Feður og dætur ..

Ég hef verið að lesa svo sorglegar fréttir undanfarið, sem innihalda samskipti feðra og dætra.  Þið vitið um hvaða fólk ég er að tala. Það skiptir ekki öllu máli, – og þessi pistill fjallar ekki um einstök mál heldur bara almennt um þessi tengsl, og það sama gildir um tengsl milli annarra í fjölskyldunni, hver svo sem þar eiga í hlut.  Auðvitað gæti þetta verið móðir og sonur, eða systir og bróðir.

Öll þessi vondu samskipti eiga sér rætur í sársauka. EInhver segir eitthvað eða gerir eitthvað út frá eigin sársauka.

Er allt þetta fólk sem tilheyrir sömu fjölskyldunni tilbúið til að ganga ósátt til hinstu hvílu? –   Hvað ef að einhver deyr og ekki hefur náðst sátt?

Það er svo sorglegt að horfa upp á ættingja, jafnvel í valdabaráttu, um eitthvað sem eyðist,  þ.e.a.s. þessi völd flytur enginn með sér inn í eilífðina. –  Sálin fer með okkur inn í eilífðina, sál sem hefur e.t.v. ekki náð að fyrirgefa.  Og eftir verður sál sem heldur nær ekki að fyrirgefa,  sál sem situr uppi með að vera búin að missa e.t.v. barnið sitt og kvaddi það ekki með sátt. –

Í mínum huga er fátt sorglegra.

Mér finnst þetta líka ákveðið vanþakklæti fyrir lífið.  Að eiga dóttur eða eiga föður, að eiga son, að eiga móður,  en ná ekki að njóta þess að eiga samskipti við hvort annað.

Sum sár eru svo djúp að þau er erfitt að heila,  en þar finnst mér að guðsfólkið,  eða sem telur sig trúa á kærleiksríkan Guð,  ætti einmitt að biðja Guð um lækningu og heilun.  Biðja Guð um að hjálpa sér við fyrirgefninguna.

Ég hef litla trú á illskunni, hvað sem hver segir.  Ég trúi að hún sé til, en ég trúi að það sé hægt að afvalda hana með elskunni.

Ég trúi ekki öðru en að faðir liggi andvaka að geta ekki talað við dóttur og að dóttir liggi andvaka að geta ekki talað við föður. Þetta er tap á báða bóga. –

Fyrirgefningin er stærsta gjöf sem hægt er að gefa sjálfum sér.  Hún þýðir ekki að við höfum samþykkt gjörðir eða orð hinna,  hún þýðir að við sleppum tökum á reiði, gremju, og öllu því sem hið vonda vill að við höldum fast í.  Ég trúi að við getum snúið á illskuna með því að samþykkja hana ekki,  og gera hana ekki að okkar. –

Við syndgum öll einhvern tímann, sum í smáu önnur í stóru. Við gerum öll mistök einhvern tímann.

Þegar ásakanirnar birtast á víxl í blöðunum – er það réttur vettvangur til fyrirgefningar? –   Munu ásakanir á víxl leysa málin?

Ef við viljum raunverulega ná bata og betra lífi, þrátt fyrir að vondir hlutir hafi gerst,  – þá þurfum við að sýna skilning en ekki stunda það sem kallað er „The Blaming Game.“ –

Hættum að leita að sökudólgum og förum að skilja AF HVERJU hlutirnir gerast, eða fólk hegðar sér á ákveðinn hátt. það er miklu farsælli leið til að leysa flest mál og deilur.

Lífið er of stutt og of mikilvægt til að því sé lifað í deilum, ekki gera ekki neitt, eins og þar stendur,  enginn einstaklingur getur verið hamingjusamur hvort sem sál hans er plöguð af skömm vegna vondra leyndarmála eða lifir með sál sem nær ekki að skína  vegna reiði og gremju.

Með von í hjarta að þessi skrif hjálpi til skilnings á mikilvægi þess að eyða ekki lífinu til einskis  .. okkar dýrmæta lífi.

424816_387786877901754_155458597801251_1714720_1712323506_n

Er hefndin sæt – eða súr? …

Ef þú hefur einhvern tímann rekið tána í stálfót – þá þekkir þú tilfinninguna sem kemur.  Sársauki – reiði og margir bölva upphátt.  Engum dettur þó í hug að sparka aftur á sama stað,  því þá meiðir sá hinn sami sig aftur. –

Það er ekki hægt að kenna neinum um nema okkur sjálfum að hafa rekist á stólinn.

