Tilfinningar og krabbamein …

Það var korteri fyrir jól að ég fékk símhringingu frá heimilislækninum sem spurði þessarar einföldu spurningar:  „Hvar ertu?“ –    Það sem ég heyrði var: „Það greindist krabbamein í eitlunum þínum“ .. því það spyr enginn „Hvar ertu?“ ef fréttirnar eru góðar. –  Og læknirinn staðfesti þessa niðurstöðu sem ég hafði heyrt.    En s.s. ég var nú bara stödd í mötuneytinu á Sóllheimum og framundan var að keyra í bæinn og í fylgdarliði mínu voru tvær heimiliskonur sem ég hafði lofað að gefa far heim til sinna ættingja og einn páfagaukur (en það er nú sér saga að segja frá því).  –

Þú brotnar ekkert niður á miðjum vinnudegi, með fullt af verkefnum fram undan.  Svo míns herti sig upp og brosti í gegnum tárin,  sem reyndar voru líka falin. – „The show must go on“ ..   það er ekki eins og eg hafi ekki þurft að gera þetta áður, eða standa keik þegar mig langaði mest að henda mér í gólfið og gráta eins og krakki! ..

Það var ekki fyrr en seinni partinn, þegar skyldunum var lokið að ég gat loksins fengið útrás, það var þegar ég var orðin ein í bílnum og þurfti líka að segja ættingjum mínum frá þessu.  Það er svakalega erfitt að segja frá …

Nú er liðið bráðum hálft ár frá jólum og búið að fjarlægja eitlana sem voru sýktir og gleðifréttirnar úr alls konar rannsóknum og skönnum voru að þetta hafði ekki sáð sér víðar.  Ógleðifréttirnar voru kannski að það þyrfti að halda áfram með meðferð þ.e.a.s. að það ætti að freista þess að hindra það að krabbinn næði að dreifa sér víðar um líkamann í framhaldinu og til þess væri geislameðferð notuð.    Ég er s.s. að hefja hana loksins núna.

Maður sveiflast alveg svakalega í tilfinningum þegar þessi greining kemur.  Alveg frá því að gera lítið úr, – sem er alveg rökrétt –  því fólk getur lifað í tugi ára eftir greiningu og svo deyr stundum fólkið sem hreinlega var ekkert að og enginn undanfari. –   En svo fer maður í „allann pakkann“ þ.e.a.s.  þú ert eiginlega búin að jarða sjálfan þig, velja prest og útfararsálma og hefur þar að auki gríðarlegar áhyggjur af þeim sem eftir eru, – og er það líklegast það sem flestir hugsa mest um. –  Það gerði dóttir mín þegar hún var að kveðja, – hún pældi mikið í að væri í lagi með mig og pabba hennar, – með systkini og auðvitað með börnin hennar.  Að allir væru í góðum höndum svo hún gæti skilið við. –

Ég þarf í rauninni ekkert að hugsa meira um dauðann en hver annar, – en einhvern veginn kallast orðið: „krabbamein“ á við orðið „dauði“  og það er bara býsna óþægilegt og maður þarf að átta sig á því að það að lenda réttum megin prósentulega séð, þ.e.a.s. lífs megin er bara dágóður möguleiki og ekki reikna með hinu versta og gera þannig lífið í dag verra en það þarf að vera.

Vandamálið er að það er stundum ekki alveg skynsemi í tilfinningunum.  Þú byrjar að hugsa og þá fær maður svona panik tilfinningu: „Ég þarf að lifa núna – allt sem ég átti eftir að gera“ ..  úff.

Það þekkja flestir að lífið er eins konar rússíbanaferð, upp og niður, hringir og veltur.  Rússíbaninn verður e.t.v. stærri og hraðari þegar við fáum að vita að eitthvað ógnar lífi okkar.  Förum hraðar upp og hraðar niður.  Það gildir um fleira en krabbamein.

Allt snýst þetta um traust – að treysta því að hlutirnir fari eins og þeir eiga að fara, og við leggjum ekki hindranir í eigin farveg.  Vinnum með lífinu.  –

Við erum öll að kljást við eitthvað, – einhvern tímann skrifaði ég pistil um að skömmin væri krabbamein sálarinnar. –  Allir eru að glíma við einhverja skömm og skömmin er þess eðlis að hún heldur í skefjum.   Hún er hindrunin okkar ef við leyfum henni að vera það.  Það sama gildir um annað krabbamein,  það hindrar ef við leyfum því að gera það.  Hindrar hamingjuna og elur á ótta.  –

Krabbamein er að vissu leyti andlegur eða tilfinningalegur sjúkdómur, –  því hann hrærir svo mikið upp í sálarlífinu, enda eru alls konar einkenni eins og kvíði, þunglyndi og depurð fylgifiskar krabbameinsgreiningar.

Það besta í heimi hér er að mæta fólki sem skilur okkur, – sem sýnir samkennd og samhug og leyfir okkur að vera við sjálf.  Þetta fólk hefur þannig áhrif að við treystum okkur til að mæta þeim risavöxnu verkefnum sem bíða okkur í lífinu. –  Að vita af einhverjum sem er traustur og skilur er gulls ígildi.

Það skipitr máli að fólk sjái framtíð, – að hafa trú á framtíð – og gefa ekki upp von og að þeir sem eru í kringum hafi þessa trú líka.  

Við erum svo mikið í þessu saman,  það er kannski kjarninn sem ég er að koma hér að. Mikilvægi þess að vera saman,  hvort sem það er í anda eða verki.

Nú hef ég komið þessu á blað – og meira að segja í pistil og þá get ég andað léttar 🙂

Takk fyrir öll þið sem lesið og öll þið sem skiljið, – og ég vona að einhverjum gagnist það að ég er að deila mér og mínu með öðrum.

we-are-all-in-this-together

2 hugrenningar um “Tilfinningar og krabbamein …

  1. Kæra Jóhanna, þakka þér fyrir að deila hugsunum þínum og tilfinningum. Ég les mikið af því sem þú skrifar og ég dáist að þér fyrir staðfestu og kraft. Ég hef líka tekið eftir því hve þú hefur mikinn innri styrk, kærleika og hjartagæsku. Af öllu hjarta óska ég þér þess að allt fari vel og að þú verðir heil heilsu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s