Við réttlætum hegðun sem er óréttlætanleg … vegna þess að við lentum í áföllum sem börn .

Ég var að hlusta á tvo af mínum uppáhalds „spekúlöntum“  ræða saman um  Donald Trump og Hillary Clinton.   Þá Gabor Maté og Russel Brand.   Þeir segja að þar sé um að ræða „Two traumatized leaders who are trying to rule a traumatized world“ ..
Trump hafi lent í margs konar áföllum sem barn – meðal annars föður sem beitti hann ofríki og niðurlægði hann – og að bróðir Trumps hafi drukkið sig í hel. –   Menn fara misjafnt að til að flýja sjálfa sig.

Hillary sé þannig að  meira að segja þegar hún var með lungnabólgu hélt hún áfram í kosningabaráttunni,   því það er það sem okkur er kennt, –  að sýna ekki „vulnerability“ eða  að við eigum að vera „dugleg og bíta á jaxlinn“ –    Vulnerability er ekki veikleiki,  – það er berskjöldun,  að sýna sig eins og við erum í raun og skammast okkar ekki fyrir það.  Ef við erum veik,  þá erum við bara veik og það er ekki skömm.

Hillary lét það yfir sig ganga að maðurinn hennar hélt fram hjá henni, –   og í raun réttlætti það.   Kannski ekki vegna þess að henni þótti það í lagi, eða aða að öllu leyti hans vegna  – heldur kannski vegna þess að hún gat ekki hugsað sér að missa manninn sinn /stöðu sína eða hvað það var sem hún var hrædd við að missa.    Einnig kemur hér stolt við sögu, –  „engin kona tekur manninn minn af mér“ ..     Auðvitað er forsenda hjónabansins brostin, –   eða kominn stór brestur í grunninn og spurning hvort að það sé þá ekta eftir það eða ekki? –

En nóg um Trump og Hillary.   Mér þykir þessi punktur um að réttlæta eitthvað fyrir sér,  –  vegna þess að óttinn við að missa er það mikill að það er horft framhjá  misgjörðinni eða óheiðarleikanum, eða hann málaður nýjum litum.

Við þekkjum það alveg að geta verið dómhörð í garð ókunnugs fólks, –   segjum að einhver hafi  beitt ofbeldi og við erum með það alveg á hreinu að þetta er óþverri þessi ofbeldismaður.    En um leið og það væri einhver nærri okkur,  þá koma aðrir faktorar inní, –  kannski er þetta maki okkar?    Hvað þá.    Ef okkur finnst óbærilegt að missa þennan maka – eða þá stöðu sem hann veitir okkur,   Þá förum við að búa til afsakanir og réttlætingar.     Þetta getur líka átt við samstarfsfólk.  Segjum að  það sé þín skoðun að samstarfsmaður þinn hafi ekki komið rétt fram við skjólstæðing,  – en  þú vilt ekki segja honum það því  það skapar  óróleika og leiðindi á vinnustað.     Þú heldur friðinn.  Það er auðveldara,  og kannski peppar þennan samstarfsmann upp –  „hva,  þú varst nú ekki svo dónalegur“ ..    en samt finnst þér annað. –

Við gerum þetta –   og þetta kallast í mörgum tilfellum meðvirkni og við verðum einmitt meðvirk  vegna einhvers sem við lærðum í bernsku.    Það er gott að líta í eigin barm og spyrja sig:  „Er ég að réttlæta eitthvað – einhverja hegðun sem er ekki réttlát vegna þess að ég vil halda í maka minn,  halda starfinu mínu,  halda friðinn? –

Vandamálið við að halda ytri frið, –  getur kostað okkur innri frið 😦   ..

Hvað ætli séu margir Trumpar og Hillary-ar   þarna úti, –   menn með mikilmennskubrjálæði og konur sem verða að vera duglegar og standa með manni sínum  „no matter what“ –  þá það kosti þær sjálfsvirðinguna? –

Hvað segir það um heiminn að þessi tvö hafi verið að keppa um að verða forsetar Bandaríkjanna – eða a.m.k. um Bandaríkin?    og að Trump hafi verið kosinn?     Jú,  það er reiði heimilisfaðirinn sem fólkið trúir,   þessi sem það innst inni er hrætt við en það er þessi óttablandna virðing sem það kannski ólst upp við sjálft? –

Við getum ekki stjórnað Trump eða Bandaríkjunum,  en við getum, hvert og eitt litið í eigin barm og spurt okkur hvar við erum stödd.   Líka hér á Íslandi,  hvers vegna kjósum við hina pólitísku leiðtoga sem eru við völd,   erum við með okkar Trump og Hillary?     Erum við sjálf að einhverju leyti að hegða okkur eins og þau. –

Endum þetta bara á Gandhi …

Verum breytingin sem við viljum sjá í heiminum …

 

4909647697_0b51baa80a

 

 

Prédikun í Uppskeru-og þakkarmessu í Minningarkapellu sr. Jóns Steingrímssonar, 4. nóvember 2018.

