Amma mín, Kristín Þorkelsdóttir – átti sína rómantík þegar hún var ung kona, – en þá kynntist hún manni og eignaðist með honum lítinn dreng. – Þeir fóru síðar báðir úr spænsku veikinni. –
Ég veit ekki hvað ég var gömul – eða ung þegar ég fór að hugsa um áhrifin af því að kærasti móðurömmu minnar, hafi dáið, því e.t.v. hefðu þau haldið áfram að vera saman og hún ekki kynnst afa og eignast með honum átta börn! – Ekki mömmu mína, og mamma ekki mig og ég ekki börnin mín og þau ekki börnin sín. –
Ég hef aðeins verið að fylgjast með dýralífsþáttum undanfarið og var alveg í sjokki að sjá ísbjörninn eltast við selskóp, en björninn var búinn að svelta í marga mánuði og var með sína húna á spena og þá vantaði næringu. – Ég fór alveg í flækju, með hvorum átti ég að halda? – Ísbjörninn náði ekki að veiða kópinn og ég andvarpaði léttar, – en hvað. Já, húnarnir hans myndu svelta og hann sjálfur ef hann fengi ekki næringu. –
—
Svo ég snúi mér aftur að okkur mannfólkinu, þá geta ákvarðanir sem virka ekki sérlega stórar – og eru ekkert tengdar dauðsföllum haft áhrif hvort að líf kviknar eða ekki. – Ég og fv. maðurinn minn og barnsfaðir skildum 2002, – hann kynnist síðar konunni sinni og þau eignast lítinn yndislegan strák sem er að verða tveggja ára. – Það má segja að ákvörðun okkar hafi haft áhrif á að þetta líf varð til. –
Fólk sem hefur aldrei eignast börn, getur meira að segja haft áhrif á það að líf verði til. – Með sínum ákvörðunum og aðkomu. –
Til dæmis barnlaus vinnuveitandi sem er að ráða fólk í vinnu, – hann velur ákveðna konu inn í starf og í fyrirtækinu kynnist hún barnsföður sínum. – Það er því ákvörðun sem vinnuveitandinn tók sem hefur „crucial“ áhrif á að þetta fólk kynnist. –
Vinnuveitandinn er þá óvart orðinn „þátttakandi“ í ákvörðun um líf, auðvitað ómeðvitaður um það. Kannski er þetta maður/kona sem upplifir ekki tilgang með sínu lífi, eins og ég hef stundum heyrt barnlaust fólk tala um, og ekki skrítið því að það eru til heilu söngvarnir og frásagnirnar um það að „lífið hafi öðlast tilgang“ – þegar að manneskja hefur orðið móðir eða faðir. –
Tilgangur með lífi okkar er að mínu mati að læra af lífinu , hvert fyrir sig, svo ég er ekki sammála um að fólk, eða líf þess hafi ekki tilgang þegar það er barnlaust. –
Hvert eitt og einasta líf hefur tilgang og hvert og eitt einasta líf hefur áhrif að viðhalda lífi. –
Stundum er fólk meðvitað um sinn þátt. Þ.e.a.s. eins og þegar það hefur beinlínist verið að leiða fólk saman viljandi, kynna tvo einstaklinga. –
Ef að úr verður barn, þá gæti sá sem kynnti parið sagt. „Ég á nú svolítinn þátt í að þú varðst til“… 😉 …
Ég skrifa þetta í framhaldi af því hvernig við tengjumst öll – þetta verður eitt allsherjar orsakasamhengi. – Orsakir og afleiðingar. –
Þetta er stundum lífgefandi, og stundum eru ákvarðanirnar lífdeyðandi. – En allt hefur þetta áhrif á umhverfið og aðra í kringum okkur eða sem koma síðar. –
Þetta hljómar í sumum tilfellum mjög grimmt og þess vegna setti ég dæmið af húnunum vs kópnum. –
Áhrifin þurfa ekki bara að vera áberandi verknaður. Orð í ljóði, sögu, kvikmynd eða í samtali, geta haft þau áhrif að fólk velur annan veg en það upphaflega ætlaði, fer aðrar götur og kynnist öðru fólki – kannski fólki sem verður maki þeirra og það eignast síðan barn með. – Við erum svo sannarlega ekki ein –
Mitt val og þitt val, mínar gjörðir og þínar gjörðir geta haft áhrif á það sem náunginn velur/gerir, og svo koll af kolli, áhrif til lífs og áhrif til dauða og allt þar á milli. –
Er þetta allt skipulagt eða lifum við í heimi sem er röð tilviljana? – …
Við erum öll eitt – og öll líffræðilega skyld, öll efnafræðilega tengd jörðinni (eins og kom fram í síðasta pistli í „The Symphony of Science) við höfum áhrif á líf hvers annars, jafnvel fólks sem er langt í burtu, það er bara fjarlægari tenging, en hún er þarna. Ekki síst þess vegna ætti okkur að langa til að elska hvert annað miklu meira, veita meiri samhygð og sýna minni dómhörku. –
Ég vil þar að auki taka undir með Brené Brown um mikilvægi tengingar og bæta við að við séum andlega tengd. Jafnframt segir Brené (þetta er aldrei nógu oft endurtekið)
„Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra.
Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik.
Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar.“ –
Sumu getum við ekki breytt, sumt er ekki í okkar valdi að breyta. En við höfum öll val um viðhorf – hvernig við göngum í gegnum lífið og hvernig við umgöngumst aðra. Val um að elska, val um æðruleysi, val um sátt, val um hugrekki og val um það að fylgja hjartanu. –
Jóhanna, hér talar þú um tilviljanir – en ég fór út í það efni með fyrri grein frá 25.03.2012
Það verður ekki of oft sagt, að tilviljanir eru ekki tilviljanir! Þetta er svarið sem til okkar kemur við okkar þrám, okkar karma, okkar löngunum nú eða fyrr á lífsskeiðinu.
Þegar Sai Baba stóð fyrir framan einstakling þá sá hann fortíð og framtíð þessa manns. Hann vissi á augabragði hvað á manninum hvíldi miðað við karmað, hvers hann mátti vænta miðað við nútíð, og hvers hann gæti vonast eftir samkvæmt viðleytni!