Þegar fólk talar um að hjón eigi að standa saman í blíðu og stríðu, hvað þýðir það? Þýðir það að sama hvernig annað þeirra hagar sér, jafnverl brýtur af sér gagnvart öðrum manneskjum, að hjón eigi að standa saman og t.d. konan að verja gjörðir eiginmanns síns?
Við höfum alveg séð dæmi um þetta, sérstaklega þegar menn eru sakaðir um áreitni eða jafnvel kynferðislega misnotkun. Annað hvort yfirgefur konan manninn, eða hún stendur með honum áfram – eða jafnvel setur sig fyrir framan hann sem skjöld.
Kannski er það óbærileg hugsun fyrir konuna að fara frá honum, sjálfsmynd hennar stendur og fellur með þessum manni, og þá er „auðveldara“ að trúa því að hann sé saklaust fórnarlamb óprúttinna kvenna sem ljúga upp á hann? –
Hún stendur og fellur með manni sínum. Við höfum séð dæmi um það að konan stendur frekar með manninum en barninu sínu – svo það verður rof í fjölskyldunni, en hjónin standa saman. Best er ef konan er svolítið ritfær og getur skrifað um óréttlæti heimsins gagnvart maka hennar. Við hin hugsum kannski; Trúir hún þessu einlæglega, eða er afneitunin bara sterkari en allt annað? –
Mannlegt eðli er svo skrítið. Við gerum þetta öll, förum í vörn fyrir OKKAR og það sem við trúum á. Ég held það sé mikilvægt að við skiljum hvað býr að baki. Það er óttinn við að missa. Kannski að missa einhvers konar status – t.d. þann status að vera eiginkona í stað þess að vera fráskilin kona. Sumum konum finnst það hræðilegt. Já, það er enn einhver „skammarstimpill“ sem fylgir skilnaði. Að okkur hafi ekki tekist að halda einhverju gangandi sem var okkar að halda gangandi. – Það eru kol-kol-kolröng skilaboð.
Ég spurði einu sinni eldri konu hvers vegna hún skildi ekki við eiginmanninn, – þegar að hann hafði beitt hana ítrekuðu ofbeldi. – Hún svaraði: „Hvað segir fólk?“ Henni þótti sem sagt verri tilhugsunin um hvað fólk segði um hana ef hún yfirgæfi eiginmanninn, en að sitja áfram í hjónabandi og þola ofbeldi af hans hálfu. Á meðan hún gat falið það var það í lagi, þá vissi fólk ekkert og fólk héldi að þau væri í „fyrirmyndarhjónabandi“ …
Já hvað segir fólk?
Athyglisvert! Allir svona sáttmála þurfa endurskoðunar. Karlmenn settu lög (biblìan).Konur áttu helst að þegja, hafa enga skoðun, þegja. Enn svona vìða….En staðir sem banna konum að syngja.!