Við upphaf ástarsambands, – er eins og við séum að fitja upp fyrir flík, – í huganum sjáum við ekki einungis stroffið, heldur erum við farin að sjá alla peysuna fyrir okkur. Vonin er að klára peysuna, – ganga frá öllum endum og fara svo að nota hana. – Við gerum okkur væntingar – og reiknum með að þær rætist. –
Svona væntingar gerum við líka þegar við hefjum samband, – auðvitað er það miklu flóknara, en við erum búin að sjá einhvers konar mynd fyrir okkur. Síðan styrkist myndin þegar sambandið er orðið lengra, – jafnvel að hjónabandi … og stundum hefur það staðið í mörg ár, ef ekki tugi ára. Svo .. fer eitthvað að klikka .. eitthvað fer að skyggja á myndina og hún er ekki alveg eins og búist var við. – Það gerist eitthvað sem veldur því að myndin sem átti að enda þannig að tveir einstaklingar sætu hönd í hönd, horfandi á sólarlag lífsins…. bregst. Annar aðilinn vill ekki meira – ekki meira með þér, eða þú vilt ekki meira. Ástæðurnar geta verið svo fjöldamargar, – það getur hafa verið lengi að fjara undan, eða það gerist snöggt. Væntingarnar eru brostnar – og brostnar væntingar valda sorg og leiða.
Myndin er horfin – þú ert ein/n eftir að horfa á sólarlagið og þú saknar þess sem hefði getað orðið. Einmanaleiki er algeng tilfinning eftir skilnað, höfnun ef maki þinn hefur viljað slíta hjónabandinu, eða jafnvel leitað á önnur mið. – Sumir finna fyrir skömm, að hafa ekki getað haldið sambandinu lifandi o.fl. o.fl. Fæstir fara úr hjónabandi án einhverra erfiðra tilfinninga. –
Það er gott að ræða þessar tilfinningar með öðrum sem skilja þær – og eru í samlíðan. Stundum er sorgin vð skilnað ekki viðurkennd – eða hún er bæld, nú eða að fólk festist í sorginni og kemst ekki áfram í lífinu. Þetta er allskonar því við erum allskonar. –
Ég hef boðið upp á námskeið til að vinna úr sorginni við skilnað – í mörg ár og næsta námskeið er laugardaginn 14. ágúst nk. – Þú getur smellt á ÞENNAN HLEKK til að lesa meira um það og fá upplýsingar hvar þú bókar.
Vertu hjartanlega velkomin/n.
