Prédikun í Uppskeru-og þakkarmessu í Minningarkapellu sr. Jóns Steingrímssonar, 4. nóvember 2018.

„Að tala er að sá – að hlusta er að uppskera.“

Þennan málshátt heyrði ég í fyrsta skipti við setningu Uppskeru-og þakkarhátíðarinnar hér á Klaustri sl.  fimmtudagskvöld.

Það var hún Eva Björk Harðardóttir,  oddviti Skaftárhrepss,  sem fór með þessi fleygu orð.  –  Orð sem eiga vel við á setningu uppskeruhátíðar og orð sem eiga vel við í Uppskeru – og þakkarmessu. –

Jesús segir dæmisögu af sáðmanni – og lýsir því hvernig fræið fellur í mismunandi jörð.     Við erum þessi jörð,  hvert og eitt okkar og hvernig við tileinkum okkur orðið sem við heyrum –  hvernig við hlustum og tileinkum okkur,  þá uppskerum við. –      En alveg eins og  þegar við erum að hlú að fræjum sem er sáð með að vökva og reita arfa,   eins þurfum við að hlú að því orði sem við heyrum og viljum svo sannarlega tileinka okkur. –

Það er alveg sama hversu margar bækur við lesum –  t.d. sjálfshálparbækur og við kinkum kolli og  segjum með sjálfum okkur;  já,  ég ætla sko að gera þetta!! – En ef það gleymist um leið og bókinni er lokað – þá hefur orðið fallið í grýtta jörð. –

Að tala er að sá – að hlusta er að uppskera.

Nú er það ég sem tala – og ég fæ að sá fræjum Guðs orðs, –  og eitt af því fallegasta af guðs orðum er orðið  „Þakklæti“   og  við  höfum útbúið styttingu á þessu orði og segjum einfaldlega „Takk“ –   „Takk fyrir mig“   og þegar við segjum Takk – og ástundum þakklæti fara töfrar að gerast,   og við getum sagt að „Takk sé töfraorð“ …     Þetta er ekki einungis eitthvað sem ég trúi eða aðrir,   það er hreinlega vísindalega sannað að fólk sem ástundar þakklæti  er glaðara og líður betur – en fólk sem  veit að það er gott að þakka,  hefur lesið um það – notar það jafnvel „spari“  –   en ástundar ekki þakklæti eða iðkar. –

Það var nefnilega gerð rannsókn  á stórum hópi fólks sem átti við þunglyndi að stríða.     Hópnum var skipt í tvennt –    og  annar hluti hópsins  var fenginn til að ástunda þakklæti með því að skrifa þakklætisdagbók.  –    Á hverju kvöldi í mánuð  skrifaði fólkð  niður a.m.k.  þrjú atriði í dagbókina sína sem það var þakklátt fyrir.    –      Hinn hluti hópsins var bara látinn halda áfram að gera það sem þau voru vön að gera. –      Hóparnir voru svo rannsakaðir eftir mánuð og þau sem höfðu ástundað þakklætið leið  mun betur en þeim sem höfðu ekki gert það og voru hamingjusamari.    Þessi grein – um hamingjuna og þakklætið birtist   í blaði sem kallast „The Harvard Magazine“   –   en eins og þið vitið er Harvard virtur háskóli,    en greinin bar nafnið  „The Happiness advantage“   eða „Hamingjuforskotið“ –
Ég heillaðist svo af þessari grein og þessum upplýsingum,  að ég fór með þessi fræði inn í kennslustund hjá Símenntunarmiðstöð –   en þar var fólk statt sem var í endurhæfingu eftir alls konar áföll og heilsubrest og var á leið út á vinnumarkað á ný. –       Ég lagði þetta verkefni fyrir hópinn að skrifa þakklætisdagbók,  og  viku síðar spurði ég hvenig hópnum gengi.   Sumir litu nú bara niður,  því þeir voru augljóslega ekki byrjaðir á þakklætisdagbókinni sinni,  en flestir voru farnir að prófa.  –   Ung kona rétti upp hönd og vildi deila sögu sinni með hópnum.    –  Hún sagði okkur frá því að hún hafði keypt bók fyrir sig og einnig fyrir strákana sína tvo,  en annar þeirra var haldinn miklum kvíða og átti erfitt með að sofna á kvöldin.     Hún ákvað að bera „orðið“  áfram til þeirra.   Þessi unga móðir sagði frá því að sonur hennar hefði sagt við hana:  „Mamma nú á ég auðvelt með að sofna,  því nú er ég ekki að hugsa um það sem ég óttast og kvíði –   því  nú hugsa ég   hvað ég á að þakka fyrir næst og hvað ég á að skrifa í bókina mína!   –
Það að hugsa fallegar hugsanir – og að hugsa um þakklætið  lætur okkur líða vel og við verðum glaðari.  –

