Eru væntingar foreldranna að valda börnum kvíða? …

„Stolt af mínum, hann var að útskrifast með 9.9 úr gáfumannaskóla“
„Stolt af minni, hún var að fá gullmedalíu í getþaðalltíþróttinni“ ..

Það eru aðallega mæður sem pósta einhverju um börnin sín þegar þær eru stoltar af þeim, – pabbarnir eflaust sumir eitthvað, en ég sé meira svona a.m.k. á fésbókinni frá mömmum. Pressan kemur vissulega stundum frá pöbbunum, en ég ætla í þessum pistli aðallega að fjalla um samband mæðra og barna sinna og hvernig sjálfsmynd mæðra virðist oft standa eða falla með árangri barna þeirra. –

Fyrsti fyrirlestur um meðvirkni, er um innra sjálfmat og verðmæti. Þar er kennt um „self esteem“ og „other esteem“ eða sjálfsmat og annað mat – eða ytra mat.
Þegar við fjöllum um innra verðmæti, er útskýrt að hver og ein manneskja er verðmæt og ekki hægt að hengja merkimiða eða skilgreina hana út frá hvað hún gerir. Hún bara fæddist verðmæt og heldur verðmæti sínu svo lengi sem hún lifir. Þetta ytra eða „other“ er það sem við gerum, afköstum, stétt, staða, nú afrek barna o.s.frv. –

Fókusinn hefur yfirleitt verið á hið ytra, og það getur verið MJÖG skaðlegt.

Af hverju?

Tökum dæmi um tvær mæður sem hafa eignast eitt barn. Önnur á barn sem hefur náð miklum sýnilegum árangri og dúxar m.a. í menntaskólanum. Hin á barn sem hefur ekki náð miklum sýnilegum árangri, reyndar hefur strögglað við skólagöngu, og nær jafnvel ekki að útskrifast úr framhaldsskóla. –

Hvor móðirin er verðmætari?

Auðvitað er ekki hægt að vega verðmæti móður, eða nokkurrar manneskju á barnafjölda, eða gjörðum barnanna, ekki frekar en á því að móðir sem á fimm milljónir í banka, er ekki verðmætari manneskja en sú sem skuldar fimm milljónir. –

Er það allt móður að þakka, kenna, hvernig barninu gengur?

Við vitum ekki öll smáatriðin á bak við þessa tvo einstaklinga, uppeldisaðstæður eða umhverfi mæðranna, uppeldisaðstæður eða umhverfi barnanna.

Það er sjálfsagt að vera stolt af börnum sínum, en ekki byggja sína eigin sjálfsmynd á hvort að barnið stendur eða fellur í skóla, hvort það stendur eða fellur gagnart vímuefnum. –

Það er mjög mikilvægt að muna eftir óbreytanlegu verðmæti, sérstaklega þegar barninu gengur ekki vel í þessu ytra. Bæði óhagganlegu eigin verðmæti og barnsins.

Af hverju?
Jú, vegna þess að um leið og við byrjum að draga úr verðmæti okkar, skammast okkar fyrir okkur sjálf, eða börnin okkar, erum við að rífa okkur og hamingju okkar niður. – Dómharka er aldrei góð, og ekki heldur í eigin garð. Andstæða dómhörku er skilningur, skilningur á aðstæðum. Ef ekki tekst sem skildi, er sjálfsagt að skoða aðstæður og skilja aðstæður, alveg eins og þegar nemandi fellur á prófi í skóla. Þá er ekki að leggjast í skömm og sjálfsvorkunn, „ég er ómöguleg/ur“ „ég er heimsk/ur“ .. o.s.frv. eða það sem gerist líka stundum að foreldrarnir, öskra eitthvað álíka á barn sitt. Það á ekki að vera fyrsta hugsun barns (unglings) þegar það fellur í prófi „Ó hvað segir mamma, nú hef ég valdið henni vonbrigðum“ – …(hún getur ekki montað sig á facebook???) …
Væntingar foreldranna geta virkað öfugt, þ.e.a.s. væntingar foreldra sem vilja að börnin standi sig, til að sýna fram að þeir sjálfir hafi staðið sig. Það eru svo hrikalega rangar forsendur.

Það er gleði hvers og eins að ná prófi, fyrir SIG, fyrst og fremst. En ef okkur er kennt að gera allt eða mikið á forsendum annarra, þá erum við að gera það á kolröngum forsendum. Við erum þá alltaf að þóknast eða geðjast öðrum, en vitum e.t.v. ekki hvort við séum að gera það sem okkur langar.

Börn þurfa að fá að vita og skilja af hverju þau eru að læra, af hverju þau eru í skóla, af hverju þau þurfa að ná árangri, og það á að vera þeirra ánægja og yndisauki, vegna þeirra þroska. Ekki til að standast væntingar foreldra, því það er kvíðaaukandi.

Ef þú ert foreldri að lesa þetta, passaðu þig á því að þú gætir verið komin/n í einhvern sjálfsfordæmingagír, en þá ertu orðinn þinn eigin foreldri að dæma þig. Hvert og eitt okkar, kemur með ákveðna færni inn í foreldrahlutverkið, færni sem er yfirleitt lærð af okkar eigin foreldrum. Hvernig var okkar eigin mamma? Var hún dómhörð? Jákvæð? Neikvæð? Þurftum við að standa okkur til að fá viðurkenningu. Vorum við stolt eða skömm móður okkar? –
Það sem við getum gert, sem foreldrar, er að rifja upp verðmæti okkar, – og það sem við getum gert er að hætta sjálf að vega okkur og meta verðmætið eftir hinu ytra. Meta verðmæti okkar út frá starfi, hvernig maki okkar stendur sig eða lítur út, hvernig bíl við keyrum, skólagöngu o.s.frv. – Þegar við hættum því þá erum við farin að varpa því yfir til barnanna að við sjáum hvar verðmæti þeirra liggur. Að við tökum þeim eins og þau eru, fögnum árangri þeirra og þá helst árangri þeirra í því að vera hamingjusöm. Það skiptir í raun öllu máli.

Hamingjan við að ná prófi, er sönn hamingja, en hún er aðeins skyndihamingja – og varir ekki. Þegar víman rennur af, kemur „hvað næst“ …

Hamingjan er að lifa í sátt við sjálfan sig, hamingjan er vegurinn en ekki ákvörðunarstaðurinn.

Ef að við göngum með kvíða í langan tíma, kvíða jafnvel við að standast ekki væntingar – þá erum við ekki að ganga lífsgönguna á réttan hátt.

