Líf eftir skilnað – að læra eða lemja, trega eða temja, veikleiki eða viska?

Þessi færsla er tileinkuð fólki sem er fast í fortíð vegna skilnaðar og er jafnframt með fókusinn á fyrrverandi maka, jafnvel þó að makinn hafi verið „ómögulegur“ .. Fólki sem er fast í fortíð og höfuðið næstum úr hálslið vegna eftirsjár og jafnframt, ef að makinn er kominn með nýjan félaga orðið upptekið af nýja félaganum, jafnvel meira en sjálfur sér. 

– Að læra eða lemja, skrifaði ég í fyrirsögn.  Ég var svo lánsöm eftir minn skilnað 2002 að ég fór beint á námskeið sem hét „líf eftir skilnað“  og lærði mikið af því.  En námskeið stöðvar svo sannarlega ekki sorgarferli og/eða tilfinningar en kenndi mér kannski helst að tilfinningarnar væru eðlilegar,  ég væri ekki ein og að ég var bara eins og annað fólk.  Sorgarferli eftir skilnað getur verið alveg eins eða svipað og eftir dauðsfall.

Vissulega koma þó oft  tilfinningar eins og reiði og höfnun sterkari inn við skilnað. Jafnvel þó að við höfum viljað skilnað, og vitað að það væri eina lausnin þá er skilnaður oftast sorg eða dauði, draumur um eitthvað sem átti að vera hefur dáið.  Það eru að sjálfsögðu ekki bara tveir sem skilja, börn, foreldrar og aðrir aðstandendur eru þátttakendur og fórnarlömb og oft mjög vanrækt fólk í þessum aðstæðum, sérstaklega börnin – en það er svo sannarlega verðugt umræðuefni í annan pistil.

Sjálfri fannst mér svo gott að hitta konur í sömu aðstæðum og ég, að það var í raun stærsta hjálpin. Við sátum ekki og rökkuðum niður okkar fv. maka,  við ræddum vissulega aðdraganda og ástæður, til þess einmitt að læra af þeim,  en ekki til að hvíla í fortíðinni eða lemja okkur sjálfar hennar vegna, nú eða fyrrverandi maka.

Ég fékk seinna tækifæri að vera leiðbeinandi á svona námskeiði og þá uppgötvaði ég fyrir sjálfa mig ágætis samlíkingu sem mig langar að deila.

Sorgarferli, hvort sem það er eftir dauðsfall eða skilnað er eins og meðgöngutími.  Það er hægt að ganga með margt fleira en barn í maganum,  það er t.d. hægt að ganga með skilnað í maganum!

Sorgarferli er þó ekki hægt að tímasetja eins nákvæmlega eins og meðgöngu barns,  en samt er búið að skoða að það er nokkuð algengt að „eðlilegt“ sorgarferli sé u.þ.b. ár, jafnvel tvö ár,   en það getur vissulega verið bæði styttra og lengra.

Við meðgöngu barns, erum við flest dugleg að afla okkur upplýsinga, láta fylgjast með okkur, lesa til um þroskann, mánuð eftir mánuð þar til barnið fæðist – þá hættum við að lesa um meðgöngu og förum að lesa um ungabörn.

baby.jpg

Það sem ég er að benda á hér, er að við eigum og megum alveg sökkva okkur niður í að skilja okkur sjálf þegar við skiljum – skilja skilnaðinn. En enn og aftur;  „allt hefur sinn tíma undir sólinni“ .. Það á ekki að festast í meðgöngunni/sorgarferlinu þannig að hún vari í mörg ár.  Ef einhver er enn reið/ur, bitur og leiður vegna skilnaðar sem var fyrir  2 – 4 – 10 – 20 árum,  ætti viðkomandi að fara alvarlega að líta í eigin barm og átta sig á því hvort að hann eða hún er stjórnandi í eigin lífi.

Þegar barnið er fætt,  þá hefst nýtt líf.

Það er ekki veikleiki að leita sér hjálpar, það er viska.  Heart

Ég hef haldið námskeiðin Lausn eftir skilnað, í samvinnu við Kjartan Pálmason, ráðgjafa – en þá fer hann í meðvirkniþáttinn og tekur m.a. fyrir innra verðmætamat.

Minn fyrirlestur fjallar um þegar sorgarferli verður að þroskaferli.

Nýtt námskeið verður haldið laugardaginn 18. febrúar nk. í húsnæði Lausnarinnar, Síðumúla 13, 3. hæð og hægt að skrá sig  ef smellt er HÉR

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s