Ég fór að sjá uppfærslu leikhópsins Vesturport í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi, á leikriti Franz Kafka Sýningin var mögnuð í heild og mikið var ég þakklát fyrir að hún var án hlés. En hlé á það til að klippa upplifun í sundur. – Hér ætla ég ekki að tala um leik, svið, búninga eða annað aðbúnað, heldur tilfinningalega upplifun almennt og þá helst þá punkta sem mér fannst hvað athyglisverðastir hvað samskipti varðar.
Hér er um að ræða fjölskyldu – pabba – mömmu – son og dóttur. Sonurinn er sá sem fer í hamskipti, en hann breytist í risavaxna bjöllu. Gísli Örn Garðarsson leikur soninn, eða Gregor Samsa. Áhorfendur skynja breytinguna í gegnum leikinn, en hann er ekki í búningi bjöllu og leikur hana í jakkafötum. Svo þarna er það túlkunin sem skiptir öllu máli. Þetta verður ekki yfirgripsmikil gagnrýni – enda er ég ekki menntuð eða hæf til slíks, – aðeins mín eigin upplifun og hvað situr eftir í fyrstu lotu, en eflaust á meira eftir að koma upp.
Þó að Gregor Samsa breytist í bjöllu, reynir hann að hafa samskipti við fjölskyldu sína, fyrst og fremst systur og móður. Faðirinn er fjarlægur og fyrstur til að afneita syninum og gerir það með táknrænum hætti með að henda stólnum hans út um gluggann. – Þegar sonurinn (bjallan) reynir að tjá – og talar skýrt og skorinort, heyrir fjölskyldan bara suð. Suðið er óþægilegt – svo í flestum tilfellum grípa þau fyrir eyrun. Áhorfendur heyra þó hvað sonurinn segir, og er í því falin ýmis skynsemi eins og að systir hans eigi endilega að halda áfram að æfa sig á fiðluna sína. – Hann skilur þau – og heyrir í þeim, en þau skilja ekki hvað hann segir.
Þetta fannst mér táknrænt fyrir það þegar fólk skilur ekki einhvern einstakling. Einhver er að reyna að tala við fjölskyldu sína, eða hvern sem er, en viðkomandi heyrir ekki, getur ekki heyrt eða vill ekki heyra. Við þekkjum það flest, að stundum er það að tala við fólk eins og að tala við vegg, og það sem við erum að segja því veldur bara að það langar helst að halda fyrir eyrun. Stundum erum við þau sem höldum fyrir eyrun. Kannski er að óþægilegur sannleikur, kannski er það bara eitthvað sem við getum ekki skilið, af því að það kemur frá annarri tíðni en við erum stödd í. –
Þetta minnir mig á þegar fráskilið par eða hjón eru að reyna að tala saman, og þau heyra ekki hvað hinn segir eða skilja ekki. Nú eða það sem hann/hún segir er bara óþægilegt og það veldur reiði. Það er tilgangslaust að ræða saman ef að það sem þú segir er bara eins og óþægilegt suð bjöllunnar. – Það þýðir ekki að ergja sig á aðilanum sem ekki skilur, alveg eins og það þýðir ekki að ergja sig á þeim sem skilur ekki þegar bjalla talar. (Þetta hljómar náttúrulega pinku fyndið að segja „Bjalla talar“ :-))
Bjallan getur verið táknræn fyrir eitthvað sem við viljum ekki vita af, þess vegna samvisku okkar. Hún er lokuð af og kannski svelt, eins og gerist í sögunni. Þarna er eitthað – bróðir okkar – sonur, sem hefur rödd, en hún deyr í lokin, og restin af fjölskyldunni lætur eins og ekkert hafi í skorist, lifir í afneitun á ástandinu – getur eflaust ekki höndlað það. –
Ég ákvað að skrifa þetta áður en ég færi að lesa mér til um verkið. Ég hef ekki lesið bókina, né ritdóma, aðeins gluggaði ég í lýsinguna í upphafi – til að átta mig á hver hamskiptin voru. – Faðirinn var fjarlægastur – svo móðirin en systirin næst. Hann tapar þeim öllum.
Annað sem var áberandi í leikritinu var að persónurnar sögðu eitt – en voru annað. Dæmi: „Ég er svo lítið fyrir yfirborðsmennsku“ – sagði gesturinn sem var holdgerfingur yfirborðsmennsku. – Fólk segir eitt en gerir annað. – Er s.s. ekki það sem það segist vera. –
Það er gaman að yfirfæra þessar pælingar og þessa næstum 100 ára gömlu sögu yfir á nútímann. Yfir á samskiptin í nútímanum, heiðarleikann og yfirborðsmennskuna. – Er einhver í okkar lífi sem við hreint og beint skiljum ekki? – Er einhver sem skilur okkur ekki? – Hvers vegna? – Er annað hvort okkar bara stór bjalla?