Æðruleysið á lífsgöngunni ..

Mamma mín er til heimilis á hjúkurnarheimilinu Droplaugarstöðum og hefur verið það núna bráðum í tvö ár. – Ég heimsæki hana reglulega, svona u.þ.b. einu sinni í viku og svo erum við systkinin sem búum hér á landi með „heimsóknarkerfi“ – þannig að við skiptum helgunum á milli okkar. –

Það er erfitt að horfa upp á mömmu sína fjarlægjast.  Mamma er með heilabilun,  sem er kölluð „Vascular Dementia“ – sem má þýða sem æðaheilabilun, – sem er annar algengasti hrörnunarsjúkdómurinn á eftir Alzheimer.  Blóðflæðið minnkar til heilans og því fylgir m.a. að minnið fjarar út og fólk verður utan við sig og ringlað. –

Það er lán í óláni að mamma komst inn á þetta góða hjúkrunarheimili þar sem hún hefur stórt einkaherbergi með dótið sitt, með fullt af myndum af barnabörnunum og sína persónulegu muni. – Þar eru að vísu rúm frá stofnuninni, náttborð og nú það nýjasta; hjólastóll – sem mamma forðast að vísu eins og heitan eldinn.  Það er ótrúlega mikill sjálfstæður vilji í henni og stundum gerir hún hluti sem maður trúir eiginlega ekki að séu henni færir.

Starfsfólkið er að gera sitt besta, og sumt fer langt fram úr sér og má þar helst nefna hana Rósu, sem dekrar við fólkið og er alltaf eins og sólin.

Það eru alls tíu konur á deildinni hennar mömmu og mamma er alls ekki sú „veikasta“ og mamma er sem betur fer yfirleitt glöð og sátt. – Það léttir okkur ættingjum hennar heimsóknirnar. Stundum er hún þó þannig að hún getur ekki haldið sér vakandi og það er auðvitað erfiðara að heimsækja hana við þær aðstæður.

Mamma hefur oft verið þannig stödd að við höldum að það sé komið að því síðasta, en ég hef ekki lengur tölu á því hversu oft hún hefur komið „til baka“ – en það er á þessum tímum þegar hún er einmitt sem verst,  að það er erfiðast að heimsækja.  Og svo hefur það stundum bara erfið áhrif að heimsækja deildina og sjá hinar konurnar.  Því ekki eru þær allar eins sáttar og mamma. –

Í gær fór ég sem oftar að heimsækja mömmu og þá kom Vala dóttir mín með mér. Við vorum heppnar,  mamma sat frammi í setustofu og var í þokkalega góðum gír, svona miðað við hennar ástand. –

Ég þarf samt einhvern veginn alltaf að hjúpa mig svolítið og ganga þarna inn og út með æðruleysið í huga.  Með sáttina í hjartanu yfir því sem ég fæ ekki breytt,  en um leið þarf ég að minna mig á það sem ég FÆ BREYTT. –

Ég get ekki breytt lífi né ástandi móður minnar. – En eins og ég sagði við Völu mína á leiðinni í lyftunni niður.

„Við skulum nýta þetta til að átta okkur á mikilvægi þess að lifa lífinu lifandi!  “

Margir upplifa hjúkrunarheimili eins og biðstofu. – En hvað með okkur hin sem erum yngri, frískari, með heilann í lagi (eða svona að mestu leyti í lagi? ;-)) ..  Erum við nokkuð að lifa lífinu okkar, eins og við séum sitjandi á biðstofu, og eftir hverju erum við að bíða? –

Hvað er það sem hlammar okkur niður í sófann (ekki það að það sé ekki í lagi að velja sófann við og við, og njót þess að hvíla sig) – en svona almennt þegar sófinn er orðinn besti vinurinn? ..

Ég heyrði nýlega setningu sem hefur verið mér hugleikin,  „Put the happiness in front of the carriage“ – sem mér finnst gaman að þýða;

„Láttu hamingjuna fyrir framan hestvagninn“ ..

Og þá er hamingjan hesturinn sem við setjum fyrir framan hestvagninn, – enda myndum við aldrei setja hestinn fyrir aftan og ætlast til að vagninn drægi hestinn.

Flestir þekkja söguna sem sögð er af indjánahöfðingjanum og baráttu úlfanna tveggja.

Annar þeirra er:
ótti, reiði, öfundsýki, græðgi, hroki, sjálfsmeðaumkun, rógur og svik.

Hinn er:
Gleði, kærleikur, auðmýkt, tillitsemi, gjafmildi, sannleikur og samhugur með öðrum.

Eitt barnanna spurði: Afi, hvaða úlfur vinnur?

