„Gættu að …. “

„Ómeðvitaður heimur skapar börnum sínum sársauka, – þess fleiri sem komast til meðvitundar og hætta að viðhalda sársauka bernsku sinnar og yfirfæra hann þar að auki á næstu kynslóð, því minni verður sársauki heimsins. – Þannig slítum við keðjuna.“

Þennan texta setti ég á hjartaáliggjandi fésbókarstatus í gær og fékk  „like-in“ hjá þeim sem skildu hann og voru sammála og fallega umsögn frá mætum manni og líka hjarta frá mætri konu. –

Stundum hittir eitthvað í mark sem við skrifum og segjum og stundum ekki. –

Þessi texti er skrifaður í einlægri ósk minni að við vöknum og förum að sjá eigin sársauka, förum að elska okkur nóg og virða til að leita okkur heilunar, tjá okkur um hann við einhvern eða einhverja sem við treystum og hætta þannig að lifa með hann og þannig varpa honum áfram á næstu kynslóð. –

Það er þegar okkur líður illa sem við segjum vonda og særandi hluti. Það er þegar við erum með grasserandi skömm innra með okkur sem við meiðum okkur og aðra. –

Ég er að vakna, hægt og rólega, og æfa mig að lifa „in presence“ – það er að vera viðstödd og vera áhorfandi að eigin tilfinningum.  Hvað er að gerast þegar ég verð reið,  er það fórnarlambsreiði = gremja,  og af hverju bregst ég svona við? –  Þegar við förum að sjá, vera meðvituð,  getum við breytt.  Eins og þota á flugi sem er komin út af sporinu,  flugmaðurinn stillir hana þá af, og við erum flugmaðurinn en fljúgum ekki á Auto Pilot. –

Stundum er eitthvað utanaðkomandi sem setur okkur alveg út af sporinu, og við, í ófullkomleika okkar getum ekkert að því gert, heldur hrökkvum í gamla farið eftir því sem við erum prógrammeruð.  –  Þá fyrirgefum við okkur það, lærum af því  og höldum áfram.  Hlæjum kannski að því eftir á.  Ég lenti sjálf í því sl. föstudag.

Ég fór til læknis út af verkjum fyrir brjósti, hann tók hjartalínurit sem sýndi að allt var í lagi og fór svo að hlusta mig og rak augun í örið á öxlinni á mér. –  Hann spurði hvað þetta væri og ég sagði eins og var að þarna hefði verið skorið burt sortuæxli 2008. –

Þá sagði hann í beinu framhaldi „Þá er best að senda þig í blóðprufu“  … ( ég var bara nokkuð róleg) …en svo spurði hann, „er eitthvað framundan hjá þér í dag“? –   „Eh, já, ég er að fara í jarðarför klukkan 13:00 í dag“ (klukkan var 11:50).  „Það er best að þú farir fyrir hana,  svo ég fái út úr þessu fyrir klukkan 16:00“ –  (Ég var að missa kúlið..) ..   Hvað hélt maðurinn? – ég vissi alveg hvað hann hélt, eða vildi útiloka a.m.k. – en þetta varð að algjörum úlfalda í hausnum á mér. – Hann klykkti svo út með því að hann myndi hringja og láta mig vita niðurstöðurnar. –   Ég fór auðvitað að fyrirmælum læknisins, fór í blóðprufuna og náði jarðarförinni og fór svo upp í vinnu, en var með lítið annað en úlfaldann í hausnum.  Klukkan varð fjögur og síminn hringdi, – ég hélt það væri læknirinn en það var sonurinn – sem ég næstum „hrinti“ úr símanum því ég væri að bíða eftir símtali frá lækni. –  (Ég var s.s. leiðinleg við soninn, en það gerist yfirleitt ekki þannig að utanaðkomandi áhrif voru farin að segja til sín).   Síminn hringdi EKKI og ég var ekki lengur með úlfaldann í hausnum, ég var úlfaldi. –

Ók heim á leið og þar sem ég ók upp í áttina að Túngötu frá Búllunni,  man ekki hvað gatan heitir,  þá stöðvaði bíll snögglega fyrir framan mig,  algjörlega án viðvörunar“  –  og þá kom það  /&&%$/&&%$  helv…. andsk… erkifífl…  og FLAAAAAAAAAUT …. – ég var brjáluð! …

Öll loforð um að blóta ekki náunganum voru horfin út um gluggann, allt „presence“ – öll viðveran og yfirvegunin rokin í burtu,  og hin óullkomna og skíthrædda Jóhanna öskraði þarna úr sér lungun, – angistin og óttinn  hafði tjáð sig  ….

Ég sem hélt ég væri ekki hrædd við dauðann!

Hvar var nú:  „Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt“ –  ???

Þegar heim var komið beið sonurinn þar og ég útskýrði fyrir honum af hverju ég hafði verið svona uppspennt í símanum og hann skildi það. –

Læknirinn hringdi svo klukkan sjö með þær fréttir að blóðsýnin sýndu ekkert óeðlilegt,  og léttirinn var mikill, líka í rödd hans.  –   Úlfaldinn hvarf,  varð ekki einu sinni að mýflugu, hann bara hvarf og ég sá,  auðvitað sá ég eftirá hvað hafði gerst.