Þegar aftur á móti einhver klessir innkaupavagninum aftan á hælana á þér í Bónus,  og þú finnur til – þá ertu komin/n með „sökudólg“ og gætir hvesst þig við hann,  sársaukinn er þó hinn sami,  og verknaðurinn var væntanlega og að öllum líkindum óviljaverk – og fæstir öskra á þann sem meiðir þá,  eða tekur sinn vagn og þrusar aftan á „sökudólginn.“ –

En í hvaða tilvikum þurfum við „hefnd?“ –

Væri það ekki ef að stóllinn hér i upphafi hefði sjálfstæðan vilja (sál) tilfinningar og myndi hreinlega ráðast á okkar tær? –   Eða að náunginn í Bónus hefði keyrt viljandi aftan á hælana á okkur?

Kannski felst hefndarviljinn helst í því að fólk þráir að einhver – og þá aðilinn sem særði SKILJI hvað þetta er vont.  Það liggur í fæstum tilvikum í því að vilja meiða.  Ef að sá sem keyrir aftan á biðst einlægrar afsökunar þá þurfum við varla að sýna honum framá hvað hann meiddi okkur mikið.

Hvað með hin andlegu sár? – Hvað með sárin eftir trúnaðarbrest eða höfnun? –   Höfnun upplifir fólk þegar makinn heldur framhjá með öðrum aðila.  Á þá að halda framhjá á móti og eru þá báðir aðilar komnir á sama plan? –  Er ekki bara skaðinn skeður og annað hvort að vinna í sáttum og fyrirgefningu eða kveðja stólinn, – nei ég meina makann?

Það er nefnilega þannig að reyna að hefna sín – með því að gera það sama, er eins og að sparka aftur í stólinn,  sársaukinn verður bara meiri.

En vissulega getur verið að þú sért búinn að kenna maka þínum „Lexíu“ – þ.e.a.s. nú hefur hann upplifað sársauka trúnaðarbrestsins,  eða það að þú ert búin/n að kenna henni hvaða tilfinningar það koma þegar þú stígur út fyrir ykkar heitbindingu.

En þetta er ekki sæt hefnd, hún er súr.

Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn skilur heiminn eftir blindan og tannlausan. – Reyndar var þessu mótmælt í „The Intouchables“ þar sem síðasti maðurinn verður væntanlega eftir með eitt auga og eina tönn,  eða hvað?

En við náum því sem talað er um.

Það sem við viljum fá út úr hefndinni er einhvers konar uppgjör – skilningur og það þarf ekki alltaf að vera að gera það sama við gerandann og hann gerði þér. –

Dauðarefsingar eru löglegar enn í einhverjum fylkjum Bandaríkjanna, –  við sjáum í bíómyndum þar sem bugaðir foreldrar sitja og horfa á aftöku morðingja barnsins þeirra.   „Nú er réttlinu fullnægt“ – gæti setningin verið.

Líf fyrir líf – en hvað?  Er hefndin sæt? –  Fara foreldrarnir heim með bros á vör og sól í hjarta?  Er barnið komið til baka?    Auðvitað ekki.

Og er ekki verið að hefna sín á röngum aðila?  Ætli það séu þá ekki aðstendendur þess sem gerði sem sitja eftir með sorgina að missa.  Þá eru komnir fleiri syrgjendur í heiminn, gleði, gleði – eða ekki.

Það er eitthvað hörmulega rangt við þessa „hefnd“ –

Fólk þarf svo sannarlega að taka afleiðingum gjörða sinna,  fræðast,  skilja og átta sig.  Ef þetta fólk er ekki fært um það, og glæpurinn er á því stigi að það er hættulegt samfélaginu,  þarf að einangra það frá þeim sem það getur valdið skaða og til þess eru fangelsin.  Auðvitað eiga þau að standa undir nafni líka sem „betrunarhús“ – og þar þyrfti að vera öflugt starf þar sem farið er í að vinna uppbyggingarstarf með þá sem eru þar.

Enn aftur að fórnarlömbunum.  Það er einhver fróun sem fólk leitar, leitar skilnings,  það vantar eitthvað eða einhvern til að beina sársauka sínum og reiði að.

