Sandkorn á strönd …

Ég ætla að skrá eftirfarandi niður, því ég vil að það geymist. – Ég fór á tímabili til konu í höfuðbeina-og spjaldhryggsmeðferð, en hún hjálpaði mér mjög mikið með að fara í gegnum mínar tilfinningar. – Upphaflega vissi ég ekkert hvað þetta var, en ég var að leita mér hjálpar  vegna brjóskloss í baki, – en hvað það varðar hef ég ekki fundið fyrir því í mörg ár.   Hún setti hendina undir bakið á mér og hitinn leiddi niður í fót og ég man ekkert hvenær ég hætti að finna fyrir brjósklosinu, það bara gleymdist!

Ég er ein þeirra sem trúi því að tilfinningarnar okkar setjist að í líkamanum og veiki hann séu þær ekki virtar eða tjáðar. –  Ég trúi því,  því að ég hef upplifað það, aftur og aftur. –

Ég trúi því líka að áhyggjur geti ýtt undir sjúkdóma og við getum hugsað í okkur sjúkdóma. – Ekki viljandi auðvitað en óviljandi. –

Í fyrsta tímanum hjá þessari konu runnu fram minningar, – sem ég hafði steingleymt, en þær voru mjög sárar og tengdar litlum vini mínum sem hafði dáið þegar ég var fimm ára.  Þessu hafði ég alveg gleymt,  en þær minningar voru svo sannarlega ekki falskar heldur sannar og bældar. –  Ég hafði lifað með þá sektarkennd í maganum alla tíð, sem byggðist á því  að dauði hans væri á einhvern hátt mér að kenna, – en við höfðum átt í deilum einhverjum dögum áður en hann  dó.   –   Þetta var ranghugmynd barnsins, sem hafði tekið sér bólfestu. –

En þetta er bara inngangur. –  Eftir mörg skipti hjá konunni fór hún að „senda“ mig aftur í einhvers konar fyrri líf  (já ég upplifði það) og það var mjög sérstakt. –

Hún spurði mig og ég sagði frá, eins og ég væri að upplifa það. Ég upplifði það bæði andlega og líkamlega. –  Í eitt skipti sagðist ég vera sautján ára og byggi á einhvers konar Bordel í New Orleans –  ég sagðist vera með tæringu (notaði þau orð)  og í tímanum hóstaði ég eins og berklasjúklingur (án þess að ég væri með vott af kvefi). –

(Þegar ég var barn fékk ég alltaf jákvæð viðbrögð um það að ég væri með berkla, þ.e.a.s. eftir berklaplásturinn og þurfti því að fara í auka-test. – Þegar ég var 17 ára byrjaði ég með óskýrðan hósta, sem ég ætlaði aldrei að losna við, – ég fór til sérfræðings sem spurði mig hversu lengi ég hefði reykt, – ég sagði auðvitað „aldrei“ og var hneyksluð, enda með fóbíu fyrir reykingum. – En þá sagði hann: „Hálsinn á þér lítur út eins og á versta reykingamanni“)

.. Ég er alnafna Jóhönnu Magnúsdóttur, systur afa míns sem dó 17 ára úr berklum (var reyndar að muna þessa tengingu núna bara um leið og ég skrifa). –

Tilviljanir ofan á tilviljanir? –

En sú frásögn sem ég ætlaði aðallega að deila hér situr helst í mér. –

Ég upplifði það s.s. að ég væri stödd í helli, ég var ung kona á fyrstu öldunum eftir Krist – ég var í raun í felum og horfði út um hellismunnann.  Hellirinn var í fjalli. – Ég sá í fjarska eins og fólk væri að ferðast, þetta var þjóðvegur og mér fannst ég sjá fólk í fjarska sem var að ferðast þar um og ég sá sjóndeildarhringinn og hafið.  Litirnir voru sandgulir og bláir.  Engin borg framundan.  Konan spurði mig að nafni og ég sagðist heita Shiloh eða Shilou – borið fram Sjilú.  –

