Hvað var ég að hugsa sl. sunnudag þegar ég var búinn með 1/7 af gönguferðinni og náði varla andanum fyrir mæði í brattri brekkunni? …
Hvað var ég að hugsa sl. föstudag þegar ég leigði Stihl sláttuorf 40-2 (þungt og stórt) til að slá bakgarðinn, – og ég hafði fyrir eitthvað kraftaverk (og hjálp youtube) náð að starta því, en síðan hrundi allt framan af hausnum? ….
Ég var að hugsa: „Ég get þetta“….
Í báðum tilvikum hvarflaði að mér í nokkrar sekúndur að gefast upp og segja „Ég get ekki“ – en stundum er þrjóskan góð, og það að kunna að bjarga sér.
Í fyrra tilvikinu, þá ákvað ég að hætta að hugsa hversu mikið ég ætti eftir svo það væri ekki yfirþyrmandi, og taka þetta skref fyrir skref. Ég var vissulega þreytt í hnjánum í restina, en „ÉG GAT ÞAГ …
Í síðara dæminu, – með sláttuorfið, var ég að gefast upp, líka þegar þráðurinn sem átti að lengjast átómatískt við ákveðna aðgerð neitaði að láta sjá sig, en þá fékk ég leiðbeiningar frá góðum og reyndum bændum og vinum mínum á facebook.
Það er oft sem við erum komin á miðja leið, eða í miðja á jafnvel og spyrjum „Hvað var ég að hugsa“ .. en þegar hugarfarið er rétt, er ótrúlega magnað hvað kona getur. –
Í báðum tilfellum voru þetta sjálfskapaðar aðstæður, – eitthvað sem ég valdi. Í báðum tilfellum hefði ég að sjálfsögðu getað gefist skammarlaust upp. En ég þurfti þess ekki. Og auðvitað hafa komið aðstæður þar sem ekki er hægt annað en að gefast upp, – en þá eru það oft ytri hlutir sem stöðva. Ef t.d. að hnéð hefði gefið sig í upphafi ferðar, og ég ekki getað stigið í fótinn, þá er ekkert hægt að gera annað en að hætta. Ef að græjan hefði verið biluð hefi ég líka þurft að hætta.
Það er munur á ytri og innri ástæðum, og oft er erfitt að greina á milli. Við viljum of oft gera meira úr innri ástæðum, og hreinlega skapa afsakanir fyrir að við getum ekki, og það er kúnstin.
Við erum eins misjöfn eins og við erum mörg, – ég hef gaman af áskorunum, að prófa eitthvað sem jafnvel aðrir segi að ég geti ekki, það getur virkað öfugt á mig. En svo getur það líka verið þannig að ef að raddir (bæði innri og ytri) geta verið það sannfærandi – og niðurdrepandi að við getum ekki það sem við ættum hreinlega alveg að geta. T.d. eins og að standa fyrir framan hóp af fólki og halda ræðu. – Þá er það þessi trú – sjálfstrú eða sjálfstraust sem skiptir máli.
Það er fátt skemmtilegra en að komast yfir hindranir, sérstaklega þær sem voru erfiðar og við efuðumst kannski um á tímabili að við kæmumst yfir. – Það getur vel verið að við þurfum að breyta tækni á miðri leið, eða biðja um hjálp, eins og ég reyndar gerði í báðum þessum hversdagslegu dæmum sem ég nefndi hér að ofan.
Í göngunni fékk ég lánaða göngustafi og teygjuband utan um fótinn. –
Það er ekki að ástæðulausu að bók Louise Hay um jákvæðar staðfestingar heitir „Ég get það“ og að ég hef verið að kenna samnefnt námskeið. Hugarfarið, það sem við trúum að við getum, og að tala sig upp en ekki niður getur skipt sköpum um hvort við getum eða getum ekki. – Það dugar í flestum tilvikum aðeins fyrir okkur sjálf, – en það er að sjálfsögðu mikilvægt að smita þessu hugarfari til sem flestra, þó eins og við vitum verðum að játa að öðru fólki eða hugsanaferli þeirra verður ekki breytt, – það verður að gera það sjálft og langa til þess. –
Hér fyrir neðan eru myndir úr teikni-glósubókinni minni – þar er myndin um árangur (success) og hvaða lögmál liggja að baki þess að ná árangri. Ég nota hugtök eins og innri hindranir og ytri hindranir, en líka innri árangur og ytri árangur.
Eitt af því sem færir okkur árangur er GLEÐIN, og gleðin getur verið „útgönguleiðin“ þegar við erum föst í einhverju fari. Það er ákvörðunin um gleðina. – Þetta ætla ég að útskýra betur í fyrirlestri í dag, – endilega skella ykkur í smá leiðsögn. Ég fylgdi leiðsögukonunni í fjallgöngunni – enda þekkti hún leiðina vel. Það má segja að það sem ég er er að kenna, sé „andleg fjallganga“ .. en þar hef ég mikla reynslu, m.a. að standa upp eftir miklar hindranir, sem ég hef ekki gert að innri hindrunum.
Smellið HÉR til að skoða betur hvatningar- fyrirlesturinn sem er í boði í dag.
Hver er þinn besti/versti ferðafélagi? –

Efesusbréfið 4:29 Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra.
🙂 🙂
Þann 6. júlí 2014 kl. 10:19 skrifaði „JÓHANNA MAGNÚSDÓTTIR, ráðgjöf,