Það er því mikilvægt að hver fullorðin manneskja geri sér grein fyrir því að hún þarf ekki að sanna sig eða tilvist sína með prófum. Hún þarf ekki að sanna að hún sé elsku verð með dugnaði eða verkum. Hún er alltaf elsku verð og viðurkenningar verð. –

Við höfum vaknað upp, og þegar við erum vöknuð vitum við að það mikilvægasta í þessum heimi er að fá að ganga lífsgönguna á okkar eigin forsendum, – af því okkur langar, af því að við erum að gera það sem við og vegna eigin væntinga, en ekki væntinga umheims, ekki væntinga foreldra. –

Verum við sjálf, og leyfum börnunum að vera þau sjálf.

Það getur bjargað mannslífi.

Hvernig?

Jú, skömmin er ein versta tilfinning mannlegrar tilveru, hún er þannig að við skömmumst okkar fyrir hver við erum, og ef við skilgreinum okkur út frá því hvað við gerum, út frá „mistökum“ okkar, þá getur hún orðið það óbærileg að við erum ekki tilbúin að horfast í augu við heiminn. – Ef við erum í fjárhagslegum vanda, ef okkur verður á, á einn eða annan hátt, og það fyrsta sem kemur í hugann er dómur samfélagsins og allra sem okkur tengjast, að við höfum valdið ÖÐRUM vonbrigðum og getum ekki horfst í augu við samfélagið, hvað þá?

Við lærum svo lengi sem við lifum, – ef þú hefur lesið þetta, vona ég að þú skiljir mikilvægi þess að efla innra verðmæti, og skiljir mikilvægi þess að efla innra verðmæti barnanna.

Það þýðir að við segjum þeim hversu þakklát við erum fyrir þau, hversu þakklát við erum fyrir það sem þau eru, en ekki bara hvað þau gera. Segjum þeim að við elskum þau, núna, ekki bara þegar þau koma heim með einkunnirnar eða árangur í íþróttum, listum o.s.frv. –

„Sama hvað gerist og sama hvernig fer, ég mun alltaf elska þig, mistök eru til að læra af þeim, – þeir sem aldrei gera neitt, gera væntanlega ekki heldur mistök“ ..

Þessi pistill er orðinn lengri en ég ætlaði í upphafi, en þetta er (augjóslega) mitt hjartans mál.

Elskum skilyrðislaust, og verum viss um að þau sem eru í kringum okkur viti af því, og þurfi ekki að vinna fyrir viðurkenningu á sinni tilveru.
Elskum líka skilyrðislaust, eina mjög áríðandi manneskju í okkar lífi, – þessa sem er mest áríðandi að við elskum, – og það er að sjálfsögðu við sjálf.

Hamingjan er að lifa í sátt við sjálfa/n sig, hamingjan er vegurinn en ekki ákvörðunarstaðurinn.

Að elska sig er að taka ábyrgð á eigin lífi. Ekki láta mömmu þína bera ábyrgðina, hún gerir það svo sannarlega í fyrstu, en þegar þú ert farin að ganga má hún ekki halda aftur af þér, með því að treysta þér ekki fyrir sjálfum/sjálfri þér. Ábyrgð móður er algjör í fyrstu, meðan við erum í móðurkviði og síðan foreldranna beggja eftir fæðingu, og samfélagsins. Síðan minnkar þessi ábyrgð (eða á að gera það) í takt við okkar eigin þroska, og svo verðum við fullorðin, og þá erum við komin sjálf með þessa ábyrgð. Ef að mamma kann ekki að sleppa á réttum stöðum, missum við þroska, missum við gleði. Og ef að mamma ætlar að taka sér fulla ábyrgð á okkur, – og við verðum sjálfsmynd hennar, þá yfirfærist ábyrgð hennar á sjálfri sér á okkur, – og sú ábyrgð er of mikil fyrir nokkra manneskju að bera, að bera ábyrgð á lífi móður sinnar, – þ.e.a.s. hvort hún sé glöð, hamingjusöm, stolt eða skammist sín. –

Meðvirkni verður til þegar við reynum að fá frá öðrum það sem við höldum að við höfum ekki sjálf.

Verðmæti okkar verður aldrei metið eftir börnum, eða afrekum þeirra. Því hvað með þá konu sem á ekkert barn? –
Samgleðjumst börnunum þegar þau ná árangri – það er þeirra sigur fyrst og fremst. En munum að þau eru einstaklingar, sem eiga ekki að sjá mömmu, pabba eða aðra í speglinum þegar þeir skoða sýna sjálfsmynd. Þau eiga að sjá SIG. Týnd sjálfsmynd, er eitt af birtingarformum meðvirkninnar, – og hún týnist þegar við erum sífellt að lifa eftir röddum annarra, eftir vonum og væntingum þeirra, en ekki okkar eigin.

Hvatning, stuðningur og aðstoð við börn á að miðast að því að við séum að kenna þeim að vera sjálfbarga og sjálfvirk, – kenna þeim að bera ábyrgð á sjálfum sér fyrst og fremst. – Börn eiga ekki að bera ábyrgð á foreldrum sínum eða hamingju foreldra sinna, það er fyrst þegar foreldrar eldast eða veikjast þegar við getum farið að segja það sanngjarnt að börn fari að sinna því hlutverki gagnvart þeim sem foreldrarnir gerðu á sínum tíma fyrir börn sín. – Að annast þau, þar sem þau geta ekki sjálf.

Það verða að vera skýr mörk á milli sjálfsmynda okkar og foreldra, milli sjálfsmyndar okkar og barna og milli sjálfsmyndar okkar og maka.

Við erum ekki börnin okkar ..
Við erum ekki foreldrar okkar ..
Við erum ekki makar okkar ..
Við erum ekki samfélagið ..
Ég er ég og þú ert þú, hvert og eitt – einstakar perlur, og þó við séum í sömu perlufestinni erum við alltaf sýnileg hvert og eitt.
Börnin eru líka einstakar perlur, en ekki framlenging af foreldrum sínum.
Samþykkjum börnin hér og nú, ekki þegar og ekki ef, því þá kennum við þeim að samþykki fyrir tilveru þeirra sé skilyrt af ytri aðstæðum. Hvort þau nái ákveðnum árangri eða ekki.

Konur, sérstaklega, eru oft háðar samþykki mæðra sinna, – eru þær nógu duglegar? – Nógu flottar? – Nógu mjóar? … og þegar mamman er komin í kör, eru þær komnar með mömmu inn í heilann. „Allt fyrir mömmu“ – „Allt að þakka/kenna mömmu“ .. vegna þess að fyrst sleppti mamma ekki, en síðan sleppa þær ekki mömmu. –

doreen

Feður og dætur ..

Ég hef verið að lesa svo sorglegar fréttir undanfarið, sem innihalda samskipti feðra og dætra.  Þið vitið um hvaða fólk ég er að tala. Það skiptir ekki öllu máli, – og þessi pistill fjallar ekki um einstök mál heldur bara almennt um þessi tengsl, og það sama gildir um tengsl milli annarra í fjölskyldunni, hver svo sem þar eiga í hlut.  Auðvitað gæti þetta verið móðir og sonur, eða systir og bróðir.

