Hjóna-band

Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi nýlega að fá að vera aðstoðarprestur, ekki sem formlegt embætti, en ég aðstoðaði prestinn, sem er jafnframt mjög góð vinkona mín, við brúðkaupsathöfn.  –   Ég er með sömu menntun og prestur, en ekki vígslu og því má ég ekki gifta, skíra eða annað innan Þjóðkirkjunnar sem þarf vígslu til.  Ég má þó (eins og reyndar allt annað fólk innan þjóðkirkju) aðstoða við athöfn, flytja ávörp – hugvekjur o.s.frv. –

Og þetta var ég s.s. að gera laugardaginn 7. sept sl. í yndislegri sveitakirkju sem er römmuð inn í fallegan skóg. –

Það er meginregla þegar við lærum prédikun, að átta sig á hvaða hóp við erum að tala inn í, og í þessu tilfelli var um að ræða ungt par, sem þó átti orðið fjóra unga syni og þeir voru allir viðstaddir, auk þess sem sá yngsti var borinn til skírnar.  Parið á marga unga vini með mikið af ungum börnum, svo litla kirkjan var í raun full af litlum sætum hoppandi og skoppandi börnum. –

Það er því ekki alveg þolinmæði fyrir allt of djúpar ræður, – svo það þarf þá að miða við unga fólkið, þó að hin eldri fái alveg sinn „skammt“ og það er hægt að setja fram efnið á einfaldan hátt – sem er þó það sem skýrir vel það sem um er að ræða.

Í poka hafði ég lagt:

  • einn stein
  • 2 hvít (jafnlöng) bómullarbönd
  • 2 bolla m/hjarta og áletrun
    á öðrum bollanum stóð  FRIÐUR – GLEÐI – ÁST og á hinum bollanum stóð ÉG SAMÞYKKI MIG, ÉG FYRIRGEF MÉR, ÉG ÞAKKA MÉR ÉG VIRÐI MIG, ÉG ELSKA MIG

Það má segja í framhaldi af þessu að ég sé kannski bara nútíma pokaprestur 🙂

Ávarp mitt til brúðhjónana var þarna í þessum poka, – einskonar PPT í poka.

Fyrst var það steinninn, – og þegar ég ætlaði að fara að tala var eins og leikskóli væri farinn af stað, svo ég ákvað að sýna öllum steininn, eða „bjargið“ og syngja svo „Á bjargi byggði hygginn maður hús“ og „Á sandi byggði heimskur maður hús“  og þá tóku allir undir og börnin gáfu þessu fulla athygli og tóku undir og presturinn – hún vinkona mín leiddi hreyfingarnar! 🙂

Síðan útskýrði ég mikilvægi bjargsins, og þess að byggja hjónaband eða samband á bjargi en ekki sandi.   Bjargið táknar allt það sem er traust og heiðarlegt, – en sandurinn óheiðarleika og óheilindi.  Að byggja á vondum og fölskum grunni, hefur að sjálfsögðu þær afleiðingar að það mun fjara undan „húsinu“ .. á einhverjum tíma.  En að byggja á föstum grunni, gefur alla möguleika til að húsið standi fast.

Það er eitt sem ég hefði viljað láta fylgja í þessari ræðu, en komst ekki að með, þar sem ég þurfti að stytta, en það er mikilvægi málamiðlana.  Í sambandi þarf fólk að taka tillit og gera málamiðlanir.  Það er búið að lofa samstarfi.   Það sem þarf að hafa í huga í þessum málamiðlunum, er þó að aldrei að gefa eftir eigin lífsgildi.  Þ.e.a.s. ef við upplifum að makinn sé að gera eitthvað eða vilji eitthvað sem okkur finnst skammarlegt, eða hefur vond áhrif á okkur þá tökum við ekki þátt í því. Ef við erum farin að upplifa vanlíðan eða skömm, að leyfa einhverju að viðgangast, erum við farin að brjóta á okkur sjálfum eða gefa of mikinn „afslátt“ af okkar lífsgildum, þá heggur úr – jafnvel þessum trausta steini.

Málamiðlun þýðir s.s. ekki það að brjóta á sjálfum sér.  Ef við værum í pólitík og værum umhverfisverndarinnar, – en einhver ætlaðist til að við helltum olíu í sjóinn, – og ef við gerðum það ekki þá misstum við þingsæti okkar, – þá að sjálfsögðu létum við sætið gossa, ef við værum prinsip-manneskjur.   (Þetta er ýkt dæmi, en flestir skilja hér hvað við er átt). –   Ekki brjóta á sjálfum okkur, eða skilja við okkar eigin lífsgildi fyrir einn eða neinn.  Þá erum við líka að skilja við okkur sjálf. –

Síðan var komið að hvítu böndunum, – en þau voru táknmynd fyrir hjónabandið.  Í enskunni er sagt „Tying the knot“ –  hér fer fólk í sam-band, eða hjóna-band.  Svo ég batt saman þessa tvö bönd, fast með skátahnút – svo það myndi ekki rakna upp. –   Hjónaband er gildishlaðið orð, eins og Guð er gildishlaðið orð.  Það þýðir að margir hugsa margt misjafnt þegar um hjónaband er að ræða.

