Ungt par var að horfa á sjónvarpið – og pilturinn dregur fram DVD disk með klámefni og vill horfa á það með kærustu sinni. Hún hryllir sig og segist ekki vera fyrir svona, – en hann setur diskinn í og segir um leið „ekki vera leiðinleg“ .. Unga stúlkan er mjög skotin í þessum dreng, og vill fyrir alla muni ekki vera „leiðinleg“ og til þess að þóknast honum endar hún á því að horfa á diskinn með honum. –
Hvað biður pilturinn um næst – sem stúlkan getur ekki neitað – því hún vill ekki vera „leiðinleg“ ..
Þegar þú getur ekki sagt nei, vegna þess að þú óttast að vera „leiðinleg/ur“ vantar auðvitað upp á sjálfsöryggi og sjálfsást. – Unga stúlkan vill geðjast piltinum, en um leið er hún að gefa afslátt af sínum vilja – og jafnvel lífsgildum, sem geta verið fólgin í því að horfa ekki á klám. – Þegar fólk gefur „afslátt“ af sér, heggur í sjálfsvirðinguna – og haldið þið að pilturinn beri meiri virðingu fyrir stúlkunni, eða hún hafi minnkað? –
Þegar einhver virðir ekki sjálfa/n sig – minnkar virðing annarra. –
Síðan er mögulega gengið lengra, og þessi setning „Ekki vera leiðinleg“ verður notuð sem stjórntæki því hún virkaði einu sinni. –
Annað í þessu er að í sumum tilvikum, er það ekki einhver annar sem segir: „ekki vera leiðinleg“ .. heldur erum við sjálf með það klingjandi í höfðinu „ég vil ekki vera leiðinleg/ur“ ..
Hver eru skilaboðin:
Höfum hugrekki til að vera „leiðinleg“ ef það er gjaldið fyrir sjálfsvirðingu okkar.
Ást og Friður