Öll þessi vondu samskipti eiga sér rætur í sársauka. EInhver segir eitthvað eða gerir eitthvað út frá eigin sársauka.

Er allt þetta fólk sem tilheyrir sömu fjölskyldunni tilbúið til að ganga ósátt til hinstu hvílu? –   Hvað ef að einhver deyr og ekki hefur náðst sátt?

Það er svo sorglegt að horfa upp á ættingja, jafnvel í valdabaráttu, um eitthvað sem eyðist,  þ.e.a.s. þessi völd flytur enginn með sér inn í eilífðina. –  Sálin fer með okkur inn í eilífðina, sál sem hefur e.t.v. ekki náð að fyrirgefa.  Og eftir verður sál sem heldur nær ekki að fyrirgefa,  sál sem situr uppi með að vera búin að missa e.t.v. barnið sitt og kvaddi það ekki með sátt. –

Í mínum huga er fátt sorglegra.

Mér finnst þetta líka ákveðið vanþakklæti fyrir lífið.  Að eiga dóttur eða eiga föður, að eiga son, að eiga móður,  en ná ekki að njóta þess að eiga samskipti við hvort annað.

Sum sár eru svo djúp að þau er erfitt að heila,  en þar finnst mér að guðsfólkið,  eða sem telur sig trúa á kærleiksríkan Guð,  ætti einmitt að biðja Guð um lækningu og heilun.  Biðja Guð um að hjálpa sér við fyrirgefninguna.

Ég hef litla trú á illskunni, hvað sem hver segir.  Ég trúi að hún sé til, en ég trúi að það sé hægt að afvalda hana með elskunni.

Ég trúi ekki öðru en að faðir liggi andvaka að geta ekki talað við dóttur og að dóttir liggi andvaka að geta ekki talað við föður. Þetta er tap á báða bóga. –

Fyrirgefningin er stærsta gjöf sem hægt er að gefa sjálfum sér.  Hún þýðir ekki að við höfum samþykkt gjörðir eða orð hinna,  hún þýðir að við sleppum tökum á reiði, gremju, og öllu því sem hið vonda vill að við höldum fast í.  Ég trúi að við getum snúið á illskuna með því að samþykkja hana ekki,  og gera hana ekki að okkar. –

Við syndgum öll einhvern tímann, sum í smáu önnur í stóru. Við gerum öll mistök einhvern tímann.

Þegar ásakanirnar birtast á víxl í blöðunum – er það réttur vettvangur til fyrirgefningar? –   Munu ásakanir á víxl leysa málin?

Ef við viljum raunverulega ná bata og betra lífi, þrátt fyrir að vondir hlutir hafi gerst,  – þá þurfum við að sýna skilning en ekki stunda það sem kallað er „The Blaming Game.“ –

Hættum að leita að sökudólgum og förum að skilja AF HVERJU hlutirnir gerast, eða fólk hegðar sér á ákveðinn hátt. það er miklu farsælli leið til að leysa flest mál og deilur.

Lífið er of stutt og of mikilvægt til að því sé lifað í deilum, ekki gera ekki neitt, eins og þar stendur,  enginn einstaklingur getur verið hamingjusamur hvort sem sál hans er plöguð af skömm vegna vondra leyndarmála eða lifir með sál sem nær ekki að skína  vegna reiði og gremju.

Með von í hjarta að þessi skrif hjálpi til skilnings á mikilvægi þess að eyða ekki lífinu til einskis  .. okkar dýrmæta lífi.

424816_387786877901754_155458597801251_1714720_1712323506_n

Er unglingurinn þinn í vanda?

Þó það hljómi kanski undarlega,  þá er það nú í flestum tilvikum þannig að ef unglingurinn er í vanda,  óánægður, leiður, „latur“ – „frekur“ – er með „unglingavandamál“ o.s. frv.  þurfa foreldar oft að líta í eigin barm.

Hvernig líður mömmu? – Hvernig líður pabba? – Hvernig eru samskiptin þeirra?

Foreldar eru fyrirmynd, – ef að leið foreldris til að líða betur er að reykja sígarettur, af hverju ætti unglingurinn ekki að leita þeirrar leiðar?

Börn og unglingar þjást þegar foreldrum þeirra líður illa.  Þau spegla sig í foreldrum sínum. –

Ef foreldrar ætla að hafa eitthvað til að gefa, og ætla að vera góðar fyrirmyndir þurfa þeir að fara að huga að sínu sjálfstrausti, sinni sjálfsvirðingu og sinni hamingju almennt.

Ánægt foreldri með gott sjálfstraust og sem virðir sjálft sig, bæði á líkama og sál er fyrirmyndar-foreldri.

Þess vegna er svo mikilvægt að foreldrar skoði sig sjálf og athugi hvort þeir eru að nota súrefnisgrímuna, eða bara reyna að demba henni beint á barnið og hafi ekki þrek til að halda henni þar vegna þess að þeim vantar allan kraft og kunnáttu til þess að nýta sér hana – þegar þeir hafa ekki notað hana sjálfir.

Ef að sjálfsrækt er „soðin niður“ í einfaldleika þá byggir hún á:

A) Að þykja vænt um sig, nógu vænt til að rækta líkama og sál.

B) Að lifa með vitund, þ.e.a.s. að vera áhorfandi að eigin viðbrögðum – eigin viðhorfi o.s.frv. –  (Vera sinn besti vinur/vinkona)

Það er auðvitað hægt að telja ýmislegt fleira upp en þetta er þessi tvö stærstu mál sem fólk þarf að komast yfir.

Þetta gildir bæði fyrir foreldra og börn.  En foreldrar eru fyrirmyndir og hægt að kenna þetta 😉

happy-kids

Einföld formúla ánægjunnar ..

1. Þakklæti fyrir það góða sem er í lífi okkar (upplagt að minnast þess á hverjum degi seinni partinn, og endilega virkja alla fjölskyldumeðlimi, æði fyrir börn að alast upp við þennan sið).

2. Gleði – ánægja er afrakstur þakklætis, og kemur vegna þess að við höfum nú stillt fókusinn meira á það sem við erum þakklát fyrir og ánægð með í lífinu.

3. Jafnvægi – næst mun frekar þegar við erum glöð – við nennum ekki að ergja okkur á smámunum, á öðru fólki sem er í fýlu o.s.frv. –  ef við förum í gremju eða fýlu byrjum aftur á stigi 1 og þökkum meira og ef við spólum í sama fari þurfum við e.t.v. að fyrirgefa meira (sjálfum okkur líka).

4. árangur –  næst nú í því sem við tökum okkur fyrir hendur og í samskiptum.

Gleðin er ekki einungis besta víman, hún er besta orkan sem kemur okkur áfram að því markmiði sem við stefnum og að ganga í gleði hlýtur að vera mikill lífsárangur!