Við uppskerum eins og við sáum segir Páll postuli í Galatabréfinu, –  og reyndar skrifar Páll postuli líka um það að Jesús hafi sagt að það sé betra að gefa en að þiggja.   En „Trixið“ við það –  þar sem ég var að tala um töfra hér á undan,  er að þegar við gefum,  erum við að þiggja um leið! –

Auðvitað er skemmtilegra að gefa þegar að þau sem taka við gjöfinni segja takk fyrir, –    því þakklætið er í raun endurgjöfin.   Og svo langar okkur svo miklu frekar að gefa þeim sem kunna að meta það sem við gefum,  því það gefur okkur meira.   –   Hugsið ykkur ef að enginn hefði komið að dansa á dansiballinu sl. föstudag –   þar var mætt hljómsveit til að gefa  skemmtileg lög.   En ef enginn hefði hlustað,  nú eða dansað – þá hefði það verið leiðinlegt fyrir þá sem voru að gefa – nú eða ef enginn mætti á myndlistarsýningu eða upplestur –   að gefa og þiggja virkar nefnilega eins og átta –  það fer fram og til baka.   Alveg eins og þakklætið og gleðin spilar saman,  það er engin gleði án þakklætis.

Ímyndið ykkur  að Guð se húsmóðir,  sem er búin að vera heima allan daginn og skrúra, skrúbba og bóna og laga dýrindis mat.   Fjölskyldan kemur heim og tekur öllu sem sjálfsögðum hlut –   sest svo við matarborðið og gúffar í sig matnum,  sem kannski tók marga tíma að undirbúa  – svona eins og jólamaturinn –  og svo myndu allir fara frá matarborðinu án þess að þakka fyrir sig.- reyndar er einn fjölskyldumeðlimur í einhverri ólund  og mætir ekki að matarborðinu –  og segist ætla að fá sér eitthvað annað síðar. –    Húsmóðirin sæti ein eftir eftir kvöldmáltíðina  –  eða væri staðin upp til að ganga frá.     Ætli hún sé glöð í hjarta –  hún mun eflaust  gera þetta aftur,   en ekki með þeirri gleði sem fylgir því  .. eða kannski missir hún bara áhugann á að halda heimili? –     Erum við nokkuð að gleyma að meta það sem Guð er að gera fyrir okkur?

Hvað er Guð að gera fyrir okkur hvern einasta dag? –   Hverjar eru gjafirnar okkar sem við gætum þakkað fyrir.     Í fyrsta lagi þá getum við öll hér inni dregið andann – svo við fáum súrefni.    Það gæti virkað sjálfsagt,  en það er því miður ekki alltaf sjálfsagt og sumir geta hreinlega ekki andað af sjálfsdáðum og þurfa því að vera tengdir við súrefniskúta.

Það er voðalega margt sem hægt er að þakka fyrir og í raun er listinn óendanlegur, – einhvers staðar stendur: „Það er alltaf, alltaf, alltaf,  eitthvað til að þakka fyrir“ ..

Þetta er  spurning um fókus –  á hvað erum við að einblína? –    Eigum við að hugsa um allt sem við höfum ekki og það sem okkur vantar, –  og þannig ástunda skorthugsun,  eða ætlum við að stilla okkur inn á það sem við höfum og þannig hreinlega lifa í þakklætinu? –

Allt sem þú veitir athygli dafnar og vex, –  og  það á ekki síst við um fólkið okkar.    Um húsmóðurina sem vill gera vel við fólkið sitt. –    Hvernig væri að við gætum glatt Guð,   með því að þakka fyrir  náttúruna,  fjöllin,  vindinn, – þakka fyrir fólkið okkar og svo framvegis.    Sælla er að gefa en að þiggja og við getum gefið Guði –  um leið og við þiggjum og veitum athygli allri þeirri dásemd sem hann gefur okkur. –

Leyfum okkur að hvíla í þakklætinu um stund – og svo áfram.  Tökum þessa Uppskeru – og þakklætishátið  inn í hjartað okkar og látum hana endast í heilt ár, alveg þangað til  hún verður haldin að ári. 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s