Feður og dætur ..

Ég hef verið að lesa svo sorglegar fréttir undanfarið, sem innihalda samskipti feðra og dætra.  Þið vitið um hvaða fólk ég er að tala. Það skiptir ekki öllu máli, – og þessi pistill fjallar ekki um einstök mál heldur bara almennt um þessi tengsl, og það sama gildir um tengsl milli annarra í fjölskyldunni, hver svo sem þar eiga í hlut.  Auðvitað gæti þetta verið móðir og sonur, eða systir og bróðir.

Öll þessi vondu samskipti eiga sér rætur í sársauka. EInhver segir eitthvað eða gerir eitthvað út frá eigin sársauka.

Er allt þetta fólk sem tilheyrir sömu fjölskyldunni tilbúið til að ganga ósátt til hinstu hvílu? –   Hvað ef að einhver deyr og ekki hefur náðst sátt?

Það er svo sorglegt að horfa upp á ættingja, jafnvel í valdabaráttu, um eitthvað sem eyðist,  þ.e.a.s. þessi völd flytur enginn með sér inn í eilífðina. –  Sálin fer með okkur inn í eilífðina, sál sem hefur e.t.v. ekki náð að fyrirgefa.  Og eftir verður sál sem heldur nær ekki að fyrirgefa,  sál sem situr uppi með að vera búin að missa e.t.v. barnið sitt og kvaddi það ekki með sátt. –

Í mínum huga er fátt sorglegra.

Mér finnst þetta líka ákveðið vanþakklæti fyrir lífið.  Að eiga dóttur eða eiga föður, að eiga son, að eiga móður,  en ná ekki að njóta þess að eiga samskipti við hvort annað.

Sum sár eru svo djúp að þau er erfitt að heila,  en þar finnst mér að guðsfólkið,  eða sem telur sig trúa á kærleiksríkan Guð,  ætti einmitt að biðja Guð um lækningu og heilun.  Biðja Guð um að hjálpa sér við fyrirgefninguna.

Ég hef litla trú á illskunni, hvað sem hver segir.  Ég trúi að hún sé til, en ég trúi að það sé hægt að afvalda hana með elskunni.

Ég trúi ekki öðru en að faðir liggi andvaka að geta ekki talað við dóttur og að dóttir liggi andvaka að geta ekki talað við föður. Þetta er tap á báða bóga. –

Fyrirgefningin er stærsta gjöf sem hægt er að gefa sjálfum sér.  Hún þýðir ekki að við höfum samþykkt gjörðir eða orð hinna,  hún þýðir að við sleppum tökum á reiði, gremju, og öllu því sem hið vonda vill að við höldum fast í.  Ég trúi að við getum snúið á illskuna með því að samþykkja hana ekki,  og gera hana ekki að okkar. –

Við syndgum öll einhvern tímann, sum í smáu önnur í stóru. Við gerum öll mistök einhvern tímann.

Þegar ásakanirnar birtast á víxl í blöðunum – er það réttur vettvangur til fyrirgefningar? –   Munu ásakanir á víxl leysa málin?

Ef við viljum raunverulega ná bata og betra lífi, þrátt fyrir að vondir hlutir hafi gerst,  – þá þurfum við að sýna skilning en ekki stunda það sem kallað er „The Blaming Game.“ –

Hættum að leita að sökudólgum og förum að skilja AF HVERJU hlutirnir gerast, eða fólk hegðar sér á ákveðinn hátt. það er miklu farsælli leið til að leysa flest mál og deilur.

Lífið er of stutt og of mikilvægt til að því sé lifað í deilum, ekki gera ekki neitt, eins og þar stendur,  enginn einstaklingur getur verið hamingjusamur hvort sem sál hans er plöguð af skömm vegna vondra leyndarmála eða lifir með sál sem nær ekki að skína  vegna reiði og gremju.

Með von í hjarta að þessi skrif hjálpi til skilnings á mikilvægi þess að eyða ekki lífinu til einskis  .. okkar dýrmæta lífi.