„Að tala er að sá – að hlusta er að uppskera.“

Þennan málshátt heyrði ég í fyrsta skipti við setningu Uppskeru-og þakkarhátíðarinnar hér á Klaustri sl.  fimmtudagskvöld.

Það var hún Eva Björk Harðardóttir,  oddviti Skaftárhrepss,  sem fór með þessi fleygu orð.  –  Orð sem eiga vel við á setningu uppskeruhátíðar og orð sem eiga vel við í Uppskeru – og þakkarmessu. –

Jesús segir dæmisögu af sáðmanni – og lýsir því hvernig fræið fellur í mismunandi jörð.     Við erum þessi jörð,  hvert og eitt okkar og hvernig við tileinkum okkur orðið sem við heyrum –  hvernig við hlustum og tileinkum okkur,  þá uppskerum við. –      En alveg eins og  þegar við erum að hlú að fræjum sem er sáð með að vökva og reita arfa,   eins þurfum við að hlú að því orði sem við heyrum og viljum svo sannarlega tileinka okkur. –

Það er alveg sama hversu margar bækur við lesum –  t.d. sjálfshálparbækur og við kinkum kolli og  segjum með sjálfum okkur;  já,  ég ætla sko að gera þetta!! – En ef það gleymist um leið og bókinni er lokað – þá hefur orðið fallið í grýtta jörð. –

Að tala er að sá – að hlusta er að uppskera.

Nú er það ég sem tala – og ég fæ að sá fræjum Guðs orðs, –  og eitt af því fallegasta af guðs orðum er orðið  „Þakklæti“   og  við  höfum útbúið styttingu á þessu orði og segjum einfaldlega „Takk“ –   „Takk fyrir mig“   og þegar við segjum Takk – og ástundum þakklæti fara töfrar að gerast,   og við getum sagt að „Takk sé töfraorð“ …     Þetta er ekki einungis eitthvað sem ég trúi eða aðrir,   það er hreinlega vísindalega sannað að fólk sem ástundar þakklæti  er glaðara og líður betur – en fólk sem  veit að það er gott að þakka,  hefur lesið um það – notar það jafnvel „spari“  –   en ástundar ekki þakklæti eða iðkar. –

Það var nefnilega gerð rannsókn  á stórum hópi fólks sem átti við þunglyndi að stríða.     Hópnum var skipt í tvennt –    og  annar hluti hópsins  var fenginn til að ástunda þakklæti með því að skrifa þakklætisdagbók.  –    Á hverju kvöldi í mánuð  skrifaði fólkð  niður a.m.k.  þrjú atriði í dagbókina sína sem það var þakklátt fyrir.    –      Hinn hluti hópsins var bara látinn halda áfram að gera það sem þau voru vön að gera. –      Hóparnir voru svo rannsakaðir eftir mánuð og þau sem höfðu ástundað þakklætið leið  mun betur en þeim sem höfðu ekki gert það og voru hamingjusamari.    Þessi grein – um hamingjuna og þakklætið birtist   í blaði sem kallast „The Harvard Magazine“   –   en eins og þið vitið er Harvard virtur háskóli,    en greinin bar nafnið  „The Happiness advantage“   eða „Hamingjuforskotið“ –
Ég heillaðist svo af þessari grein og þessum upplýsingum,  að ég fór með þessi fræði inn í kennslustund hjá Símenntunarmiðstöð –   en þar var fólk statt sem var í endurhæfingu eftir alls konar áföll og heilsubrest og var á leið út á vinnumarkað á ný. –       Ég lagði þetta verkefni fyrir hópinn að skrifa þakklætisdagbók,  og  viku síðar spurði ég hvenig hópnum gengi.   Sumir litu nú bara niður,  því þeir voru augljóslega ekki byrjaðir á þakklætisdagbókinni sinni,  en flestir voru farnir að prófa.  –   Ung kona rétti upp hönd og vildi deila sögu sinni með hópnum.    –  Hún sagði okkur frá því að hún hafði keypt bók fyrir sig og einnig fyrir strákana sína tvo,  en annar þeirra var haldinn miklum kvíða og átti erfitt með að sofna á kvöldin.     Hún ákvað að bera „orðið“  áfram til þeirra.   Þessi unga móðir sagði frá því að sonur hennar hefði sagt við hana:  „Mamma nú á ég auðvelt með að sofna,  því nú er ég ekki að hugsa um það sem ég óttast og kvíði –   því  nú hugsa ég   hvað ég á að þakka fyrir næst og hvað ég á að skrifa í bókina mína!   –
Það að hugsa fallegar hugsanir – og að hugsa um þakklætið  lætur okkur líða vel og við verðum glaðari.  –

Við uppskerum eins og við sáum segir Páll postuli í Galatabréfinu, –  og reyndar skrifar Páll postuli líka um það að Jesús hafi sagt að það sé betra að gefa en að þiggja.   En „Trixið“ við það –  þar sem ég var að tala um töfra hér á undan,  er að þegar við gefum,  erum við að þiggja um leið! –

