Hvað ertu að hugsa?

Hugsanir eru ekki staðreyndir, ekki heldur þær sem við höfum hvað ástarsambönd varðar.. Það er til alls konar hugmyndafræði um sambönd og ástina eins og:

– Ástin er sársaukafull   (Love hurts)
– Það er ekki hægt að treysta konum/körlum
– Ég er ekki nógu góð/ur
– Hjarta mitt er lokað eða ég get ekki opnað hjarta mitt
– Ég er ekki elskaður/elskuð
– Það er engin/n meðvituð/meðvitaður  kona/karl á lausu
– Sambönd eru bara drama
– Það er ekkert til sem heitir „sönn ást“
– Ég er ekki nógu flott/ur/kynþokkafull/ur/verðmæt/ur
– Ég er of ung/ur / gamall/gömul fyrir ástina

Áttum okkur á því að við erum mjög líklega ómeðvitað að hugsa eina eða fleiri af þessum hugsunum.  Þær hafa stundum orðið til við vonda og/eða sársaukafulla fyrri reynslu

Þess vegna heldur fólk áfram að sækja tilfinningar úr fortíð og varpa þeim yfir á framtíð og varpa tilfinningum sem það hefur upplifað í fortíð í fyrra sambandi yfir á nýtt samband og yfir á nýjan maka.  Sum okkar hafa samsamað sig svo fullkomlega með þessum gömlu hugsunum og tilfinningum að þær lita alla tilveruna og verða eins og álög eða spádómur um framtíð sem við erum sjálf að uppfylla. 

Þegar samband gengur skrykkjótt – er það stundum vegna þess að við erum að varpa á það fyrri reynslu, nota útrunnar hugsanir og tilfinningar sem tilheyrðu öðru og liðnu tímabili á það sem er að gerast í dag.

Þegar við vörpum sárum en þó útrunnum hugsunum og tilfinningum yfir á samband – er það eins og að nýta  ruslahaug.

Það er því kominn tími til að kveðja gömlu hugsanirnar sem ekki þjóna okkur lengur – og taka upp nýrri og bjartsýnni hugsanir.

Engum – eða fáum, dettur í hug að borða mat sem er kominn langt yfir síðasta neysludag? –  Af hverju að nota andlegt fæði sem er orðið ónýtt og er skaðlegt heilsu okkar og hamingju?

Gætum að hvað við hugsum ..

(Þessi grein er endursögn af grein á síðunni Ascended Relatiionships)

Ég skrifa minna þennan mánuð – en er að halda dagbók á framboðssíðunni minni www.kirkjankallar.wordpress.com  en ég er að sækja um stöðu sóknarprests á sunnanverður Snæfellsnesi, vonast til að ég geti skrifað þaðan frá 1. desember nk. 🙂  Það vantar ekki orkuna frá Jöklinum.

1237725_718572361489869_2098217819_n

Hugsaðu þig „Upp“ …

Þegar við erum langt niðri – er það stundum vegna þess að við höfum sokkið í kviksyndi. – Ekki raunverulegt kviksyndi, eða það sem við sjáum með berum augum, heldur kviksyndi neikvæðra hugsana. –

Ef við höfum náð að hugsa okkur niður,  hver er þá aðferðafræðin við að komast upp? –  Jú, við hugsum okkur upp.

Það er það sem við erum að gera með því að æfa jákvæðar staðhæfingar í stað neikvæðra,  það er það sem við erum að gera þegar við erum að sleppa tökum á því sem þyngir okkur og heldur aftur af okkur þannig að við erum föst í kviksyndinu. –

Að hugsa upp er „tækið“ – og ef við eigum erfitt með að gera það sjálf þurfum við leiðsögn við að læra á „tækið“ –

Nýtt námskeið  – „Ég get það“ –  hefst 21. október nk.  Verið velkomin! –  Skráning HÉR  ath, að það er hægt að fara fram á skiptingu greiðslna í 3 hluta.

971218_563124067057884_436886814_n(1)

Er slóðinn varðaður með kærleika? …

Næstum daglega stöndum við frammi fyrir einhvers konar vali, – veraldlegu vali eins og  hvað við eigum að hafa í matinn, og svo vali um viðhorf. –

Ákvarðanir eru teknar og við tökum stefnu samkvæmt þeim, og svo kemur eitthvað upp á og þá breytist stefnan.

