Þakkir fyrir að fá að eldast ….

WIN_20190205_143441
Ég er 57 ára gömul lífsreynd kona.  Ég er móðir og ég er amma.  Ég er fráskilin –  einu sinni eftir hjónaband með föður barnanna minna og svo er ég fráskilin eftir þrjár styttri sambúðir. –    Það gerir mig hvorki verri né betri en aðrar manneskjur,  en ég hef prófað það að skilja og upplifað vonbrigðin þegar að samband sem ég hélt að yrði lengra varð það ekki.     Engum um að kenna,  það þróaðist bara þannig. –

Það að skilja setti sitt mark á mig,  það að eiga börnin og ala þau upp gerði það líka.   Það að missa dóttur mína, aðdragandi og „eftirleikur“  gerði það líka.     Ég les í andlit mitt og sé þar líf mitt.  Ég vil sjá það.    Þegar ég horfi á augnlokin minni ég mig pínkulítið á afa minn, sem var með svona sigin augnlok. –   Við fáum það kannski flest.   Einu sinni langaði mig að fylla upp í hrukkur og línur og líma upp augnlokin.   Kannski geri ég það ef þau fara að hindra sjón,  en ekki annars. –     Ég forðast allan óþarfa sársauka,  eins og að láta skera í mig vegna útlits. –    það er bara ég – en ég er ekki að skipta mér af því þó aðrir geri það.     Ég vil alveg líta vel út,  en það sem er mér kannski mikilvægast er að gefa frá mér góða strauma. –   Eitthvað fallegt   ❤

Ég er þakklát fyrir hvert ár,  vegna þess að ég hef líka verið á þeim stað að ég hélt ég yrði ekki mikið eldri …   það var í lok árs 2014,   þegar ég var greind í annað sinn með krabbamein og það í eitlunum.   Það hafði upphaflega verið í húð,  en nú var sortuæxlið komið í eitlana og það þýddi að það var komið á 3. stig og ég fór að lesa alls konar tölfræði.    En tölfræði er ekki fólk,  hún er bara tölfræði.    Og þó það væru 1 %  líkur  hvers vegna ætti ég ekki að vera í þessu eina prosenti? –      Það eru þó mun hærri líkur á lífi  við 3. stig en 1. prósent lífslíkur – og í raun skipta svoleiðis tölur engu máli.

Það sem skiptir mig máli er bara þakklæti fyrir hvern dag,  og að hafa eitthvað til að hlakka til.     Það skiptir mig raunverulega máli.     Núið skiptir auðvitað máli,  en ég er ekki svo „langt komin“  í  núvitundinni að ég láti mér það nægja.    Ég þarf  að hafa framtíðarsýn og hafa eitthvað til að hlakka til.

Tilhlökkun er fyrir mér andstæða kvíða,  og ég bý að alls konar „tækjum“ til að umbreyta kvíða í tilhlökkun. –     Ég hlakka líka til að sameinast stóru stelpunni minni á ný, –  svo dauðinn er ekki kvíðvænlegur,   en hann er ekki á dagskrá strax.  Fyrst ætla ég að hlakka til alls konar með börnum og barnabörnum  hérna megin tjaldsins.   Og með sjálfri mér.  Ég veit líka að í dauðanum  munum við fá að sjá allt púslið,   fá skýra sýn á heildarmyndina og hvers vegna þetta og hvers vegna hitt. –

Allt hefur sinn tíma undir sólinni –  en það er alltaf tími fyrir þakklæti og ég er þakklát fyrir líf mitt og þakklát fyrir að fá að eldast.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s