Ég var að hlusta á tvo af mínum uppáhalds „spekúlöntum“ ræða saman um Donald Trump og Hillary Clinton. Þá Gabor Maté og Russel Brand. Þeir segja að þar sé um að ræða „Two traumatized leaders who are trying to rule a traumatized world“ ..
Trump hafi lent í margs konar áföllum sem barn – meðal annars föður sem beitti hann ofríki og niðurlægði hann – og að bróðir Trumps hafi drukkið sig í hel. – Menn fara misjafnt að til að flýja sjálfa sig.
Hillary sé þannig að meira að segja þegar hún var með lungnabólgu hélt hún áfram í kosningabaráttunni, því það er það sem okkur er kennt, – að sýna ekki „vulnerability“ eða að við eigum að vera „dugleg og bíta á jaxlinn“ – Vulnerability er ekki veikleiki, – það er berskjöldun, að sýna sig eins og við erum í raun og skammast okkar ekki fyrir það. Ef við erum veik, þá erum við bara veik og það er ekki skömm.
Hillary lét það yfir sig ganga að maðurinn hennar hélt fram hjá henni, – og í raun réttlætti það. Kannski ekki vegna þess að henni þótti það í lagi, eða aða að öllu leyti hans vegna – heldur kannski vegna þess að hún gat ekki hugsað sér að missa manninn sinn /stöðu sína eða hvað það var sem hún var hrædd við að missa. Einnig kemur hér stolt við sögu, – „engin kona tekur manninn minn af mér“ .. Auðvitað er forsenda hjónabansins brostin, – eða kominn stór brestur í grunninn og spurning hvort að það sé þá ekta eftir það eða ekki? –
En nóg um Trump og Hillary. Mér þykir þessi punktur um að réttlæta eitthvað fyrir sér, – vegna þess að óttinn við að missa er það mikill að það er horft framhjá misgjörðinni eða óheiðarleikanum, eða hann málaður nýjum litum.
Við þekkjum það alveg að geta verið dómhörð í garð ókunnugs fólks, – segjum að einhver hafi beitt ofbeldi og við erum með það alveg á hreinu að þetta er óþverri þessi ofbeldismaður. En um leið og það væri einhver nærri okkur, þá koma aðrir faktorar inní, – kannski er þetta maki okkar? Hvað þá. Ef okkur finnst óbærilegt að missa þennan maka – eða þá stöðu sem hann veitir okkur, Þá förum við að búa til afsakanir og réttlætingar. Þetta getur líka átt við samstarfsfólk. Segjum að það sé þín skoðun að samstarfsmaður þinn hafi ekki komið rétt fram við skjólstæðing, – en þú vilt ekki segja honum það því það skapar óróleika og leiðindi á vinnustað. Þú heldur friðinn. Það er auðveldara, og kannski peppar þennan samstarfsmann upp – „hva, þú varst nú ekki svo dónalegur“ .. en samt finnst þér annað. –
Við gerum þetta – og þetta kallast í mörgum tilfellum meðvirkni og við verðum einmitt meðvirk vegna einhvers sem við lærðum í bernsku. Það er gott að líta í eigin barm og spyrja sig: „Er ég að réttlæta eitthvað – einhverja hegðun sem er ekki réttlát vegna þess að ég vil halda í maka minn, halda starfinu mínu, halda friðinn? –
Vandamálið við að halda ytri frið, – getur kostað okkur innri frið 😦 ..
Hvað ætli séu margir Trumpar og Hillary-ar þarna úti, – menn með mikilmennskubrjálæði og konur sem verða að vera duglegar og standa með manni sínum „no matter what“ – þá það kosti þær sjálfsvirðinguna? –
Hvað segir það um heiminn að þessi tvö hafi verið að keppa um að verða forsetar Bandaríkjanna – eða a.m.k. um Bandaríkin? og að Trump hafi verið kosinn? Jú, það er reiði heimilisfaðirinn sem fólkið trúir, þessi sem það innst inni er hrætt við en það er þessi óttablandna virðing sem það kannski ólst upp við sjálft? –
Við getum ekki stjórnað Trump eða Bandaríkjunum, en við getum, hvert og eitt litið í eigin barm og spurt okkur hvar við erum stödd. Líka hér á Íslandi, hvers vegna kjósum við hina pólitísku leiðtoga sem eru við völd, erum við með okkar Trump og Hillary? Erum við sjálf að einhverju leyti að hegða okkur eins og þau. –
Endum þetta bara á Gandhi …
Verum breytingin sem við viljum sjá í heiminum …