Hvernig get ég hlakkað til jólanna?

Ég talaði einu sinni við mann sem sagði að hann hlakkaði aldrei til jólanna.  Eiginlega bara kveið þeim.  Ég spurði hvers vegna það væri   og þá átti hann sínar ástæður;  jú,  ein sú stærsta var að vinur hans hafði látist um jólin þegar þeir voru ungir menn.
Ég hefði getað sagt það sama,  þ.e.a.s. að ég hlakkaði ekki til jólanna – og mín ástæða væri af svipuðum toga, – að dóttir mín hefði veikst fyrir jól og ég hefði varið jólunum á gjörgæsludeild hjá henni og hún síðan látist.   Ég hef kallað þessi jól, sem voru árið 2012, „Ekki jólin“  eða jólin sem komu ekki. –

Margir kvíða jólum vegna minninga frá bernsku þegar mamma og/eða pabbi urðu ofurölvi um jólin.   Jólunum fylgdu vandamál.

En er það ekki synd að taka „gömlu“ jólin með inn í nýju jólin? –   Hvers vegna að yfirfæra tilfinningar sem voru einu sinni yfir á hið nýja? –   Kannski getum við ekki annað?

Maðurinn sem ég talaði um í upphafi hafði aldrei rætt þessa sorg yfir dauða vinar síns.  Hann hafði bælt hana með sér,  en hún var þarna – og kom fram um hver jól.    Hann forðaðist sorgina og fékk sér vel neðan í því um jólin.   Þannig skapaði hann kannski kvíðafull jól fyrir sín börn? –    „Hvernig verður pabbi um jólin?“ ..

Ég fylltist í raun þakklæti fyrir hönd þessa manns, að hafa loksins úttalað sig um sorgina –  og útskýrði fyrir honum að það að viðurkenna ekki vanliðan sína – og bæla hana,  væri kannski orsökin fyrir því að hann bæri þennan kvíða fyrir jólunum.   Það er SVO mikilvægt að  finna til.  Leyfa sér að gráta og syrgja og ganga í gegnum sorgina, en ekki bæla hana,  því hún mun minna á sig ef hún er ekki virt.

Tímamót og tilfinningar – er eins og hestur og kerra.  Fylgjast að.    Tilfinningar spretta fram á afmælisdögum,  dánardögum,  áramótum – jólum o.s.frv. –    Það er vegna þess að þessa tíma tengjum við upplifunum með fjölskyldu og/eða nánum vinum.  –

Það er allt í lagi að hafa ekki alltaf allt eins.  –

Hvort sem það eru jól eða hversdagur,  þá er mikilvægast að vera „sjálfum/sjálfri sér nærri“   ef ég má orða það þannig.   Eiga innri frið og sátt við sjálfan sig.
Dótturdóttir mín spyr mig stundum hvort ég sé ekki einmana,   því ég er mikið ein,  – en ónei –  ég segi henni frá því að mér líði vel með sjálfri mér – og auðvitað meina ég það.   Það þýðir ekki að mér þyki ekki einlæglega gaman og vænt um að vera með henni og öðrum fjölskyldumeðlimum og vinum,  – en mér þykir það auðvitað enn betra þegar mér líður vel í mér. –
Þessi dótturdóttir mín missti mömmu sína þegar hún var aðeins þriggja ára gömul.  – Ég var með henni nokkrum vikum síðar úti að ganga,  – og hún tók fast í höndina á mér þegar við vorum að fara yfir götu og sagði: „Amma passaðu þig á bílunum – svo þeir keyri ekki á þig og þú verðir engill eins og mamma mín.“ –   Elsku barnið og elsku hjartað mitt, sem var að springa.

Þessi dótturdóttir mín og öll börn eiga skilið að upplifa gleðileg jól.   Og öll erum við börn í hjarta.   Við eigum skilið að hlakka til jólanna.    Við getum gert það á okkar eigin hátt.   Með því að hafa það markmið að eiga sátt og frið í hjarta.   Við þurfum ekkert að hafa jólin eins og aðrir – eða eins og  einhverjir „þarna úti“ segja okkur að hafa þau.   Heldur gera þau OKKAR.     Gera það besta úr því sem við höfum,  og muna að jólin eru ný.

Ég trúi því að stelpan mín sé engill – eins og dóttir hennar kallaði hana – og sé í raun með okkur á jólunum.   Vinurinn sem maðurinn missti er líka engill – og allir sem farnir eru á undan okkur.    Amma, afi, frænka, frændi, pabbi, mamma, sonur, dóttir  …

Það er gott að kveikja á kerti  fyrir og um jólin – setjast niður og hugsa um þessa engla og láta þá vita að við eigum þau ALLTAF  í hjartanu og  við þökkum fyrir að hafa fengið að elska þau.

Þegar börnin mín voru lítil söng ég fyrir þau:  Nóttin var sú ágæt ein,  eftir Einar Sigurðsson frá Heydölum.   Þar er lína sem hittir mig alltaf í hjartastað:  „Friður á jörðu og fengin sátt“ –    það er þessi sátt við núið og allt sem er,  sem gefur mér frið og gefur þessa opnun á að ég get hlakkað til!
(Hér fyrir neðan er mynd af þessum þremur grallaraspóum 🙂 )

Ég leita að ástæðum til að hlakka til jólanna  (en ekki fyrir að kvíða þeim)...   og þegar jól fyrir mér eru skilgreind sem „Friður og sátt í hjarta“ –   þá er auðvelt að hlakka til.    

Ég óska öllum friðar og sáttar –  á aðventu,  á jólum og á öllum tímum.   ❤

165066_1676887475803_6312771_n.jpg

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s