Hlustum á börnin – og mætum þeim með skilningi og kærleika

Ef að uppkomið barnið þitt segir við þig: „Þú beittir mig ofbeldi sem barn“- ekki fara í vörn, – heldur hlustaðu og leggðu þig alla/n fram við að sklja sársauka barnsins. – Þú ert örugglega sjálf/ur sært barn særðra barna, en barnið þitt er að reyna að rjúfa eitthvað mynstur sem virkar eins og dómínó kubbar, og mun halda áfram að fella komandi kynslóðir nema einhver segi stopp. – Barnið er að snúa sér við í röðinni og segja „hingað og ekki lengra“ – ég vil þetta ekki lengur. – Í stað þess að ráðast gegn dóttur þinni eða syni, – fara í vörn og afneitun, – þá er það fallegasta og heilbrigðasta sem hægt er að gera að hlusta og sýna fram á vilja til að skilja. –
Skilningur er kærleikur.

Vandinn er oft að foreldrar vilja ekki kannast við að hafa beitt ofbeldi, – en flestir foreldrar hafa á einhverjum tíma sagt eitthvað sem brýtur barn niður – eða lætur það upplifa skömm. Það er vegna þess að foreldrið er sjálft í skömm. Það þarf ekki endilega að gera þetta meðvitað, – bara lærð hegðun frá eigin foreldrum.

Þó að t.d. rassskellingar hafi verið eitthvað „norm“ hér áður fyrr og því ekki túlkað sem ofbeldi, þá þýðir ekki að normið sé endilega rétt. Barnið sem var rasskellt (stundum á berann rassinn) fann alveg til þó að þetta væri samþykkt í samfélaginu.

Sama gildir um alls konar setningar og framkomu við börn – andlegt ofbeldi – sem olli og veldur þeim skömm. Við segjum hluti, enn þann dag í dag, við börn sem kannski á eftir að valda brotinni sjálfsmynd, því skömm og sjálfsmynd eru nátengd.

Þetta ofbeldi er líka samfélagslegt. Allur þessi samanburður á útliti og skilaboð um hvernig á að vera og hvernig ekki.

Hvers vegna eru svona margir með lélegt sjálfstraust? Barn í vöggu horfir á fingur sér til að undrast yfir þeim, – dæmir þá hvorki sem fallega eða ljóta. Barn sem heyrir tónlist fer að dilla sér eftir tónlistinni. Er ekki að hugsa:“Ætli fólki finnist ég dansa fallega/illa“ –
En svo koma dómararnir – fjölskylda og samfélag og segja barninu hvað er fallegt og hvað er ljótt … og það versta er að það er í raun versta „bólusetningarsprautan“ – því einhverju er plantað í barnið þannig að því finnst það aldrei nógu …… eitthvað. Við erum þá komin með dómarana i höfuðið og verðum okkar verstu gagnrýnendur. Því er plantað.

Við erum þessi börn og við erum líka þetta fólk sem ber skilaboðin áfram. Það þarf að hugsa sig um, vera meðvituð … „Hvað er ég að segja við náunga minn?“ – „Hvaða skilaboð er ég að bera áfram“ –
Ég held það mikilvægasta í samfélaginu sé að hlusta á börnin sem vilja ekki meira – og taka því fagnandi ef þau snúa sér við í röðinni og segja stopp – hingað og ekki lengra!

Já – þetta snýst ekkert um „en ég gerði ekki neitt“ – jú, við höfum öll gert eitthvað – ég svo sannarlega líka, og það var vankunnátta í lang flestum tilfellum. Við getum alltaf lært og bætt okkur, – er kærleikur í því sem við segjum? Er umhyggja í því sem við segjum – eða er það vantraust? –

Þetta snýst ekki um mig eða þig, en við getum lagst á árarnar til að gera þetta saman. þetta snýst um komandi kynslóðir að fá að upplifa líf sem er mildara og máttugra – og kærleiksríkara.

2 hugrenningar um “Hlustum á börnin – og mætum þeim með skilningi og kærleika

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s