Eru væntingar foreldranna að valda börnum kvíða? …

„Stolt af mínum, hann var að útskrifast með 9.9 úr gáfumannaskóla“
„Stolt af minni, hún var að fá gullmedalíu í getþaðalltíþróttinni“ ..

Það eru aðallega mæður sem pósta einhverju um börnin sín þegar þær eru stoltar af þeim, – pabbarnir eflaust sumir eitthvað, en ég sé meira svona a.m.k. á fésbókinni frá mömmum. Pressan kemur vissulega stundum frá pöbbunum, en ég ætla í þessum pistli aðallega að fjalla um samband mæðra og barna sinna og hvernig sjálfsmynd mæðra virðist oft standa eða falla með árangri barna þeirra. –

Fyrsti fyrirlestur um meðvirkni, er um innra sjálfmat og verðmæti. Þar er kennt um „self esteem“ og „other esteem“ eða sjálfsmat og annað mat – eða ytra mat.
Þegar við fjöllum um innra verðmæti, er útskýrt að hver og ein manneskja er verðmæt og ekki hægt að hengja merkimiða eða skilgreina hana út frá hvað hún gerir. Hún bara fæddist verðmæt og heldur verðmæti sínu svo lengi sem hún lifir. Þetta ytra eða „other“ er það sem við gerum, afköstum, stétt, staða, nú afrek barna o.s.frv. –

Fókusinn hefur yfirleitt verið á hið ytra, og það getur verið MJÖG skaðlegt.

Af hverju?

Tökum dæmi um tvær mæður sem hafa eignast eitt barn. Önnur á barn sem hefur náð miklum sýnilegum árangri og dúxar m.a. í menntaskólanum. Hin á barn sem hefur ekki náð miklum sýnilegum árangri, reyndar hefur strögglað við skólagöngu, og nær jafnvel ekki að útskrifast úr framhaldsskóla. –

Hvor móðirin er verðmætari?

Auðvitað er ekki hægt að vega verðmæti móður, eða nokkurrar manneskju á barnafjölda, eða gjörðum barnanna, ekki frekar en á því að móðir sem á fimm milljónir í banka, er ekki verðmætari manneskja en sú sem skuldar fimm milljónir. –

Er það allt móður að þakka, kenna, hvernig barninu gengur?

Við vitum ekki öll smáatriðin á bak við þessa tvo einstaklinga, uppeldisaðstæður eða umhverfi mæðranna, uppeldisaðstæður eða umhverfi barnanna.

Það er sjálfsagt að vera stolt af börnum sínum, en ekki byggja sína eigin sjálfsmynd á hvort að barnið stendur eða fellur í skóla, hvort það stendur eða fellur gagnart vímuefnum. –

Það er mjög mikilvægt að muna eftir óbreytanlegu verðmæti, sérstaklega þegar barninu gengur ekki vel í þessu ytra. Bæði óhagganlegu eigin verðmæti og barnsins.

Af hverju?
Jú, vegna þess að um leið og við byrjum að draga úr verðmæti okkar, skammast okkar fyrir okkur sjálf, eða börnin okkar, erum við að rífa okkur og hamingju okkar niður. – Dómharka er aldrei góð, og ekki heldur í eigin garð. Andstæða dómhörku er skilningur, skilningur á aðstæðum. Ef ekki tekst sem skildi, er sjálfsagt að skoða aðstæður og skilja aðstæður, alveg eins og þegar nemandi fellur á prófi í skóla. Þá er ekki að leggjast í skömm og sjálfsvorkunn, „ég er ómöguleg/ur“ „ég er heimsk/ur“ .. o.s.frv. eða það sem gerist líka stundum að foreldrarnir, öskra eitthvað álíka á barn sitt. Það á ekki að vera fyrsta hugsun barns (unglings) þegar það fellur í prófi „Ó hvað segir mamma, nú hef ég valdið henni vonbrigðum“ – …(hún getur ekki montað sig á facebook???) …
Væntingar foreldranna geta virkað öfugt, þ.e.a.s. væntingar foreldra sem vilja að börnin standi sig, til að sýna fram að þeir sjálfir hafi staðið sig. Það eru svo hrikalega rangar forsendur.

Það er gleði hvers og eins að ná prófi, fyrir SIG, fyrst og fremst. En ef okkur er kennt að gera allt eða mikið á forsendum annarra, þá erum við að gera það á kolröngum forsendum. Við erum þá alltaf að þóknast eða geðjast öðrum, en vitum e.t.v. ekki hvort við séum að gera það sem okkur langar.

