Það var vorið 1998 að ég var stödd í kapellu Háskóla Íslands, hafði drifið mig í guðfræðinám „á gamals aldri“ eins og frænka mín orðaði það svo skemmtilega (ég var aðeins 37 ára og þótti ég ekki gömul). Þetta var á mínu fyrsta ári og ég sat með opna Biblíu og horfði á ritningartextann sem ég átti að lesa upp, – ég var sveitt, stressuð og skítrhædd (afsakið orbragðið).
Ég átti s.s. að standa upp í nemendamessunni og lesa minn texta. Virkaði ekki merkilegt, en af einhverjum ástæðum var ég svona ofboðslega hrædd. Hrædd við að fara að skjálfa og titra, hrædd við að athyglin beindist að mér, hrædd við að klikka, hrædd við að „gera mig að fífli“
.. Ég hafði haft það hugrekki að hefja þetta nám, fimm ára embættisnám í guðfræði, en þarna var ég í alvörunni að íhuga að hætta við! Ég sá mig í anda taka sprettinn út úr kapellunni og forða sjálfri mér frá illu!
Var þetta þess virði að upplifa þessa vanlíðan? Vanlíðan við að standa upp og tala fyrir framan allt þetta fólk sem var svo miklu merkilegra en ég? .. (sjálfstraustið ekki upp á marga fiska (né brauð)).
En ég hljóp ekki, – það voru tveir þröskuldar sem ég gat valið á milli þess að komast yfir; Þröskuldurinn út um dyrnar á Háskólanum eða þröskuldurinn að yfirstíga ótta minn við að standa upp og lesa. Það var leiðin til frelsis frá óttanum – þ.e.a.s. að ganga inn í hann.
Ég get seint þakkað sjálfri mér fyrir rétta ákvörðun.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, margar hugvekjur, ræður, og sögur sagðar.
Sjö árum síðar var ég svo farin að kenna áfangann tjáningu 103 í framhaldsskóla, og það sem hjálpaði mér einna mest var að ég skildi hræðslu sumra nemendanna, t.d. þeirra sem sváfu varla nóttina áður en þau mættu í tíma. En ég gaf heldur ekki eftir, – vegna þess að ég vissi að það þyrfti í sumum tilfellum að ýta þeim yfir þröskuldinn.
Við notuðum „GÆS“ – „Ég get, ég ætla og ég skal“ .. í staðinn fyrir „Ég get ekki, ætla ekki og ég skal ekki“ – Að þora ekki, var ekki í boði.
Það er vont ef að við förum að halda aftur af möguleikum okkar til náms eða starfs, vegna þess að við óttumst að skína, við óttumst að tala og óttumst að gera mistök. – Það er vont að geta ekki tjáð okkur um málefnin sem liggja okkur á hjarta, jafnvel bara á starfsmannafundinum eða í vinahópnum.
Ég hef ákveðið að bjóða upp á námskeið í framkomu og tjáningu í samvinnu við Lausnina, þar sem farið er í grunninn, – farið er í sjálfstyrkingu, við byrjum hægt og hljótt, bara á hraða hvers og eins ….og svo er farið yfir þröskuldinn!
Það væri freistandi að segja að ritningartextinn minn þennan örlagaríka dag í kappellunni hafi verið „Ég lifi og þér munuð lifa“ í trausti þess að Guð sé húmoristi ..en auðvitað var það ekki textinn, en eitt er víst að ég dó ekki við að tala fyrir framan fólk og þú gerir það ekki heldur!
Nánari upplýsingar um námskeiðið og skráningu má lesa HÉR.
Býð einnig sérsniðin námskeið fyrir hópa eða vinnustaði. – Námskeiðin hjá Lausninni eru yfirleitt styrkt af stéttarfélögum. –
Hafið samband johanna@lausnin eða í síma 8956119 /6173337
Til hamingju með síðuna þína Jóhanna mín, hún er falleg eins og þú og ég tek undir þessi orð þín, ég hef ætíð sagt: “ Aldrei að gefast upp fyrir hvorki einu eða neinu“