Eigum góðan dag og leikum okkur! –

426349_4403581721455_1819512707_n

 

Ég vil lifa og ég vil gleðjast …

Ég vil dvelja á stað þar sem umvefur mig hrein jákvæð orka, og ef ég hugsa það innar, þá vil ég VERA hrein jákvæð orka.

Ef ég er hrein jákvæð orka, tek ég ekki á móti neikvæðri orku,  hún nær engri tengingu og svona skoppar af mér eins og vatn ef ég væri smurð með olíu. –

Auðvitað íhuga ég lífið og auðvitað íhuga ég dauðann, eftir þjáningar þær sem ég er búin að fara í gegnum síðastliðið ár.  Dauðinn bankaði snemma á dyrnar hjá mér,  en það gerðist þegar pabbi lést 1969 og ég aðeins tæplega 7 ára gömul. –

Dauðinn er jafn sjálfsagður og lífið en voða lítið ræddur í raun.  Það mætti kannski ræða hann meira – ekki undir formerkjum þess að vera hrædd við dauðann,  eða óttast komu hans, heldur til að skilja hann og samþykkja að hann er einmitt hluti lífsins.

Okkur finnst það óréttlátt og hrikalega ósanngjarnt þegar ungt fólk deyr. Það er ósanngjarnt og ömurlegt einhvern veginn. Að ung börn fái ekki að lifa með móður – með föður,  sjái þau aldrei aftur í lifanda lífi.

Það má þó segja að það séu til aðrir vondir hlutir sem eru ekki beinlínis dauði,  en það er þegar foreldrar – lifandi foreldrar – hafna börnum sínum, eða börn foreldrum.   Hvers konar „dauði“ er það annars ekki?

Þegar skaðinn er skeður,  þegar dauðinn er hið raunverulega sem við verðum að horfast í augu við.  Þegar mamma, pabbi, dóttir, sonur, bróðir, systir, frænka, frændi, vinur, vinkona eru farin,  þá hvað?

„Minning þín er ljós í lífi okkar“  er algengasta áritun á legsteina í dag, það þekki ég því ég seldi legsteina í tæp tvö ár. –

Og minning minna nánustu sem farin eru úr þessari jarðvist er svo sannarlega ljós í lífi mínu.

Það er mikið að missa bæði dóttur og móður á sama ári.  Það hljómar eiginlega óbærilegt – og það er það,  en samt,  já samt kemst ég einhvern veginn áfram.

„When going through hell keep going“ –  heyrði ég um daginn.

Ég held áfram, vegna þess að ég fæ enn fleiri minningar og enn meira ljós til að styrkja mig.

Ég fæ ljós frá minningum hinna dánu,  og ég fæ ljós frá hinum lifandi. Aldrei hef ég fengið eins mikla elsku og væntumþykju eins og núna síðustu ár, og þið þarna úti eruð að styrkja mig í því að hreinsa út neikvæða orku og ég vil lifa og ég vil gleðjast og ég vil vera hrein jákvæð orka,  því lífið er orka og við sogum til okkar neikvætt og við sogum til okkar jákvætt.

Þegar fólk fer á fínustu skemmtistaðina þá eru sumir sem fá V.I.P. passa, en V.I.P. þýðir Very – Important – Person.

Í mínu lífi hafa verið mjög mikilvægar persónur, – og þær eru að sjálfsögðu í lífi okkar allra.  Nokkrar af mínum V.I.P. eru farnar og ég varð fúl, sár og reið að þær væru farnar, – þá stærsta stjarnan mín hún Eva Lind,  sem var tekin svona fram fyrir röðina og fór á undan.

Það gat engan órað fyrir því að svona skyldi fara, en það getur engan órað fyrir því að ungt fólk fari – börn á undan foreldrum sínum, en samt er það alltaf að gerast.  Ég er ekki eina móðirin sem hefur misst barnið sitt, – þó að á þeim tímapunkti sem það gerðist liði mér þannig.

En ég VIL lifa og ég vil gleðjast, ég vil njóta þess og þeirra sem eru í þessari jarðvist.  Ég vil vera þeim hrein jákvæð orka um leið og sjálfri mér.

Aðeins út frá styrkleika mínum og mínu ljósi get ég gefið styrk og get ég gefið ljós – og ég get vísað veginn eins og viti.   Ég dreg engan áfram, því engin/n vill vera dregin/n.  – Allir vilja geta gengið á eigin jákvæðu orku.

Í gærkvöldi setti ég kómískan status á facebook: „Ef ég fæ 10 like tek ég tappann úr rauðvínsflösku“ –  ég er, í þessum skrifuðu orðum,  komin með 105 „likes“ .. –  Þetta var skemmtilegur leikur og vissulega var tappinn tekinn úr – og svo kom systir yfir og hjálpaði til, en ég naut í raun mun betur þess að hlæja að öllum „like“ og vinarþelinu sem þeim fylgdu, heldur en áhrifa vínsins.

(ég tek það sérstaklega fram að ég er ekki að hvetja til drykkju áfengra drykkju, og held fast við það að vatnið sé drykkur drykkjanna).

En eníhú – svo ég fari nú að setja botn í þennan pistil –  þá poppaði ítrekað upp í höfuð mér setning úr bók bókanna, sem er   B.I.B.L.Í.A. –  en þessi orð eru úr bók hennar sem kallast  „Prédikarinn“ .. reyndar ætla ég að setja allan kaflann hér með því mér finnst hann passa vel við það sem ég er að skrifa:

„Öllu er afmörkuð stund

1Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
2Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,
3að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
4að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,
5að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma,
að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,
6að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,
að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma,
7að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,
að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma,
8að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,
stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.
9Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?
10Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. 11Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur. 12Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. 13En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.

ETUM – DREKKUM OG VERUM GLÖÐ,   ÞVÍ ÞAÐ ER GUÐS GJÖF.

(feitletranir eru mínar).

eat_drink_enjoy_960x433

Ekki láta neikvætt fólk hafa áhrif ..

Mörg meðferðin ráðleggur fólki að klippa á samskipti sín við það fólk sem við eigum erfitt með að umgangast.  Það er oft auðveldara sagt en gert, sérstaklega ef þetta fólk er fjölskylda.-

Ef við hugsum neikvæðni sem myrkur og jákvæðni sem ljós, þá er eðlisfræðin þannig að ljósið sigrar myrkrið.  Þú kveikir á kerti í dimmu herberig og herbergið er ekki dimmt lengur. –  Dimman getur ekki verið þar sem er ljós. Ef þú kveikir á fleiri kertum verður enn meira ljós.