Sá gamli horfði alvörugefinn á barnahópinn og sagði:

Sá sem þú fóðrar.

Ef við breytum nú sögunni og setjum hesta í stað úlfa,  hvor hesturinn er líklegri til að dafna og fyllast eldmóði til að draga vagninn? –

Hvað dregur okkur sjálf áfram og hvað dregur okkur niður? –

Hvað er á okkar andlegu næringartöflu? –

Erum við að næra okkur með illmælgi, öfund, skömm, samviskubiti,  baktali, ofbeldi, reiði, neikvæðni, illsku, gremju, ótta, hatri, dómhöru og fleiru í þessum dúr? …

Eða nærum við okkur með þakklæti, jákvæðni, hugrekki, sátt, elsku, vinarþeli, samhug, samvinnu, trú, von og kærleika? …

Við þurfum væntanlega ekki mikið vit til að greina þarna á milli, hvort er okkur hollara og hvort veitir okkur meiri hamingju. –

Við vitum öll að hreyfing og hollur matur er góð fyrir heilsuna, en …… en hvað? –  Við þurfum að vilja og við þurfum að taka skrefin ..

Við sækjum nefnilega í margt af þessu sem er vont og dregur úr okkur, alveg eins og við sækjum í það sem er óhollt fyrir frumur líkamans.  Sækjum í það sem fitar okkur þó að við viljum ekki fitna og séum e.t.v. í hættulegri yfirþyngd! ..

Ég held að þetta sé það sem Eckhart Tolle talar um, þegar hann talar um að næra sársaukalíkamann.  Við erum að næra sársauka okkar í stað þess að næra hamingju okkar.   Tolle segist t.d. vera hissa að í veröld sem stærstur meiri hluti mannkyns vill frið en ekki stríð,  vill ofbeldislausan heim, séum við að kaupa okkur inn á ofbeldismyndir. –

Nýlegar voru hugmyndir á lofti að fjöldamorðinginn Anders Breivik hefði orðið fyrir áhrifum af ákveðinni bíómynd. – Við vitum alveg að fjölmiðlar, tölvuleikir,  kvikmyndir o.fl.  hefur áhrif á undirmeðvitundina.  Það hefur áhrif til ills,  en sem betur fer hefur það líka áhrif til góðs.  Það er til fullt af „feel-good“ myndum,  sem skilja mann eftir með sólina í hjartanu. –

Ég er ekki að tala um að við eigum að láta eins og ofbeldi þrífist ekki, – en við eigum ekki að fóðra það. –

Alveg eins og með úlfinn – sá sem þú fóðrar vex og dafnar og sá sem þú sveltir veslast upp og deyr. –

Þetta gildir um allt, þetta þekkja þau sem eru með „græna fingur“ – og huga að garðinum sínum og þetta gildir að sjálfsögðu um börnin okkar, –  ekkert þurfa börn, eða fátt, frekar – en athygli frá foreldrum sínum. –  Þau visna ekki og deyja við athyglisskortinn og áhugaleysið, en eitthvað innra með þeim veikist þegar þau fá ekki athygli.  Ég las í bók sem ég kynnti mér á námskeiði í HR, sem ber heitið „Well-Being“ að mikilvægi athyglinnar er sannað.  Það sem er mikilvægast og í fyrsta sæti er:

Jákvæð athygli, þ.e. að taka eftir hinu jákvæða,

í öðru sæti er að taka eftir hinu neikvæða

og það versta er að veita EKKI athygli, eða að vera afskiptalaus með öllu.

–  Allir þurfa að sjást, og það er vont að upplifa sig ósýnilega/n.

Hamingjan og gleðin vill heldur ekki vera ósýnileg, hún þarf athygli og næringu til þess að geta dregið hestvagninn. –

Louise  Hay er þekkt kona, sem hefur skrifað margar bækur um hvernig hún vann sig út úr neikvæðri „forritun“ sem barn. Hún talar um sig sem 85 ára unga en ekki gamla, og  hefur notað þessa jákvæðu næringafræði. Hún hefur vanið sig á að virkja hugann til jákvæðni með því að fara með daglegar staðhæfingar,   eða  „affirmations“ –

Þessar staðhæfingar sem við þörfnumst  er ekki erfitt að finna, – þær eru andstæða þess niðurrifs, eða þeirra orða sem margir nota daglega og við flest ef ekki öll.  Niðurrifs og afneitunar á okkur sjálfum. –  Í stað þessa niðurrifs þurfum við að fara að samþykkja og það gerum við m.a. með jákvæðum staðhæfingum. –

Orð eru álög, eins og Sigga Kling segir í samnefndri bók.

