Meðvirkni eða masókismi? …

Ég las eftirfarandi lýsingu á masókisma eða sjálfspíslarhvöt:

„Sjálfspíslahvöt: Að gefa upp hluta af sjálfum sér“

Þetta ofangreint er í grein þar sem  Haukur Ingi Jónasson, guðfræðingur og sálgreinir er að taka viðtal við Esther Menaker, bandarískan sálgreini –  og það sem hún segir m.a. um sjálfspíslarhvöt:

„Hugmynd mín um það sem ég nefni tilfinningalega sjálfspíslahvöt er sú að hún byggi í reynd á eiginleika einstaklingsins til að gefa upp hluta af sjálfum sér og vilja sínum. Þegar um sjálfspíslahvöt er að ræða gerir einstaklingurinn þetta til að forðast aðskilnað frá þeim eða því sem hann elskar. Löngun, þrám og þörfum er fórnað til að mæta þörfum annarrar manneskju. Hugsun og tilfinningu er fórnað til að forðast aðskilnað. Þetta sjáum við í ástarsamböndum þar sem fólk er tilbúið til að undirgangast miklar píslir og þjáningar í stað þess að missa. Slík sjálfspíslahvöt brýtur persónu einstaklingsins niður því hann/hún fórnar sér aðeins til þess að verða ekki yfirgefin(n). Sjálfspíningarhvöt þess sem meiðir sig líkamlega er þessu skyld, en er róttækara form þar sem bæld reiði, niðurlæging eða kynórar fá lausan tauminn og beinist gegn einstaklingnum sjálfum, oft með mjög alvarlegum afleiðingum.“

Ég skáletraði það sem hljómar alveg eins og lýsing á meðvirkum aðila.

Sá sem er meðvirkur (co-dependent) hegðar sér  svona,  og í bók Piu Mellody,  „Facing Codependence“  talar hún einmitt um að fólk stundi einhvers konar hryðjuverk gagnvart sjálfu sér. –

Það er þessi sjálfsfórn,  píslarvottahlutverk eða afsláttur af sjálfum sér,  löngunum sínum og þrám, – allt á þeim forsendum að þiggja ást eða viðurkenningu frá öðrum aðila eða aðilum. –

Þá spyrjum við af hverju? –

Því verður ekki svarað hér að fullu,  en hluti af svarsins liggur í eftirfarandi:

Vegna þess að viðkomandi upplifir sig ekki nægilega verðmæta/n án verkanna, án þess að fórna sér,  án þess að geðjast,  þóknast og vera í ýktustu tilfellum „undirlægja“ eða jafnvel það sem talað er um að bjóða sig fram sem dyramottu.

„Já, góðan daginn  – gjörðu svo vel að ganga á mér á skítugum skónum“ .. og svo í framhaldi koma væntingar  um þakklæti eða viðurkenningu fyrir fórnina..

Þarna er manneskja búin að fórna allri sjálfsvirðingu og mun varla fá hana frá samferðafólki.

Það er svo mikilvægt að hafa það í huga að við eigum ekki að þurfa að gefa upp neinn hluta af sjálfum okkur þegar við förum í samband, vinnu, eða í samskipti við fólk. –

Af hverju gerum við það? –  m.a. vegna þess að við erum með brenglað verðmætamat á okkur sjálf. –  Sækjum því í viðurkenningu fyrir það sem við gerum og lifum oft á kolröngum forsendum. –  Ekki til að njóta lífsins,  heldur til að þóknast umheiminum,  en það endar auðvitað með því að við vanvirðum lífið sem okkur var gefið. –  Okkar líf er ekkert ómerkilegra en líf annarra.

Hvað ef að þú gætir farið til baka,  horft á þig sem ungabarn í vöggu og segðir við það:  „Þú verður ekki verðmætt elsku barn,  nema að þú standir þig, sért duglegt í skóla, vinnu, eignist flottan maka, börn, bíl, hús og búir til fullt af peningum“..

Við erum enn þetta barn, bara fullorðið barn.

Að verða fullorðin/n þýðir ekki að við megum gera lítið úr verðmæti okkar.  Gera lítið úr gjöf lífsins.

Verðmæti barnsins er ekki metið í hinu ytra og verðmæti þitt sem fullorðinnar manneskju ekki heldur. –  Það er óbreytanlegt. –

Sjálfs-traust felst í því að meta þetta innra verðmæti.  Það er „self-esteem“  Það er ekki sjálfs-traust að byggja á því sem hið ytra færir okkur, – það kallar Pia Mellody „Other-esteem“  en við getum greint allt sem við köllum „the other“ eða hið ytra sem eitthvað sem er hverfult.  Meira að segja útlitið,  því við verðum öll gömul og hrukkótt einn daginn. –   Eða a.m.k. þau sem hafa farsæld til að lifa löngu lífi. –

Sjálfstraust er í raun virðing fyrir mannhelgi sinni,  þó við missum allt sem við merkjum okkur með og hengjum okkur á,  vinnu, vini, eignir o.s.frv.   þá missum við ekki okkur sjálf. –

Í raun er auðveldara að tína sjálfum sér þegar hið ytra er of ýkt, eins og dæmin sanna í heimi Hollywood stjarnanna. –  Þar er fólk farið að lifa eftir ytri væntingum um hver þau eru og í panikinu um að missa „aðdáendur“ fer fólkið að breyta sér með því að skera burt óæskilega hluta sjálfs sín, – breytir útliti sínu í örvæntingu við það að geðjast og passa inn í væntingarnar og formin  og  flýr sjálft  sig með  sílikoni eða bótoxi.

Það er ekkert skrítið að heimur fræga fólksins sé fullur af fíkn og fötum.

Verst þegar að slík hegðun er klöppuð upp af veikum heimi. –

Lifum heil og af heilu hjarta. –

Við þurfum ekki að vinna okkur inn fyrir ást,  raunveruleg ást er án skilyrða. –

Líka sjálfsást. –

Ath! – hægt er að lesa meira um meðvirkni á síðu Lausnarinnar http://www.lausnin.is

Greinina sem ég vísaði í má lesa ef smellt er HÉR

3 hugrenningar um “Meðvirkni eða masókismi? …

  1. Mjög góð grein og þörf í þessu samfélagi okkar. Man ég þá tíð í minni bernsku að sjálfálit var oft á tíðum ranglega greint sem sjálfselska, hégómi eða annað verra. Takk fyrir þetta 🙂

  2. Bakvísun: Mest lesið á árinu 2013 | johannamagnusdottir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s