Hvernig borðar maður fíl? ..

Human affairs usually work best when
we do what we say we are going to do.
We empower ourselves and others
when we follow through on our word.“
          Alan Cohen

Lárus fékk hringingu og var beðinn um að greiða reikning sem hann skuldaði.  Hann svaraði um hæl að það skyldi hann gera, og fór jafnframt að afsaka sig að hann hefði bara steingleymt því.-   Hann vissi þó eins og var að hann ætti ekki peninga fyrir þessum reikningi,  en það var auðveldasta leiðin að segja þeim sem hringdi og til að losna við hann úr símanum, að hann myndi borga strax.  Hann treysti sér ekki til að koma hreint fram og upplýsa um raunverulega stöðu sína, að hann væri bara skítblankur.   Hann vissi sem var að hann var að kaupa sér frest, kannski myndi rukkarinn gefast upp,  eða ekki hringja fyrr en eftir næstu mánaðamót. – 

Hvað segir í auglýsingunni „Ekki gera ekki neitt“ ..

Hversu oft segjumst við ætla að gera eitthvað en gerum það ekki? 

Hversu oft ákveðum við að hætta einhverju en hættum því ekki?

Hversu margar ákvarðanir ganga ekki upp hjá okkur?

Kannski sögðumst við ætla að  reyna að klára eitthvað og það í heyranda hljóði. – Svo dregst það og við vonum að hinir bara gleymi því. –   Við höfðum að vísu dyrnar opnar með því að segja „reyna“ –  Það er flóttaleiðin okkar.

—————————————————–

Svona getum við umgengist aðra, þ.e.a.s. komið með yfirlýsingar að við ætlum að gera eitthvað,  en gera það ekki,  við komum svona fram við aðra og það sem er ekki skárra, við okkur sjálf.  

Við ætluðum e.t.v.  að halda okkur á meðalveginum, lifa með tilgangi, byrja á þessu og hinu og klára þetta og hitt.   Breyta siðum,  hugleiða í 15 mínútur á morgnana, hætta að horfa svona mikið á sjónvarpið,  ekki fara með tölvuna í rúmið, hreyfa okkur meira,   vera minna á facebook o.s.frv.

Síðan gerum við það EKKI.  Og þá förum við að fá samviskubit, og líður illa með það,  en við breytum því ekki heldur;  okkur líður bara illa!

Hvernig getum við brotið upp þennan (vanlíðunar)vítahring, þar sem samviskubitið bítur okkur í rassinn yfir að hlutirnir ganga ekki upp hjá okkur,  við eiginlega svíkjum okkur sjálf? –

Við viljum vera heil, en í staðinn fyrir að byggja okkur upp þá brjótum við okkur niður með því að standa ekki við eigin ákvarðanir. –

Kannski þurfum við að velja betur það sem við ákveðum að gera, hafa það raunhæft og geta sagt sannleikann, bæði við aðra og okkur sjálf,  við því sem þú veist að þú kemur ekki til með að gera,   Lárus varð að sýna það hugrekki að játa það fyrir rukkaranum að hann ætti ekki fyrir reikningnum, nú og kannski fá að semja um að borga eitthvað örlítið inná. –

Ekki setja of miklar klyfjar á okkur, og væntingar þannig og þurfa svo að viðurkenna einn daginn að það gekk ekki upp, eða það var ekki innistæða fyrir yfirlýsingunum. –  Væntingar geta verið ávísun á vonbrigði séu þær ekki uppfylltar.

Við þurfum að lifa af heilindum.

Ef við lofum upp í ermina á okkur, fer það að plaga okkur, og því er best að lofa sem fæstu,  en standa við það fáa sem við lofum eða ákveðum. –

Ekki ætla sér um of,  eins og að fara á fullt í ræktinni og byrja fimm sinnum í viku og springa svo á limminu og fara í vanlíðan aftur.  –

Eitt skref í einu,  eitt sannfærandi skref,  og svo annað sem þú getur staðið við og veitir þér vellíðan og þannig fjölgar skrefunum því að vellíðanin kemur okkur áfram. –

Þetta þýðir ekki að við getum ekki látið okkur dreyma,  að við getum ekki búið til framtíðarsýn til að trúa á,  en aðalmálið er að taka eitt skref í einu. –

Ef að Lárus skuldar  10.000.-   en frestar því alltaf mánuð fyrir mánuð, – og saxar ekkert á skuldar hann enn 50.000.-  (segjum að það séu ekki vextir þarna)   En ef hann borgar 1000.-  krónur  á mánuði hefur hann lokið við að greiða þetta á 10 mánuðum,  nú ef hann borgar enn minna, 500 krónur á mánuði hefur hann lokið þessu eftir 20 mánuði. –  

Góðu fréttirnar:  Hann klárar að borga! –

Þetta sama gildir um verkefnin okkar,  ekki ætla okkur það mikið að það verði yfirþyrmandi og við gefumst upp. – Og þannig verða EKKERT úr verki. – 

Byrjum smátt.  

Það er oft sem ég nenni alls ekki í göngutúr, vegna þess að göngutúrinn í mínum huga er eiginlega alltaf klukkutími lágmark.  Svo hef ég ákveðið að fara bara út og ganga í 5-10 mínútur og þá fer mér oft að líða svo vel að teygist úr göngutúrnum jafnvel upp í klukkutíma eða meira! 😉  

Ég man eftir sjálfri mér í guðfræðideildinni þar sem grískunámið reyndist mér erfitt,  enda var þetta þungur og stór áfangi. –

Ég stundi upp við kennarann að þetta væri svo mikið og eiginlega óyfirstíganlegt, en hann svaraði sposkur á svip: 

Jóhanna mín,  hvernig borðar maður fíl? –  Við tökum bara einn bita í einu. –  

Ég kláraði mitt fimm ára embættispróf í guðfræði í febrúar 2003 og þar voru 10 einingar í grísku,  sem jú höfðust með seiglunni. –

Þetta þýðir ekki að við getum ekki látið okkur dreyma,  eða haft sýn. –    En það er ekki nóg að hafa sýn og hugsa „happy thoughts“ –   hugurinn flytur okkur hálfa leið,  en framkvæmdin restina. –  Skref fyrir skref,  og við verðum að trúa á sýnina.   Ég leyfi mér jafnframt að trúa að í hvert skipti sem ég stíg eitt skref,  komi heimurinn/Guð/æðri máttur til móts við mig og styðji mig næsta.   

Því verður best lýst með gönguferðinni sem ég sagði frá áðan.  Það er mitt að taka fyrsta skrefið,  koma mér út undir bert loft. –  Við getum setið inni og horft upp í stofuloftið og látið okkur dreyma, en komumst fljótlega að því að loftið er hindrun,  en pælið í því að við þurfum ekki að taka mörg skref til að komast út,  horfa upp í himininn þar sem engin takmörk liggja. –

Hamingjan liggur í hverju skrefi – hversu smátt sem það er,  liggur í andartakinu og því að virða fyrir sér himininn. –

Ofangreint fjallar um það að ná árangri, ná persónulegum markmiðum og lifa sýn sína. – Forsendan er þó alltaf að hamingjan er vegurinn,  en ekki hamingjan „þegar“ – „ef“  o.s.frv. – Það er hægt að lesa um það t.d. í greininni hamingjuforskotið.  Smellið HÉR.

Ein hugrenning um “Hvernig borðar maður fíl? ..

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s