Oft heyrum við sagt „Ég veit ekki hvað ég vil“ –  eða „Ég veit ekki hvert ég er að stefna“ –

Þetta þýðir þó varla að við vitum ekki neitt.

Við getum byrjað að stilla upp fyrir okkur það sem við vitum, – flest fólk vill t.d. frið, gleði, ást, styrk o.s.frv. –  Þá er hægt að setja fókusinn þangað, eins og fram kemur í síðustu færslu sem nefnist: Hókus Fókus.

Það eru nokkur ár síðan ég sá tilvitnun frá Carlos Castenada og er hún eftirfarandi:

„Does this path have a heart? If it does, the path is good; if it doesn’t it is of no use.“  

Það er gott að hafa svona vörður, vörður hjartans – kærleikans – á slóðanum okkar.  Ef við lendum á gatnamótum og þurfum að velja á milli tveggja leiða, að spyrja okkur hvor leiðin færi okkur meiri kærleika, meiri ást – og þá allt sem áður er nefnt; gleði, frið og styrk. ❤

6a00d8344a59a353ef00e54f4fbf2d8834-800wi

Skammgóður vermir …

…að missa piss í skóna. –

Það neitar því þó enginn að það hitar,  en eins og segir í titlinum – það dugar skammt.

Talandi um skó, þá er það líka skammgóður vermir að kaupa sér skó! –  Hversu fljótt verða skórnir bara hversdagslegir og við þurfum næsta par til að „gleðja“ okkur?

Það sem ég er að byggja upp hér er smá umræða um það sem kallað er ytri markmið,  en áhrif þeirra er svolítið eins og þessi skammgóði vermir, – það kemur alltaf „hvað næst?“ .. Markmið sem virka svo stórkostleg þegar við höfum ekki náð þeim – eins og að fá gott starf – verður hversdagslegt þegar við erum búin að venjast titlinum. Makinn sem virkaði eins og fjarlægur draumaprins/prinsessa áður verður svona eitthvað sjálfsagður, við kunnum sjaldnast að meta hann/hana eða finnst hann/hún bara alls ekkert endilega uppfylla væntingar um þetta „drauma.“   Við förum í sólarferðina og hún er „púff“ búin. –

Sólin var skammgóður vermir,  því svo er komið heim á hið kalda Frón á ný og við þurfum smá aðlögun  á eftir – eftir að hafa fengið nasaþefinn af hlýju, kvartbuxum, að borða undir berum himni o.s.frv. –

Hvað er þá það sem endist og er ekki svona skamm-eitthvað?

Það er það sem er raunverulegt,  raunveruleg eign, innri fjársjóður,  lífsfylling sem er ekki frá okkur tekin –  ekki með því að verða atvinnulaus, makalaus, peningalaus o.s.frv. –   Það eru þessi uppfylltu innri markmið, ást, friður og gleði sem eru þarna til staðar til langframa,  sama hvað gerist hið ytra.

Sjálfsástin sem hlýjar innan frá – og hægt er að rækta með því að tala fallega til þessarar sálar sem er þarna fyrir innan,  tala t.d. fallega við okkur þegar við horfum í spegil.  Horfa framhjá hinu ytra, horfa djúpt í augun okkar – alveg inn í sál og segja:

Mikið svakalega elska ég þig í dag,  og taka svo tveggja mínútna kyrrðarstund þar sem við síðan lokum augunum og skynjum með hjartanu ljósið innra með okkur,  og hitann sem það gefur.  Það er ljósið sem ekki slokknar,  eilíft ljós meira að segja.  Þó allt hverfi – hið ytra, er þetta allt sem þarf.

Þetta er það sem má kalla „dýrðarlíkaminn“ sem rís upp á hinstu stundu,  en það má líka kalla dýrðarlíkamann; sálina.

Já núna fór ég allt í einu í prédikunargírinn, en það bara gerist – ræð ekkert við þessa fingur á lyklaborðinu, – ég held að þetta hljóti að vera „dýrðarfingurnir“  🙂

Elskum friðinn – strjúkum „dýrðar-kviðinn“ ..