424816_387786877901754_155458597801251_1714720_1712323506_n

Elsku unga manneskja …

Þetta bréf er stílað á þig sem íhugar tilgang lífsins og finnst hann jafnvel enginn.  Þetta bréf er stílað á þig sem situr heima og hugsar um allt sem þú getur EKKI gert, og sekkur því dýpra og dýpra niður í „EKKIГ –

Ungar manneskjur eru á öllum aldri, ungar manneskjur sem hugsa um það sem þær geta „EKKI“ gert. – Louise Hay er kona sem er 87 ára ung, eins og hún segir sjálf, en hún hugsar ekki um það sem hún getur ekki, heldur um það sem hún getur.

Hvað ef að tilgangur lífsins er nú að NJÓTA lífsins?  Við fáum oft mótstöðu,  ytri mótstöðu og þá er ekki möguleiki að njóta, en mótstaðan endist sjaldnast að eilífu, og stundum er það okkar að koma okkur úr aðstæðum sem veita mótstöðu.

Hvað þegar ytri mótstaðan er farin og eina mótstaðan sem eftir er er hugarástand þar sem þú hugsar „Ég get EKKI“ –

Það er fórnarlambshugsun, sem þarf að snúast yfir í hugsun sigurvegarans,  því öll erum við, sem drögum andann, sigurvegarar lífsins.  Andardrátturinn er forsenda þess að við lifum.

Þakklæti fyrir lífið er eitthvað sem við megum iðka meira,  – og kannski er það pinku van-þakklæti fyrir lífð að hugsa alltaf um þetta „EKKI“ –

Fókusinn skiptir máli, að hugsa upp, hugsa ljós og hugsa gleði, – hugurinn ber þig hálfa leið og svo þarf að koma sér.  Nei, ekki hugsa „EKKI“ – heldur  Ég GET – ÆTLA – SKAL  o.s.frv. – og svo má bæta við  „Mér þykir vænt um sjálfa/n mig“ –

 

Hægt er að hlusta ókeypis á hana Louise L. Hay á Youtube,  að vísu á ensku, þar sem hún les efni bókarinnar  „I CAN DO IT“

Ég set hlekk á það HÉR

codependent-no-more

Ég get það …. og hvað er þetta „það?“ …..

Þegar við viljum ná árangri þurfum við oft að minnast þess að vera raunsæ.

Manneskja í svona nokkuð lélegu „sófaformi“ ákveður ekki að ganga Esjuna á morgun, – heldur tekur hún ákvörðun um að ganga á Esjuna, en byrjar aðeins smærra,  e.t.v. er nóg að taka klukkutíma göngu á jafnsléttu til að byrja með og fara svo að prófa aðeins halla, eins og að ganga í Búrfellsgjá og enda á toppnum þar. –  Endurtaka það og svo fara þegar styrkurinn er orðinn meiri á Esjuna, – og ganga e.t.v. upp að steini.  Það má endurtaka og síðan þegar styrkurinn vex fara alveg upp á topp og skrifa þar í gestabók.

Þetta tekur tíma – en ákvörðunin er fyrst.

Þetta „Það“ sem þessi manneskja getur er að ganga, er að hreyfa sig – og jú hún getur gengið upp á toppinn á Esjunni,  þó það sé ekki alveg daginn eftir ákvörðun. –

Þegar við ætlum okkur of stór skref á of stuttum tíma líður okkur eins og við séum vanhæf og ómöguleg,  getum hreinlega ekki. – En gefum okkur tíma og gefum okkur það að vera raunsæ og tökum bara ákvörðun.

Það er margt sem við getum, ef þú ert að lesa þetta þá til dæmis getur þú lesið, þú getur andað, þú getur notað tölvu, kannski getur þú gengið á Esjuna strax á morgun,  en kannski ekki fyrr en eftir ár? –

Jákvæð staðhæfing er upphaf að mörgu, og þarf ekki að vera röng þó hún virki ekki akkúrat í dag eða á morgun.  Ef þú segir við sjálfa/n þig: „Ég elska mig djúpt og einlæglega“ – eða „Ég virði mig, ég er stórkostleg manneskja“ þá er það satt, þó þú trúir því ekki þá stundina.  Það kemur að því, ef þú bara heldur áfram og endurtekur þessar setningar, og helst fyrir framan spegil þar sem þú horfir í augu þér.  Þá hættir þú líka að láta aðra segja þér eitthvað annað,  því þannig virkar sjálfs-traustið.