Hún spurði mig hvað ég væri að gera og ég sagðist vera að skrifa. –  Hún spurði mig þá hvað ég væri að skrifa, ég brást hissa við spurningunni og svaraði um hæl. „Sannleikann“ –  þetta svar kom sjálfri mér á óvart, – því að í þessari „dáleiðslu“ þá ertu í raun vakandi, en eins og áhorfandi að sjálfri þér. –

Ég var satt að segja steinhissa á öllu „bullinu“ sem kom upp úr mér og tilfinningunum sem ég fann. –

Ég man ekki eftir meira samtali, – en ég man að síðan breyttist þessi Shiloh og varð að gamalli konu, – en enn í hellinum. Hún var orðin þreytt og lúin og tilbúin að fara.  Ég upplifði það algjörlega.  Ég umbreyttist þá í einhvers konar hvítan gegnsæan fugl/fiðrildi – helst hægt að lýsa því sem hvítkornóttri slæðu –  og flaug af stað og það var svakaleg frelsistilfinning og kvaddi lúinn líkama Shiloh. –

Auðvitað gúglaði ég allt sem ég gat og fann ýmislegt þessu tengt.

Ég fann það sem heitir  Sannleiksguðspjall (hvort sem þessi skrifaði sannleikur var undir heitinu sannleikur eða ekki?) – sem var hluti af mörgum handritum sem fundust í Nag Hammadi á miðri síðustu öld –  og ég fann nafnið Shiloh sem er hebreskt. –  Ég fann reyndar ýmislegt fleira en fer kannski nánar út í það síðar.

Ég leyfði mér líka að efast og hugsa hvort að ég myndi svona margt í undirmeðvitundinni úr guðfræðináminu, – ég veit það ekki. – Ég mundi það  auðvitað ekki úr guðfræðináminu hvernig það er að deyja.   Hvort sem þetta er ég – sem er að upplifa fyrri líf eða ég að skynja aðra veru í fortíð, eða tilfinningar hennar,  þá var þetta mjög skrítið. –

Í dag veit ég a.m.k. hvað ég er að gera, og það er að ég er að leitast við að skrifa sannleikann.   Heiti bara Jóhanna og þeir sem þekkja mig vita að ég vil vel.  Ég hef séð margt og upplifað margt, ég man að ég sagði einu sinni frá einni af upplifuninni, fyrir mörgum árum og viðkomandi sagði: „Ekki segja neinum frá þessu,  fólk heldur að þú sért klikkuð“ – 😉 ..Fólk getur bara ráðið hvort það vill þekkja mig eins og ég er og með mína sögu. – Klikk eða ekki klikk. –

Hugurinn okkar er svakalega magnaður og líkaminn líka. –  Ég hef stundum fundið á mér það sem koma skal, – og ég veit að margir finna það líka, – en oft er það „tabú“  að ræða slíkt. –  Ég bið ekki um þetta og það kemur bara sem kemur og stundum kemur ekkert í langan tíma. –

Tenginginar á milli manna eru ekki bara í orðum, við skynjum. –  Sérstaklega er hægt að skynja þá sem eru í kringum okkur og náin. –  Einfaldasta myndin af því er þegar við hugsum til einhvers eða höfum tekið upp símann til að hringja í einhvern og hann hringir. –

Í Symphony of Science segir að við séum öll tengd hvrot öðru líffræðilega og jörðinni efnafræðilega –  það er spurning hvort það er bara núna eða hvort við erum tengd aftur í tímann og fram? –

Heimurinn er líka innra með okkur. -„Við erum leið heimsins til að þekkja sjálfan sig“ segir Carl Sagan. – Þeir sem líta á heiminn sem Guð, – segja að við séum leið Guðs til að þekkja sjálfan sig. –  Í gegnum okkur, tilfinningar okkar og reynslu.  Þess vegna hefur Guð upplifað ALLT og þekkir allt og getur sett sig í spor allra. –

