Fjaðrir og englar .. jólaprédikun 2015

Prédikun flutt í Sólheimakirkju við aftansöng á aðfangadag 24.12. 2015

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Biðjum:

Vertu guð faðir faðir minn

Í frelsarans Jesú nafni

Hönd þín leiði mig út og inn

Svo allri synd ég hafni.

 

Ég var stödd – í gær – hér í Vigdísarhúsi á Sólheimum, – nánar til tekið í mötuneytinu.  Þar sátum við nokkur og vorum að klára indælan saltfisk og hamsatólg sem hún Sandra hafði matreitt fyrir okkur af sinni alkunnu snilld  – og þá sáum við þar sem kemur svífandi lítil hvít fjöður niður á borðið okkar.   Ég og borðfélagar mínir litum  upp og skildum ekkert hvaðan þessi fjöður var komin.   Mér varð þá að orði,  að þessi fjöður sé merki þess að engill hafi flogið yfir.   Sessunautum mínum finnst það ósennileg skýring,  og trúðu kannski ekki alveg þessari útskýringu  og fannst sennilegri skýring  að fjöðrin tilheyrði e.t.v. einhverri flík.   –  Þá sagði  ég þeim að hafa augun opin,  því þetta væri tákn,  og oftast kæmu fleiri tákn af sama toga samdægurs. –

Um kvöldið,   fór ég og setti upp fallega jólatréð mitt,   sem náði alveg upp í loft,  svo engillinn á trénu rak næstum höfuðið sitt upp undir.

Ég opnaði pakka með 100 ljósa seríu,  – og legg hana í sófann við hliðina á mér.   –  Mér brá pinku lítið,  við það sem ég sá.   Lítil hvít fjöður lá pent ofan á miðri seríunni. –   Tvær fjaðrir sama daginn! –  Jahérna hér!

Ég hugsaði með mér að ég ætlaði að segja sessunautum mínum frá þessari merku „tilviljun“ ef tilviljun skyldi kalla.

Auðvitað getum við sagt að þetta sé svona einstök tilviljun,  en við getum líka leyft okkur að trúa að þarna hafi hreinlega verið englar á ferð, og af hverju ekki? –

Í inngöngusálminum okkar sungum við um sveimandi engla:

Þá nýfæddur Jesús í jötunni lá

á jólunum fyrstu, var dýrlegt að sjá

Þá sveimuðu englar frá himninum hans,

því hann var nú fæddur í líkingu manns.

 

Við syngjum um engla,  og við syngjum í sama sálmi um nýfæddan Jesús sem lá í jötu.    Jötu  í fjárhúsi,  – en samt er talað um að það hafi verið dýrlegt að sjá.  Er eitthvað dýrlegt við fjárhús og jötu? –  Þarf virkilega ekki meira til að gera dýrlegt á jólunum,  en að vera í fjárhúsi með sveimandi engla.

 

Í Pistlinum sem hann sr. Birgir las fyrir okkur áðan stóð meðal annars:

 

„Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega“

 

Stundum er það þannig að við sjáum ekki hvað er dýrlegt í kringum okkur vegna þess að við erum með svo mikið af veraldlegu dóti í kringum okkur.  Við sjáum ekki dýrðina fyrir dótinu,   og það hreinlega truflar okkur.   Jósef og María fengu ekki pláss í gistihúsi,  –  og kannski var það bara gott,  því að þá hefði kannski verið erfiðara að upplifa dýrðina,  heldur en í fjárhúsinu,  þar sem nálægðin við náttúruna og dýrin var meiri?

 

Við skulum halda áfram með inngöngusálminn og heyra hér annað erindið:

 

Þeir sungu „hallelúja“ með hátíðarbrag:

„Nú hlotnast guðsbörnunum friður í dag.”

Og fagnandi hirðarnir fengu að sjá

hvar frelsarinn okkar í jötunni lá.

 

„Nú hlotnast guðsbörnum friður í dag“ …

Hvað er það sem flestir þrá?    Hvað er það sem fegurðardrottningarnar segjast vilja helst af öllu,   þegar þær eru spurðar?

