Ég man ekki ártalið, en það eru a.m.k. 15 ár síðan að ég var stödd á kaffistofu Kvennakirkjunnar í Kjörgarði – sem var og hét. Inn kom koma og kynnti sig og sagðist heita Sólveig. Ég spurði hana hvaða þjónustu hún væri að bjóða upp á, en hún leigði þarna herbergi þar sem hún bauð upp á meðferðir. Jú, það var höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun. – Hún hefði alveg eins getað sagt eitthvað á kínversku, því ég vissi ekkert hvað það var. Ég hafði þjáðst af brjósklosi í þó nokkurn tíma, gengið hölt og búin að minnka við mig vinnu í 80% af þeim sökum. Ég spurði hvort hún gæti hjálpað við brjósklos. – Hún svaraði að það gæti hún – og svo talaði hún eitthvað um „vefræna tilfinningalosun“ .. og það var aftur einhvers konar tungumál sem ég skildi ekki.
„Tilfinningarnar eiga það til að setjast í bakið“ minnir mig að hún hafi sagt, – en ég ákvað að panta tíma og prófa öll þessi „ósköp“ – en það gat ekki verið meiri þjáning en að fara til sjúkraþjálfarans, en ég var alltaf að drepast í bakinu eftir tíma hjá honum. –
Fyrsti tíminn:
Ég lagðist á bekk, fullklædd og Sólveig talaði blíðlega til mín. Hún setti höndina undir hrygginn vinstra megin, og ég fann eins og straum og hita fara niður í vinstra fótinn (en ég var með brjósklos vinstra megin). Vegna þess hvað það er langt um liðið man ég auðvitað ekki allt í smáatriðum en þetta man ég mjög vel: Hún lagði höndina á magann á mér og spurði um tilfinninguna í maganum. Mér að óvörum svaraði ég að það væri eins og það væri stálkúla í maganum. Hún spurði mig hvað ég væri gömul og mér fannst það skrítin spurning, en ég svaraði að ég væri fimm ára og ég var allt í einu komin í portið þar sem ég bjó á Grettisgötu í bakhúsi. Ég lýsti því að ég stæði þarna og mamma var búin að setja plötu fyrir garðinn okkar, svo að vinur minn kæmist ekki inn. Hann hafði kastað sandi framan í mig og hann mátti ekki leika við mig. –
Svo fór að hellast yfir mig mikil sorg og ég fór að hágráta, þarna sem ég lá á bekknum og óstöðvandi flaumur tára hélt áfram að koma. „Var ég alveg búin að missa það?“ .. Ég skildi sjálf ekki hvað var að gerast þarna í herberginu í Kjörgarði, en Solveig sagðist myndu passa upp á mig og ég treysti henni til þess. –
Ég rifjaði þarna upp nafn drengsins og gat nefnt það – en ég hafði algjörlega gleymt þessu, og þetta hlytur að kallast „bæld minning“ en nokkrum dögum eftir að þetta gerðist lést þessi ungi drengur. Einhver krakki kom gangandi niður göngin og kallaði: “ _________ er dáinn “ (ég vil ekki setja nafnið hans hér).
Af einhverjum orsökum hafði ég tekið þá hugmynd inn að ég hefði átt einhverja sök á dauða drengsins. Vegna þess að ég klagaði hann og mamma hefði þess vegna lokað á hann að það væri mín sök, og sektin var stálkúlan í maganum á mér. Á þessu tímabili fór ég að pissa undir – og sem fullorðin var ég sífellt að fá þvagfærasýkingu og blöðrubólgu. Það gerðist varla upp úr þessu. Það hafði eitthvað hreinsast og stálkúlan var farin. Þetta var ótrúlegur tími – og ég fór síðan í fleiri tíma og ég hef í gegnum ævina farið t í höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun til að hjálpa mér við svo margt – og ekki síst þegar ég var í djúpri sorg og gat losað um hana þarna í örygginu. –
Bakið lagaðist líka, ég þurfi ekki að „fara undir hnífinn“ eins og sagt er.
Þegar fólk er að ráðast á óhefðbundnar lækningar verður mér oft hugsað til minnar göngu til heilsu, en ég hef sigrast á ótrúlega mörgum sjúkdómum án lyfja. Ég hef notað óhefðbundnar aðferðir, heilun, Bowen, höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun, heilbrigt mataræði og síðast en ekki síst: viðurkenningu á tilfinningum mínum – um leið og ég tala fallega til sjálfrar mín og anarrra. Falleg orð eru það besta, alveg eins og við tölum fallega til blómanna okkar til að þau vaxi betur. –
Það er ekki öll heilsa falin í pillum – en ég vil taka það fram, að líka þegar við þurfum að taka lyf eða fara í meðferðir eða aðgerðir þá er mikilvægt að hugsa jákvætt um lyfið og meðferðina. Ég fór í 25 skipti í geislameðferð 2015 og tók meðvitaða ákvörðun að hugsa jákvætt um þá meðferð og fara í hana af heilum hug, en það er hægt að finna alls konar greinar um skaðsemi geislameðferðar.
Það er til nokkuð sem heitir Placebo áhrif, og þá trúir maður að lyfið (sem er í raun lyfleysa eða bara einhvers konar gervipilla) geri manni gott og hún virkar eins og lýsining segir að hún virki. En það eru líka til Nocebo áhrif og það þýðir að ef við t.d. trúum að það sé eitur í pillunni okkar, virkar það illa fyrir okkur.
Hvað segir þetta okkur? Jú, aðferðirnar virka betur ef við höfum trú á þeim, þó að trúin ein sé kannski ekki nóg ein og sér. Líkami og sál vinna saman eins og læknavísindin og lyfin og hið óhefðbundna eiga að vinna saman.