Ég hef verið að pirra mig á því að í landi mjólkur og hunangs, sem Ísland svo sannarlega er, hafi ekki allir þegnarnir nóg að bíta og brenna. – Það myndast einkasamtök, góðgerðasamtök, hjálparsíður, þar sem velviljaðir einstaklingar halda utan um gjafir og góðverk þeim til handa sem ekki hafa í sig og á. – Ég myndi vilja óska að slíkar „stofnanir“ væru óþarfar, og er það m.a. vegna þess að einn á ekki að þurfa að „betla“ af öðrum það sem eru sjálfsögð mannréttindi: það er a.m.k. að fá að nærast og fá húsaskjól.
En úr því að svona er komið, þá er ekki hægt að láta fólk svelta, eða eiga svefnlausar nætur af kvíða fyrir afkomu næsta dags eða mánaðamóta. –
Áhyggjur eru misjafnar hjá fólki, eins og ég sagði þá er áhyggja dagsins hjá sumum hreinlega hvaðan matarbiti morgundagsins kemur á meðan aðrir eru í öngum sínum hvort þeir eigi að velja Spán eða Flórída fyrir fríið á næsta ári. (Ég er að segja ykkur satt, því ég hlustaði á konu sem fannst hún eiga mjög bágt yfir þessu „stóra“ vandamáli).
Þessi mál eru mér mjög umhuguð. Ég hef sjálf verið stödd í þessum afkomukvíða, þegar ég átti varla fyrir mat og horfði öfundaraugum á fólk sem gat borið fulla poka í eigin bíla fyrir utan Bónus. Það virkar ekki mikill lúxus – en þegar þú ert matar-og bensínlaus þá er það lúxus.
Ástandið á Íslandi er þannig í dag, að það eru sumir mjög vel staddir fjárhagslega og geta í raun leyft sér hvað sem er og t.d. keypt sér skó fyrir 50 þúsund, eins og ég gerði einu sinni. Síðar seldi ég skóna 🙂 .. því þeir voru óþægilegir!
En hvað getum við gert? – Hvað get ég gert? – Jú, um leið og ég hef meira en nóg fyrir mig, eða þú fyrir þig, eigum við þá bara að fara að hugsa: „hvað get ég nú keypt mér?“ eða „á ég kannski auka?“ – 5000.- krónur er mikill peningur fyrir þann sem á engan pening, en lítiið fyrir þann sem er með miðlungs eða háar tekjur. –
Við getum styrkt hjálparsamtök sem gefa mat, við getum styrkt einstaklinga sem við sjáum að eru í þörf, – það er hægt að fara inn á síður eins og matargjafir og gefa matarpoka, nú eða hreinlega treysta fólki og leyfa því að velja sjálfu í sinn poka og leggja inn smá upphæð fyrir mat hjá þeim. – Stundum er þetta fólk nær okkur, en við áttum okkur á. Við ættum að þekkja það frá facebook, eða jafnvel það er bara ættingi okkar sem er í vanda. Við erum oft feimin við að segja frá því.
Munum að verðmæti okkar er ekki mælt eftir hvað við eigum mikið eða lítið af peningum. Við erum öll verðmæt, en við getum látið gott af okkur leiða.
Ánægja heimsins verður meiri ef fleiri verða ánægðir. Að gefa er vinningur og að þiggja er vinningur. Svo það er vinningur heimsins. –
Þó ég sé á móti því að það þurfi samtök eins og Fjölskylduhjálp og síður eins og matargjafir, er það það sem er að hjálpa fullt af fólki í dag. Ríkisstjórnin forgangsraðar undarlega að mínu mati, en það þýðir ekki að við þurfum að gera það.
Hverju getum við breytt? – Jú, við getum jafnað aðeins út mismuninn – og ójafnvægið með því að gefa með okkur þegar og ef við eigum. Það er nóg af mannfólki og málefnum til að styrkja.
Hugsum okkur um næst þegar við ætlum að fara að kaupa einhverja yfirborðsmennskuvöru, eða sólarlandaferð – hvort að það sé ekki hægt að velja pinku ódýrara og gefa mismuninn – og fá þá bæði yl í hjarta og á kroppinn?