Það er ekki hægt að segja annað en að árið 2015 hafi verið „skrautlegt“ ár. Í upphafi var það litað með svörtu, þ.e.a.s. vegna krabbameinsgreiningar minnar, – ég fór til Danmerkur í Jáeindaskanna í janúar, í aðgerð í febrúar og dvaldi á umdeildu sjúkrahóteli í 14 daga. Svo létti nú til, – og ég fór að heimsækja yndislegu barnabörnin mín til Danmerkur í lok apríl og fram í maí. – Geislameðferðin hófst í júní og kláraðist í júlí 27 skipti – þar af tvö í undirbúning. – Ég naut þjónustu Ljóssins, ráðgjafa, markþjálfa, iðjuþjálfa og svo fram eftir götum. Einnig leitaði ég ráðgjafar hjá Krabbameinsfélaginu. Þessi ráðgjöf var mest af andlegum toga, – það var eins og gamla sorgin, eða ekki svo gamla – að missa Evu, magnaðist upp við að veikjast sjálf. Ekki hjálpaði það til að vera send í skanna á sama spítala og hún lést. – Mér fannst eins og örlögin væru að hæðast að mér. Það var þó ekki alslæmt að vera send til Danmerkur, því ég náði að heimsækja fjölskyldu mína þar í leiðinni. Það er alltaf eða oftast hægt að sjá ljósa punkta í öllu.
Ég naut þess að vera á Heilsustofnun í Hveragerði frá júlílokum í þrjár vikur, en eftir að ég kom þaðan fór ég svo að segja aftur í fullt starf. Fann þó oft fyrir „geislaþreytu“ eins og það er kallað og á það til ennþá að verða eins og „örmagna“ .. og veit ekki hvort það er þess vegna eða bara vegna þess að það er í mörg horn að líta í starfinu mínu.
Það voru erfiðar stundir á sl. ári, en líka mjög margar gleðiríkar, og ég myndi segja að þegar ég lít til baka, sé ég að átta mig á hvað ég er alltaf að verða ríkari og ríkari. – Það er fólkið sem ég hef kynnst sem gerir mig ríka.
Á árinu hef ég líka verið að hugsa mataræði mitt upp á nýtt, – já, gleymdi að minnast á það að ég fékk gallsteinakast í júlí, þegar ég var rétt nýlokin við geislameðferð, og endaði með sjúkrabíl á heilbrigðisstofnun Suðurlands, fór í ómskoðun sem staðfesti þessa steina. Í viðtali við skurðlækni var ég sett á biðlista – og átti að fjarlægja gallblöðru í „haust“ – en haustið er svo sannarlega liðið, og langar mig eiginlega bara að sleppa við þessa þó smávægilegu aðgerð, því nóg er komið! –
Það er m.a. þess vegna sem ég hef hug á að breyta mataræði og vera meðvituð um það.
Það er sumt sem við ráðum ekki við, en sumu stjórnum við. Ég hef ákveðið að bíða ekki til áramóta, – heldur hafa umbreytinguna núna. Ég þarf að sleppa öllum „triggerum“ að magakveisu og þá er hveiti ekki síður þar inni. – Sterkja, sykur, salt .. það eru essin þrjú, eins og hann Brian Tracy talar um. Það er ekki erfitt þegar maður kann að matreiða alls konar góðgæti, með blandara og töfrasprota 🙂
Árið (sem er byrjað hjá mér .. ) verður því ár heilsu og gleði.
Hreyfing – matur – og andleg iðkun, og fullt af ást. Ég ætla að skapa það, með því að trúa því og hugsa þannig.
Ég er heilbrigð – ég er glöð – ég elska og er elskuð. Verður „mantran“ mín og hún byrjar hér með og ég er að hugsa um að ljúka henni aldrei. –
Þessi mantra er ókeypis, og ég deili henni hér með með þér, þú mátt bæta við eða draga úr. 🙂
Það er líka hægt að nota það sem hún Louise Hay – segir hér:
Ég breyti lífi mínu þegar ég breyti hugsun minni.
Ég er ljós. Ég er Andi.
Ég er yndisleg, fullfær vera.
Og það er tímabært fyrir mig að viðurkenna það
að ég skapa minn eigin raunveruleika
með hugsunum mínum.
Ef ég vil breyta raunveruleika mínum,
þá er kominn tími fyrir mig að breyta hugsun minni.
Louise Hay