Í huga mínum hafði ég tekið þetta alla leið, allt var búið – en símtalið var því eins og að fá fréttir um upprisu mína!   (Já, það er hægt að gera grín að þessu eftirá ;-))

Það  er svo margt sem hægt er að læra og nýta af svona reynslu.  Enn og aftur þakka ég fyrir að vera heilbrigð, en það er voðalega mannlegt að líta á heilbrigði sem sjálfsagðan hlut og yfirleitt ekki fyrr en við höfum smakkað á veikindum að við vitum hvers virði heilbrigðið er. –

Það er okkar að lifa með og rækta alla þá möguleika sem við höfum sem heilbrigðar manneskjur. –   Það er líka okkar að lifa með og rækta alla þá möguleika sem við höfum þegar við veikjumst.  Ekki búa til innri hindranir eða ímyndaðar hindranir.  –  Sjá þær sem eru raunverulegar,  sætta okkur við þær en ekki bæta við. –

Ég sjálf er „viðkvæmt blóm“ – en ég tel mig um leið afbragðs sterka, vegna þess að ég þori að viðurkenna það. –  Viðurkenna að ég er reyndar mjög ófullkomin, – og ég gleðst yfir þessum ófullkomleika.

Vegna þess að í ófullkomleika mínum næ ég tengingu við mun fleira fólk en ef ég væri fullkomin, eða réttara sagt léti sem ég væri fullkomin (því engin mannleg vera er fullkomin – nema í áðurnefndum ófullkomleika)  –  Í gegnum sársauka minn, gegnum það sem ég hef gengið í gegnum um læri ég að skilja betur annað fólk.

Líka hrokann í því, því ég er hrokafull.  Líka vonskuna í því því að ég er vond.

Ég á þetta allt til, en ég veit að þetta minnkar og minnkar eftir því sem ég geri mér grein fyrir orsökum þess, af hverju bregst ég svona við? –

Ég hitti einn nemanda minn fyrir utan bankann um daginn sem sagði: „Jóhanna – þú hefðir átt að verða forseti,  því að við þurfum forseta sem skilur fólk“ – (Þetta var ljósgeisli inn í daginn og viðurkenni að ég hef alveg þörf fyrir svona jákvæðni í minn garð við og við).    Ég veit reyndar að heimurinn er alls ekki tilbúinn til að taka við forseta sem er tilbúin/n að leggja tilfinningar sínar á borðið og játa sig ófullkominn, og hugmyndin um forsetaframboðið var meira táknræn en nokkuð annað, svona eftir á að hyggja. –  Að sýna að ég þyrði að bjóða mig fram ófullkomin kona úr ófullkomri fjölskyldu.  Með ófullkomna fortíð. –

Ég kann öll hlutverkin, get farið í hlutverk fínu frúarinnar og kann mig býsna vel.  Ég get leikið býsna margt. –

En mig langar ekki að leika hlutverk, mig langar að vera ég og geri mér grein fyrir því að það er aðeins hluti af heiminum sem tekur mér eins og ég er. – Ég er sátt við það. –  Hluti af heiminum tekur þér eins og þú ert og þú skalt líka vera sátt/ur við það.

Þarna úti er fullt af særðum börnum, við erum öll særð börn særðra barna.  Ekki vegna þess að foreldarar okkar eða við sem foreldrar vildum vera vond eða særa, bara vegna þess að við kunnum ekki betur. –

Þegar við segjum við barnið okkar að það sé frekt, það sé latt o.s.frv.  þá erum við að prógrammera það. –  Orðin eru álög, eins og Sigga Kling segir, – þess vegna er betra að leggja góð álög á börnin en vond og segja við börnin í staðinn að vera góð og vera dugleg, – nota jákvæða uppbyggingu í stað neikvæðrar. –

Þannig er örlítið dæmi um meðvitaðan heim. –

Við megum því vita það að skítkast og niðurrif í annarra garð, kemur ekki úr glöðu eða sáttu hjarta – það kemur frá vanlíðan, líka þegar ég geri það.  Þörf fyrir að meiða, vegna þess að við höfum einhvern tímann verið meidd. –

„Gættu að….  .. sungum við mörg í sunnudagaskólanum…

Gættu að þér litla eyra, hvað þú heyrir…

Gættu að þér litli munnur, hvað þú segir…

Gættu að þér litla hönd, hvað þú gerir…

Gættu að þér litli fótur, hvar þú stígur…

Ómeðvitaður heimur skapar börnum sínum sársauka, – þess fleiri sem komast til meðvitundar og hætta að viðhalda sársauka bernsku sinnar og yfirfæra hann þar að auki á næstu kynslóð, því minni verður sársauki heimsins.

– Þannig slítum við keðjuna ..

Gætum að okkur sjálfum og með því gætum við að náunga okkar. –


2 hugrenningar um “„Gættu að …. “

  1. Verð að viðurkenna að ég fór að gráta, það byrjaði er þú fórst til læknisins, gat eigi hugsað mér að þú yrðir veik aftur, er hann hringdi svo þá létti mér, en ég gei mér grein fyrir því að eitthvað annað var ég að gráta út og það er svo gott að gráta ég verð svo tær á eftir.
    Á þriðjudaginn fór ég í gangráðaeftirlit inn á Lansa, inn kom eldri maður og settist til að bíða rétt eins og ég, bauð góðan daginn og fór að tala um aldurinn og heilsubrestinn er ég var kölluð inn var maðurinn farinn að brosa og hann sagðist í raun vera þakklátur fyrir það sem hann ætti og ég var afskaplega glöð að hafa getað létt honum lundina.
    Er ég var á heimleið hugsaði ég hvað ég væri lánsöm að hafa fengið hjálp frá mínum æðri mætti til að vinna úr mínum málum og til að geta lifað í kærleikanum eins og ég geri eins mikið og ég kann.
    Takk Jóhanna mín fyrir ætíð góða pistla

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s