733833_10201743643821718_1138113304_n

Að þroskast eftir skilnað ….

Reynsla mín af sorg – er sú að það er mjög erfitt að komast áfram ef við festumst í sorgarferlinu.  Sorg er yfirskrift yfir margar tilfinningar – og sorg er eitthvað sem við göngum í gegnum þegar eitthvað fer öðruvísi en við ætluðum.

Að festast í sorgarferli þýðir það t.d. að festast í reiði,  e.t.v. reiði út í maka vegna trúnaðarbrests.  Reiði út í maka fyrir að hafa brugðist,  – eða gremju hreinlega út í aðstæður,  svona átti þetta alls ekki að fara.

Það er ekkert nema eðlilegt að fara í gegnum sorgarferli,  en það er önnur sorg sem getur orðið meiri en hin eiginlega sorg eftir skilnað,  það er ef að enginn verði þroskinn,  en ég tel að ef að fólk lærir ekkert af þessu ferli og stöðvast í því eða flýi það þá komi ekki sá þroski sem okkur er ætlað að fá út úr ferlinu.

Sorg og þjáning er skóli – þungur skóli.

Diplóma þess skóla er sáttin,  og sáttinni náum við ekki nema að fara í gegnum tilfinningarnar, vð náum henni ekki í gegnum mat, áfengi, annað fólk – eða annan flótta eða bælingu tilfinninga.  Við verðum að taka þennan „bekk“ sjálf.

Margir skilja vegna þess að þeir telja sig ekki finna  hamingjuna í hjónabandinu –  en átta sig kannski ekki á því að í raun finna þeir ekki hamingjuna sem er innra með þeim sjálfum.

Í sjálfsrækt eftir skilnað er því nauðsynlegt og gagnlegt, að horfa inn á við – og fókusera á sjálfa/n sig.  Byggja sig upp, rækta og efla – virkja innri gleði, ást og frið.   Með því er líka verið að fyrirbyggja að farið sé í „sama“ sambandið aftur.

Það er ekkert á hverra færi að finna út úr þessu,  – en námskeiðin „Lausn eftir skilnað“ – byggja á því að viðurkenna sorgina eftir skilnað, gera sorgarferlið að þroskaferli og læra að setja fókusinn inn á við.  Ekki hanga á ásökun í garð makans,  jafnvel þótt hann hafi gerst brotlegur,  verið afskiptur eða tilfinningakaldur, –  ef fólk er skilið og ætlar að halda því til streitu þarf að taka fókusinn af fyrrverandi og setja hann heim á sjálfa/n sig. –

Enn er laust á námskeið sem hefst 5. október nk.  í Lausninni, námskeið fyrir konur í þetta sinn – og hægt að skrá sig ef smellt er HÉR   

Athugið að það eru engin tímamörk – hversu langt er liðið frá skilnaði,  þetta snýst ekki um tíma, heldur hvort að sátt sé náð eða ekki.  Stundum er fólk enn ósátt við sinn skilnað þó mörg ár séu liðin og er fast í gömlu fari.

Sáttin hefur þann töframátt að þá fyrst hefst nýr vöxtur.

552023_434727973207644_155458597801251_1864963_8980327_n

 

 

 

Ekki láta neikvætt fólk hafa áhrif ..

Mörg meðferðin ráðleggur fólki að klippa á samskipti sín við það fólk sem við eigum erfitt með að umgangast.  Það er oft auðveldara sagt en gert, sérstaklega ef þetta fólk er fjölskylda.-

Ef við hugsum neikvæðni sem myrkur og jákvæðni sem ljós, þá er eðlisfræðin þannig að ljósið sigrar myrkrið.  Þú kveikir á kerti í dimmu herberig og herbergið er ekki dimmt lengur. –  Dimman getur ekki verið þar sem er ljós. Ef þú kveikir á fleiri kertum verður enn meira ljós.

Þegar við förum í sjálfsvinnu,  þá liggur sú sjálfsvinna m.a. í því að uppgötva ljósmagnið hið innra.  Allt hið innra er eins og óþornandi uppspretta, en stundum þarf bara að skrúfa frá henni.  Fólk sem tjáir sem með neikvæðni sér ekki ljósið,  og/eða kann ekki að skrúfa frá þessum krana. –  Það hefur þó möguleikann að skrúfa frá okkar neikvæða krana, þ.e.a.s. ef við erum ekki sjálf ákveðin í að hafa hann lokaðan.

