Að segja: „Já“ ….og lifa ástríðu sína. –

Við erum flest farin að átta okkur á mikilvægi þess að setja okkur mörk, – sem þýðir m.a. að segja nei þegar við meinum nei.  Ef við segjum já og meinum nei – þá sitjum við oft uppi með gremju og reiði og þá helst út í okkur sjálf. –

Ástæðan fyrir að við segjum stundum jái þegar við meinum nei getur verið að við viljum ekki virka löt, leiðinleg, taka ekki þátt, særa ekki þann eða þau sem eru að biðja o.s.frv. –   Ástæðan fyrir því að við getum ekki alltaf sagt „já“ er m.a. sú að þá göngum við á orkubrigðirnar okkar og það er hreinlega ekki í mannlegum mætti að játast öllu og öllum. –

Við þurfum að gera það á réttum forsendum og við þurfum að muna að það er til meðalvegur í öllu. –

Sá sem segir of oft já, miðað við orku sína er það sem kallað er markalaus eða með of víð mörk. –  Við þurfum að hafa jafnvægi í jáunum og neiunum.  Auðvitað segjum við ekki bara alltaf „Nei“ – og hjálpum engum og gerum aldrei neitt fyrir aðra..   Það  er best (fyrir okkur sjálf og aðra)  að allt sem við gerum eða flest, stafi af löngun okkar til að framkvæma,  eða það að við vitum að það er þörf á að gera eitthvað og við förum í það á þeim forsendum,  ekki með gremju eða leiðindum.

En hvað er það þegar við segjum aldrei eða sjaldan „já“ – sérstaklega þegar okkur er boðið eitthvað, boðin hærri staða í fyrirtækinu,  boðið að taka þátt í einhverju spennandi,  beðin að tala um eitthvað efni fyrir framan fólk? – Af hverju grípum við ekki gæsina þegar hún gefst? –

Hvað vantar þegar okkur langar að segja „já“ en gerum það ekki í þeim tilfellum? –

Við skulum ekki segja:

„ég kem kannski“

„ég ætla að reyna“

Kannski og reyna eru flóttaleiðir. –  Þú ert að sýna að þig langi og sért jafnvel tilbúin/n en eitthvað hindrar þig.  Hvað er það sem hindrar þig í að segja „já“ – þegar þig innst inni langar? –

Ótti er það sem oftast stoppar okkur,  ótti við hið ókunnuga, ótti við að við stöndum okkur ekki,  ótti við að særast, ótti við höfnun, ótti við að finna til. –

Það eru annars vegar við sem veitum okkur sjálf viðnám og stöðvum okkur með ótta okkar, og/eða fólkið sem er í kringum okkur.  Þegar það er fólkið í kring er það oftast einhver náinn sem heldur að við gætum meitt okkur,  eða gert mistök. –

Kata dóttir Önnu  (En þær mæðgur eru sýndarveruleikakonur sem ég nota sem dæmi) kom heim innblásin af fyrirlestri um náttúruvernd,  og sagði við mömmu sína að hana langaði að beina ferli sínum í þá áttina að læra meira um vistfræði jarðar, og í boði væri helgarnámskeið á Snæfellsnesi, sem hún væri að pæla að skrá sig í.  Og það sem meira væri, henni væri boðið að taka þátt í gjörning sem var partur af dagskránni – þar sem hún fengi að sýna leikræna tilburði. –  Kata kom „búbblandi“ heim.  (Þetta er líking við kolsýrt vatn eða sódavatn, – talað um „sparkling water“ á enskunni). –

Anna sagði þá við dóttur sína með seming í röddinni: „Er þetta nú eitthvað fyrir þig?“ – Heldurðu að þú getir þetta nokkuð elskan mín?“ – „Ert þú með leikræna hæfileika?“ – .. „Viltu ekki bara koma í bústaðinn með mér og pabba þínum um helgina og njóta náttúrunnar þar og takast á við vistfræðina með því  að taka upp lúpínurnar sem eru að kæfa allan gróðurinn?“  –

Nú er spurning hvernig viðbrögð Kötu verða, – heldur hún áfram að vera „sparkling“ eða „búbblandi“  eða verður hún flöt? –

Það er a.m.k. búið að minnka aðeins ánægjuna og auka viðnámið við að Kata fari ekki að gera það sem hugur hennar stefnir til. –  Kannski var hún með smá efasemdir sjálf,  en vonaðist til að mamma hennar myndi taka undir með henni. –

Við erum að tala um Kötu sem er ekki barn, heldur 27 ára,  komin í háskóla. –

Við skulum vona að hún láti ekki slá sig út af laginu og elti draum sinn.