„Ég get ÞAГ –  … setningin kemur okkur áfram, en við eigum að færast áfram, þó að við og við komi mótvindur og feyki okkur jafnvel um koll, þá höldum við áfram, vegna þess að við getum það! –

Hafðu TRÚ  – og þú getur ÞAÐ.

425125_10150991208683141_2145683887_n

Er hefndin sæt – eða súr? …

Ef þú hefur einhvern tímann rekið tána í stálfót – þá þekkir þú tilfinninguna sem kemur.  Sársauki – reiði og margir bölva upphátt.  Engum dettur þó í hug að sparka aftur á sama stað,  því þá meiðir sá hinn sami sig aftur. –

Það er ekki hægt að kenna neinum um nema okkur sjálfum að hafa rekist á stólinn.

Þegar aftur á móti einhver klessir innkaupavagninum aftan á hælana á þér í Bónus,  og þú finnur til – þá ertu komin/n með „sökudólg“ og gætir hvesst þig við hann,  sársaukinn er þó hinn sami,  og verknaðurinn var væntanlega og að öllum líkindum óviljaverk – og fæstir öskra á þann sem meiðir þá,  eða tekur sinn vagn og þrusar aftan á „sökudólginn.“ –

En í hvaða tilvikum þurfum við „hefnd?“ –

Væri það ekki ef að stóllinn hér i upphafi hefði sjálfstæðan vilja (sál) tilfinningar og myndi hreinlega ráðast á okkar tær? –   Eða að náunginn í Bónus hefði keyrt viljandi aftan á hælana á okkur?

Kannski felst hefndarviljinn helst í því að fólk þráir að einhver – og þá aðilinn sem særði SKILJI hvað þetta er vont.  Það liggur í fæstum tilvikum í því að vilja meiða.  Ef að sá sem keyrir aftan á biðst einlægrar afsökunar þá þurfum við varla að sýna honum framá hvað hann meiddi okkur mikið.

Hvað með hin andlegu sár? – Hvað með sárin eftir trúnaðarbrest eða höfnun? –   Höfnun upplifir fólk þegar makinn heldur framhjá með öðrum aðila.  Á þá að halda framhjá á móti og eru þá báðir aðilar komnir á sama plan? –  Er ekki bara skaðinn skeður og annað hvort að vinna í sáttum og fyrirgefningu eða kveðja stólinn, – nei ég meina makann?

Það er nefnilega þannig að reyna að hefna sín – með því að gera það sama, er eins og að sparka aftur í stólinn,  sársaukinn verður bara meiri.

En vissulega getur verið að þú sért búinn að kenna maka þínum „Lexíu“ – þ.e.a.s. nú hefur hann upplifað sársauka trúnaðarbrestsins,  eða það að þú ert búin/n að kenna henni hvaða tilfinningar það koma þegar þú stígur út fyrir ykkar heitbindingu.

En þetta er ekki sæt hefnd, hún er súr.

Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn skilur heiminn eftir blindan og tannlausan. – Reyndar var þessu mótmælt í „The Intouchables“ þar sem síðasti maðurinn verður væntanlega eftir með eitt auga og eina tönn,  eða hvað?

En við náum því sem talað er um.

Það sem við viljum fá út úr hefndinni er einhvers konar uppgjör – skilningur og það þarf ekki alltaf að vera að gera það sama við gerandann og hann gerði þér. –

Dauðarefsingar eru löglegar enn í einhverjum fylkjum Bandaríkjanna, –  við sjáum í bíómyndum þar sem bugaðir foreldrar sitja og horfa á aftöku morðingja barnsins þeirra.   „Nú er réttlinu fullnægt“ – gæti setningin verið.

Líf fyrir líf – en hvað?  Er hefndin sæt? –  Fara foreldrarnir heim með bros á vör og sól í hjarta?  Er barnið komið til baka?    Auðvitað ekki.

Og er ekki verið að hefna sín á röngum aðila?  Ætli það séu þá ekki aðstendendur þess sem gerði sem sitja eftir með sorgina að missa.  Þá eru komnir fleiri syrgjendur í heiminn, gleði, gleði – eða ekki.

