Ég fór í sambúð 2007 og flutti inn á heimili mannsins. – Hann var elskulegur og allur af vilja gerður til að ég myndi upplifa mig „heima“ – og að heimilið væri okkar, en ekki bara hans og barnanna hans. Ég var með leyfi til að breyta og bæta. Á arinhillu stóð fjölskyldumynd, – hann ásamt fyrrverandi eiginkonu og börnum. –
Eitthvað truflaði það mig – ef heimilið átti að vera „okkar“ að hafa þarna fyrrverandi eiginkonu upp á hillu, – og spurði hvort ég mætti ekki taka myndina niður. – Það fannst honum „voðaleg viðkvæmni“ – en ég man nú ekki alveg nákvæmlega hvaða samræður fóru í gang. Niðurstaðan var að myndin fékk að standa. –
Úr því að svona var komið, – ákvað ég að fara í gamla dótið mitt, og fann mynd í ramma af mér ásamt mínum fyrrverandi eiginmanni og börnum. Stillti henni upp við hliðina á hans. –
Til að gera langa sögu stutta, þá hafði hann ekki áhuga á að hafa mynd af mínum fyrrverandi eiginmanni uppi á hillu – og þá voru báðar myndirnar fjarlægðar.
„Voðaleg viðkvæmni er þetta“ 😀 …
Líklegast er það þannig að við getum ekki sett okkur í annarra spor fyrr en að hafa reynt sjálf? –