Þegar við förum í sjálfsvinnu,  þá liggur sú sjálfsvinna m.a. í því að uppgötva ljósmagnið hið innra.  Allt hið innra er eins og óþornandi uppspretta, en stundum þarf bara að skrúfa frá henni.  Fólk sem tjáir sem með neikvæðni sér ekki ljósið,  og/eða kann ekki að skrúfa frá þessum krana. –  Það hefur þó möguleikann að skrúfa frá okkar neikvæða krana, þ.e.a.s. ef við erum ekki sjálf ákveðin í að hafa hann lokaðan.

Ef við gerum okkur grein fyrir þessu, að það er undir okkur komið hvernig við bregðumst við neikvæðni, – að kannski þurfum við aðeins að herða og styrkja okkar eigin neikvæða krana og skrúfa betur frá þeim jákvæða,  þá förum við líka að átta okkur á okkar eigin ábyrg á okkar líðan.

Ef okkur líður illa i kringum neikvætt fólk, – sem er fjölskylda eða vinir, þá gætum við hreinlega sagt þeim frá því að það sé þarna einhver neikvæðni hið innra með okkur sem kviknar þegar neikvæð umræða fer af stað,  hvort þau myndu vera svo elskuleg,  – að halda neikvæðni í lágmarki í kringum okkur þar sem við hefðum í raun ekki meiri styrk en raun bæri vitni!

Ef þetta fólk raunverulega elskar okkur eða þykir vænt um þá verður það við beiðninni, – en annars hefur það val og við höfum þá gefið þeim tækifæri sem það hefði annars ekki fengið,  þ.e.a.s að við færum að hætta að umgangast það án þess að segja okkar hug.

Kannski er þetta ein af aðferðunum við að setja fólki mörk, þ.e.a.s. – hvað við látum bjóða okkur og hvers konar viðhorf umlykja okkar tilveru.

Svo höldum áfram að kveikja ljós og vera ljós.

Þökkum ljósið hið innra og biðjum um styrk til að láta það flæða.  Ef einhverjum líður illa með það ljós,  verður sá hinn sami að forða sér, en við eigum ekki að þurfa að hlaupa burt með ljósið.

1170720_498620266895180_1106913787_n

Á ég að týna mér eða þér? – um ójafnvægi í samböndum 1. hluti

Þessi pistill heitir á frummálinu:

„The split-level relationship“  og er eftir Steve Hauptman

Hér eru tvær spurningar sem við glímum við ef við viljum vera í heilbrigðu sambandi.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Þessum spurningum er ekki auðsvarað, en það er hægt að glíma við þær.

En það er glíman sem skiptir máli.

Af hverju?

Vegna þess að hún framkallar grunnþarfir þess sem við höfum fram að færa í hvaða sambandi sem er.

Samband (connection) og frelsi. 

Samþykki annarrar persónu og að samþykkja sjálfa/n sig.

Heilan og raunverulegan maka,  og á sama tíma, heila/n og raunverulega/n þig.

Tvo raunverulega og heila einstaklinga.

Flestir sem höfundur þekkir eru sannfærðir um að ekki sé hægt að vera heil (þau sjálf) bæði á sama tíma.

Flestir eru úr fjölskyldum –  sem hafa alkóhólískt – eða ofbeldistengt mynstur eða eru á annan hátt vanvirkar – og hafa þar af leiðandi ekki haft möguleikann á að finna jafnvægið milli þess að vera í sambandi og vera frjáls.

Það sem þau lærðu var að hafa eitt þýddi að missa hitt.  Annað hvort var það samband eða frelsi.

Það að ávinna sér ást og samþykki foreldra, til dæmis, þýddi það að fórna mikilvægum hlutum í lífi þeirra sjálfra,  eins og frelsinu við að tjá sig frjálslega eða að sinna eigin þörfum.

Það er í fjölskyldunni sem við ólumst upp sem hvert okkar lærði sitt persónulega svar við þessum tveimur spurningum.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Og svarið sem við tileinkuðum okkur varð að mikilvægum (þó að mestu ómeðvituðu) hluta grunnviðhorfa okkar til lífsins og sambanda okkar,  það sem höfundur kallar – okkar Plan A.

Sumir taka ákvörðun, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að hafa MIG, og til fjandans með ÞIG“ – sálfræðingar kalla þetta hið sjálfhverfa svar (The narcissistic answer.)

Önnur ákveða, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að haf ÞIG, og til fjandans með MIG“ – sem er hið „margfræga“ meðvirka svar.

Þá segir hinn sjálfhverfi maki  „ÉG fyrst,“ og hinn meðvirki svarar, „Já, elskan.“

Og þessar tvær persónugerðir enda saman með ótrúlega reglulegu millibili.

Þegar fylgst er með samskiptum þessa pars,  kemur  á óvart hversu fyrirsjáanleg samskiptin eru.  Í öllum aðstæðum finnur sjálfhverfi einstaklingurinn einhverja leið til þess að segja: „Ég fyrst/ur,“ og hinn meðvirki svarar „Já, elskan.“  Það er eins og þessir aðilar hafi sest niður fyrir langa löngu og skrifað undir samning um að gera þetta svona.

Sem þeir að hluta til gerðu.

Það hvernig þau svöruðu þessum tveimur spurningum hér að ofan,  eru að stærstum hluta ástæðan fyrir að þau löðuðust hvort að öðru.

Höfundur segir að flest pör sem leita ráðgjafar hjá honum fylgi þessu mynstri – svo mörg að hann ákvað að gefa þessu parasambandi nafn.

Hann kallar það „split-level relationship“ –  við gætum kallað það „samband á aðskildu plani“ –  eins og að par búi í pallaraðhúsi og annar aðilinn sé alltaf skör neðar en hinn.

Þessi sambönd á aðskildu plani ganga um tíma, en brotna yfirleitt alltaf upp.  Á einhverjum tímapunkti áttar annað hvort annar aðilinn eða báðir að þeir eru ekki að fá það sem þeir þarfnast úr sambandinu.

Hin meðvirku taka yfirleitt eftir því fyrst. Þegar þessi maki er kvenkyns getur þetta leitt til þess sem höfundur kalla „The Walk-Away Wife“ – „Eiginkonan sem gengur burt.“ –  Ég mun skrifa sérstaklega um það síðar.

En hin sjálfhverfu hafa tilhneygingu til að vera óhamingjösum líka. Þau kvarta um einmanaleika,  skort á nánd við hinn meðvirka maka, eða skort á virðingu og umhyggju.  Þau geta upplifað óþolinmæði,  eirðarleysi, pirring, gremju.  Stundum neyta þau áfengis, eiturlyfja, ofnota mat, lifa í reiði eða halda framhjá, og líður svo illa með það.

Allt þetta á sér stað vegna þess að þessi sambönd á misjöfnu plani eru ófrávíkjanlega óheilbrigð.

Kunnugleg, vissulega.  Jafnvel þægileg, að því leyti að fólk veit hvað það hefur.  (Öryggistilfinningin).