Þegar ég sá meðfylgjandi myndband styrktist ég í trúnni, en fyndið að sonur minn styrktist í trúleysi sínu.  – Svona eru sjónarhornin okkar ólík – en í raun erum við bara með önnur orð.  Fyrir mér er heimurinn Guð,  en fyrir syni mínum er heimurinn heimurinn.  Það skiptir í raun engu máli og þegar upp er staðið stjórnum við engu um það.  Við erum bara örlítil sandkorn og risastórri strönd. –  En ef engin væru sandkornin væri engin strönd. –

Viðbót: – Flesta daga dreg ég úr lítilli fjársjóðskistu spjald, en kistan er kölluð „Fjársjóður hjartans“ – , – og ég spurði spurningar í morgun,  – „Var ég að gera rétt með því að segja frá þessu“ – og dró spjaldið:

„Börnin mín elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“ –   Fyrsta Jóh. 3:18

5 hugrenningar um “Sandkorn á strönd …

 1. Kærar þakkir fyrir að skrifa af hreinskilni. Trúa öðrum fyrir því sem þú reynir á þér sjálfri og sendir þannig út það sem þér í raun er heilagt. Síðan að fá hugsanlega neikvæðar athugasemdir við hreinskilni þinni, það væri verulega sárt, því þú ert jú mannleg eins og þú segir sjálf.
  Varðandi tengingu okkar mannkynsins, þá máttu alveg gera ráð fyrir því að þessi sama tenging sé raunveruleg aftur í tímann og fram í tímann! Sem gerir heildarmyndina miklu stærri og áhugaverðari og leyndardómsfyllri.
  Ef þú hefur lesið Edgar Caycie þá kannastu við líflesturinn sem hann gaf fjölda fólks. Þar kom fram hvernig fólk tengist saman, einmitt á þennan hátt, aftur í tímann og í raunheimi. Aldeilis staðfesting á að þessar hugleiðingar styðjast við fleira heldur en eigin hugrenningar þínar. Þú færð stafestingu úr óvæntri átt sem er einn helsti sjáandi Bandaríkjanna á síðustu öld, ekkert smáræðis bindiefni fyrir þig!

 2. Tilviljanir – Það er einmitt það að líklega eru engar tilviljanir til, heldur er um að ræða samofið net atburða sem við komum af stað með hugsunum okkar og þrám, leyndum vilja og bænum og eldri skuldum og inneignum, ef svo má að orði komast varðandi andleg verðmæti.
  Ef til vill hefur þú sjálf verið Esseni og átt samgang með meistaranum, þegar hann dvaldi meðal þeirra. Alls ekki ólíkleg tilgáta. Ég get vel hugsað mér að ég hafi sjálfur verið þar.
  En maður veit svo lítið, það er einmitt huliðshjálmurinn sem við erum undir. Við munum ekki fortíðina, hvaðan við komum og hvar við höfum verið í eldri tilveru. En við erum nú hér full af reynslu og hugsunum sem ekki verða til úr engu. Við höfum því fengið eitthvað úr að moða gegnum eldri tilverur. Það verður enginn líkur andlegri veru nema með mikilli þrá og ástundun til einhvers æðra. Ég sé þessa einlægu þrá í þínum jákvæðu skrifum!

 3. Takk fyrir einlægnina við erum öll að upplifa svo margt og þaðer svo mikilvægt að hver finni sína trú eftir því sem lífið opnast fyrir þeim. Trú fyrir mér er eitthvað sem engin getur gefið mér sönnun á nema ég sjálf og ég lít þannig á að þetta sé heilagt ferli. Það er svo gott að opna og finna að enginn getur valið fyrir mann það sem ég trúi á …ég hef upplifað svipað og þú fyrrilíf sem hafa hjálpað mér að skilja sjálfa mig betur… og hjálpað mig að elska sjálfa mig og aðra. Skrifin þín ylja mér um hjartað

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s