Börn þurfa að fá að vita og skilja af hverju þau eru að læra, af hverju þau eru í skóla, af hverju þau þurfa að ná árangri, og það á að vera þeirra ánægja og yndisauki, vegna þeirra þroska. Ekki til að standast væntingar foreldra, því það er kvíðaaukandi.

Ef þú ert foreldri að lesa þetta, passaðu þig á því að þú gætir verið komin/n í einhvern sjálfsfordæmingagír, en þá ertu orðinn þinn eigin foreldri að dæma þig. Hvert og eitt okkar, kemur með ákveðna færni inn í foreldrahlutverkið, færni sem er yfirleitt lærð af okkar eigin foreldrum. Hvernig var okkar eigin mamma? Var hún dómhörð? Jákvæð? Neikvæð? Þurftum við að standa okkur til að fá viðurkenningu. Vorum við stolt eða skömm móður okkar? –
Það sem við getum gert, sem foreldrar, er að rifja upp verðmæti okkar, – og það sem við getum gert er að hætta sjálf að vega okkur og meta verðmætið eftir hinu ytra. Meta verðmæti okkar út frá starfi, hvernig maki okkar stendur sig eða lítur út, hvernig bíl við keyrum, skólagöngu o.s.frv. – Þegar við hættum því þá erum við farin að varpa því yfir til barnanna að við sjáum hvar verðmæti þeirra liggur. Að við tökum þeim eins og þau eru, fögnum árangri þeirra og þá helst árangri þeirra í því að vera hamingjusöm. Það skiptir í raun öllu máli.

Hamingjan við að ná prófi, er sönn hamingja, en hún er aðeins skyndihamingja – og varir ekki. Þegar víman rennur af, kemur „hvað næst“ …

Hamingjan er að lifa í sátt við sjálfan sig, hamingjan er vegurinn en ekki ákvörðunarstaðurinn.

Ef að við göngum með kvíða í langan tíma, kvíða jafnvel við að standast ekki væntingar – þá erum við ekki að ganga lífsgönguna á réttan hátt.

Það er því mikilvægt að hver fullorðin manneskja geri sér grein fyrir því að hún þarf ekki að sanna sig eða tilvist sína með prófum. Hún þarf ekki að sanna að hún sé elsku verð með dugnaði eða verkum. Hún er alltaf elsku verð og viðurkenningar verð. –

Við höfum vaknað upp, og þegar við erum vöknuð vitum við að það mikilvægasta í þessum heimi er að fá að ganga lífsgönguna á okkar eigin forsendum, – af því okkur langar, af því að við erum að gera það sem við og vegna eigin væntinga, en ekki væntinga umheims, ekki væntinga foreldra. –

Verum við sjálf, og leyfum börnunum að vera þau sjálf.

Það getur bjargað mannslífi.

Hvernig?

Jú, skömmin er ein versta tilfinning mannlegrar tilveru, hún er þannig að við skömmumst okkar fyrir hver við erum, og ef við skilgreinum okkur út frá því hvað við gerum, út frá „mistökum“ okkar, þá getur hún orðið það óbærileg að við erum ekki tilbúin að horfast í augu við heiminn. – Ef við erum í fjárhagslegum vanda, ef okkur verður á, á einn eða annan hátt, og það fyrsta sem kemur í hugann er dómur samfélagsins og allra sem okkur tengjast, að við höfum valdið ÖÐRUM vonbrigðum og getum ekki horfst í augu við samfélagið, hvað þá?

Við lærum svo lengi sem við lifum, – ef þú hefur lesið þetta, vona ég að þú skiljir mikilvægi þess að efla innra verðmæti, og skiljir mikilvægi þess að efla innra verðmæti barnanna.

Það þýðir að við segjum þeim hversu þakklát við erum fyrir þau, hversu þakklát við erum fyrir það sem þau eru, en ekki bara hvað þau gera. Segjum þeim að við elskum þau, núna, ekki bara þegar þau koma heim með einkunnirnar eða árangur í íþróttum, listum o.s.frv. –

„Sama hvað gerist og sama hvernig fer, ég mun alltaf elska þig, mistök eru til að læra af þeim, – þeir sem aldrei gera neitt, gera væntanlega ekki heldur mistök“ ..

Þessi pistill er orðinn lengri en ég ætlaði í upphafi, en þetta er (augjóslega) mitt hjartans mál.