Vandamálið er að það að rífa auga úr þeim sem rífur auga úr okkur færir okkur ekki sjonina á það auga. –

Jú – hinn er eineygður líka,  en það breytir engu fyrir okkar sjón.

Til að geta náð bata – andlegum bata,  þurfum við að fyrirgefa, fyrirgefa OKKAR vegna.  Vegna þess að batinn næst ekki meðan við hvílum í reiðinni.   Batinn næst ekki meðan við erum föst í ásökun.  Batinn hefst þegar við sleppum tökunum á geranda,  kveðjum hann – höldum okkar leið, stillum fókusinn af honum og á okkur.  Byggjum upp andann, sættumst við aðstæður,  svona ERU þær og við getum ekki breytt því sem gerðist – svona afturábak. Við getum ekki breytt fortíð og sama hversu mikið við meiðum og lemjum einhvern –  við fáum ekki það til baka sem við misstum.

Höldum áfram,  og besta „hefndin“  í sumum tilvikum er einmitt að vera hamingjusöm. –   Það er ekki bara besta hefndin,  heldur í þeim tilvikum sem við höfum misst,  þá er það það hið besta sem við getum gert fyrir þann sem við höfum misst.  Þið getið bara hugsað það út frá sjálfum ykkur,  ef þið færuð úr þessari jarðvist,  mynduð þið vilja að ættingjar sætu fastir í reiði og hefndarhug eða næðu sér á strik og yrðu glöð og hamingjusöm? –

Hvað með trúnaðarbrestinn og höfnunina? –  Hvað ef að þessi fyrrverandi sér nú eftir ykkur og sér að þið eruð bara lukkuleg og glöð án hans/hennar?

Að fyrrverandi sé ekki sólin ykkar og tunglið og þið komist áfram og séuð farin að dansa salsa og ganga á fjöll með skemmtilegum hópi? –  Eða bara eiga ykkar glöðu stundir með sjálfum ykkur? –

Það er sætleiki en ekki súrleiki.

Það er af mörgu að taka hér – og ég hef tekið ýmislegt hér inn sem við gætum viljað hefna fyrir.  En hefndin – svona klassíks þar sem við viljum gera það sama við hinn aðilann – gengur sjaldnast upp.  Hún er súr og við gætum í sumum tilvikum alveg eins sparkað í stólinn sem við meiddum okkur á aftur, og svo aftur og bara meitt okkur út í hið óendanlega.

Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.`

En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ –  (MT 5.:38-39)

Þetta þýðir að við förum ekki á sama plan og sá/sú sem slær.  Við rísum yfir það og tökum ekki þátt.  Skiljum að flest ofbeldi eða það sem á okkur er unnið er út frá sársauka, dómgreindarleysi eða vanmætti þess sem fremur verknaðinn.  (Ofbeldi er í raun vanþekking og vanmáttur – vanmáttur þess að geta tjáð og ástundað kærleika – og kærleika kennum við varla með ofbeldi).

Kristur segir á krossinum,  „faðir fyrirgef þeim því þau vita ekki hvað þau gjöra“ –  er það ekki skýrasta dæmið?

Fyrirgefningin er gjöf til okkar sjálfra, – ef hún reynist okkur ofviða má feta í fótspor frelsarans og biðja föðurinn,  æðri mátt, lífið að taka boltann – fyrirgefa fyrir okkar hönd, því mennska okkar hindrar okkur í því að fyrirgefa beint og milliliðalaust. –

En fyrirgefning er fyrst og fremst gjöf frelsisins til okkar sjálfra,  hún hindrar það að hegðun annarra tæri upp okkar eigin hjörtu.

Fyrirgefningin er sæt.

1234933_10151721377503141_1503000993_n

Jú, þú ert nafli alheimsins …

„Hver heldurðu eiginlega að þú sért? – Heldur þú að þú sért nafli alheimsins?“

Eeeee…

Hver og ein manneskja getur aldrei upplifað veröldina öðru vísi en að hún sé í miðjunni. –   Þess vegna er það ekkert til að skammast sín fyrir að segjast vera nafli alheimsins (síns).

Við erum aldrei nafli náunga okkar. 😉

Munurinn á okkur og Guði – er að Guð er nafli alheimsins og í sérhverjum nafla.  –  Getur fundið allar tilfinningar, skilið okkar sjónarhorn. Fundið okkar sorg, gleði og skilur allt.