En þessi sambönd eru ekki heilbrigð.  Þessi svör sem mynda ójafnvægi og samböndin á misjöfnu plani eru byggð á geta ekki uppfyllt tilfinningaþörf tveggja fullorðinna einstaklinga.  Og það endar með því að báðir aðilar upplifa sig svikin,  án þess að skilja hvers vegna.

Hvernig er batinn hjá svona pari?

Þá er hlutverkum víxlað.

Hinn meðvirki einstaklingur verður að þróa með sér hugrekki og æfa sig í að standa upp fyrir sjálfum sér.

Hinn sjálfhverfi  verður að þróa með sér samhug og æfa sig í að stíga niður,  æfa sig í að gefa í stað þess að heimta.

Auðvelt?  Nei.  Fyrir hvorugt þeirra er þetta auðvelt.

Aðeins nauðsynlegt til að vera á sama plani.  (Búa á sömu hæð).

Þýðing – Jóhanna Magnúsdóttir – http://www.johannamagnusdottir.com

Sama lögmál á bak við brottfall úr skóla og „brottfall“ úr hjónabandi?

Getur það verið? 

Einu sinni skildi fólk helst ekki.  Það tók ákvörðun um að fara í hjónaband og svo var það í hjónabandinu. –   „For better or worse“ – 

Það var stór ákvörðun og vegna tíðaranda – ákvörðun fyrir lífið. 

Í dag eru skilnaðir algengir, og þess vegna langar mig að velta upp þeirri hugmynd að fólk fari í hjónaband /samband með hálfum hug, með „útgönguleiðina“ í huga. –   

Það sé í raun ekki alveg ákveðið. 

Þegar við erum ekki ákveðin að láta eitthvað ganga, förum við jafnvel að horfa yfir öxlina á makanum,  skoða grasið sem er hinum megin við hæðina, – hugsunin fer í gang „ætli þessi gæti gert mig hamingjusamari?“ –  bla, bla, bla… 

Um leið og þessi hugsun er farin í gang,  þá er um leið farið að leita að ókostum hjá makanum,  safna þeim á fæl og velta sér upp úr þeim. –  Við förum (óafvitandi) að skemma hjónabandið. – 

Þökkum ekki það sem vel er gert – en verðum pirruð yfir því sem ekki er gert.  –  Búum til ósýnilegan óánægjulista.  

Gleymum svo alveg þarna í jöfnunni,  að það erum við sjálf sem gerum okkur hamingjusöm, glöð, ástfangin o.s.frv. –  

Erum e.t.v. með væntingar til maka sem við ættum að vera með til okkar sjálfra. – 

Öll okkar ógæfa verður makanum að kenna, öll okkar armæða og leiðindi. –  „Ef ég aðeins ætti betri maka“ .. hugsunin kemur upp, þá sko. – 

EKki er litið í eigin barm, ásakanir fara í gang – allt öðum að kenna. 

Ef vel gengur, – eitthvað blómstrar – er það þá makanum að þakka? 

Skoðum svo nemanda í skóla.  Skólinn er ekki fullkominn,  kennarinn ekki heldur, námsefnið ekki heldur,  en fullt af nemendum er að ná góðum árangri í bekknum. –  Nemandinn lendir í einhverri krísu, hefur ekki lært heima – og þá fer hann líka að leita að undankomuleið ábyrgðar.   Æ, lélegur kennar (og getur sagt foreldrum það) – lélegur skóli.   Nemandi finnur allt að og það vindur þannig upp á sig að hann verður fórnarlamb lélegs kerfis og skóla. 

Hvað með fólkið í hjónabandinu? –  Er það ekki fórnarlömb lélegs hjónabands,  hvað gerði það sjálft? –   

Við horfum oft fram hjá okkar eigin ábyrgð,  viljum að maki eða kennari taki ábyrgð á okkur.  – 

Ég er ekki að gera lítið úr því að til eru lélegir skólar og líka lélegir makar, –  en þegar fókusinn er á því hvað hinir geri – hvað kerfið er lélegt – hvað aðstæður eru erfiðar,  og hvort ekki sé betra að leita annað,  fara með sjálfan sig annað,  í annað umhverfi,  til annars maka,  að þá verði allt í lagi? 

Jú, stundum gengur það,  en það er undantekning en ekki regla.  Sama fólkið fer í sama hjónabandið aftur og aftur,  ekki sátt – ómögulegur maki! –   Sama fólkið fer á milli skóla, ekki sátt, ómögulegur skóli. 

Það er hægt að þroskast á milli skóla/maka,  og þá breytast hlutirnir.   Sumir makar kunna að setja mörk –  sumir skólar hafa starfsfólk sem aðstoða nemendur við að líta í eigin barm og vinna í þeirra eigin sjálfstrausti sem er oft undirstaða þess að þeir geti lært.  

Mikið að mjög vel greindum nemendum falla úr skóla,  því þeir nenna ekki að hafa fyrir því að lesa.  Finnst þeir jafnvel of gáfaðir, eða það er vesen að vakna á morgnana. – 

Hugarfarið skiptir öllu.  

Ef við gerum það besta úr aðstæðum, þá leitum við lausna í aðstæðum en ekki að hindrunum. –  

Við leitum ekki að sökudólgum. 

Ég held að fórnarlambsvæðing (aumingjavæðing?) sé eitt það hættulegasta sem við erum að glíma við. –  það að taka ábyrgð af fólki – og kenna því þannig að forðast að taka ábyrgð sjálft.

Það er vont að lifa í rými þar sem við erum aldrei viss um hvort við viljum vera eða ekki.  Það er betra að taka ákvörðun og halda henni,  gefa því tækifæri hvort sem það er skóli – hjónaband – vinnustaður.

A.m.k. ekki sitja kyrr á þessum stað í óánægjuskýi – og með hugann fjarri og sjálfa/n þig.  

Það er ekki bæði haldið og sleppt og það að vera staddur þar gerir okkur vansæl, vansæld elur á vansæld. – 

Hjónaband þar sem við erum sífellt að pæla að skilja er vont hjónaband.   Vertu eða vertu ekki. 

Hvor aðili þarf að vinna í sinni hamingju, styrkja sig og gleðja sig, – fylla á eigin hamingjubikar.  Það er hægt að gefa því x tíma og endurskoða svo stöðuna.   Eruð þið enn óánægð, hafa báðir aðilar unnið í sinni sjálfsheilun eða bara annar aðilinn.   Sá aðili sem er orðinn sáttur við sig hlýtur þá að vilja stíga út fyrir,  því að sá aðili lætur ekki bjóða sér þá andlegu depurð að vera með óánægðri manneskju. –    

Það er þetta „Should I stay or should I go“ –  að vera í vafa sem tætir upp og tærir. –  Best að leita annað – er eitthvað betra??.. 

Hvað ef að heima er best?  Hvað ef að hægt er að vinna úr því?