Elskum skilyrðislaust, og verum viss um að þau sem eru í kringum okkur viti af því, og þurfi ekki að vinna fyrir viðurkenningu á sinni tilveru.
Elskum líka skilyrðislaust, eina mjög áríðandi manneskju í okkar lífi, – þessa sem er mest áríðandi að við elskum, – og það er að sjálfsögðu við sjálf.

Hamingjan er að lifa í sátt við sjálfa/n sig, hamingjan er vegurinn en ekki ákvörðunarstaðurinn.

Að elska sig er að taka ábyrgð á eigin lífi. Ekki láta mömmu þína bera ábyrgðina, hún gerir það svo sannarlega í fyrstu, en þegar þú ert farin að ganga má hún ekki halda aftur af þér, með því að treysta þér ekki fyrir sjálfum/sjálfri þér. Ábyrgð móður er algjör í fyrstu, meðan við erum í móðurkviði og síðan foreldranna beggja eftir fæðingu, og samfélagsins. Síðan minnkar þessi ábyrgð (eða á að gera það) í takt við okkar eigin þroska, og svo verðum við fullorðin, og þá erum við komin sjálf með þessa ábyrgð. Ef að mamma kann ekki að sleppa á réttum stöðum, missum við þroska, missum við gleði. Og ef að mamma ætlar að taka sér fulla ábyrgð á okkur, – og við verðum sjálfsmynd hennar, þá yfirfærist ábyrgð hennar á sjálfri sér á okkur, – og sú ábyrgð er of mikil fyrir nokkra manneskju að bera, að bera ábyrgð á lífi móður sinnar, – þ.e.a.s. hvort hún sé glöð, hamingjusöm, stolt eða skammist sín. –

Meðvirkni verður til þegar við reynum að fá frá öðrum það sem við höldum að við höfum ekki sjálf.

Verðmæti okkar verður aldrei metið eftir börnum, eða afrekum þeirra. Því hvað með þá konu sem á ekkert barn? –
Samgleðjumst börnunum þegar þau ná árangri – það er þeirra sigur fyrst og fremst. En munum að þau eru einstaklingar, sem eiga ekki að sjá mömmu, pabba eða aðra í speglinum þegar þeir skoða sýna sjálfsmynd. Þau eiga að sjá SIG. Týnd sjálfsmynd, er eitt af birtingarformum meðvirkninnar, – og hún týnist þegar við erum sífellt að lifa eftir röddum annarra, eftir vonum og væntingum þeirra, en ekki okkar eigin.

Hvatning, stuðningur og aðstoð við börn á að miðast að því að við séum að kenna þeim að vera sjálfbarga og sjálfvirk, – kenna þeim að bera ábyrgð á sjálfum sér fyrst og fremst. – Börn eiga ekki að bera ábyrgð á foreldrum sínum eða hamingju foreldra sinna, það er fyrst þegar foreldrar eldast eða veikjast þegar við getum farið að segja það sanngjarnt að börn fari að sinna því hlutverki gagnvart þeim sem foreldrarnir gerðu á sínum tíma fyrir börn sín. – Að annast þau, þar sem þau geta ekki sjálf.

Það verða að vera skýr mörk á milli sjálfsmynda okkar og foreldra, milli sjálfsmyndar okkar og barna og milli sjálfsmyndar okkar og maka.

Við erum ekki börnin okkar ..
Við erum ekki foreldrar okkar ..
Við erum ekki makar okkar ..
Við erum ekki samfélagið ..
Ég er ég og þú ert þú, hvert og eitt – einstakar perlur, og þó við séum í sömu perlufestinni erum við alltaf sýnileg hvert og eitt.
Börnin eru líka einstakar perlur, en ekki framlenging af foreldrum sínum.
Samþykkjum börnin hér og nú, ekki þegar og ekki ef, því þá kennum við þeim að samþykki fyrir tilveru þeirra sé skilyrt af ytri aðstæðum. Hvort þau nái ákveðnum árangri eða ekki.

Konur, sérstaklega, eru oft háðar samþykki mæðra sinna, – eru þær nógu duglegar? – Nógu flottar? – Nógu mjóar? … og þegar mamman er komin í kör, eru þær komnar með mömmu inn í heilann. „Allt fyrir mömmu“ – „Allt að þakka/kenna mömmu“ .. vegna þess að fyrst sleppti mamma ekki, en síðan sleppa þær ekki mömmu. –

doreen

Færðu inn athugasemd