Í staðinn fyrir að segja „Ég er lúser“  – segjum við  „Ég er sigurvegari“ ..  Við höfum val um að klæða okkur í annars vegar „Winner bolinn“ á morgnana eða „Loser“ bolinn .. Við getum fóðrað lúserinn í okkur og við getum fóðrað þann sem tapar.  –

Það er mikilvægt að þó að það gerist ekki nein barbabrella á einum degi, þá alveg eins og neikvæða sjálfstalið hefur e.t.v. komið okkur í neikvæðan gír á löngum tíma,  þá tekur jákvæða talið sinn tíma. – En það virkar ekki ef því er bara hætt.  Það þýðir ekkert að fara bara í jákvæðniátak í þrjá daga og svo búið.  Lífið er ekki átak,  kúr, eða spretthlaup,  heldur er lífið langhlaup.  Ég held það standi meira að segja utan á GH magazine! .. (Góði hirðirinn).   –

það hljóta allir að vera sammála hvorn úlfinn, eða hestinn þeir vilji helst fóðra.

En hvernig breyti ég gömlum vana, ef ég er búin/n að tala niður til mín og vera í sama hjólfarinu svona lengi?  –

We are what we repeatedly do. Excellence, then, is not an act, but a habit.“ – (Aristotle)

Ég fékk þýðingu á þessu frá Jóhanni Pétri Sturlusyni, sem einmitt hefur sérhæft sig í því sem kallað er breytingastjórnun og er með ráðgjöf þar að lútandi hjá www.stjornun.is , – en það á viðskiptasviði, – en það merkilega er að það sem virkar á einu sviði virkar venjulega á öðru líka! ..

„Endurteknar athafnir móta hver við erum. Yfirburðaárangur næst því ekki með skammtímaátaki heldur með venjum eða lífsstíl – Við erum skepnur vanans.“ 

Við upplifum oft að við séum föst, – við höfum ekki val, en við höfum a.m.k. val um viðhorf, við höfum val um andlega næringu, og líkamlega. Hvernig væri að byrja þar.  Breyta einu í einu?

Það er „win-win“  ástand að velja hið góða og jákvæða, vegna þess að það sem við segjum og gerum hefur ekki síst áhrif á okkur sjálf.

Þannig virkar bergmál lífsins,  við köllum  „þú ert  fífl“ í bergið og það endurómar til okkar.  Við köllum „þú ert frábær“ í bergið og það endurómar til okkar … við getum notað þetta með „winner“ – „loser“ .. hugtökin. –

Á sama hátt virkar t.d. gremjan, gremjan i garð annarra, – þegar við pirrumst á fólkinu í kringum okkur, höfum e.t.v lent í uppákomu og sitjum uppi með sárt ennið, sofum ekki, liggjum andvaka með gremjuna mallandi á meðan sá eða sú sem við erum gröm útí sefur kannski værum blundi. – Hver borgar þann reikning og hvaða áhrif hefur það á okkur að hafa svona leigjanda sem borgar ekki húsaleigu í höfðinu? –

Það þarf hugarfarsbreytingu til að tileinka sér og fóðra sig með því góða,  stundum þarf ákveðinn kjark eða hugrekki til þess.  Hugrekki til að stíga upp úr gömlum siðum og gömlum vana. –  Hugrekki til að segja upphátt:  ´“Ég er sigurvegari“ .. og það þarf trú. Það þarf sýnina, að sjá fyrir sér sigurvegarann og það þarf trúna til að trúa á hann, ef að við trúum því ekki af hverju ættu hinir að gera það? – ..

Við þurfum að standa upp og fara að ganga lífsgönguna,  lifa lífinu lifandi meðan við höfum tækifæri, orku og val – nýta okkur þann fjársjóð sem innra með okkur býr og kemur okkur áfram,  setja hamingjuhestinn fyrir framan kerruna og slá svo í! …

GUР gefi mér æðruleysi

Til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt

Kjark til að breyta því sem ég get breytt

Og vit til að greina þar á milli

Þakkir til allra þeirra sem hafa verið samferða mér hingað til á lífsgöngunni, sem hafa kennt mér, leitt mig og hvatt .. líka sem hafa verið mér erfið/ir, þvi að þar hef ég líka lært.

– Lífsins skóli færir okkur endalaus verkefni til að takast á við.

(Ég notaði þennan grunn sem fyrirlestur hjá Hafnarfjarðardeild Rauða krossins fyrir fólk í atvinnuleit.)

Ein hugrenning um “Æðruleysið á lífsgöngunni ..

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s