Auðvitað er skemmtilegra að gefa þegar að þau sem taka við gjöfinni segja takk fyrir, –    því þakklætið er í raun endurgjöfin.   Og svo langar okkur svo miklu frekar að gefa þeim sem kunna að meta það sem við gefum,  því það gefur okkur meira.   –   Hugsið ykkur ef að enginn hefði komið að dansa á dansiballinu sl. föstudag –   þar var mætt hljómsveit til að gefa  skemmtileg lög.   En ef enginn hefði hlustað,  nú eða dansað – þá hefði það verið leiðinlegt fyrir þá sem voru að gefa – nú eða ef enginn mætti á myndlistarsýningu eða upplestur –   að gefa og þiggja virkar nefnilega eins og átta –  það fer fram og til baka.   Alveg eins og þakklætið og gleðin spilar saman,  það er engin gleði án þakklætis.

Ímyndið ykkur  að Guð se húsmóðir,  sem er búin að vera heima allan daginn og skrúra, skrúbba og bóna og laga dýrindis mat.   Fjölskyldan kemur heim og tekur öllu sem sjálfsögðum hlut –   sest svo við matarborðið og gúffar í sig matnum,  sem kannski tók marga tíma að undirbúa  – svona eins og jólamaturinn –  og svo myndu allir fara frá matarborðinu án þess að þakka fyrir sig.- reyndar er einn fjölskyldumeðlimur í einhverri ólund  og mætir ekki að matarborðinu –  og segist ætla að fá sér eitthvað annað síðar. –    Húsmóðirin sæti ein eftir eftir kvöldmáltíðina  –  eða væri staðin upp til að ganga frá.     Ætli hún sé glöð í hjarta –  hún mun eflaust  gera þetta aftur,   en ekki með þeirri gleði sem fylgir því  .. eða kannski missir hún bara áhugann á að halda heimili? –     Erum við nokkuð að gleyma að meta það sem Guð er að gera fyrir okkur?

Hvað er Guð að gera fyrir okkur hvern einasta dag? –   Hverjar eru gjafirnar okkar sem við gætum þakkað fyrir.     Í fyrsta lagi þá getum við öll hér inni dregið andann – svo við fáum súrefni.    Það gæti virkað sjálfsagt,  en það er því miður ekki alltaf sjálfsagt og sumir geta hreinlega ekki andað af sjálfsdáðum og þurfa því að vera tengdir við súrefniskúta.

Það er voðalega margt sem hægt er að þakka fyrir og í raun er listinn óendanlegur, – einhvers staðar stendur: „Það er alltaf, alltaf, alltaf,  eitthvað til að þakka fyrir“ ..

Þetta er  spurning um fókus –  á hvað erum við að einblína? –    Eigum við að hugsa um allt sem við höfum ekki og það sem okkur vantar, –  og þannig ástunda skorthugsun,  eða ætlum við að stilla okkur inn á það sem við höfum og þannig hreinlega lifa í þakklætinu? –

Allt sem þú veitir athygli dafnar og vex, –  og  það á ekki síst við um fólkið okkar.    Um húsmóðurina sem vill gera vel við fólkið sitt. –    Hvernig væri að við gætum glatt Guð,   með því að þakka fyrir  náttúruna,  fjöllin,  vindinn, – þakka fyrir fólkið okkar og svo framvegis.    Sælla er að gefa en að þiggja og við getum gefið Guði –  um leið og við þiggjum og veitum athygli allri þeirri dásemd sem hann gefur okkur. –

Leyfum okkur að hvíla í þakklætinu um stund – og svo áfram.  Tökum þessa Uppskeru – og þakklætishátið  inn í hjartað okkar og látum hana endast í heilt ár, alveg þangað til  hún verður haldin að ári. 

 

„Ég þekkti þig af afspurn … „

Prédikun flutt í Skálholtstsdómkirkju í október  2016   ..

Þú mátt vita að. . .

 

Þú getur ekki verið öllu fólki allt.

Þú getur ekki gert alla hluti í einu.

Þú getur ekki gert alla hluti jafn vel.

Þú getur ekki gert allt betur en allir.

Þú ert mannleg/ur eins og allir aðrir.

 

Svo. . . .

 

Áttaðu þig á því hver þú ert, og vertu það sem þú ert.

Taktu ákvörðun hvað er í forgang, og gerðu það.

Finndu styrkleika þína, og notaðu þá.

Lærðu að keppa ekki við aðra,

vegna þess að enginn er í keppni við þig,,  að vera þú.

 

Þá munt þú ..

 

Læra að samþykkja hversu einstök vera þú ert.

Læra að setja hlutina í forgang og taka ákvarðanir.

Læra að sýna þér þá virðingu sem þú átt skilið.

Og þú verður sprellifandi dauðleg vera.

 

Hafðu hugrekki til að trúa . . .

 

Að þú sért yndisleg, einstök vera.

Þú sért einstök persóna í mannkynssögunni.

Að þú hafir meira en rétt til að vera sá/sú sem þú ert.

Að lífið sé ekki vandamál til að leysa,

heldur gjöf til að virða og þú getir staðið með sjálfri/sjálfum þér

gegn hverri persónu eða hlut sem reynir að brjóta þig niður.