Ef við gerum okkur grein fyrir þessu, að það er undir okkur komið hvernig við bregðumst við neikvæðni, – að kannski þurfum við aðeins að herða og styrkja okkar eigin neikvæða krana og skrúfa betur frá þeim jákvæða,  þá förum við líka að átta okkur á okkar eigin ábyrg á okkar líðan.

Ef okkur líður illa i kringum neikvætt fólk, – sem er fjölskylda eða vinir, þá gætum við hreinlega sagt þeim frá því að það sé þarna einhver neikvæðni hið innra með okkur sem kviknar þegar neikvæð umræða fer af stað,  hvort þau myndu vera svo elskuleg,  – að halda neikvæðni í lágmarki í kringum okkur þar sem við hefðum í raun ekki meiri styrk en raun bæri vitni!

Ef þetta fólk raunverulega elskar okkur eða þykir vænt um þá verður það við beiðninni, – en annars hefur það val og við höfum þá gefið þeim tækifæri sem það hefði annars ekki fengið,  þ.e.a.s að við færum að hætta að umgangast það án þess að segja okkar hug.

Kannski er þetta ein af aðferðunum við að setja fólki mörk, þ.e.a.s. – hvað við látum bjóða okkur og hvers konar viðhorf umlykja okkar tilveru.

Svo höldum áfram að kveikja ljós og vera ljós.

Þökkum ljósið hið innra og biðjum um styrk til að láta það flæða.  Ef einhverjum líður illa með það ljós,  verður sá hinn sami að forða sér, en við eigum ekki að þurfa að hlaupa burt með ljósið.

1170720_498620266895180_1106913787_n

Á ég að týna mér eða þér? – um ójafnvægi í samböndum 1. hluti

Þessi pistill heitir á frummálinu:

„The split-level relationship“  og er eftir Steve Hauptman

Hér eru tvær spurningar sem við glímum við ef við viljum vera í heilbrigðu sambandi.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Þessum spurningum er ekki auðsvarað, en það er hægt að glíma við þær.

En það er glíman sem skiptir máli.

Af hverju?

Vegna þess að hún framkallar grunnþarfir þess sem við höfum fram að færa í hvaða sambandi sem er.

Samband (connection) og frelsi. 

Samþykki annarrar persónu og að samþykkja sjálfa/n sig.

Heilan og raunverulegan maka,  og á sama tíma, heila/n og raunverulega/n þig.

Tvo raunverulega og heila einstaklinga.

Flestir sem höfundur þekkir eru sannfærðir um að ekki sé hægt að vera heil (þau sjálf) bæði á sama tíma.

Flestir eru úr fjölskyldum –  sem hafa alkóhólískt – eða ofbeldistengt mynstur eða eru á annan hátt vanvirkar – og hafa þar af leiðandi ekki haft möguleikann á að finna jafnvægið milli þess að vera í sambandi og vera frjáls.

Það sem þau lærðu var að hafa eitt þýddi að missa hitt.  Annað hvort var það samband eða frelsi.

Það að ávinna sér ást og samþykki foreldra, til dæmis, þýddi það að fórna mikilvægum hlutum í lífi þeirra sjálfra,  eins og frelsinu við að tjá sig frjálslega eða að sinna eigin þörfum.

Það er í fjölskyldunni sem við ólumst upp sem hvert okkar lærði sitt persónulega svar við þessum tveimur spurningum.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Og svarið sem við tileinkuðum okkur varð að mikilvægum (þó að mestu ómeðvituðu) hluta grunnviðhorfa okkar til lífsins og sambanda okkar,  það sem höfundur kallar – okkar Plan A.

Sumir taka ákvörðun, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að hafa MIG, og til fjandans með ÞIG“ – sálfræðingar kalla þetta hið sjálfhverfa svar (The narcissistic answer.)

Önnur ákveða, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að haf ÞIG, og til fjandans með MIG“ – sem er hið „margfræga“ meðvirka svar.

