Hver kennir okkur að vera óánægð? ….

„We are all wired for love and belonging“  – Brené Brown.  Við höfum öll þörf fyrir ást og umhyggju, það að vera í tengslum við aðrar mannverur.   Það er hin raunverulega mannlega þörf.  En fyrst og fremst tel ég að við þurfum að vita að við tilheyrum okkur sjálfum, og við þurfum að vera í tengslum við barnið í okkur og ekki týna því á lífsleiðinni.  Það eru „hlutir“ sem fjarlægja okkur frá okkur sjálfum.  Eftir því meira sem við eigum af þessu veraldlega höfum við byggt þykkari veggi frá okkur til okkar. –  Kúnstin við að lifa – án þess að vera í skorti og langa alltaf í nýjan hlut,  er að muna að við erum börn í móðurlífi heimsins,  og þannig upplifa fullnægjuna bara við að vera til, án alls þess sem okkur er sagt að við þörfnumst.  Til að hagkerfi heimsins gangi upp þurfum við að kaupa dót og hluti af öðru fólki – dót sem okkur er sagt að við verðum að eignast til að vera ánægð.  Okkur er kennt að vera óánægð og þess vegna förum við að vinna fyrir peningum til að kaupa hluti sem margir hverjir eru alls ekki það sem okkur raunverulega vantar.  Við höfum verið göbbuð, er það ekki?  –

„All you need is love“ ..

Barn fæðist í heiminn, –  það er mikil og snögg breyting.  Áður hafði það allt sem það þarfnaðist.  Næringu, hlýju og öryggi í móðurkviði. –   Svo kemur það út í „kaldan“ veruleikann.  Það þarf að láta vita,  til að fá eitthvað,  ef móðirin er ekki nógu snögg að skynja hvað það vantar.  Það grætur, og þá eru stóru spurningarnar:   er barnið svangt?  Er því of kalt /heitt?  Er barnið búið að gera í bleyjuna? –  Er því illt í maganum?  Eða grætur það bara grátsins vegna? …   Þetta eru yfirleitt ekki nema 5 – 6 ástæður sem koma til greina, og oftast er hægt að sinna þeim fljótt og vel,  og nota útilokunaraðferðina líka, þ.e.a.s.  búið að borða „tékk“ –  þurr bleyja „tékk“ .. o.s.frv. –

Svo eldist barnið, og fer að tala og getur sagt hvað því langar og hvað það vill,  það er alltaf ákveðinn léttir þegar börn fá málið og geta sagt til um líðan sína og þarfir.

En lífið flækist meira eftir því sem við vöxum úr grasi, því að fleiri þarfir og langanir bætast við eftir því sem við eldumst og uppgötvum hvað er þarna úti og við gætum átt, eigum „rétt“ á,  hinir eiga en ekki við o.s.frv. –

Barn sem á húsakjól, foreldra sem bera umhyggju fyrir því og nægan mat,  er kannski fullnægt að mestu.  Tala nú ekki um ef að foreldrar hafa tíma fyrir það að syngja og segja sögur, strjúka því um bakið og eiga góðar stundir saman, nú eða með systkinum.

„All you need is love“ …  eða hvað?

Barnið fer að vaxa og því „vantar“ dót.   Jafnvel þótt það hafi varið mörgum klukkutímum í stóra pappakassanum – og raðað eldhúsrúllunum sem mamma keypti af syni Siggu vinkonu svo hann kæmist í keppnisferð til Póllands, sem virkisvegg í kringum pappahúsið.   Þá er eitthvað þarna í „Toys´R’ Us“  – bæklingnum sem kom inn um lúguna sem barnið „þarfnast“ gífurlega,  enda eiga margir af hans félögum þess þannig græju líka.    Herbergi barnsins er að fyllast af dóti,  sem það „þarfnast“ og mamma tekur sig til og hendir kassanum, – því það er ekki lengur pláss.

Barnið er gífurlega ánægt þegar það fær nýtt dót,  en þessi ánægja virðist ekki vara lengi og dótið lendir í rykhrúgu undir rúmi og gleymist,  og það er lika verið að auglýsa fjarstýrðan bíl í sjónvarpinu, – og það er engin gleði fyrr en bíllinn kemur. –

Barnið stækkar og verður unglingur.  Barnið þarf alls konar fatnað,  eins fatnað og hinir – til að vera ánægt.  Eitthvað sem er í tísku,  og það þarf alltaf eitthvað nýtt.

Barnið verður fullorðið og á allt í einu fulla fataskápa af engu, og ekkert til að fara í þó að það fötin flæði út –  og herbergi sem eru ekki nógu mörg og ekki nógu stór.  Það „þarfnast“ stærri fataskápa,  stærri herbergja og stærra húss.  Annars er ekki hægt að vera ánægt.   Það þarf líka fallegan bíl og auðvitað vinnu sem það fær svakalega vel greitt fyrir því það þarf að kaupa svo margt í stóra húsið með herbergjunum öllum,  og helst að fá bílskúr undir það sem er orðið úrelt og leiðinlegt og ekki hægt að „leika“ með lengur.  Nú dugar ekki að henda því undir rúm, því það er ekki pláss.  Það þarf góða geymslu þar sem þetta sem við getum lagt það sem áður var ómissandi á sinn stað, ef svo ólíklega vildi til að við vildum grípa til þess aftur í fjarlægri framtíð.   Barnið veit þó innst inni,  að líklegast verður þetta bara dót sem verður hent þegar það sjálft kveður þennan heim.

Barnið verður gamalt, lúið og flytur á hjúkrunarheimili fyrir aldraða.  Það eru ekki mörg atriði sem það þarfnast.  Það hefur misst getuna til að tjá sig, og þarfnast aðeins umhyggju,  að einhver passi upp á að skipt sé á stykki – sem nú má ekki lengur kalla bleyju, því fullorðin börn eiga helst ekki að nota bleyju þó mörg þeirra þarfnist þess.  Kröfurnar minnka, – það er ánægt ef það fær að borða, er þurrt,  og fær umhyggju. Einhver strýkur bakið og syngur.  –

Gamla barnið deyr.  Það er fullkomlega öruggt, í verndandi móðurlífi alheimsins, fær næringu og öryggi og þarfnast einskis.

„All you need is love“ ….

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s