Ég var að átta mig á svolitlu, – eða í raun ekki svo – litlu, heldur mjög stóru.
Þegar við tökum mynd af blómi sjáum við bara blóm sem er kyrrt. Ef við stillum myndavélina, eða linsuna á blómið – og skiljum hana eftir – og spilum síðan hratt, sjáum við blómið blómstra, og kannski deyja ef við höfum hana nógu lengi gangandi. –
Sl. föstudag sýndi ég syni mínum upptöku sem ég tók af dóttur hans, og hann sagði að hann saknaði hennar svona, – þessa litla barns, en um leið var hann auðvitað ekki að segja að hann vildi ekki hafa hana nákvæmlega eins og hún er í dag. Ég svaraði á móti að ég saknaði hans líka frá því hann var pinkulítill. – Og við skildum hvort annað. –
Okkur finnst stundum lífið ganga of hægt og stundum of hratt. – Fólk fæðist, lifir og deyr.
Barnið sem var einu sinni er ekki beint dáið, en það er ekki lengur barn, það er fullorðin manneskja. – Við viljum halda í barnið, en samt langar okkur að það þroskist og verði fullorðið.
Hvað ef dauðinn er ekki dauði, heldur umbreyting? Bara risastór umbreyting? – Breyting þar sem eitthvað ódauðleegt lifir þó að hylkið (líkaminn) gefi sig – endanlega?
Vandamál dagsins eru svo stór ef við teygjum stundina og gerum þau að aðalatriði lífs okkar, en samt ef við spólum hratt áfram eyðast þau – eftir tvö ár eða þúsund ár eru þau horfin. –
Þá eru þau ekki neitt lengur. – Magnaður þessi tími. Stundum eigum við stundir sem okkur langar að hraðspóla, – stundir sem okkur langar að spóla til baka og endurgera og stundir sem okkur langar að frysta, því þær eru svo dásamlegar að við getum ekki hugsað heiminn betri. –
Þetta er í þjóðsögnum okkar, og þjóðsöngurinn er innblásinn af sálmi í Biblíunni. Menn hafa vitað þetta alla tíð, um afstæði tímans. –
Úr þjóðsöng Íslendinga eftir Matthías Jochumsson:
“ Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.“
Úr 90. Davíðssálmi:
Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
2Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
4Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.
5Þú hrífur þau burt sem í svefni,
þau er að morgni eru sem gróandi gras.
6Að morgni blómgast það og grær,
að kvöldi fölnar það og visnar.
Við erum svo lítil og líka svo stór. Hvert og eitt okkar er eins og fruma í risastórum líkama sem kallast heimur. – Stundum veikjast frumurnar og ráðast á hvor aðra, eins og blóðkornin gera. Líkaminn ræðst á sjálfan sig og þá verðum við veik. Svoleiðis ráðumst við mannfólkið á hvort annað og þá verður heimurinn veikari. –
Eina sem bjargar heiminum er meiri kærleikur, meiri ást og skilningur á að við erum eitt. Að þegar við ráðumst að öðrum – erum við að ráðast að okkur. –
Hvert og eitt okkar skiptir máli, en samt ekki ölllu máli, því lífið heldur áfram án okkar.
Það er mikilvægt að hafa í huga að lifa fallega, vera „falleg“ fruma og láta gott af sér leiða á meðan við höfum möguleika, en svo er spurning um endurkomuna? – Ef við nú bara spólum hratt? –