Þá segir hinn sjálfhverfi maki  „ÉG fyrst,“ og hinn meðvirki svarar, „Já, elskan.“

Og þessar tvær persónugerðir enda saman með ótrúlega reglulegu millibili.

Þegar fylgst er með samskiptum þessa pars,  kemur  á óvart hversu fyrirsjáanleg samskiptin eru.  Í öllum aðstæðum finnur sjálfhverfi einstaklingurinn einhverja leið til þess að segja: „Ég fyrst/ur,“ og hinn meðvirki svarar „Já, elskan.“  Það er eins og þessir aðilar hafi sest niður fyrir langa löngu og skrifað undir samning um að gera þetta svona.

Sem þeir að hluta til gerðu.

Það hvernig þau svöruðu þessum tveimur spurningum hér að ofan,  eru að stærstum hluta ástæðan fyrir að þau löðuðust hvort að öðru.

Höfundur segir að flest pör sem leita ráðgjafar hjá honum fylgi þessu mynstri – svo mörg að hann ákvað að gefa þessu parasambandi nafn.

Hann kallar það „split-level relationship“ –  við gætum kallað það „samband á aðskildu plani“ –  eins og að par búi í pallaraðhúsi og annar aðilinn sé alltaf skör neðar en hinn.

Þessi sambönd á aðskildu plani ganga um tíma, en brotna yfirleitt alltaf upp.  Á einhverjum tímapunkti áttar annað hvort annar aðilinn eða báðir að þeir eru ekki að fá það sem þeir þarfnast úr sambandinu.

Hin meðvirku taka yfirleitt eftir því fyrst. Þegar þessi maki er kvenkyns getur þetta leitt til þess sem höfundur kalla „The Walk-Away Wife“ – „Eiginkonan sem gengur burt.“ –  Ég mun skrifa sérstaklega um það síðar.

En hin sjálfhverfu hafa tilhneygingu til að vera óhamingjösum líka. Þau kvarta um einmanaleika,  skort á nánd við hinn meðvirka maka, eða skort á virðingu og umhyggju.  Þau geta upplifað óþolinmæði,  eirðarleysi, pirring, gremju.  Stundum neyta þau áfengis, eiturlyfja, ofnota mat, lifa í reiði eða halda framhjá, og líður svo illa með það.

Allt þetta á sér stað vegna þess að þessi sambönd á misjöfnu plani eru ófrávíkjanlega óheilbrigð.

Kunnugleg, vissulega.  Jafnvel þægileg, að því leyti að fólk veit hvað það hefur.  (Öryggistilfinningin).

En þessi sambönd eru ekki heilbrigð.  Þessi svör sem mynda ójafnvægi og samböndin á misjöfnu plani eru byggð á geta ekki uppfyllt tilfinningaþörf tveggja fullorðinna einstaklinga.  Og það endar með því að báðir aðilar upplifa sig svikin,  án þess að skilja hvers vegna.

Hvernig er batinn hjá svona pari?

Þá er hlutverkum víxlað.

Hinn meðvirki einstaklingur verður að þróa með sér hugrekki og æfa sig í að standa upp fyrir sjálfum sér.

Hinn sjálfhverfi  verður að þróa með sér samhug og æfa sig í að stíga niður,  æfa sig í að gefa í stað þess að heimta.

Auðvelt?  Nei.  Fyrir hvorugt þeirra er þetta auðvelt.

Aðeins nauðsynlegt til að vera á sama plani.  (Búa á sömu hæð).

Þýðing – Jóhanna Magnúsdóttir – http://www.johannamagnusdottir.com

„Á snældu skaltu stinga þig … „

Þyrnirós svaf í heila öld – en svo vakti prinsinn hana með kossi ..

Ég heyrði af manni, hér í Danmörku, – þar sem ég er stödd núna, sem stakk sig í fingurinn – ekki á snældu – heldur á þyrni.   Hann hugsaði ekki mikið um það en líkaminn gleymdi því ekki,  því að það fór að koma illt í puttann og hann bólgnaði og varð tvöfaldur ef ekki þrefaldur að stærð, – síðan fór hann að fá verk alveg upp í handlegg svo honum leist ekki á blikuna og fór til læknis.  Maðurinn var þá kominn með ígerð í fingurinn og blóðeitrun.   Skera þurfti í fingurinn til að ná út ýmsu sem þar var farið að grassera.  Maðurinn var frá vinnu í einhverjar vikur út af þessu.