Hvað ef að skólinner ágætur – og nemandi þarf bara að leggja örlítið á sig – og kannski biðja um hjálp námsráðgjafa,  en algengt er að óánægðir nemendur eru ekki að leita sér hjálpar. 

Það er svo margt sem við gætum gert – en meðan við erum í fórnarlambspakkanum verðum við alveg gagnslaus. 

Eymd er valkostur.  

Hamingja er líka valkostur. 

Hvort vilt þú? 

(ekkert eeeennn…  það er sko þessum eða þessu að kenna – hamingan er heimatilbúin). 

 

Mynd_0640017

Uppskrift að betra lífi ..

1.  Ástundum þakklæti – því þakklæti leiðir til gleði og gleði til árangurs.

2. Gerum okkur grein fyrir að tilgangur lífsins er gleði,  og alltaf þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðunum þá veljum þá sem veitir meiri gleði.

3. Veljum góða andlega næringu,  við förum ekki í jákvæðnikúr, við breytum siðum okkar þannig að góð andleg næring er það sem við kjósum á diskinn okkar allt lífið. –  Þess meira pláss sem við gefum hinu góða því minna pláss er fyrir hið vonda. –

4. Forðumst að vera fórnarlömb,  klæðum okkur ekki í „fórnarlambsbolinn“ á morgnana heldur „sigurvegarabolinn“ –  berum höfuðið hátt.

5. Fyrirgefum, sleppum ásökunum – gerum okkur grein fyrir aðstæðum og skiljum þær, en notum hvorki fólk né aðstæður til að stimpla okkur inn í aðgerðaleysi og eymd.  Eymd er valkostur.

6.  Trúum að við fáum aðstoð lífsins, að þegar við segjum „já takk“ að lífið komi til móts við okkur.  – Trúin er þessi hlekkur sem oft vantar þegar allt hitt er komið.  Þegar við vitum allt – t.d. hvernig við eigum að ná árangri – en við trúum ekki á eigin árangur.  Trúðu á þinn mátt og megin.

7.  Veitum athygli og virðum það góða,  okkar eigin kostum og kostum þeirra sem eru í kringum okkur.  Að veita athygli er svipað og að virða,

8. Ekki leita eftir elsku, gleði, skemmtun eða  þakklæti frá öðrum. Elskum, gleðjumst, skemmtum okkur og þökkum.  Við höfum uppsprettu þessa alls innra með okkur.  Okkur skortir ekkert.  Gleði laðar að sér gleði, elska laðar að sér elsku og þakklæti laðar að sér þakklæti.

9. Leyfum okkur að skína, leyfum okkur að eiga allt gott skilið, verum að-laðandi, það þýðir að við fyllum á okkar eigin bikar – fyllum á hann með heilagleika sem við getum lært við hugleiðslu, yoga, bænir,  útiveru,  fjallgöngur eða annað sem við finnum að gefur okkur nánd við það sem er heilagt og tært.

10.  Gerum okkur grein fyrir því að hið andlega líf, vellíðan hið innra er undirstaða að betra veraldlegu lífi.

11. Verum heiðarleg og sönn,  gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Heiðarleiki er grundvöllur góðra samskipta. Tjáum okkur opinskátt og segjum það sem við meinum, en förum ekki fjallabaksleið að efninu.  Tölum út frá hjartanu,  það þýðir að segja ég en ekki þú. „Mér líður svona þegar“ .. í stað þess að ásaka „Þú ert ..“

12.  Sýnum samhug en verum ekki heimshryggðarkrossberar.  Heimurinn hefur ekkert gagn af okkur ef við erum gagntekin af sorg yfir atburðum sem gerast hinum megin á hnettinum.  Þá fjölgar bara fórnarlömbunum ef við erum orðin óstarfhæf eða máttlaus vegna þessarra atburða.

13. Lítum okkur nær.  Dokum við og lítum í eigin barm áður en við förum í það að dæma náungann.  Ef við erum vöknuð ekki dæma þau sem eru enn sofandi.

14. Þegar við lendum í stormi, myrkri, holu  – sem okkur líður illa í – hugsum ekki myrkur, heldur hugsum ljós.  Þá erum við lögð af stað út úr myrkri, holu, sorg.

15. Munum að þó að sælla sé að gefa en þiggja þá þurfum við líka að sýna þá auðmýkt að vera á þeim enda að þiggja. Þiggja hrós og þiggja hjálp. – Ekki vera of stolt,  –

15. Opnum hjörtu okkar, sýnum tilfinningar, höldum ekki leyndarmál sem skaða okkur,  virðum innri frið.

16. Elskum óvini okkar – óttann og skömmina, – „Kill them with kindness“ – það þýðir að við eyðum þeim með elsku.  Rými þeirra minnkar og endar með því að við verðum að mestu óttalaus og förum að lifa af hugrekki. – Stundum elskum við mest með að sleppa tökunum – og af hverju ekki að sleppa tökunum á ótta, kvíða og afbrýðisemi? –   Stjórnsemi – það að treysta ekki er að óttast. „Faith or fear“ –   Við óttumst það sem við þekkjum ekki, við óttumst óvissuna.  Óttinn og vantraustið er grunnur stjórnsemi og stundum verðum við hreinlega að sleppa tauminum því að okkur er farið að verkja – og leyfa lífinu að vera án okkar stjórnunar.

Biðjum um æðruleysi – til að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt – sætta okkur við fortíð og fólk og fyrirgefa, okkar vegna. Biðjum um hugrekki til að breyta því sem við getum breytt, um hugekki til betra lífs, til að tjá okkur án ótta.  Biðjum um vit til að greina a milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki. –  Fortíð verður ekki breytt og fólki verður ekki breytt.

Sættum okkur við það sem er, eins og við höfum valið það – því út frá sáttinni hefst nýr vöxtur – ekki fyrr. 

Lífskrafturinn er kærleikur,  allt sem við gerum, setjum kærleikann inn í þá jöfnu og munum að meðvirkni er ekki góðmennska,  hún er vankunnátta í góðmennsku og hún er í raun eigingjörn góðmennska. –  Við erum ekki að leyfa fólki að takast á við þeirra eigin áskoranir í lífinu,  við erum að stela sjálfstæði, stela virðingu.

Mesti kærleikurinn getur verið í þvi að setja fólki mörk.

Verum sjálf breytingin sem við viljum sjá hjá öðrum. Ergjum okkur ekki á þeirra vanmætti eða vankunnáttu, – verum okkar eigin bestu fyrirmyndir og þá um leið annarra.

Lifum heil. og höfum trú.  

1185179_423218941120300_1002824657_n

Er sannleikurinn alltaf sagna bestur? ..

Hvað gerðist hjá Bradley Manning?   35 ára fangelsi?