 

Það sem ég var að lesa hér,  er texti sem ég féll fyrir á elrendri netsíðu og þýddi.   Það sem kveikti hugrenningatengsl við texta dagsins var þessi setning:  „Hafðu hugrekki til að trúa“ ..  og að vera „sprellifandi dauðleg vera“ ..

 

Á hverjum mánudegi  opna ég „kirkjudagatalið“  á kirkjan.is,  – til að finna guðspjallstexta dagsins.  Það minnir pínkulítið á jóladagatal með súkkulaðimolum,   nema í þessu tilfelli eru molarnir guðspjallstextar.   Ég las áðan fyrir ykkur „mola“ dagsins eða texta ú 4. Kafla Jóhannesarguðspjalls, sem er texti þessa dags 21. Sunnudags eftir þrenningarhátíð.    Molarnir eru frekar ólíkir og ég verð að viðurkenna að ég tengi misvel við þá.   Stundum finnst mér þeir full rammir,  eins og mér þótti texti síðasta sunnudags,  þar sem orðalagið var svona varla við hæfi barna,  en hér í kirkjunni voru u.þ.b.  tíu börn undir fermingaraldri. –   Ég tók það fram þá og geri það aftur nú,  að auðvitað þurfum við að framreiða það í messu – eins og veislu –  sem er við hæfi þeirra sem mæta. –   Ég talaði um að molarnir væru súkkulaði, –  ekki vilja nú allir borða súkkulaði – svo við getum líka haft þá sem ávexti – að hver texti sé eins og epli eða banani J ..

Þegar ég sá textann,  um mann sem var að missa son sinn,  – og Jesú sem sagði: „hann lifir“ – þá minnti textinn mig á guðspjallstextann sem var lesinn 11. September sl. eða 16. Sunnudag eftir þrenningarhátið  – um ekkjuna sem var að fylgja syni sínum til grafar –  en Jesús kom þar að og sagði „„Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“  Sá texti var í Lúkasarguðspjalli.   Textinn í dag er frábrugðinn að ýmsu leyti – því þar er sonurinn ekki dáinn – heldur dauðvona.   Jesús ávarpar hann ekki beint, heldur er það faðirnn sem fær að heyra:  „sonur þinn lifir“ ..

Á undan hafði hann sagt:

„Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“

Það kemur svo fram að syninum hafði batnað – á meðan faðir hans hafði verið að tala við Jesú og einnig að allt fólkið hans hefði tekið trú EFTIR það. –

 

Það er auðveldara að trúa – EFTIR að við höfum séð það, er það ekki.   En er hægt að trúa því ef við höfum aldrei séð það?    Myndum við ekki efast?

 

Hverju erum við beðin um að trúa – í báðum þessum „kraftaverkasögum“  um soninn sem rís upp frá veikindum sínum og syninum sem rís upp frá „meintum“ dauða sínum? –    Við erum beðin um að trúa á lífið.  „Hann lifir“ ..      „Ég lifi og þér munuð lifa“ ..

 

Í bókinni  „A course in Miracles“  stendur þessi fallega setning:

„Nothing real can be threatened.

Nothing unreal exists.

Herein lies the peace of God.“

 

„Engu sönnu verður ógnað.

Ekkert óraunverulegt  er til.

Hér er friður Guðs fólginn.“
Engu sönnu verður ógnað ..    lífið er satt og því verður ekki ógnað…

Ættingjar piltsins sem hjaraði við eftir veikindi hans,  tóku trú – EFTIR kraftaverkið.   En Jesús hafði sagt „Þið trúi ekki NEMA þið sjáið undur og stórmerki“ ..

Stóra áskorunin okkar er að trúa –  án kraftaverkanna og án sannanna.  Það er að trúa því að líf sé alltaf líf.    Og þó að einhver deyi,  höldum við samt áfram að trúa á lífið.

Ung kona og móðir fór að heimsækja móðursystur sína sem lá banaleguna á elliheimilinu Grund, eins og það hét þá.   Móðir hennar og önnur móðursystir sátu yfir henni og hjúkrunarfræðingur kom til þeirra og sagði að það gætu varið klukkutímar og einnig dagar,  þar til hún skildi við.   Unga konan varð allt í einu eitthvað þreytt og sagðist ætla heim og leggja sig. –   Hún keyrði heim til sín, alla leið í Garðabæinn.   Lagðist í rúm dóttur sinnar,  og sagði krökkunum sínum að hún ætlaði að halla sér aðeins.    Hún vissi ekki alveg hvort þetta var í draumi eða vöku,  en henni fannst hún sjá fyrir ofan sig einhvers konar göng, –  jafnvel fæðingarveg ..      hún hugsaði með sér,   „Ef hún frænka mín er dáin núna trúi ég á einhvers konar  endurfæðingu“ ..  –   hún kallaði á krakkana sína og spurði þau hvað klukkan væri.  Hún er fjögur var kallað til baka. –    Hún tilkynnti krökkunum að hún ætlaði aftur á Grund,  hún væri eiginlega viss um að frænka þeirra væri búin að kveðja.  Þegar hún kom þangað spurði móðir hennar hissa,  „hvers vegna ertu komin aftur?“ –  Þá spurði hún:  „er frænka mín ekki dáin?“ .. Jú,  hún var að kveðja núna klukkan fjögur. –