Stundum verðum við fyrir svona andlegum stungum,  allt frá því sem við teljum ekki svo mikið upp í eitthvað sem er mjög mjög sárt þegar það gerist.  –

Í mörgum tilfellum fer eitthvað að grassera,  grafa um sig innra með okkur og hafa áhrif á sálarlífð.  Það er því miður ekki eins augljóst og ígerð eða blóðeitrun sem hægt er að mæla með tækjum og sést með berum augum.

Það sem fer að grafa innra með fólki eftir andlegar stungur er skömmin,  og hún er þá sambærileg við gröftinn sem þarf að hleypa út og við blóðeitrunina sem þarf að fá pensillín við.

SKömminni þarf að hleypa út,  öllum þessum hugsunum,  meðvituðum eða ómeðvituðum sem hafa áhrif á sálarlíf einstaklingsins.

Ex-pression er enska orðið fyrir tjáningu.  Það þarf að ná skömminni út og það er gert með því að tjá sig um atburðinn,  að deila sögu sinni.  Ekki sitja uppi með hana ein/n.

Ekki halda leyndarmál einhvers –  það er líka samfélagslegt góðverk að segja frá svo fleiri geti forðast brenninetlur og þyrna.  Líka fyrir annað fólk sem þarf hvatningu til að leita sér aðstoðar við að hreinsa út gröft og eitur.

Já – skömmin er eitur.

Við þurfum öll að vakna – ekki sofa Þyrnirósarsvefni og missa þannig af því að lifa lífinu.   Vakna til meðvitundar um að það að stinga sig eða vera stungin er ekki til að halda leyndu.   Því fyrr sem brugðist er við því betra.

Ef ekkert er að gert getur slíkt haft banvænar afleiðingar.

Við eigum ekki að þurfa að þegja yfir sögu okkar og hver við erum.  Það er þvingandi og setur okkur í fangelsi hugans.

Með nýjum hugsunum – pensillínii hugans –  frelsum við okkur úr ánauð þess atburðar sem kveikti upphaflega á skömminni.  Við hættum að láta eins og ekkert sé, hættum að fela og hreinsum hana út.

Kannski var það prins eins og rannsóknarprófessorinn Brené Brown sem hefur stúderað skömm og mátt berskjöldunar í yfir 12 ár,  sem vakti okkur til meðvitundar með kossi sínum.

Það er gott að það er til fólk sem hefur þessa ástríðu,  þessa ástríðu að skilja hvernig lífið virkar – hvernig við hugsum og hvað hugsanir okkar hafa mikið vald yfir lífi okkar.

Það að upplifa skömm er ein tegund trúar, trúarinnar að vera ekki nógu góð og stundum bara næstum ónýt. –

Frelsið felst í því að hætta að trúa að við séum óverðug ástar, óverðug þess að eiga góð tengsl við annað fólk – óverðug þess að yndislegur prins eða prinsessa komi inn í okkar líf.

Við getum þegið þennan koss lífsins og verðugleikans hvenær sem við viljum.  Við getum rofið álög nornarinnar þegar vð viljum,  eða hvað?

Jú, við getum það með þeirri trú að við eigum gott líf skilið.

Enn og aftur – þetta snýst allt um trú.

Hverju við trúum um okkur sjálf.

Hvað átt þú skilið?

coexist_with_respect_bumper_sticker-p128636613026383655en8ys_400

 

Gleðjumst yfir okkar innra ljósi ..

Marianne Williamson – er einn af þessum andlegu gúrúum sem ég hef aðeins verið að fylgjast með,  en eins og ég hef útskýrt áður þýðir gú-rú víst frá myrkri til ljóss. –

Á heimasíðu Marianne er hægt að finna margt áhugavert og m.a. eftirfarandi texta, að sjálfsögðu er orginalinn á ensku,  en þegar ég ætlaði að fara að snara honum á íslensku ákvað ég að leita hvort að einhver hefði ekki gert það fyrr og sú var raunin,  svo ég gerði í raun bara „kópí-peist“ –   svo textinn er í boði Marianne Williamson og þýðandans Svans Gísla Þorkelssonar.

