Velgengni og ávextir á nýju ári ..

Sólheimakirkja – prédikun 31. desember 2015 

Lúkasarguðspjall 13. kafli

Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“

 

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og drottni Jesú Kristi.

Ó Jesú bróðir besti

og barnavinur mesti

Æ breið þú blessun þína

á barnæskuna mína

Þau ykkar sem voruð hér í messunni á aðfangadag munið væntanlega eftir sögunni úr mötuneytinu á Sólheimum, –  þar sem fjöðrin sveif.  En það er meira sem svífur á Sólheimum og það er „blómadrottningin“  sem svífur, eða réttara sagt  gengur á milli borða í mötuneytinu og syngur sálma.

Það gerði hún a.m.k. í fyrradag,  þar sem hún söng um Jesú bróður besta, og var umhugað að sr. Birgir heyrði nú sönginn hennar.  –

Hjá öðrum kollega mínum las ég það að prédikanir skrifuðu sig stundum sjálfar, – og það má segja að báðar þessar hátíðarprédikanir skrifi sig sjálfar.   Það þýðir að innihald þeirra er allt til staðar.   Lífið sjálft er prédikun.

Í Guðspjalli dagsins, – er fjallað um fíkjutré – sem bar að lokum ávöxt,  – og söngur blómadrottningarinnar tengist fyrir „tilviljun“   beint við guðspjall dagsins:

Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa,
svo ei mér nái’ að spilla.

Hvernig berum við ávöxt?   

Þau, sem Jesús sagði þessa sögu um fíkjutréð upphaflega, hafa ekki verið í vafa um það  að þau sjálf voru fíkjutréð. Þeim var ekki heldur hulið hver ávöxturinn var sem vænst var af þeim; en það var  réttlæti og réttvísi.   Það höfðu þau áður heyrt hjá Jesaja spámanni.

Fyrst voru þau treg til, og ástunduðu reyndar ekki réttlæti og réttvísi,  en Jesús gafst ekki upp,  og þau fengu tækifæri – en þó ekki út í hið endanlega – heldur miðaðist það við eitt ár, til að bæta sig og ástunda réttlæti og réttvísi.

Það er hægt að heimfæra þessa sögu á tímann í dag og allt fólk í dag, –  að þegar við erum góð börn, og forðumst hið illa – þá nær það ekki að spilla.   Fíkjurnar á trénu eru uppskeran,  uppskera af því að gefa trénu góða og lífræna næringu.

Það má líka tala um uppskeruna sem árangur eða velgengni.  Það er hægt að upplifa innri og ytri velgengni.   Ytri velgengni er t.d. það að ná einhverju prófi,  eignast allt það sem við setjum á óskalistann, –  hús, bíl, maka eða hvað það er sem er á listanum! –  En við erum ekki að tala um þannig velgengni i þessari dæmisögu, – heldur að ná að ganga vel hið innra.  Það er t.d. að ná að vera sátt og hamingjusöm, nú og auðvitað kærleiksrík.    Það er hinn raunverulega velgengni.

Fyrir nokkrum árum fór ég á fyrirlestur hjá manni nokkrum sem heitir Brian Tracy og var fyrirlesturinn um „success“ eða velgengni.   Hann var að tala um að ganga vel bæði hið ytra og innra,  því oft þarf það að haldast í hendur,  svona eins og líkami og sál  – en þó er hið innra oft mun mikilvægari.  „Því hvað gagnast það manninum að eignast allan heiminn,  og glata sálu sinni?“  –  Það er líka oft talað um innri fegurð, – við getum hitt manneskju sem er með fallegt andlit og stæltan kropp,  en ef hún iðkar ekki kærleika og réttlæti,  þá nær þessi manneskja ekki að skína.   Það virkar líka öfugt.  Okkur getur þótt einhver ófríð eða ófríður skv. fegurðarstöðlum hins veraldlega,  en hún hefur þvílíka fegurð hið innra að við sjáum ekkert nema fegurð þegar að við kynnumst þessari manneskju. J
Það er hið andlega sem er grunnurinn.  Við þekkjum sögur af Hollywoodstjörnum sem ná ytri velgengi að virðist, þær verða ríkar og frægar,  líta svaka vel út og eiga „gordjöss“ maka. –  En samt sem áður eru þær að dópa og drekka og gera sig meðvitundarlausa vegna þess að þær kannski gleymdu að næra sig hið innra,  ytri árangur varð svo mikilvægur,  að sálin hreinlega gleymdist! –  Svoleiðis manneskja ber ekki ávöxt.

Jesús var þolinmóður,  hann gaf fólkinu tækifæri til að ástunda góða siði – ekki síst til þess að það bæri sjálft ávöxt.
Það er jafn ánægjulegt að sjá uppskeru erfiðis síns eins og það getur verið gremjulegt þegar engin uppskera verður.  Þá er eins og unnið sé til einskis.