Þetta eru eiginlega undur og stórmerki,  og ég hef þessa sögu frá fyrstu hendi, – því ég sjálf er þessi fyrrverandi unga kona.   Mér hefur alltaf þott þetta mjög sérstakt, og er reyndar ekki eina undrið sem ég hef fengið að þiggja.  Við erum reyndar öll að upplifa eitthvað undur,  en tökum kannski ekki eftir því.  –    Mér er í dag orðið tamara að tala um fæðingu til eilífs lífs en um „dauða“..     Kjarnaboðskapur kristinnar trúar er um upprisu til eilífs lífs, – svo það er nákvæmlega ekkert ókristilegt við það.

Það er mikil huggun sem felst í því að trúa að lífið sé eilíft og að ástvinir sem hafa „dáið“ – haldi hreinlega áfram að lifa í eilífðarlandinu – sem við sjálf erum hluti af.   Það má ekki gleyma því að við sjálf erum raunveruleg og við sjálf erum lifandi.

Jesús kom –  Guð sjálfur kom til að eiga mannlega tilveru.  –

Það er mikilvægt að trúa – „no matter what“  eða skilyrðislaust,   vegna þess að við vitum að trúin er ótrúlegt afl – sem svona næstum flytur fjöll.    Hún flytur fjöll að því leyti að hún hjálpar okkur að bera hið óbærilega og hún getur hjálpað okkur til að lifa lífinu í gleði yfir því hversu lífið er í raun stórkostlegt og raunverulegt.    Lífið er raunverulegt –  þó við getum ekki „komið við það“   …

Þegar við fæðumst til jarðneska lífsins – þá öndum við inn –  og þegar við fæðumst til andlega lífsins þá öndum við út. –   Síðasti andardráttur jarðneska lífsins er út.    Andardráttur í þakklæti fyrir  lánið á líkamanum.

Margt fólk talar um það hafi sína barnatrú,  – en barnatrúin ein og sér nær ekki utan um það þegar að fólkið þeirra kveður.     Sumt fólk trúir bara „að dauða“  ..   Hvað ef að sonurinn í frásögu Jesú hefði ekki lifað af veikindin? –  Hefði fólkið tekið trú?   Auðvitað spyr fólk sig,  bíddu, bíddu – Jesús læknaði fólk og reisti upp frá dauðum?   Hvers vegna ekki  barnið mitt,  systur mína, bróður minn – móður mína eða föður minn?

Var hann ekki bara að sýna þeim undur og stórmerki vegna þess að þau vildu sannanir fyrir eilífa lífinu? –

Þau sem trúa án sannanna –  án skilyrða –  jafnvel eftir að hafa misst allt sem þeim finnst nokkurs virði  – hafa ekki lengur „barnatrú“ –  heldur þroskaða og djúpa trú,   sem er samofin hverri frumu líkama þeirra og gerir þau  að sigurvegurum þessa lífs.    Það er saga í Biblíunni, nánar til tekið í Jobsbók –  um góða og grandvara manninn Job,  sem gerði allt rétt – og hann trúði að ef hann gerði allt rétt,  þá myndi ekkert slæmt koma fyrir hann   – en til að gera langa sögu stutta  missti hann allt,  heilsuna sína, fólkið sitt og allt það sem hann átti – nema sjálfan sig.   Job eignaðist sanna og einlæga  trú  – þegar hann áttaði sig á því að ekkert raunverulegt deyr – lífið deyr aldrei –  og við skulum enda þessa hugleiðingu á hans orðum þegar hann ávarpaði Guð.

„Ég þekkti þig af afspurn – en nú hefir auga mitt litið þig“ ..

Hafðu hugrekki til að trúa …

Guðspjallstexti dagsins:

Guðspjall: Jóh 4.46-53
Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“
Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“
Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“
Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.
Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk.

 

Að lifa í mínus eða plús …

Á námsárunum í Háskóla Íslands fór ég í starfsþjálfun á Eiðar,  og fékk að prédika í nokkrum kirkjum í sveitinni.  Þar á meðal í Valþjófsstaðakirkju.   Þar flutti ég prédikun eða hugvekju um tvo  ímyndaða bændur,   hann Manga á Mínusstöðum og Pál á Plúshóli. –

Siðan lýsti ég lífi þessara manna,  hvernig Mangi sá gallana við allt og hvernig hann lifði í skorti,  á meðan Páll sá leit á björtu hliðarnar og lifði í þakklæti. –

Það munaði ekki svo miklu á aðbúnaði þessara manna,  fjárhag eða aðstæðum,  en það var himinn og haf sem aðskildi hugarfar þeirra. –

Það er mikill munur á því að sjá glasið hálf fullt eða hálf tómt,  en samt er það sama glasið!