En hann hljóðar svona:

„Það sem við óttumst mest er ekki að við séum ófullkomin. Það sem við óttumst mest er að við séum óendanlega voldug. Það er ljósið í okkur, ekki myrkrið, sem við hræðumst mest. Við spyrjum sjálf okkur að því;“hvers vegna ætti ég að vera snjöll, fögur, hæfileikarík og fræg?“ Spurningin ætti frekar að vera, „hvers vegna ekki ég.“ Þú ert barn Guðs. Að látast vera lítilfjörlegur þjónar ekki heiminum. Það er ekkert göfugt við að skreppa saman svo fólk finni ekki fyrir óöryggi í nálægð þinni. Við vorum fædd til að opinbera dýrð Guðs sem er innra með okkur. Hún býr ekki aðeins í sumum okkar, heldur öllum. Þegar þú lætur eigið ljós skína gefur þú ómeðvitað öðru fólki leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við losnum við eigin ótta, frelsar nærvera okkar sjálfkrafa aðra.“

Marianne Williamson (þýðing Svanur Gísli Þorkelsson)

Þetta er í raun mikilvæg samantekt á því sem ég hef verið að skrifa um,  eins og mikilvægi þess að leyfa ljósi sínu að skína, – það er ekki nýr sannleikur og kemur t.d. fram í Biblíunni.

Líka mikilvægi þess að gera ekki lítið úr sjálfum okkur og það að okkar eigin ljós á ekki að skaða annarra ljós.

Margir eru hræddir við að láta ljós sitt skína, og margir eru hræddir við að vera glaðir.  Já, – nýlega komst ég yfir efni sem fjallaði um það að í raun væri gleðin eitt af því sem við óttuðumst.

Um leið og við förum að finna fyrir mikilli vellíðan eða gleði – þá byrjum við að skemma og hugsunin fer í gang „hvenær hættir þetta“ –  „þetta getur nú ekki enst lengi“ .. og svo framvegis.

„Of gott til að vera satt“ –   ef eitthvað er gott og okkur líður vel og erum glöð þá er okkur óhætt að njóta stundarinnar,  ekki skemma hana með því að hugsa að hún endist ekki,  að einhvern tímann muni þetta hætta og eitthvað verra taki við.

Ýmsir af þessum meisturum eða gúrúum tala um „The present moment“  eða Núið.  Að njóta Núsins,  og er Eckhart Tolle kannski þar fremstur meðal jafningja enda skrifaði hann bókina „Mátturinn í Núinu.“

Það er svo gaman að orðaleiknum, „Present“ – og tengist textanum frá Marianne.  Því auðvitað er present ekki bara núið heldur líka þýðir það gjöf.   Lífsins gjöf.  Þegar við erum „present“ erum við viðstödd.  Viðstödd –   stöndum í núinu.

Þegar við erum viðstödd (okkur sjálf) eigum við auðveldara með að tengjast okkar eigin innra ljósi en ef við erum fjarri – ef hugurinn er einhvers staðar annars staðar.

Innhverf íhugun er hugsun um þetta innra.  Við tengjum hugann við ljósið,  í stað þess að vera með hann á flökti út um allar trissur, hvort sem það er í öðru fólki eða á öðrum tíma.

Ef við erum ótengd þá höldum við að við verðum glöð „þegar“  – þegar eitthvað hefur gerst – eða þarna,  þ.e.a.s. á öðrum stað.

Auðvitað hefur umhverfi áhrif, fólk hefur áhrif.  En ef við erum ekki tengd okkar innra ljósi,  þá verðum við aldrei ánægð og finnst alltaf eins og okkur skorti eitthvað. –

Þá skiptir engu máli að fara í „draumaferðina“ til Parísar,  eða á sólarströnd, eða hvert sem ferðinni er heitið.   Ef við erum ekki með sjálfum okkur,  við erum absent eða fjarverandi okkur sjálf þá njótum við ekki stundarinnar, – erum ekki „present“ – erum ekki að njóta þessarar dýrðar sem okkur er gefin,  okkar innri fjársjóðs.