Guð er kærleikur.

Þegar við hleypum inn kærleikanum förum við að sjá hlutina út frá því ljósi.
Með „augum“ kærleikans og við förum að upplifa máttinn sem því fylgir.

Þvi fylgir líka frelsi.  Frelsi frá illu,  frelsi frá dómhörku, frelsi frá illu umtali, frelsi frá ótta og hatri.

Flestallt ofbeldi er unnið út frá ótta,  ótta við að missa,  ótta að hafa ekki stjórn, og óttinn blindar augun og hjartað fyrir kærleikanum.

Þess vegna þarf hver og ein manneskja að hreinsa út sinn ótta og hleypa enn meira kærleika að.

Í móðurlífinu þiggjum við næringu í gegnum naflastrenginn,  góða næringu sem lætur okkur þroskast og þegar við erum tilbúin þá fæðumst við inn í heiminn.  Förum úr verndandi móðurlífi móðurinnar inn í jarðneska tilveru þar sem okkur mæta endalaus verkefni og áskoranir.

Móðurlífið er okkar micro cosmos, eða smá heimur,  heimurinn er okkar macro cosmos  eða alheimur.  Þar höldum við áfram að þiggja næringu – þó á annan hátt sé,  en við getum alltaf – þegar við leyfum það – skynjað okkur í móðurlífi heimsins.  Þar sem ríkir ekkert annað en kærleikur og gleði.   Ef við upplifum annað erum viið týnd og höfum horfið frá móðurlífinu,  erum stödd einhvers staðar fjarri okkur sjálfum.

Móðurlífið hefur aðdráttarafl því að kærleikurinn hefur aðdráttarafl.  Öll mótstaða okkar heldur okkur frá þessu móðurlífi. –  Líka mótstaða við erifðum tilfinningum. –  Þegar við finnum sorg þá megum við ekki setja upp mótstöðu við sorginni, heldur taka á móti henni  með kærleika og gráta – og þegar við höfum fengið þessa útrás þá finnum við að við erum hugguð í þessu móðurlífi.

Ef við aftur á móti berjumst á móti tilfiningunum – hleypum þeim ekki út, förum við lengra og lengra frá móðurlífinu. – Förum frá staðnum og fjarlægjumst okkar eigin nafla.

Svo stöndum við ofboðslega týnd í henni veröld og spyrjum: „hvað vil ég? – hvað er ég? –  Er ég farin að lifa eftir öðrum nöflum? –  Þeirra sjónarhorni, en ekki mínu eigin? –

Af hverju get ég ekki fylgt mínu innsæi – eða „útsæi?“ –  er það kannski vegna þess að ég er á skökkum stað í tilverunni? –

Kannski má ég bara fara að trúa því að ég sé nafli alheimsins,  því ég get ekki skynjað veröldina rétt út frá nafla annarra. –

Ef okkur ætlar að líða vel í þessum heimi,  þurfum við að fara að skilja að tilgangur lífsins er ekki þjáning,  þó oft þurfi þjáningu til að skilja hann,  – tilgangur lífsins er að uppgötva kærleikann og gleðina,  tilgangur lífsins er þakklæti.

Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að vera nafli alheimsins,  ábyrgð á sjálfum sér,  það er ekki hægt að kenna neinum öðrum um,  ekki aðstæðum, ekki fólki og ekki veðrinu.

Þegar við stöndum upp eftir naflaskoðun þá skiljum við þetta:

Kærleikurinn er krafturinn sem færir okkur bata og breytingar.

Hættum að leika guði í lífi annarra – taka fram fyrir hendurnar á almættinu, ef svo má að orði komast. –  Skyggjum ekki á þeirra eigin nafla,  svo það fólk geti fengið að skynja heiminn á sinn hátt. Segjum þeim ekki hvernig lifið lítur út frá þeirra nafla.

Hvað sem á gengur í lífinu,  þá er farvegurinn okkar aftur heim í móðurlífið – heim í kærleikann, gleðina og friðinn.   Það koma stormar sem hrinda okkur út úr þessum unaðsstað,  en  í staðinn fyrir að horfa frá honum þar sem eymdin liggur – þá tökum við ákvörðun að komast aftur heim.