Það er eitthvað hörmulega rangt við þessa „hefnd“ –

Fólk þarf svo sannarlega að taka afleiðingum gjörða sinna,  fræðast,  skilja og átta sig.  Ef þetta fólk er ekki fært um það, og glæpurinn er á því stigi að það er hættulegt samfélaginu,  þarf að einangra það frá þeim sem það getur valdið skaða og til þess eru fangelsin.  Auðvitað eiga þau að standa undir nafni líka sem „betrunarhús“ – og þar þyrfti að vera öflugt starf þar sem farið er í að vinna uppbyggingarstarf með þá sem eru þar.

Enn aftur að fórnarlömbunum.  Það er einhver fróun sem fólk leitar, leitar skilnings,  það vantar eitthvað eða einhvern til að beina sársauka sínum og reiði að.

Vandamálið er að það að rífa auga úr þeim sem rífur auga úr okkur færir okkur ekki sjonina á það auga. –

Jú – hinn er eineygður líka,  en það breytir engu fyrir okkar sjón.

Til að geta náð bata – andlegum bata,  þurfum við að fyrirgefa, fyrirgefa OKKAR vegna.  Vegna þess að batinn næst ekki meðan við hvílum í reiðinni.   Batinn næst ekki meðan við erum föst í ásökun.  Batinn hefst þegar við sleppum tökunum á geranda,  kveðjum hann – höldum okkar leið, stillum fókusinn af honum og á okkur.  Byggjum upp andann, sættumst við aðstæður,  svona ERU þær og við getum ekki breytt því sem gerðist – svona afturábak. Við getum ekki breytt fortíð og sama hversu mikið við meiðum og lemjum einhvern –  við fáum ekki það til baka sem við misstum.

Höldum áfram,  og besta „hefndin“  í sumum tilvikum er einmitt að vera hamingjusöm. –   Það er ekki bara besta hefndin,  heldur í þeim tilvikum sem við höfum misst,  þá er það það hið besta sem við getum gert fyrir þann sem við höfum misst.  Þið getið bara hugsað það út frá sjálfum ykkur,  ef þið færuð úr þessari jarðvist,  mynduð þið vilja að ættingjar sætu fastir í reiði og hefndarhug eða næðu sér á strik og yrðu glöð og hamingjusöm? –

Hvað með trúnaðarbrestinn og höfnunina? –  Hvað ef að þessi fyrrverandi sér nú eftir ykkur og sér að þið eruð bara lukkuleg og glöð án hans/hennar?

Að fyrrverandi sé ekki sólin ykkar og tunglið og þið komist áfram og séuð farin að dansa salsa og ganga á fjöll með skemmtilegum hópi? –  Eða bara eiga ykkar glöðu stundir með sjálfum ykkur? –

Það er sætleiki en ekki súrleiki.

Það er af mörgu að taka hér – og ég hef tekið ýmislegt hér inn sem við gætum viljað hefna fyrir.  En hefndin – svona klassíks þar sem við viljum gera það sama við hinn aðilann – gengur sjaldnast upp.  Hún er súr og við gætum í sumum tilvikum alveg eins sparkað í stólinn sem við meiddum okkur á aftur, og svo aftur og bara meitt okkur út í hið óendanlega.

Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.`

En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ –  (MT 5.:38-39)

Þetta þýðir að við förum ekki á sama plan og sá/sú sem slær.  Við rísum yfir það og tökum ekki þátt.  Skiljum að flest ofbeldi eða það sem á okkur er unnið er út frá sársauka, dómgreindarleysi eða vanmætti þess sem fremur verknaðinn.  (Ofbeldi er í raun vanþekking og vanmáttur – vanmáttur þess að geta tjáð og ástundað kærleika – og kærleika kennum við varla með ofbeldi).

Kristur segir á krossinum,  „faðir fyrirgef þeim því þau vita ekki hvað þau gjöra“ –  er það ekki skýrasta dæmið?

Fyrirgefningin er gjöf til okkar sjálfra, – ef hún reynist okkur ofviða má feta í fótspor frelsarans og biðja föðurinn,  æðri mátt, lífið að taka boltann – fyrirgefa fyrir okkar hönd, því mennska okkar hindrar okkur í því að fyrirgefa beint og milliliðalaust. –

En fyrirgefning er fyrst og fremst gjöf frelsisins til okkar sjálfra,  hún hindrar það að hegðun annarra tæri upp okkar eigin hjörtu.

Fyrirgefningin er sæt.