Ástæðurnar fyrir viðbrögðum móður Kötu getur verið að hún telji að Kata geti þetta í alvöru ekki,  þetta sé bara einhver della sem hún eigi eftir að sjá eftir o.s.frv. –  En er það Önnu,  mömmunar að ákveða það fyrir 27 ára dóttur?-

Þetta flokkast undir stjórnsemi – sem er ein af birtingarmyndum meðvirkni og er ekki góðmennska, – þó að mamman upplifi að hún sé að vernda dóttur sína, – vernda hana frá því að ana út í einhverja vitleysu og vernda hana jafnvel frá því að gera sig að fífli ef hún hefur ekki leikhæfileika.

En hvernig á Kata að komast að því ef hún fær ekki að reyna sig? –

Anna er því ekki að gera dóttur sinni gott,  hún er að stjórna henni og hún er að stela af henni ábyrgð og dýrmætum þroska.  Kannski líka gleðinni? –

Ég vona að þrátt fyrir þetta,  þessa hindrun í veginum, láti Kata ekki stöðva sig, heldur haldi áfram,  og ég vona að henni gangi vel og ef ekki,  þá láti mamma hennar vera að segja „ég sagði þér það – þú hefðir átt að hlusta á mig.“ –

Föðurleg og móðurleg ráð eru oftast góð,  en þau mega ekki vera til þess að stöðva þroska og setja hömlur á hamingju barnanna.  –  Þau VERÐA að fá að reyna sig og prófa. –

Að segja „Já“ –

Það er ekki tilviljun hversu margir þurfa á innri hvatningu að halda;

„Þori ég,  get ég, vil ég?“   „JÁ, ég þori, get og vil“ –

Hvað ef að kvenréttindakonurnar hefðu hlustað á úrtöluraddir á sínum tíma? –

Það er eflaust öruggara fyrir Kötu að fara í bústaðinn með foreldrum sínum og hreinsa upp lúpínur. –  Og hún hefði örugglega haft ánægju af því einhverjar helgar, – en að velja það og sleppa tækifærum,  sleppa því sem hún hefur ástríðu fyrir er ekki það að lifa lífinu lifandi. –

Kata hafði val um að hlusta á og taka inn á sig neikvæðar fortölur móður sinnar,  sem voru ekki komnar til af því að mömmu þótti ekki vænt um hana,  ó nei,  mamman „elskaði“ hana OF mikið og vildi hafa hana í öryggi og e.t.v. undir sínum væng. -Ég setti „elskaði“ í gæsalappir vegna þess að þessi elska er á röngum forsendum.  –

Þetta er dæmi um meðvirkni en ekki góðsemi. –

Leyfum okkur að ganga lífið í trausti en ekki ótta, í elsku en ekki ótta, hugrekki en ekki ótta.  –  Mamman þarf að þora að  sleppa tökunum af stelpunni sinni,  stelpan er byrjuð að ganga sjálf en mamman heldur enn í hendur hennar svo hún kemst ekkert áfram! –  Mamman þarf að sleppa tökunum á dótturinni og ótta sínum.  Dóttirin þarf líka að fara að hlusta eftir sínu hjarta og eftir löngunum sínum og sleppa því að taka úrtöluraddir of alvarlega. –

Spyrja sig „Hvað vil ÉG?“ – en ekki hvað vilja hinir og hvað er best fyrir þá o.s.frv.?-  Þegar upp er staðið er oftast það sem best er fyrir dóttur það besta fyrir móður,  það besta fyrir börn það besta fyrir alla foreldra, því að allar heilbrigðir foreldrar vilja sjá börnin sín glöð,  og öll heilbrigð börn vilja sjá foreldra sína glaða. –

Gleði okkar er því það besta sem við getum fært börnunum. – Og jafnframt besta fyrirmyndin. –

– Sá eða sú sem getur sleppt tökunum á þínum ótta er aðeins ein manneskja og það ert þú!

Hvernig og hvar sækir þú andagift, orku, gleði, hamingju? –

Er eitthvað ævintýri sem þú þráir en þorir ekki að segja „já“ við? –  Gerir nokkuð til að prófa, – er ekki eftirsjáin  að prófa ekki verri að hafa aldrei prófað? Það sagði a.m.k. fólkið sem var í viðtali á dánarbeðinu. – Það hefði viljað prófa fleiri hluti og taka meiri áhættu.  –

Hvað lætur þig búbbla?  – 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s