Tölum aðeins um dauðann ….

Nothing real can be threatened.
Nothing unreal exists.
Herein lies the peace of God.
~ A Course in Miracles

Ég hlustaði á útvarpsviðtal nýlega, þar talaði kona sem kenndi sig við stuðningsfélagið Ljónshjarta, sem er félagsskapur sem  aðstoðar ungt fólk sem hefur misst maka, og börn þeirra sem hafa misst foreldri. –  Konan sagði að umræða um dauðann væri tabú í samfélaginu.   Ég ætla að tala um þetta tabú eða þetta sem fólk talar helst ekki um. –

Það getur verið óþægilegt, því dauðinn er það sem fólk hræðist einna mest, –  enda það eina sem við getum verið í fullvissu um.  Þ.e.a.s. að  við komum til með að deyja einn daginn. –   Það sem okkur þykir jafnvel verra, og er enn erfiðara (að mínu mati) er tilhugsunin um dauða okkar nánustu. –

Það er erfiðari tilhugsun, að mínu mati,  að missa en að deyja sjálf, enda er það algeng fyrsta hugsun við missi okkar nánustu að langa til að fylgja á eftir. –  Og þarna komum við að stóra orðinu: „MISSA“ ..  orð sem augljóslega er skylt ensku sögninni „to miss“ –   „to miss somebody“ –   að sakna einhvers.

Þegar við söknum þá vantar upp á eitthvað í okkar eigin lífi.  Það vantar systur, bróður,  mömmu, ömmu, pabba, afa,  vin, vinkonu, frænku, frænda – það vantar barn.  Þar kemur sársaukinn, – „að missa“  „að sakna“ –  og það myndast tóm þar sem þessi manneskja var, og þá á það að sjálfsögðu við alla sem við missum, og skarðið og tómið verður stærra eftir því nær persónan var okkur.   Það er eins og við stöndum í miðjunni, og þau sem eru næst sjáum við auðvitað  stærst, en eftir því sem þau fjarlægjast verða þau minni. –   Þó að deyi mjög margir þarna útí heimi – þá er okkur flestum ekki sama,  en það hefur sama sem engin áhrif á okkar líf,  það er fólk sem hefur ekki tekið rými í okkar lífi og þess vegna söknum við þeirra ekki eftir þeirra dauða. –

Það er annað sem er sársaukafullt við dauðann, það er að horfa á aðra í sorg og upplifa vanmátt sinn.  Ég sem móðir barna sem hafa misst systur finn fyrir sorg systkina hennar.  Ég sem amma barna sem hafa misst móður finn fyrir sorg barnabarna minna. Ég skynja líka sorg annarra fjölskyldumeðlima, vinkvenna og vina.  Þegar ein manneskja deyr, sem er stór í augum margra, eru margir sem upplifa tóm, – svo ein manneskja er stór og skiptir svo óendanlega miklu máli. –

Ég var að ræða við vin minn og jafnaldra og hann sagðist bara aldrei hafa misst neinn náinn. –  Sumir hafa misst einn eða tvo, – í nánasta hring eða utar,  en svo er það fólk sem hefur á miðjum aldri eða yngra misst marga. –  Það virðist engin regla í þessu, miklu frekar óregla.

Mér hefur verið ætlað í minni lífsgöngu að missa marga, eða kannski ekkert ætlað, það bara er svoleiðis. –  Í mínum nánasta hring, mér allra næst þá var það fyrst pabbi sem fór, liðlega fertugur,  dó frá mömmu og okkur fimm systkinum á aldrinum átta mánaða til tólf ára.  Það er mikið og þar var stór missir, – pabbi með fallegan persónuleika og hafði snert marga.  Hann átti stóran systkinahóp,  var elsti bróðirinn.  Hann var orðinn starfsmannastjóri og vel liðinn sem slíkur.  Hann skildi eftir stórt skarð.

Þegar ég var tólf ára eignaðist ég það sem við köllum oft „bestu vinkonu“ – við vorum einhvers konar sálusystur –  en hún dó árið 2008,  á dánarbeði hennar sagði ég við hana: „Við verðum alltaf saman“ – og það bara kom út úr mér – eins og ég væri áhorfandi að sjálfri mér.

Pabbi hennar skrifaði minningargein sem byrjaði á þessum orðum: „Það eru grimm örlög að lifa börnin sín“ – og það stemmir við það að það er vont að missa og það er vont að sakna,  og það bætir í þegar að röðin riðlast.  Þ.e.a.s. að við förum ekki í „réttri“ röð.   Í bæði móður-og föðurætt minni  höfum við misst ungt fólk frá okkur. Ég veit ekki hvort það er óvenju mikið eða ekki.  Það skiptir ekki máli, en að ungt fólk deyr er staðreynd, jafnvel  þó það sé óhugsandi og óbærilegt. –

Dauðinn er partur af lífinu, og í lífinu vitum við af dauðanum, en það er nú sem betur fer þannig að við erum ekki að lifa hvern dag í ótta við dauðann, og nú kem ég að því sem ég tel að sé svo mikilvægt.  Það er að horfast í augu við óttann og mæta honum með mildi. –  Við óttumst það að missa, – en hvað getum við gert í því akkúrat núna?   – Jú, það er að njóta þeirra sem eru lifandi í kringum okkur. Fólks sem gæti einn daginn verið fólkið sem við söknum. –   Láta ekki ótta við eitthvað sem verður óhjákvæmilega einhvern tímann og við getum engu stjórnað hvenær, – ræna okkur gleðinni af deginum í dag, – ræna því að njóta okkar – njóta lífsins meðan við höfum líf. –  Líka þeirra sem er hér og nú. 

En hvað gerist svo við dauðann? – Það getur líklegast enginn lifandi maður svarað með vissu, hversu mikill meistari sem hann er – En það sem ég trúi, miðað við mína lífsreynslu og upplifanir  er að hið líkamlega deyr. – Formið okkar, sem er kroppurinn starfar ekki lengur.  En það er eitthvað sem ER og varir og er eilíft.  Lífið er eilíft og með það í huga þá er enginn dauði, aðeins þessi dauði formsins.  Fólkið okkar lifir – sínu lífi og allt er gott.  Það tekur ekki sýnilegt pláss, en það á stórt pláss í hjarta margra.

Það var svo árið 2013,  að tveir úr mínum nánasta hring féllu frá, fyrst dóttir mín í janúar og síðan mamma í september.Í síðasta samali við dóttur mína – áður en hún var sett í öndunarvél, á nýársdag 2013, sagði hún: „Mamma, slökktu ljósið, lokaðu gluggunum, lokaðu dyrunum, ég ætla að loka augunum og gerð þú það líka.“

Þegar við lokum augunum sjáum við með hjartanu, og við sjáum þau sem eru í hjartanu.  Leyfum okkur að skynja og finna – því það sem er raunverulegt deyr aldrei. – 

Sorgin kemur í bylgjum, við grátum og svo mildast aldan, og undiralda friðarins yfirgefur okkur ekki.  

ÁST ❤

candle-heart-hands

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s