Með ákvörðuninni er batinn hafinn.  Þá hættum við að vera fórnarlömb aðstæðna eða annars fólks.

Þegar við tökum ákvörðun, – segjum „já takk“ – ég vil elska, gleðjast og þakka – og taka á móti því góða sem lífið gefur, þá þurfum við að hvíla í trausti þeirrar ákvörðunar, en ekki fara að finna alls konar hindranir í eigin huga um að það sem við höfum ákveðið muni ekki ganga upp. – Ekki fara að leita að ástæðum, fólki og aðstæðum, – afsökunum fyrir að stöðva ákvörðunina. Leyfum henni að verða, vegna þess að hún kemur okkur heim til okkar.

„Let it be“ .

Hið innra verðmæti … ef aðeins…

Þegar ég fór að lesa um meðvirkni og læra, var einn af fyrstu lærdómunum að fara að elska sjálfa mig og meta skilyrðislaust.  Að sjálfsögðu kom annað fólk í framhaldi af því.

Án allra merkimiða, stöðu, stéttar, kyns, kynþáttar,  kynhneigðar,  útlits, fjölskyldu, maka o.s.frv. –

Í bókinni „Facing Codependence“ er talað um „Self-esteem“ og „Other-esteem“ – en við erum að mestu að byggja á þessu „Other“ dags daglega.

Sjálf-svirðing – sjálfs-traust  eða utanaðkomandi -virðing, utanaðkomandi- traust.

Hvað ég ég án titils – stöðu, stéttar,  atvinnu  o.s.frv. –

Hvað er ég ef ég stend eftir ein, nakin og allslaus?  Með ekkert utanaðkomandi?   Er ég einhvers virði?

„Að sjálfsögðu“  myndu margir segja,  en það eru samt önnur skilaboð sem samfélagið sendir oft og virðingin vill oft hanga á merkimiðunum – og ríkidæmið líka.  Við erum rík ef við eigum hús og bíl, fallegan maka og börn.

Hvað með þau sem eiga ekki neitt og ekki heldur börn.  Eru þau fátæk?

Konungsríki Guðs er innra með þér.  Það fæðast allir jafn ríkir og haldast allir jafn ríkir, allt sem kemur að utan er að láni,  eitthvað sem við höfum meðan við lifum þessari jarðvist,   meira að segja „hylkið“ okkar,  líkaminn er fenginn að láni.

Við erum sálir – og sálin er konungsríkið. 

733833_10201743643821718_1138113304_n

Í guðfræðideildinni las ég um mann sem hét Job. Sagan er frekar ljót í raun þar sem Guð og Djöfullinn eru að veðja sín á milli hvort að Job muni formæla Guði. .

Job var talinn réttlátur maður og Job gerði allt rétt,  Job átti fjölskyldu, hús, akur o.s.frv.  og taldi blessun sína vera m.a. þá að hann var trúrækinn.

En í stuttu máli þá missti Job allt sem verðmæti hans og hamingja byggðist á,  fjölskylduna, heimilið,  heilsuna  og meira að segja útlitið því hann var alsettur kaunum.

Job fór í gegnum alls konar ferli, með vinum sínum og með sjálfum sér,  en þessi var hans lokaniðurstaða:

„Ég þekkti þig af afspurn en nú hefur auga mitt litið þig.“ (Job 42.5)

Hann sá ekki Guð fyrr en allt var tekið burtu.

En þurfum við að missa allt til að sjá Guð? –

Nei,  við þurfum bara að líta í spegil – horfast í augu við sjálf okkur, djúpt, djúpt og þakka fyrir.  Horfa inn í sálina og sjá konungsríkið sem er þar.

Trúa. og sjá.

Skáldið Rumi er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég sá skilaboð á sivpuðum nótum frá honum,  bara núna í morgun.

I Lost Everything,
I Have Found Myself.

1002176_10151862634988185_1494377873_n

Þetta þýðir ekki að við getum ekki fundið okkur sjálf,  eða komið heim til okkar sjálfra – nema að missa allt hið ytra.  En til þess þarf skilning á að við erum ekki líkami, við erum ekki hið ytra.

Við erum sál.

Mjög verðmæt sál.

Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt að verðmæti okkar og ríkidæmi.