Sumir álíta að hjónabandið sé heftandi, séu hlekkir, eða eitthvað sem heftir frelsi.   Það er ein leið að líta á það, en væntanlega gera þau sem eru að ganga í hjónaband það ekki.

Hjónaband má nefnilega líta á sem öryggislínu,  – sem parið bindur á milli sín, – verndarlínu meira en nokkuð annað, –  þau eru að ganga lífsgönguna saman og ef að línan er öryggslína, þá gefur það þeim t.d. frelsi og öryggi í að ganga í mesta brattanum, því ef eitt fellur þá grípur hitt. –  Þegar fólk gengur í hjónaband, er það staðfesting á sambandi sem það vill halda.

Þarna voru þau saman komin unga parið, sem var búið að vera mörg ár í sambandi, – í þeim tilgangi að vernda samband sitt, samband sem er fóðrað með loforðum um að gæta hvers annars.

Það eru falleg loforð sem þau játa við hjónavígslu.

Þá eru það bollarnir, en auðvitað er mikilvægt að þessi þrjú atriði séu ríkjandi í hverju sambandi,  FRIÐUR – GLEÐI OG ÁST.

Þá sagði ég söguna af englunum tveimur, svona til að aðeins nálgast börnin aftur og skýra mikilvægi þakklætis, en þakklæti er forsenda gleði, eins og bjargið (heiðarleikinn og traustið) er grunnur góðs hjónabands.  –

Sagan af englunum tveimur, er þannig að það eru tveir englar í himninum að draga upp körfur með bænum.  Fyrri engillinn fær fullt af bænum, en það eru óskir um þetta og hitt. – Seinni engillinn er líka að draga upp bænir, en í hans körfu eru fáar bænir, en hann tekur á móti þakkarbænum. –  Það voru svo fáar þakkirnar að engillinn gat ekki verið mjög glaður.-

Þakklæti er grunnur að gleði, – því þegar við förum að sjá allt sem við getum þakkað og setja fókusinn á það í stað þess sem okkur vantar, verðum við glaðari. –
Það stóð líka FRIÐUR á bollanum, og þar er áhersla á innri frið, – því það er sá friður sem við helst getum stjórnað, og vera þannig friðartækið sjálf, í stað þess að t.d. öskra til að fá frið.  ÁST – það segir sig sjálft, hjónaband þarf ást.

Það skýrist betur á seinni bollanum, en þar stóð þetta allt, ÉG SAMÞYKKI, FYRIRGEF, VIRÐI, TREYSTI OG ELSKA MIG.  Er það ekki skrítið að fá svoleiðis bolla við hjónavígslu.  Er ekki málið að elska hinna aðilann? –   Það er erfitt að gefa eitthvað sem við eigum ekki.  Svo það er grundvöllurinn að því að geta elskað að geta þótt vænt um sjálfa/n sig, að því að geta virt að virða sjálfa/n sig o.s.frv. –   Það er líka þannig að ef við virðum okkur ekki eða elskum okkur ekki sjálf, þá er spurning hvort við séum að senda út í alheim boð um að við séum ekki elsku eða virðingarverð? –

Hjónaband er því gott band, til öryggis, verndar og frelsis.

Þetta par var í raun búið að vera í sambandi lengi, búið að ganga brattar hlíðar og fara í erfiða dali, því að einn sonur þeirra er búinn að vera veikur, – en hann er með hjartasjúkdóm.   Það er búið að næða um þau, og unga brúðurin  hafði  þar að auki misst mömmu sína ung að árum. Þetta er því orðið þroskað fólk, og veit að hverju það gengur.  Þau þekkja hvort annað,  í mestu erfiðleikunum og það er að sjálfsögðu þá sem reynir mest á „bandið“ – hvort sem það er kallað hjónaband eða samband.

Það er falleg yfirlýsing að staðfesta þetta band, frammi fyrir Guði og mönnum, og ekki síst, eins og í þessu tilfelli heilum herskara af börnum 🙂

Það er gott að gæta hvers annars og vernda á víxl,  gefa og þiggja til skiptis. –
Tónlistin var hófstillt og einföld, eins og öll umgjörðin,  vinir brúðhjónananna sáu um að spila og syngja, – en það eru toppklassa tónlisarfólk.  Brúðarmars var spilaður á gítar, þegar stoltur faðirinn leiddi inn ljómandi brúðina, og tvö falleg lög flutt á meðan athöfn stóð.

Himinninn grét hamingjutárum á brúðkaupsdegi unga fólksins, og systir brúðarinnar skrifaði til hennar:
Er enn með tár í augunum yfir því hvað þetta var allt dásamlegt og sérstaklega hvað þú varst gullfalleg! Rigningin voru gleðitár mömmu, ömmu og afa!“

Skemmtilegt að enda þennan pistil á laginu „Með þér“ sem var sungið með einstaklega einlægum tóni í þetta sinn:

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s