Hann sr. Birgir hefur verið einstaklega naskur að velja sálma fyrir messurnar,  því þeir passa svo einstaklega vel við guðspjöllin og því notum við sömu messuskrána ár frá ári, enda um klassík að ræða.   Við fáum í rauninni „leiðarvísi“ hvernig við uppskerum velgengni hið innra  eða – við náum að bera ávöxt í laginu,  Þú Guð sem stýrir stjarnaher, eftir Valdimar Briem: Þar segir m.a.:

Stýr mínu hjarta’ að hugsa gott

Stýr minni tungu’ að tala gott

Stýr minni hönd að gjöra gott,

Stýr mínum fæti’ á friðar veg,

Stýr mínu fari heilu heim

Skáldið er að biðja um leiðsögn og stjórnun,  því hann veit að stjórnun guðs er leið til velgengni.   Ef við ástundum fallegt mannlíf og falleg samskipti þá fer okkur að líða vel í hjartanu.  Við tölum saman en ekki sundur.  Þannig berum við ávöxt,  svo sannarlega.  Er þetta ekki annars stórkostlegt fagnaðarerindi?  ___

Uppskriftin að velgengni hið innra er því að hugsa inn á við – og rækta andann.  En dásamlegt í raun.   Áburðurinn er til staðar og –  við höfum þetta stórkostlega tækifæri til að vaxa og dafna og bera yndislega lífræna ávexti í hæsta gæðaflokki.

Ég má til með að segja ykkur örlítið meira frá honum Brian Tracy og því sem hann kenndi.  Hann nefndi tvö atriði sem væru mjög góð til uppskera árangur og velgengni.   Það er að við tækjum okkur sjálf í fangið og þökkuðum þessa góðu sköpun sem við erum, og segðum „Mér líkar við mig“  –   Þeir sem vilja geta gert svona – eins og fiðrildi, klappað á axlir sér og sagt: „Mér líkar við mig“ –  og svo annað, sem ttengist trúnni og það er „Ég get það“ „Ég get það“ ..  og þá gekk þessi tæplega sjötugi maður um gólfið í Hörpu eins og lest, – og sagði „Ég get það“  „Ég get það“ ..   Þegar við erum að guggna, – og höldum að við séum jafnvel einskis virði  og getum ekki,  þá er ágætt að muna eftir þessu,  að faðma sig og iðka sjálfshvatningu! –

Ég var að kenna á námskeiði fyrir fólk með fötlun í Borgarnesi fyrir nokkrum árum, og þá lékum við þessa lest, – „Ég get það“ lestina.   Þegar við sögðum „Ég get það“ fór lestin áfram, En þegar við sögðum „Ég get það ekki“ fór hún aftur á bak.  Sama átti við „Mér líkar við mig“ – þá fór lestin áfram – en ef við sögðum „Mér líkar ég ekki“  – þá fór hún aftur á bak.  Til að ná árangri og uppskera viljum við halda áfram og fá stýringu jafnfram frá þessum góða Guði – sem stýrir stjarnaher.

Nú erum við á lokametrum ársins 2015.  Eftir örfáa klukkutíma slær nýja árið inn.  Áramót eru oftast  ljúfsár tími,  við förum í huganum yfir það sem var,  en um leið bíðum við spennt eftir því sem kemur.  Það er mikill tregi í því að syngja um árið sem er liðið og  sem aldrei kemur til baka.  Það er búið.  Við upplifum ákveðinn missi og söknuð –  og missir er alltaf sársaukafullur. Það er allt í lagi að gefa gaum að sorginni smá stund,  en hún er fenjasvæði til að fara í gegnum en ekki reisa þar hús. –  Leyfum okkur að fara hægt og rólega í gegnum þetta fenjasvæði,  sjá fyrir okkur það sem var en síðan kveðja það með hlýju og umhyggju.  En svo verðum við  að kunna að sleppa því sem var og taka bjartsýn og brosandi móti því sem kemur.  Ég er afskaplega bjartsýn fyrir hönd okkar hér á Sólheimum að árið 2016 verði mjög gott ár.   Ár þar sem fíkjutréð ber ávöxt.  Það er ekkert erfitt að ímynda  sér það með því góða fólki sem á Sólheimum býr og starfar.  Og þar með talað blómadrottningin sem gengur á milli borða í mötuneytinu og syngur sálma.

Með blíðum barnarómi
mitt bænakvak svo hljómi:
Þitt gott barn gef ég veri
og góðan ávöxt beri.

Sálmur eftir prédikun er ákall til Guðs um að heyra bænir okkar, –  gerum þessa bæn að okkar. Að hvert okkar beri góðan ávöxt,    – og þegar við  syngjum „drottinn kom þú til mín“ – þýðir það að Guð gefur okkur það sem upp á vantar, og við e.t.v. getum ekki alveg sjálf.  Við tökum þessi skref áfram með Guði.  Skref í átt að árangri sem felst í því að öðlast lífsfyllingu. Öðlast gleði, ást og sátt í hjarta.  Og það er ekkert betra en að gróðursetja í í sáttinni.   Því upp frá sáttinni sprettur nýr vöxtur.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

Sálmur eftir prédikun

Ó, heyr mína bæn,

ó, heyr mína bæn.
Er ég bið, svara mér.
Ó, heyr mína bæn,

ó, heyr mína bæn,
Drottinn, kom þú til mín.

10443059_10153032083033036_6320600260440103749_o

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s