Líkami okkar þjónar sálinni og það er okkar að fara vel með þennan þjón,  tala fallega til hans og aldrei, aldrei kalla hann ljótan eða fara styggðaryrðum um hann.  Ekki fremur en við værum að tala við annað fólk.  „Sæl vinkona mín ertu með ljótuna í dag“?  – „Voðalega ertu eitthvað hrukkótt“? –  „Viðbjóðslegt þetta spik á þér“? – 

Hvernig líður okkur eftir svona tal ? –

Sjálfs-ást og virðing er lykill að farsæld – og síðasti lykillinn á kippunni er lykill þakklætis.  Þakklætis fyrir það sem við erum,  jafnvel þó það sé aðeins þessi sál og ekkert annað.

1098040_10151768472411211_208404344_n

Hugsanir eru trú –  „Thoughts are belief“ –  Hverju trúir þú um þig? –

Ef þú trúir ekki að þú sért yndisleg sál – með fullt af tilgangi – tilgangi sem er gleði – gleðina sem vex dag frá degi þegar við þökkum tilveru sálarinnar og við þökkum allt hið smáa,  eins og kom fram í pistlinum hér á undan.

Ef þú trúir ekki á þig og guðsríkið hið innra með þér – getur verið að þú þurfir að skipta  út hugsunum þínum um þig – að þú þurfir að skipta um trú? – 

Ef aðeins þú sæir verðmæti þitt og fegurð með augum þessa máttar – þessarar orku og uppsprettu alls,  sem sum okkar kalla Guð,  þá er óþarfi að missa nokkurn skapaðan og óskapaðan hlut úr lífinu – þá nærðu að sjá.

Takk fyrir að lesa verðmæta sál.

Já þú  ❤

Að sleppa – að leyfa – að treysta … lykill að innra friði

Við verðum aldrei ánægð nema að eiga frið innra með okkur.

Tileinkað þér sem þarft á því að halda:

Við höfum tilhneygingu til að leita að þessum frið hið ytra.

Þegar við verðum tóm hið innra,  þá er svo skrítið að við förum út á við að leita í staðinn fyrir að leita inn á við.

Leggðu hönd þína á brjóst þér og leyfðu henni að vera þar í a.m.k. mínútu.  Lyftu hendinni svo frá brjóstinu og segðu: „Ég leyfi“ ..

Það er þarna einhvers staðar sem „tómið“ er sem þarf að heila og virkja og sjá,  tómið sem ekki er tómt.  Þú þarft bara að fylla það af sjálfri/sjálfum þér.

Vitandi það að ástvinir þínir, farnir sem lifandi gefa þér sína orku um leið og þú leyfir það og vitandi það að Guð gefur þér sína orku um leið og þú leyfir það.

Ekki loka!

Með því að segja „Ég leyfi“ – ertu að hleypa hinu góða að, þessu sem þú ert búin/n að hindra allt of lengi.  Hleypa því inn í líf þitt sem er gott og virkja líka þína eigin innri orku og getu.

Þú ert kraftaverk. 

Leyfðu þér að vera það.

Slepptu tökunum á því sem hindrar þig og heldur aftur af þér.  Slepptu og sjáðu að þegar þú sleppur þá grípur Guð keflið – hættu að halda í það og streðast svona.

Treystu Æðra mætti – þú getur ekki borið heiminn á herðum þér, eða alla sorg heimsins.

Þú þarft að fá tækifæri til að vera þú svo þú þjónir þínum tilgangi á jörðinni,  allir hafa tilgang með því að vera einstakir – ekki með því að líkja eftir eða reyna að vera eins og einhverjir aðrir.

Þakka fyrir þig – og LEYFÐU þér að finna þinn frið og Guðs frið.

Sleppum – Leyfum og Treystum

Ekki vera með þann hroka að treysta sjálfum/sjálfri þér betur en Guði eða reyna að stjórna Guði.

„Verði þinn vilji“ er eina bænin og við bjóðum Guðs vilja velkominn og þökkum þá heilun sem við fáum,  þökkum þegar við finnum að það fer að streyma um okkur,  þökkum þegar stíflurnar losna, verkirnir minnka, sorgin sefast, vonin vaknar.

Við erum ekki ein.

Við erum ljós af ljósi.

Ljósið er sterkara en myrkrið,  því að um leið og þú kveikir á ljósinu er ekki lengur myrkur.