Jú,  „World Peace“  eða  Frið á jörðu.

Jesús Kristur er friðarberi,  og flytur friðarboðskap,  enda syngjum við enn meira um engla og frið í sálmunum okkar í dag.

Heyra má himnum í frá
englasöng: „Allelújá.“
Friður á jörðu, því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
:,: samastað syninum hjá. :,:

 

Samastað syninum hjá.   Hvað ef við ímyndum okkur að við séum lítil börn liggjandi í jötu,  yfir okkur skíni stjarna.   Við eigum nákvæmlega ekkert, –  a.m.k. ekki fyrr en vitringarnir koma og færa okkur gull, reykelsi og myrru. –    Við eigum það sem alla dreymir um að eiga,  – við eigum frið.    Hvort sem við dveljum með jólabarninu í jötunni,  eða Jesús sem fullorðnum frelsara – þá eigum við frið.    Það er dýrlegt að eiga frið,  og dýrlegt að eiga frelsi.   Þetta eru þær gjafir sem Jesús Kristur – Frelsarinn sjálfur – færir okkur.   Við megum kalla okkur heppin hér á Íslandi að búa í friðsælu landi, –  landi án stríðsátaka,  þó stundum sé sagt að þegar okkur fer að leiðast þá búum við til heimsstyrjöld heima á stofugólfi.    Það er gott að hafa það í huga, hvort við sjálf séum friðarberar – að við eigum frið í hjörtunum okkar.  –  Það er auðvitað mikilvægast að eiga sinn innri frið.   Í blessun prestsins – fer hann með friðarkveðju og biður Guð um að gefa okkur frið.   Drottinn blessi þig og varðveiti þig,  drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,  Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér SINN FRIÐ.   Þess óskar prestur söfnuðinum,  og þess óska ég ykkur fallega prúðbúna fólk, hér á þessari hátíðarstundu í Sólheimakirkju,  heimakirkjunni okkar.

Eigum við ekki bara að leyfa okkur að trúa að það hafi verið friðarengill í mötuneytinu í Vigdísarhúsi á Þorláksmessu?    Engill á Sólheimum,  er það nokkuð svo ólíkegt? –
Það má líka minnast á því að fjaðrir eru andlegt tákn í ýmsum trúarbrögðum, –  flestir tengja fjaðrir til dæmis við Indjána, –  en þær eru tákn um tengingu þeirra við andaheiminn.  Það vill svo skemmtilega til að á öðru borði í mötuneytinu í gær,  vorum við að ræða Indjána og kúreka,  og þá minntist hann Kristján Ellert á það að hann hefði alltaf haldið með indjánunum.  Þeirra hefði landið verið í upphafi.
Stundum fljúga englar og fjaðrir falla,  en við tökum ekki eftir því.   Kannski vegna þess að við erum svo upptekin að gera eitthvað annað,  eða vegna þess að við náum ekki að stilla friðinn, – svo það verður rok í kringum okkur og fjaðrirnar fjúka eitthvert annað.    Þegar við dveljum með Drottni,  þegar við leggjumst í jötuna til hans – leyfum okkur að slaka á og tökum á móti friðnum alla leið inn í hjartastað,  –  þá fáum við að sjá dýrð Drottins.

Við þurfum ekkert að leggjast bókstaflega í jötu,   við sjáum það bara fyrir okkur, finnum ilminn af heyinu og heyrum kannski örlítið jarm.   Það er stemming,  stemming eins og þegar við sitjumst niður og slökum á – í kyrrð og friði,   horfum e.t.v. á jólatréð okkar og leyfum jólaljósunum að lýsa sálinni.   Þá verðum við friðsæl – og líka glöð sem börnin! –

Ég bið þig, ó, Drottinn, að dvelja mér hjá,

að dýrðina þína ég fái að sjá.

Ó, blessa þú, Jesús, öll börnin þín hér

að búa þau fái á himnum hjá þér.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

10443059_10153032083033036_6320600260440103749_o

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s