„Hún Jóhanna bjargaði lífi mínu“ … þessa setningu rakst ég á í gær, – og meðfylgjandi var tengill á bloggið mitt. – Mér hlýnaði um hjartarætur, – og varð þakklát, fyrir að hafa getað gert gagn. – Ég veit að það sem ég hef verið að leiðbeina með undanfarin ár, með hvatningu og ráðgjöf hefur hjálpað mörgum, – þ.e.a.s. þeim sem hafa verið tilbúnir til að meðtaka það sem ég hef verið að deila.
Það er alltaf fólkið sjálft sem á endanum bjargar sjálfum sér, – það þurfa allir að ganga veginn sjálfir, en við þurfum oft leiðsögn – og þá er gott að hafa vit og auðmýkt til að leita sér leiðsagnar.
Í raun er það þannig að við höfum öll viskuna – við vitum hvað er best fyrir okkur, en stundum þorum við ekki að treysta okkur, eða við þurfum að heyra það sem við vitum sjálf frá einhverjum öðrum. Það er einhvers konar staðfesting. Stundum erum við ekki að tengja við viskuna í okkur, og erum uppfull af ó-visku, eða ranghugmyndum um okkur sjálf og vitum ekki hvert við viljum stefna, þá er gott að fá leiðsögn – að einhver bendi okkur í rétta átt.
Ein átt er alltaf rétt. Það er áttinn inn á við. Þegar við erum í tilfinningastormi eða átökum, – hvað er þá best að gera? Jú, draga sig í hlé, setjast niður með sjálfum sér og e.t.v. Guði, og hlusta á svörin í kyrrðinni. – Þegar fókusinn er fixaður á annað fólk og umhverfið, – að fá samþykki umhverfis og fólks, þá erum við út á við. –
Hún Jóhanna (ég sjálf) lendir oft „utanvegar“ – þ.e.a.s. hún gleymir að hugsa inn á við, og er dottin í það að hugsa um hvað aðrir vilja. Hún væri ekki svona næm á annað fólk, nema vegna þess að hún hefur dottið í flestar „gryfjur“ sem það dettur í. Hún er leiðsögukona, sem hefur gengið á undan og prófað allar eða flestar krókaleiðirnar. Hún hefur gert gífurlega mörg „mistök“ (skrifa mistök í gæsalöppum, því þau eiga víst ekki að vera til) – og henni hefur oft orðið fótaskortur. – Hún getur því leiðbeint fólki, frá bjargbrúnum og djúpum gljúfrum. Því hún var þar.
Hún er afskaplega mennsk, – ofboðslega berskjölduð líka, því hún leyfir sér að tala um næstum ALLT – líka sorgir sínar, – og það er ekki alltaf sem fólk kann að fara með það og ákveður að skjóta á þessa berskjölduðu konu. Og já, þó hún kenni æðruleysi, þá fer hún stundum „á límingunum“ þegar að henni er ráðist, og henni finnst að sér vegið.
Nú er komið að því að hún Jóhanna þarf að bjarga sjálfri sér. Eitthvað hlýtur hún að hafa lært á öllu þessu ferðalagi. Það eiga svo margir drauma um að bjarga heiminum, – en sá eða sú sem við þurfum að bjarga fyrst og fremst erum við sjálf. Ef við erum heimurinn, – einhvers konar micro-cosmos, þá byrjum við á að bjarga okkur sjálfum. Hver og ein fullþroska manneskja getur litið í eigin barm og bjargað sér. Hún gerir það, líka þau sem tala um það að aðrir hafi bjargað sér, – því ef við hlustum ekki á ráðin sem leiðsögumenn okkar um lífið gefa okkur, og við vitum í hjarta okkar að eru rétt, þá er okkur oft ekki við bjargandi.
Þetta er gamla góða sagan um sáðmanninn, sem sáði fræi og eitthvað féll í grýtta jörð – og ekkert varð úr, en það sem féll í frjósaman jarðveg og upp spratt gróður, – sem blómstraði síðan. – Það er gífurlega gefandi að vera sáðmaður og sjá fólk blómstra, en við erum bæði sáðmenn og jarðvegur á sama tíma. Það er mikilvægt að taka við fræjum trúar og elsku, en um leið að hafna ótta-og efasemdarfræjum. –
Tilfinningarnar eru ást eða ótti. Við vökvum ástina en sýnum óttanum tómlæti. – Fókusinn er inn og á ástina.
Takk fyrir fallegu orðin þín kæra Jóhanna og gefðu sjálfri þér næringu. Þú kærleiksríka kona sem hefur nært líf svo margra, þar á meðal mitt líf.