Ekki fela ljósið þitt – mig langar að biðja þig um að sýna mér það,  ég þarf á því að halda. 

Takk  – þú ert yndi.

Eitt eilífðar smáblóm …

Eitt eilífðar smáblóm

Þegar ég horfi á myndbönd sem kallast „Symphony of Science“ – styrkist ég í trúnni á Guð, aðrir styrkjast í trúnni á vísindin. –

Ég finn vísindin í Guði og Guð í vísindunum. –

„Guðs ríki er innra með yður“ .. Jesús Kristur

„The Cosmos is also within us“ –  „We are a way for the Cosmos to know itself“ –  Carl Sagan

Þjóðskáldið Matthías Jochumsson var undir áhrifum frá 90. Davíðssálmi þegar hann skrifaði Lofsönginn sem við notum sem þjóðsöng en fyrsta erindið er hér:

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:,: Íslands þúsund ár, :,:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Eckhart Tolle talar um Guð sem „Being“ vegna þess að hugtakið Guð sé svo gildishlaðið og misnotað, – en auðvitað veldur sá er á heldur og hvað er Being annað en tilveran eða veröldin,  heimurinn, Cosmos? –  Guð sem er allt og Guð sem er heimurinn? –

Ég er því  „eitt eilífðar smáblóm sem tilbiður Guð sinn og deyr“  – skemmtileg þversögn í þessari línu, eitthvað eilíft og deyr –  en í raun er ég og við öll, eilíf, því að allt líf er tengt,  við erum öll eitt,  líffræðilega tengd hvert öðru og efnafræðilega tengd jörðinni. –

Við erum eilíf. –

Við erum öll „eitt eilífðar smáblóm“  hvort sem við könnumst við eða játumst heiminum eða Guði, – það skiptir í raun engu máli,  það er rétt frá staðsetningu hvers „blóms“ í veröldinni …

Veröldin er stórkostleg …

Samhugur ætti því að vera hið rétta eðli okkar.  Það er að vilja hvert öðru vel og vera jöfn, en ekki að vera merkilegri en annar eða ómerkilegri. –  Okkar starf er m.a. að ganga vel um jörðina, ganga vel um veröldina og umgangast okkur sjálf og aðra af virðingu og elsku ..

Umhverfisvernd er elska til sjálfra okkar og annarra, hún virkar inn á við og út á við. –  Heimurinn er líka innra með okkur. –

Engin/n er „atvinnulaus“  vegna þess að við erum verkamenn í víngarði Guðs, – eða víngarði heimsins (Cosmos) eftir hvernig við lítum á það og starf okkar er að hjálpa heiminum við að þekkja sjálfan sig. –

Um leið og við störfum við það að hjálpa heiminum við að þekkja sjálfan sig, komumst við ekki hjá því að starfa við það að þekkja okkur sjálf, kynnast okkur sjálfum, því að,  best að endurtaka það: „The cosmos is also within us“ – eða heimurinn er líka innra með okkur. –

Við erum hluti af heildarpakkanum. –

Ekkert starf er merkilegra en annað starf, allt hefur sinn tilgang, engir tveir vinna starfið nákvæmlega eins. –  Því fleiri sem leggja hönd á plóg, því fleiri upplýsingar fær heimurinn um sjálfan sig, og vex því með hverri veru sem tekur þátt í lífinu.  Með hverri sorg og hverri gleði þroskast heimurinn.

Við erum því hluti af þroskaferli og vexti veraldarinnar. – Enda er veröldin og við orðin/n mun „gáfaðri“ núna en t.d. á ritunartíma Biblíunnar. – Þess vegna verðum við alltaf að lesa fornar bókmenntir með innblæstri dagsins í dag, okkar eigin innblæstri  en ekki innblæstri þeirra sem skrifuðu þær. –

„The Cosmos is also within us“ – The beauty of a living thing is not the atoms that go into it – but the way the atoms are put together –

„The Cosmos is also within us“

„We are a way for the Cosmos to know itself“ –

Í dag er 1. maí,  frídagur verkalýðsins, – en í raun erum við aldrei í fríi sem verkalýður þessa heims, þar sem við erum að störfum til að heimurinn læri að þekkja sig, og að launum fáum við súrefni til að anda,  drögum andann djúpt og gleðjumst yfir þessu dásamlega verkefni sem lífið er.