Ég gekk brosandi út úr Bónus á Laugavegi, með skínandi gula poka í skínandi veðri. Hafði verslað fyrir yfir 12 þúsund krónur, en ég átti von á saumaklúbbsvinkonunum og ákvað að gera vel. Keypti auðvitað ýmislegt fleira. Ég rölti síðan upp Laugaveginn í áttina að íbúðinni þar sem ég bý á meðan ég er í fríinu. Til mín kom ungur piltur og spurði hvort ég ætti 300 krónur að gefa honum.
Heilinn fór í spuna; „Hvað ætlaði hann að gera við peningana?“ – Átti ég að spyrja? – En svo fattaði ég það. Mér kom það ekki við. Það var ekki mitt að ákveða fyrir fullorðinn mann hvað hann ætlaði að gera við 300 krónur. Kannski var hann að sníkja fyrir bjór og kannski fyrir strætó. Mér kom það ekki við, – ég gat bara alveg gefið honum án þess að setja upp skilyrði fyrir því hvernig hann ætlaði að nota peninginn.
— (Allt þetta hugsaði ég á 3 sekúndum)
Svo kom að því að ég svaraði og sagði: „Ég á ekki 300 krónur en ég á 1000 krónur og þú mátt eiga þær.“ Hann ljómaði og ég rétti honum seðilinn. Kvaddi og sagði: „Gangi þér vel – og óskaði þess í einlægni að þessum unga manni farnaðist vel.“ –
Hann kom ekki til mín til að biðja mig um að dæma sig, heldur bara að spyrja hvort ég gæti gefið honum peninga. Það var mín ákvörðun að gera það. Ég hafði engan rétt til þsss að ákveða fyrir hann hvað ÉG VILDI að hann gerði við peningana. Gjöfin var án skilyrða og þannig er ástin líka.
Við viljum svo oft hafa vit fyrir fólki og stjórna hvað aðrir gera. Við viljum að fólk sé skikkanlegt, sleppi áfengi, vímuefnum, – allri fíkn. Auðvitað er það vegna þess að við elskum það. En við verðum að átta okkur á því að við stjórnum ekki lífi annars fólks. Fólk þarf elsku, væntumþykju, virðingu og fólk þarf að finna að við treystum því fyrir sjálfu sér. Þannig – mögulega – öðlast það traust á sjálfu sér.
Það er því ekki „Verði MINN vilji“ – heldur „Verði Guðs vilji minn vilji“ .. en Guðs vilji er alltaf það sem er best fyrir okkur. – Treystum fólki og treysum Guði.