Hver manneskja er veröld út af fyrir sig. Hver manneskja er jörð, a.m.k. efnafræðilega tengd jörðinni segja vísindamennirnir í „Symphony of Science“ en þeir bæta líka við að við séum öll líffræðilega tengd. – Auðvitað vilja margir bæta við, „andlega tengd“ og þar á meðal ég. –
Við erum s.s. öll skyld og við erum öll tengd jörðinni. –
Öll framkoma okkar ætti að einkennast af virðingu fyrir lífi. – Ég er bara að tala um okkar eigin framkomu, – hver og ein/n setji fókusinn inn á við en ekki út á við núna 😉 – Okkur hættir iðulega til að fara að hugsa hvernig hinir eru að gera, hvað hinir eru vondir o.s.frv. –
Ef við förum inn á við, íhugum okkar eigin heim og jörðina okkar – líkama okkar, hvers konar „umhverfissinnar“ erum við þá? –
Erum við að hella í okkur eitri?
Erum við að borða eitthvað sem veldur okkur vanlíðan?
Eitthvað sem verður til þess að við vöknum með bólgna fingur og hringar sitja fastir?
Eitthvað sem hleður fitu í kringum hjartað, – hjartað sem heldur okkur gangandi?
Eitthvað sem stuðlar að krabbameinsmyndun? –
Er okkur sama um þessa jörð? – Líkama okkar? –
Hvað ef við uppgötvum að við erum í raun umhverfissóðar, jafnvel hryðjuverkamenn?
Það er skrítið að beina athyglinni svona inn í stað þess að vera með hausinn fullan af hvað hinir eru að gera. –
Auðvitað gildir þessi aðferðafræði líka við inntöku andlegs efnis. – Eftir því meiri „sora“ sem við innbyrðum þess meira rusl hleðst í kringum sálina okkar, – það verður erfiðara fyrir hana að skína, við verðum sorgmædd, þung og e.t.v. veik. – Við verðum líka veik við neikvæðar hugsanir í eigin garð, dómhörku og skömm. Skömmin byggir aldrei upp, brýtur bara niður. – Það er því mikilvægt að það sem við veljum fyrir okkur sé það sem við skömmumst okkar ekki fyrir eða fáum samviskubit yfir, – það er upphafið að vítahring vondra tilfinninga. – Ef við njótum ekki þess sem við erum að borða, sleppum því frekar. –
Njóttu meðvitað hvers munnbita! …..
- Þú getur ekki notið nema að vera almennilega svöng/svangur
- Þú getur aðeins notið þess sem þér finnst í alvöru gott
- þú hættir að njóta matarins þegar líkaminn er saddur
Við höfum val
Við höfum val um hreyfingu, mat sem örvar hvatberana okkar, hleður á okkur orku en ekki spiki og er fyrirbyggjandi fyrir sjúkdóma, val um orð til að nota í eigin garð og orð í garð náunga okkar. – (Orðin sem við beinum að náunganum virkar að sjálfsögðu sem bjúgverpill, þannig að þegar við formælum öðrum erum við að formæla okkur sjálfum) ..
…………
„Í allt líf er lögmálið ritað. Þú finnur það í grasinu, í trjánum, í ánni, í fjallinu, í fuglum himins, í fiskum sjávarins; en leitið aðallega að því í ykkur sjálfum“ …….
„Guð skrifaði ekki lögin á blaðsíður bóka, heldur í hjörtu yðar og anda yðar. Þau eru í andardrætti þínum, blóði þínu, beinum þínum; í holdi þínu, maga, augum þínum, eyrum þínum og í hverju smáatriði líkama þíns.“ –
(Texti úr Friðarguðspjalli Essena, að vísu í eigin þýðingu). –
„..en leitið aðallega að því í ykkur sjálfum.“ ..
„Guðs ríki er innra með yður.“ … sagði Jesús Kristur
Byrjum því heima, byrjum á að tína ruslið úr hausnum á okkur (sérstaklega skulum við fjarlægja súrar og útrunnar hugsanir) og setja í svarta poka til brennslu á Sorpu, síðan getum við, frá og með deginum í dag, ef við erum ekki þegar byrjuð, farið að skipta út ruslinu sem við höfum innbyrt fyrir það sem nærir. –
Þegar við förum að næra okkur með góðu verður minna pláss fyrir hið vonda. –
Það sama gildir með hið andlega, það sem við veitum athygli vex!
Smá frásögn til gamans þessu tengdu:
Ég sótti um embætti prests á Þingeyri. –
Þegar ég fór með umsóknina á pósthúsið, mætti ég manni sem ég hef ekki séð í mörg ár, en mamma hans er fædd og uppalin á: ÞINGEYRI
Þegar ég kom í vinnuna eftir að ég fór með umsóknina beið mín tölvupóstur frá ÞINGEYRI, en þar var aðili sem ég hafði aldrei heyrt né séð áður, að biðja mig um að halda námskeið. –
Ég kíkti á forsetaframbjóðendasíðu Þóru Arnórs, og það eina sem ég sá þar var að hún var á leiðinni til ÞINGEYRAR.
Og rúsínan í pylsuendanum: Ég fór að heimsækja mömmu á Droplaugarstaði og þar var auglýsing upp á vegg „Harðfiskur frá ÞINGEYRI“ …
Öll þessi athygli vegna þess að ég veitti því athygli! –
Þið þekkið það eflaust einhver að hafa keypt nýjan bíl og þá fyrst takið þið eftir öllum hinum sem eru eins. –
Ef við erum með orð eins og LEIÐINDI í höfðinu á okkur, þá veitum við vissulega öllu því leiðinlega athygli. – Ef við erum með orð eins og GLEÐI í höðinu á okkur þá veitum við gleðinni athygli. –
Hvort viltu hafa JÁ eða NEI í höfðinu? –
Það sem við veitum athygli VEX
Við getum nært hið jákvæða og við getum að sama skapi nært hið neikvæða.
Við getum nært gleðina og við getum nært sársaukann.
„Be the change … „ sagði Gandhi.
Dagur jarðar er þinn dagur, hver stund er þín stund, hver mínúta er þín mínúta og hver sekúnda er þín sekúnda, tileinkuð þér. – NÚNA –
Jörðin nærir þig, og þú nærir jörðina. –
Verum góð næring fyrir hvort annað.
Móðir vor sem ert á jörðu,
Heilagt veri nafn þitt.
Komi ríki þitt,
Og veri vilji þinn framkvæmdur í oss,
eins og hann er í þér.
Eins og þú
sendir hvern dag þína engla,
sendu þá einnig til oss.
Fyrirgefið oss vorar syndir,
eins og vér bætum fyrir
allar vorar syndir gagnvart þér.
Og leið oss eigi til sjúkleika,
Heldur fær oss frá öllu illu,
því þín er jörðin
Líkaminn og heilsan.
Amen “
(Bæn úr Friðarguðspjalli Essena í þýðingu Ólafs frá Hvarfi)
Gerum hreint fyrir okkar dyrum, gerum hreint innra með okkur. Komum svo til dyranna eins og við erum klædd, við höfum ekkert til að skammast okkar fyrir. –
Semjum um frið, hið innra og hið ytra.
Gefum okkur gaum, gefum náunganum gaum, gefum jörðinni gaum, gefum lífinu gaum… gefum.
Gleðilegan dag jarðar!