Þess vegna er þetta svo magnað – þessi áskorun að vera ekki í óverðugleikahugsuninni, –  heldur að sjá okkar innra ljós og upplifa innra verðmæti,  og ekki síst vegna þess að við gerum heiminum ekki gagn með því að gera lítið úr gjöf Guðs,   lífinu sjálfu, úr okkur sjálfum.

shine-large

Þetta snýst allt um trú …

Þegar ég skrifa trú, þá er ég ekki að tala um trú sem trúarbrögð,  en við erum svo fátæk í íslenskunni að trú er notað um faith, belief og religion,  kannski fleira.

Trúin sem ég er að tala um hér er hugmyndir eða sú trú sem við höfum um okkur sjálf, getu okkur og um hvernig við erum og hvað við gerum. –

1174682_501815599908980_883015767_n

Snýst um trú á sjálfan sig og trú á að lífið komi til móts við okkur.

Ótti – kvíði – stjórnsemi – óöryggi o.fl eru einkenni þess að skorta trú.

Við trúum ekki á okkar hæfileika, við trúum ekki að við eigum allt gott skilið, við trúum ekki að okkur geti gengið vel,  við trúum ekki að við finnum góðan maka, við trúum ekki á að við finnum starf sem er áhugavert, við trúum ekki að við eignumst draumahúsið o.s.frv. –  Svo er það hið innra, við trúum ekki að við náum heilsu, náum sátt, náum að finna frið o.s.frv. –

Við getum lesið alla „The Secret“ – og allar sjálfshjálparbækur,  en ef við trúum engu sem þar stendur þá gera þær ekkert gagn.

EInhvers staðar stendur að trúin flytji fjöll.

Þau sem hafa trú á markmiðum sínum ná frekar árangri,  þau sem leyfa sér að leggjast í hendi trúarinnar og efast ekki þau uppskera oftast samkvæmt því. –

Það er þessi BELIEF – TRÚ  – eða HUGMYNDAFRÆÐI um okkur sjálf sem skiptir máli. – Ekki hvað aðrir hugsa, og við megum ekki gera það heldur að okkar trú eða hugmyndum – heldur hvað við hugsum í okkar höfði, eða hverju við trúum.  Ef við trúum að við séum heppin erum við fókuseruð á heppni.  Ef við trúum að við séum óheppin þá sjáum við ekki einu sinn þó að það liggi þúsund kall á götunni,  því við erum svo viss um að við séum svo óheppin.

Þetta með trúna og óheppnina sannaði Darren Brown í mynd sem hann gerði um „The Lucky Dog“ –  þar sem hann (ásamt hjálparfólki) náði að sannfæra fólk um að ef það snerti styttu af hundi – sem var algjörlega valin af handahófi,  yrði það heppnara. Og það var reyndin.  Hægt er að sjá heimildarmynd um þetta á Youtube.

Svo það þarf bara að fara að trúa, eða skipta út trúnni.

Í staðinn fyrir að nota alls konar setningar eins og

„Ég ætla að reyna að gera það“

„Ég ætla kannski að gera það“

„Ég vona að ég geti það“

„Ég er ekki viss um að ég geti það“

þá segjum við einfaldlega:

„ÉG GET ÞAГ  .. og við trúum á okkar mátt og megin,  það sem okkur er gefið hið innra. – Losum okkur við það sem íþyngir eins og ótta, skömm og efa – og höldum áfram í góðri trú.

Það munu koma hlykkir á leiðina, – og stormar,  en trúin er lykilatriðið.   Ef við erum í vanda með það,  þá þurfum við að biðja fyrir okkur að öðlast meiri trú – og fá styrk við það.   Trú á kærleika, jákvæðni og gleði. –

Við getum líka þakkað fyrir hvað við erum heppin að svo mörgu leyti. –

Við höfum öll máttinn (og dýrðina),  en við þurfum að læra að nota hann.  Leita inn á við, – leita ekki langt yfir skammt.

Þessi pistill er grundvallandi fyrir því sem ég er að fara að kenna – núna á örnámskeiði kl. 18:00 -20:00 í dag í Lausninni,  Síðumúla 13, 3. hæð.   Sjá http://www.lausnin.is

971218_563124067057884_436886814_n(1)