Stundum þarf fólk að reka sig  á til að læra hvað það á.    „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ ..     Ef við lítum bara í kringum okkur,  nákvæmlega núna,  hvað eigum við?   Eigum við vini?   Eigum við fjölskyldu?   Eigum við mat til að borða?  Eigum við ferskt loft,  vatn …   ?   Eigum við náttúru sem hægt er að njóta? –

Listinn er auðvitað óendanlegur,  en stundum gleymum við alveg að veita þessu athygli eða þakka fyrir þetta,  og ofan á það förum við að búa til „skortlista“  yfir það sem við eigum EKKI.  –  Þá fer að syrta í álinn, –   og við upplifum einhvern ómöguleika og vanlíðan.   Við sjáum ekki fjöllin,  við sjáum ekki allt sem við eigum,  eða fólkið okkar  – og hvað þá að við þökkum það!! .     Þá förum við alveg í mínus – eins og hann Mangi á Mínusstöðum. –

Ég fór einu sinni á fyrirlestur hjá Brian Tracy sem var að kenna okkur að ná árangri í viðskiptum.   „Success in Business“ ..  og ég áttaði mig á því,  einn daginn,  að sömu lögmál giltu um að ná árangri í andlegri líðan. –

Brian stakk upp á því að þó við værum blönk,  og bankabókin í mínus – ættum við að stofna annan reikning í plús.    Leggja  inn á hann 1000 krónur  (eða meira)   á mánuði og síðan ættum við að fylgjast vel með þessum reikningi og horfa á þennan bankareikning sem var í plús,  meira en mínusreikninginn.   (Ég gerði þetta). –     „Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar“ .. lögmálið gildir um þetta. –

Sama gildir um bankabók  skorts eða þakklætis,   það er hægt að opna þakklætisbankabók   og leggja reglulega inn á hana og  sjá hversu hratt vextirnir koma í plús. –      Það er vissulega hægt að vera upptekin/n af því sem skortir,  en spurning hvernig það lætur okkur líða?  –

Ath! Ég hef  sjálf óteljandi ástæður til að tína til og láta mér líða illa – og horfa á það sem mig skortir og ég sakna  – og stundum leyfi ég mér bara að líða illa,  syrgja og sakna,  alveg eins og stundum þarf ég að skoða bankabókina sem er í mínus.   En ég dvel ekki við það lengi,  vegna þess að það dregur mig niður.     Ég geri það meðvitað að velja þá lag til að hlusta á sem  hressir mig,  eða hringja í manneskju sem ég veit að „peppar mig upp“ – hugsa um allt sem ég hef og á  og fókusinn fer á bankabókina sem er í plús –  og þá fyllist hjartað af þakklæti og þar af leiðandi brýst gleðin fram.   (Við eigum gleðina öll innra með okkur,  en þakklætið er eins og framköllunarvökvinn sem þarf að hella á hana til að hún birtist).


Myndin er tekin úr stuttu kennsluhefti sem ég útbjó sem heitir „Vertu breytingin, veldu gleði“ …

10014975_10202808654431197_883445592_o (1)

Sjálfstyrkingarviðtal … er það eitthvað sem þú þarft? ..

Stundum þurfum við einhvern til að segja okkur að við séum verðmæt – vegna þess að okkur vantar trú.   Trúna á okkur sjálf.  –

Þar sem ég er guðfræðimenntuð – fæ ég stundum spurninguna: „Ertu nokkuð með trúboð í fyrirlestrunum þínum?“ –   Þá svara ég yfirleitt:

„Eina trúboðið sem er í gangi núna er  trúin á ykkur sjálf“ ..    🙂 

Það er svo ótal margt sem okkur langar að gera,  eða dreymir um að gera – eða þorum ekki að gera  – og í flestum tilfellum gætum við gert það,  en vantar sjálfstraust og trú á eigin verðmæti og getu. –  Þá getur verið gott að ræða við „trúboða“  um eigið ágæti 😀 ..

Svo getur verið að við þurfum smá hjálp við að tengjast tilfinningum okkar og viðurkenna þær  –  því án þess að finna tilfinningar okkar erum við ekki að vera til ..

Vilt þú vera til?   Ertu að þrauka lífið – eða lifa því? –   

Vertu velkomin/n í viðtal   –  hægt að panta í gegnum  johanna.magnusdottir@gmail.com
Er með aðstöðu á Merkurgötu í Hafnarfirði 
Viðtalið kostar 8000.-   krónur

Einnig hægt að óska eftir fyrirlestrum fyrir hópa eða félagasamtök   (get komið út á land líka)  

codependent-no-more

„Okkar mesti ótti er ekki óttinn við okkar eigin ófullkomleika. Okkar mesti ótti er sá að geta okkar er takmarkalaus. Það er ljóminn frá okkur, ekki myrkrið í okkur, sem hræðir okkur flest. Það að gera lítið úr þér mun ekki gera heiminum gagn. Það er engin birta falin í því að þú gerir lítið úr sjálfum þér í þeim tilgangi að draga úr óöryggi annarra. Okkur er öllum ætlað að ljóma, líkt og börn gera. Getan til þess er ekki bara í sumum okkar, þetta getum við öll – og er við leyfum okkar eigin ljósi að ljóma, þá gefum við ómeðvitað öðru fólki leyfi til þess sama. Þegar við erum þannig frelsuð frá okkar eigin ótta, frelsar framkoma okkar sjálfkrafa aðra í kringum okkur.“

