Á bakkanum er kyrrstaða en þar er ekki þroski og ekkert flæði. –

Ef við höfum tækifæri á að taka þátt í lífinu þá er að grípa tækifærið,  – hvort viljum við vera áhorfendur (og standa á bakkanum) eða þátttakendur? –

Hvort viljum við þrauka lífið eða lifa því lifandi? ..

Lifum okkar eigin sápuóperu,  hún er miklu, miklu áhugaverðari og fjölbreyttari en þær sem boðið er upp á í sjónvarpinu.

Hvað ef?  _______________________________  leyfðu þér að setja eitthvað gott á línuna hérna og finndu tilfinninguna, bæði í líkama og sál. –  😉

Upphafið á þessu ljóði kom í huga mér þegar ég var að skrifa þetta:

„Láttu þér líða vel
þetta líf er til þess gert
trúðu mér …“

Í því er sami boðskapur og „Let it be“ hjá Bitlunum, – Leyfðu því að gerast! .. Ekki vinna gegn því,  ekki búast við hinu versta, og ekki róa á móti ..

„Speaking words of wisdom“ — „There will be an answer – Let it be“ ..

Slepptu – treystu – trúðu – leyfðu – lifðu

 

 

 

 

 

Ein hugrenning um “Hvað ef? …..

  1. Takk fyrir þennan pistil 🙂 Einu sinni hugsaði ég svona „hvað ef“….en ekki lengur,ég tek bara einn dag í einu og lifi í núinu 🙂 og hlakka til framtíðarinnar !

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s