„Remember who you are“ … eða Mundu þig er að einhverju leyti skrítin yfirlýsing – eða hvað? – Í minningarbókunum skrifuðum við „Mundu mig, ég man þig“ – en munum við okkur sjálf, eða hver við erum og hver erum við? –
Erum við sama manneskjan og skrifaði í minningarbókina? – Já, – en við erum ekki lengur barn í grunnskóla, ekki 12 ára og kannski komin í vinnu, búin að eignast heimili, maka, börn, komin með stóran maga og menntun og e.t.v. hrukkur? –
En breytir það einhverju um það hver við erum? – Nei, vegna þess að við erum ekki aldurinn okkar, útltið, stétt, staða í þjóðfélagi o.s.frv. –
Þetta undantalið er allt sem við erum ekki, – við erum ekki það sem er breytanlegt, heldur það sem er varanlegt. –
Það er gott að spyrja sig „hvað varir?“ – Líkaminn breytist óumflýjanlega – umhverfið breytist – eigurnar breytast … en hvað varir? Ég tel að við séum andlegar verur sem séum í heimsókn á „hótel jörð“ .. við látum glepjast af þessu veraldlega – umhverfinu og því hvernig kroppurinn lítur út, eins og við séum útlitið okkar. – Það er yndislegt að rifja upp hver við erum í raun og veru og upplifa frelsið við að þurfa ekki að lifa eftir væntingum hins veraldlega, væntingum sem eru í raun aldrei almennilega uppfylltar og skapa því oftast vonbrigði. – Elskum að vera þau sem við erum, og „minnumst“ okkar. – Svæfum ekki andann með fíknum og flótta.
Hvað varir? – hvað er eftir af þér þegar búið er að tína burt titla, stöðu, stétt, útlit, eigur o.s.frv.? Einhver vera – nafnlaus – allslaus bara vera sem er, eins og Guð er.
Það er þessi varanlega vera – sem er eitt með lífinu – sem er sú sem gott er að minnast, minnast þess að hún er.
Mundu þig, ég man mig – munum okkur.