Á hverjum bitnar sannsögli hans og uppljóstranir,  jú á þeim sem beittu ofbeldi – en það bitnar mest á honum sjálfum og við þurfum ekki að efast um að maðurinn á fjölskyldu og vini,  sem það hlýtur að bitna á líka.

Allt sem við gerum hefur áhrif,  ekki bara á okkur sjálf heldur líka á þau sem eru í kringum okkur.

Oftast er ástæðan fyrir því að við segjum EKKI sannleikann – að við erum hrædd við að meiða,  meiða aðra og meiða okkur sjálf. Við erum líka hrædd við að missa þau sem okkur þykir vænt um, okkar nánustu sem eru flækt inn í kóngulóarvef þagnarinnar og vilja ekki rjúfa hann og finnst við svikarar.

Með því að meiða aðra (eða finnast við vera að því)  finnum við til. Okkur þykir (flestum væntanlega) vont að vera þess valdandi að fólk finni til, fái að upplifa sárar uppgötvanir og í hugann koma alltaf orð skáldsins: „aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ –

Ég skrifaði „að verða þess valdandi“ – en í raun er það ekki við sem verðum þess valdandi, það er atburður eða hlutur sem átti sér stað sem við erum að segja frá sem verður þess valdandi að fólk er sært. –

En það er þetta með sendiboðann eða uppljóstrarann.  Þann sem segir sannleikann,  – oft er hann skotinn niður í stað þess að athyglin fari á atburðinn eða þann sem verið er að ljóstra upp um.

Ég skrifaði stóran pistil sem hefur yfirskriftina, „Leyndarmál og lygar“ – byggðan á pistli Brené Brown.  Þar kemur mikilvægið að segja sögu sína fram.

Þá fékk ég fyrirspurn frá henni yndislegu  Millu sem er sjötug kona sem hljóðaði svona:

„Frábært að lesa þetta aftir Jóhanna mín, en hvað ef ég vil og þarf að segja sögu sanna sem mun gera fólk sem á í hlut alveg brjálað út í mig?“

„Er í vandræðum með þetta.“

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.8.2013 kl. 21:10

Já,  Bandaríkjamenn urðu brjálaðir út í Bradley Manning, svo þeir settu hann í fangelsi í 35 ár fyrir að segja sannleikann.

Ég veit ekki undir hvaða  trúnaðarsamning (meðvirknisamning) við skrifum undir sem börn,  að halda leyndu því ofbeldi sem við verðum fyrir – bæði af kynferðislegum toga sem öðrum? –

Það sem er mikilvægt að hafa í huga:

Þegar við segjum sögu okkar,  að gera það í kærleika og með virðingu fyrir lífinu.  Segjum hana á réttum forsendum,  þ.e.a.s. vegna þess að við erum að frelsa okkur úr fangelsi hugans, oft fangelsi skammar sem íþyngir okkur og e.t.v. ánauð fortíðar.   Með þessu frelsi fylgir oft að einhver annar er „afhjúpaður“ sem gerandi. –

Það þýðir ekki að viðkomandi sé endilega vond manneskja, og honum eða henni hefði reyndar verið greiði gerður (og öllum öðrum viðkomandi) ef afhjúpunin hefði komið strax,  en ekki tugum árum síðar.

Við þurfum að hafa í huga forsendurnar – af hverju?

Það hefur allt sinn tíma undir sólinni, – leyndarmálin eru best þannig að þau verði ekki til, næst best að segja frá þeim sem fyrst. Sjaldan er ein báran stök, og stundum þegar fólk fer að opna á leyndarmál þá opnast pandórubox,  það fer fleira að koma upp.

Þau sem stíga fram með leyndarmál eins og að það hafi verið brotið á þeim á einn eða annan máta,  lent í hvers konar ofbeldi, misnotkun, einelti – þau eru fyrirmyndir,  en þau þurfa að muna að festast ekki í ásökun og að fara ekki í hefndargír,  því það bindur þau enn sterkar við atburðinn.

Ef sagt er A þarf að fara alla leið og vinna úr málinu sem þarf að enda í sátt og fyrirgefningu,  – til að viðkomandi geti haldið áfram með líf sitt.   Fyrirgefningu sem þýðir að ekki sé verið að samþykkja atburð eða gjörning, aðeins að losa sig úr þessari áður nefndu ánauð fortíðar.

Allir þurfa hjálp, gerendur og þolendur og líka þau sem standa nærri.  Í raun má segja að allir séu þolendur ef við skoðum þetta út frá þeim sjónarhóli að voðaverk eða ofbeldi er aðeins framið og oftast út frá sársauka.

Það þýðir þó ekki að – ekki eigi að segja sannleikann – því sannleikurinn,  eins og hann er sár, frelsar ekki einungis þann sem verður fyrir ofbeldi heldur líka þann sem hefur beitt því, því hann situr svo sannarlega uppi með verknaðinn líka og þeir sem í kringum hann lifa og hrærast finna fyrir því.  Manneskja með erfiða fortíð og ljóta gjörninga í farteskinu á erfitt með að elska og vera heil,  og er það reyndar ómögulegt.

Það er manneskja á flótta frá sjálfri sér og lífinu,  eflaust manneskja sem leitar í fíkn.

Það sem situr eftir er spurningin: „Af hverju erum við að segja frá?“ Ef það frelsar þig úr ánauð fortíðar og skammar,  þá á að segja frá. Það þarf bara að gera það á réttan hátt,  án ásökunar, og í samráði við þau sem kunna til verka.   Það þarf að leita sér hjálpar.

Ég viðurkenni að ég veit allt of lítið um Bradley Manning, en ég held það séu fæstir siðmenntaðir í vafa um að það sem hann gerði, það að uppljóstra þrátt fyrir undirritaða þagnareiða,  sé rangt.

Það eru þessir óskrifuðu þagnareiðar fjölskyldna sem við þurfum aðeins að íhuga,  hvort að þar leynist hættan á að ofbeldi sé falið og leyndarmál séu haldin sem séu skaðleg, ekki bara þeim aðilum sem eru á bak við heldur vegna komandi kynslóðar.

Þá er betra að tala og rjúfa e.t.v. keðju sem verður aldrei með öðru móti slitin en að segja sannleikann.

Þó hann sé hræðilega sár þá er hann frelsandi þegar upp er staðið.

Ef öllum frásögnum er pakkað inn í elsku,  þá verður umgjörðin mýkri.  Viðtakendur taki við með auðmýkt og átti sig á því að þetta snýst fyrst og fremst um þann sem þarf frelsið til að vera hann/hún sjálfur en ekki um þá.

Öll erum við perlur,  sálir sem upprunalega fæddumst saklaus og frjáls.  Ef við fáum ekki að vera við og fáum ekki að segja sögu okkar,  erum við ekki heima hjá okkur.

Við þurfum að komast heim.

936714_203765759778261_1356573995_n