„Ég elska þig“ …. var hvíslað, og svo sofnaði fjögurra ára sonardóttir mín, með köflótta sæng, dregna alveg upp að hálsi, og lítill handleggur lá um háls ömmu. –
Það eru forréttindi að eiga börn og hvað þá barnabörn!
Ég var að átta mig á því að ég er forréttindakona á svo margan hátt, og vil með þessum pistli þakka fyrir það.
Ég bý i stóru parhúsi, með grasþaki – sem ég þó á ekki, en það eru forréttindi sem fylgja þessari leigu, t.d. að þurfa ekki að gera við t.d. ef að leitthvað lekur, þá er hringt í „viðhaldsdeild“ – og ég þarf ekki að fara eina ferð í BYKO!
Ég lít á það sem forréttindi að búa í sveit, – nálægt náttúrunni. Alveg frá því ég prófaði það fyrst, árið 2012, þegar ég flutti á Hvanneyri í Borgarfirði. –
Ég á bíl – Hondu Jazz 2005, sem mér er farið að þykja vænt um, – og það eru forréttindi að hafa aðgang að bil og geta sest upp í hann og bara ekið hvert á land sem er. Það er hægt að velja á milli útvarpsstööva, eða hlusta á skemmtilegan geisldisk með fróðlegum fyrirlestri. Það er ótrúlega margt HÆGT að gera.
Ég er þakklát fyrir hversdagslega hluti, sem eru ekki alltaf eins sjálfsagðir og við höldum, svona eins og að fá að faðma börnin mín – þakklát fyrir systurnar mínar sem ætla að heimsækja mig í dag (ef Hellisheiðin leyfir) og þakklát fyrir ótrúlega margt gott. – Þakklát fyrir sporin sem ég hef gengið á lífsgöngunni, – krókaleiðirnar sem kenndu mér hvar ég ætti EKKI að fara, og kenndu mér hvað ég raunverulega vildi.
Lífið er líf andstæðna, – til að þekkja gleði þurfum við því miður að þekkja sorg. Til að þekka ljósið þurfum við andtæðuna sem er myrkrið. – Markmiðið okkar hlýtur að vera ljós.
Þessi morgunfabúlering um forréttindi og þakklæti er það sem ég vaknaði með og er fegin að vera búin að losa hana úr fingrunum. – Það er margt sem ég get hlakkað til í dag og næstu daga. – Uppákomur hér á Sólheimum þar sem við Eva Rós ætlum að taka þátt, og svo hlakka ég til á Öskudag, að „kveðja“ eitlana mína tvo sem voru svo óheppnir að fyllast af sortumeini. Ég fæ svo fallegan lækni til að „operera“ og að mig grunar vandvirkan að ég upplifi það sem forréttindi. – Þegar ég segi „fallegan“ – þá meina ég „í gegn“ – þú finnur þegar þú talar við fólk hvort það talar við þig með hjartanu og stutt kynni mín af þessum lækni eru þannig. (Það skal tekið fram að hann er einn af þessum ungu, þar sem ég átta mig á að ég hef lifað langa ævi 🙂 ) og það hljóta að teljast forréttindi að vera komin á 54. aldursár!…
Jæja, – ég var með Evuna litlu í gærkvöldi – og með tölvuna opna og við tókum þessa mynd, svo spurði ég hana hvort að ég ætti að spila lag í tölvunni, en nei það vildi hún ekki heldur sagði hún: „Þu skalt syngja amma“ – og svo bætti hún við „og gilla bak“ .. og það eru forréttindi að það sé hreinlega einhver sem biður mig um að syngja ::-) .. nú og „gilla“ bak. Stóra Evan mín kallaði það að „mjúka“ bak. –
Það eru forréttindi að fá að elska og vera elskuð. – ❤
Valentínusar hvað? …. 🙂