Marianne Williamson

Sjálfstyrking og uppbygging eftir skilnað .. kvennanámskeið

Enn eru laus 2 sæti á námskeiðinu „Sátt eftir skilnað“  – sem haldið verður í Reykjavík  (Köllunarklettsvegi)   25. ágúst  kl. 09:00 – 16:00  og síðan eru fjögur skipti í eftirfylgni á miðvikudagskvöldum kl.  20:00 – 21:30.

Stórar breytingar í lífi okkar geta virkað eins og jarðskjálfti.  Allt það sem maður hélt að yrði hefur hrunið.  –  Og þá þarf að byggja upp á nýtt.  Stundum eitthvað eins og oft eitthvað öðruvísi. –

Í námskeiðinu Sátt eftir skilnað er markmiðið  að koma út úr þessum aðstæðum sterkari og með vald og ábyrgð á eigin lífi. –   Svo skaðar ekki að hitta konur  sem deila með reynslu sinni og eru með svipaðar hugleiðingar um lífið og tilveruna. –

Á námskeiðinu eru fluttir tveir fyrirlestrar  „Sorgarferli verður sáttarferli“  og  „Að þekkja verðmæti sitt“ ..     síðan er unnið saman úr þessum fyrirlestrum og hópurinn fylgist að í gegnum  tilfinningarnar sem óhjákvæmilega eru til staðar þegar lífið tekur óvænta stefnu. –

Námskeiðið kostar 32.900.-  krónur   og innifaldar eru léttar veitingar,   kaffi/te, kaffibrauð og ávextir – en hádegismatur laugardag er undanskilinn. –      Sniðugt fyrir hópinn að skreppa t.d. á Kaffi Laugalæk sem er í nágrenninu.

Ef þú vilt tryggja þér pláss –  hafðu samband  á johanna.magnusdottir@gmail.com

(Ef þú kemst ekki 25. ágúst en hefðir áhuga síðar –  er möguleiki að sett verði upp námskeið í   október – nóvember,  og sendu mér þá póst ef þú vilt fá fréttir af því).

Ef þú ert í stéttarfélagi verður hver og ein að athuga með möguleika á þátttöku í greiðslu,  en þetta flokkast undir  sjálfstyrkingu, lífsleikni eða annað slíkt.

Vertu hjartanlega velkomin!

Jóhanna Magnúsdóttir

win_20160119_195406

Ekki segja manneskju með tengslaröskun að hún þurfi bara að tengjast …

Tengslaröskun er upprunnin  í bernsku, –  það verður röskun í tengslum foreldris/foreldra og barns.

„Áföllin geta m.a.  valdið því að fólk þróar með sér varnarkerfi, sem heldur ætti að kalla varnarmúr, því stundum veldur hann einfaldlega félagslegri einangrun. Manneskja sem forðast tilfinningalega nánd með þessum hætti les minnstu boð og merki frá öðru fólki sem einhvers konar aðsteðjandi ógn og bregst við með því að draga sig í hlé, ögra og fæla fólk í burtu eða slíta tengslin án málalenginga.

Vörnin tekur hvorki tillit til rökhugsunar, né þarfa viðkomandi sem fullorðinnar manneskju, fyrir ást og kærleika. Varnarkerfið ályktar að  það sé farsælla fyrir viðkomandi að vera dapur og einmana, og um leið örugg/ur, en að liggja í sárum út af tengslamyndun við annað fólk.“  (þessi texti sem er í gæsalöppum er úr grein á Mbl.is )   en annað er mitt.

Ef við værum að vinna með manneskju með mænuskaða – sem sæti í hjólastól,  þá myndum við varla segja henni að hún þyrfti bara að standa upp! –

Það sama gildir með manneskju með tengslaröskun,  tengslin hafa skaddast – og hún á erfitt með að tengjast – og í því felst t.d. að treysta.    Á ensku er talað um „bonding“  eða að bindast. –

Við erum í raun öll „viruð“ fyrir  „Love and Connection“ eða  kærleika og tengsl.    Hvernig við virkum saman skiptir máli,  alveg eins og það skiptir máli hvernig frumurnar í líkamanum vinna saman. –

Ef við sæjum nú fyrir okkur manneskjuna sem er með tengslaröskun í andlegum hjólastól.  –  Hvað getum við gert fyrir hana – í stað þess að heimta að hún standi upp? –

Sýnt aðstæðum hennar skilning? –   Sleppt því að niðurlægja eða skamma hana fyrir að geta ekki tengst?   Sleppt því að hóta henni að ef hún geri ekki eins og við segjum,  að þá munum við yfirgefa hana – og neita að vinna með henni? –   Vegna þess að hún stendur ekki upp úr sínum andlega hjólastól? –

Manneskja með tengslaröskun,  situr ekki bara kyrr í sínum andlega hjólastól.  Hún öskrar,  hún berst um,  hún reynir að skemma enn meira fyrir tengslunum sem eru kannski að myndast – vegna þess að hún er hrædd um að missa þau aftur.   Hún vill vera við stjórn –  hafna áður en henni verður hafnað.

