Ég er kona og ég á skó …
Þetta er ekki frumleg yfirlýsing, en margir hafa spurt sig hvað þetta sé eiginlega með konur og skó? …
Ég hef líka spurt mig.
Eftir því sem ég hef farið dýpra í sáttina við lífið og sjálfa mig, og það sem raunverulega skiptir máli hef ég minni þörf fyrir nýja skó. –
Við göngum í óþægilegum skóm.
Támjóum skóm sem kremja og afmynda tær.
Háhæla skóm sem valda stundum tábergssigi og eru stundum svo óþægilegir að við erum að „deyja“ á dansgólfinu og þær sem virkilega langar að njóta dansins enda stundum með að kasta þeim af sér og dansa á sokkunum, eða berfættar.
Við eltum tískuna. –
Einu sinni komu fótlaga skór í tísku, með breiðri tá og úr mjúku leðri. – ummmm…
Ég á eina skó sem ég kalla í dag „fasteign á fótum“ – en ég keypti þá í KronKron fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári síðan, í einhverju vanlíðunarkastinu (eyddi s.s. um efni fram!) Ég var að átta mig á því að ég hef notað þá fjórum til fimm sinnum. – Það er slæm nýting, svona eins og þegar fólk kaupir sér fellihýsi og fer bara í það einu sinni eða tvisvar á ári.
Síðustu skókaup mín voru í Danmörku sl. áramót, en það voru há rússkinsstígvél og það voru hagstæð skókaup, þau kostuðu um 300 krónur danskar, voru flatbotna og þægileg – og stígvélin sem ég hafði átt áður og búin að láta sóla voru úr sér gengin. Ég get alveg réttlæt þau skókaup. –
En á árum áður fór ég ekki til útlanda öðru vísi en að koma með nokkur pör af skóm heim. –
Í „nýja“ lífinu mínu þá hugsa ég miklu minna um dauða hluti, ég er alltaf hrifin að hafa fallegt í kringum mig og er alltaf hrifin af fallegum fötum. – En ég er orðin fimmtug og hef safnað miklu ég á nóg. – Þegar ég opna fataskápinn í dag, þá veit ég að ég á föt í við öll tilefni og sem geta enst ævina á enda. –
Líklegast heitir þetta nægjusemi. –
Ég viðurkenni að ég keyrði niður Laugaveg í gær og sá kjól í glugga og það fór einvher „kitla“ í gang, – að mig langaði í kjólinn, en hún varði bara í nokkrar sekúndur. –
Ég er komin yfir skófíknina. – Á nokkra þægilega og góða skó sem fara vel með fæturnar á mér og það er nóg. –
Hamingja mín liggur ekki í skónum mínum. – Það er frelsi að langa ekki í skó, það er frelsi að upplifa að manni skortir ekkert. –
„I shall not want“ – shoes….
Ég held að í raun sé þetta tilfinningatengt – við finnum til einhvers tilfinningatóms, okkur vantar lífsfyllingu og þá er bara spurning hvort að við kunnum að greina hana, reynum að fylla hana með súkkulaði, mat, fötum eða skóm – það er jú „fixið“ – en hvað endist það lengi? – Hvað dugar hvert par lengi? –
Hvenær er komið nóg af skóm? –
Tómir tilfinningapokar verða aldrei fylltir með skóm. –
„Bikar minn er barmafullur“ … það þýðir ekki að maður meiki eða geti ekki meira, eins og margir túlka það, – þessi setning þýðir:
„Ég hef nóg“ ..
Íhugaðu málið næst þegar þig langar í skó, hvort það sé ekki eitthvað annað sem þig raunverulega hungrar í. – Hvað er það í lífinu eða sem er ekki í lífinu sem við fáum þessa tilfinningu að langa í veraldlega hluti? – Er það nauðsynleg þörf eða bara löngun og hvers vegna er þessi löngun. –
Þetta gildir reyndar um næstum allt sem við kaupum sem dags daglega er talað um sem óþarfa eða lúxus. –
Hinn raunverulegi lúxus er að vera sjálfum sér nægur. Að njóta nærandi tíma og samveru. –
Stundum þrælar fólk sólarhringa á milli til að kaupa hluti sem ekki vantar, fylla geymslur og fataskápa þar sem hlutirnir gleymast og týnast og um leið týnir það sjálfu sér. – Hefur hvorki tíma né andrými fyrir sig né aðra, jafnvel ekki börnin sín. –
Skórnir eru bara ein birtingarmynd. –
Hvað áttu mörg pör af skóm og hversu mörg þeirra eru í notkun?
Í þessu sem öðru er meðalhófið best, við þurfum skó til að ganga á, spariskó, vetrarskó, hversdagsskó, íþróttaskó, stígvél, gönguskó …. ég veit um marga karlmenn sem eiga ca. 3-5 pör af skóm og eru sáttir. – Svo þegar aðalskórnir eru úr sér gengnir, er stundum keypt annað par – alveg eins, því þeir voru svo þægilegir! 😉
Af hverju ganga karlmenn ekki í háum hælum? – Af hverju ganga þeir ekki í skóm sem eru þröngir eða meiða? –
Af hverju þurfa konur fleiri pör af skóm er karlmenn?
Ath! – Það eru til undantekningar, en ég er hér að tala um það sem er algengast. –
p.s. þetta eru flottir skór, en þeir breyta þér ekki – þú ert alltaf jafn dásamleg. –