Þess vegna er best að sýna þessari manneskju skilyrðislausan kærleika.  – Engar hótanir – og ekki vera að biðja hana um að gera eitthvað sem hún getur ekki.    Við sýnum virðingu,  við gefum kærleika,  við erum þolinmóð – og við förum ekki í stjórnsama foreldris sjálfið þar sem við erum dæmandi, niðurlægjandi eða meiri máttar.   Við segjum ekki „svakalega ertu dónaleg/ur“  jafnvel þó okkur finnist það.   Notum frekar,  „ég boðin“   og tölum út frá okkar upplifunum svo að við séum ekki að bæta í vegginn á milli okkar og aðilans með tengslaröskunina  og segjum kannski –  „Þetta er mér eiginlega ekki boðlegt“ – eða „Ég myndi miklu frekar vilja betri samskipti við þig en þetta.“   Eitthvað uppbyggilegt.    Styðjandi  – og með ákveðin mörk, með því að segja hvað okkur er bjóðandi.

Þegar við skiljum hvaðan sú manneskja sem við erum að tala við kemur, –  þá vöndum við okkur í samskiptunum.   –  Það gildir í reyndar um öll samskipti, dæmandi  yfirlýsingar  sem valda jafnvel skömm hjá viðmælandanum,  munu aldrei bæta samskipti eða tengsl, heldur rjúfa þau enn fremur.

Þetta kemur í skrefum,  – og getur tekið gífurlega á.    Ef  að það eru ítrekuð áföll í æsku  sem hafa valdið tengslaröskun,  –  þá situr manneskjan uppi með mikil sár sem þurfa að gróa.   Til að þau grói þarf að hreinsa sárin og binda um þau – og þau þurfa umhverfi sem er hreint og uppbyggilegt. –      Manneskja með innri sársauka,  leitar að sjálfsögðu að einhverju til að deyfa þennan sársauka,   – og flýja hann.   Það er fíknin.    Það getur verið þörfin tyrir að fá sér sígarettu, –  mat,  föt  ..   það má kalla svo margt fíkniefni,  en sum fíkniefni fara um leið mjög illa með líkamann,  – svo þau eru misjafnlega hættuleg,  en öll hafa þau þennan sama tilgang.   Að deyfa sársaukann.     Andstæða fíknar er ekki edrúmennska –  heldur  tengsl og kærleikur.

Það er auðvelt að elska þann sem er elskulegur – en getur verið erfitt að elska þann sem öskrar á þig og er ósympatískur   EN  ef við eigum nægan kærleika,  og sjáum í gegnum hamaganginn – og að við vitum að allar manneskjur þrá í raun tengsl og kærleika,  en kunna ekki að biðja um það.  Þá vitum við það að kannski er manneskjan hreinlega í sjálfsskaða þegar hún er að berja frá sér.   Sumir skaða sig með því að skera í hold sitt. Sumir skaða sig með því að taka inn efni sem þeir vita að erum þeim óholl .  Aðrir skaða sig með því að skemma tengsl.

Hvers vegna í ósköpunum gerum við eitthvað sem er svona skaðlegt okkur sjálfum? –
Jú, m.a. vegna þess að einhvers staðar inni í okkur er þessi ranghugmynd sem hefur verið plantað á einn eða annan hátt,  að við ættum ekki betra skilið.   Það getur líka verið vegna ótta við að ef allt fer að ganga vel – og okkur fari að líða alvöru vel,  getum við misst þessa vellíðan og þá er betra að vera við stjórn og ákveða hvenær við missum hana,  en það sé ekki eitthvað sem komi að utan sem ákveður það! –

Það er eins og sá sem er hræddur við að elska,  því hann gæti lent í því að vera ekki elskaður til baka,  eða misst þann sem hann elskaði. –

En það er alltaf í lagi að elska.   Jú, við missum og það er vont,  en tilfinningarnar eru það fallegasta við tilveruna.    Við viljum ekki vera tilfinningalaus er það? –

Munum eitt –   að geta sýnt aðila skilyrðislausan kærleika er eitt það fallegasta sem við getum gert.    Þó hún geri ekki eins og við viljum eða segjum,  hegði sér öðru vísi. –  Þannig trúi ég líka einlæglega að við náum – smátt og smátt að eignast tengsl,   en við verðum að gefa henni tíma og þolinmæði. –

Það er óendanlega uppspretta kærleika sem rennur til okkar – og ef við erum í flæðinu – þá leyfum við þessum kærleika að fylla okkur og renna síðan til næsta og svo koll af kolli ..  þannig verðum við raunverulega rík  og náum öll að tengjast   ❤

Kanínana