1234933_10151721377503141_1503000993_n

Að þroskast eftir skilnað ….

Reynsla mín af sorg – er sú að það er mjög erfitt að komast áfram ef við festumst í sorgarferlinu.  Sorg er yfirskrift yfir margar tilfinningar – og sorg er eitthvað sem við göngum í gegnum þegar eitthvað fer öðruvísi en við ætluðum.

Að festast í sorgarferli þýðir það t.d. að festast í reiði,  e.t.v. reiði út í maka vegna trúnaðarbrests.  Reiði út í maka fyrir að hafa brugðist,  – eða gremju hreinlega út í aðstæður,  svona átti þetta alls ekki að fara.

Það er ekkert nema eðlilegt að fara í gegnum sorgarferli,  en það er önnur sorg sem getur orðið meiri en hin eiginlega sorg eftir skilnað,  það er ef að enginn verði þroskinn,  en ég tel að ef að fólk lærir ekkert af þessu ferli og stöðvast í því eða flýi það þá komi ekki sá þroski sem okkur er ætlað að fá út úr ferlinu.

Sorg og þjáning er skóli – þungur skóli.

Diplóma þess skóla er sáttin,  og sáttinni náum við ekki nema að fara í gegnum tilfinningarnar, vð náum henni ekki í gegnum mat, áfengi, annað fólk – eða annan flótta eða bælingu tilfinninga.  Við verðum að taka þennan „bekk“ sjálf.

Margir skilja vegna þess að þeir telja sig ekki finna  hamingjuna í hjónabandinu –  en átta sig kannski ekki á því að í raun finna þeir ekki hamingjuna sem er innra með þeim sjálfum.

Í sjálfsrækt eftir skilnað er því nauðsynlegt og gagnlegt, að horfa inn á við – og fókusera á sjálfa/n sig.  Byggja sig upp, rækta og efla – virkja innri gleði, ást og frið.   Með því er líka verið að fyrirbyggja að farið sé í „sama“ sambandið aftur.

Það er ekkert á hverra færi að finna út úr þessu,  – en námskeiðin „Lausn eftir skilnað“ – byggja á því að viðurkenna sorgina eftir skilnað, gera sorgarferlið að þroskaferli og læra að setja fókusinn inn á við.  Ekki hanga á ásökun í garð makans,  jafnvel þótt hann hafi gerst brotlegur,  verið afskiptur eða tilfinningakaldur, –  ef fólk er skilið og ætlar að halda því til streitu þarf að taka fókusinn af fyrrverandi og setja hann heim á sjálfa/n sig. –

Enn er laust á námskeið sem hefst 5. október nk.  í Lausninni, námskeið fyrir konur í þetta sinn – og hægt að skrá sig ef smellt er HÉR   

Athugið að það eru engin tímamörk – hversu langt er liðið frá skilnaði,  þetta snýst ekki um tíma, heldur hvort að sátt sé náð eða ekki.  Stundum er fólk enn ósátt við sinn skilnað þó mörg ár séu liðin og er fast í gömlu fari.

Sáttin hefur þann töframátt að þá fyrst hefst nýr vöxtur.

552023_434727973207644_155458597801251_1864963_8980327_n

 

 

 

Á ég að týna mér eða þér? – um ójafnvægi í samböndum 1. hluti

Þessi pistill heitir á frummálinu:

„The split-level relationship“  og er eftir Steve Hauptman

Hér eru tvær spurningar sem við glímum við ef við viljum vera í heilbrigðu sambandi.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Þessum spurningum er ekki auðsvarað, en það er hægt að glíma við þær.

En það er glíman sem skiptir máli.

Af hverju?

Vegna þess að hún framkallar grunnþarfir þess sem við höfum fram að færa í hvaða sambandi sem er.

Samband (connection) og frelsi. 

Samþykki annarrar persónu og að samþykkja sjálfa/n sig.

Heilan og raunverulegan maka,  og á sama tíma, heila/n og raunverulega/n þig.

Tvo raunverulega og heila einstaklinga.

Flestir sem höfundur þekkir eru sannfærðir um að ekki sé hægt að vera heil (þau sjálf) bæði á sama tíma.

Flestir eru úr fjölskyldum –  sem hafa alkóhólískt – eða ofbeldistengt mynstur eða eru á annan hátt vanvirkar – og hafa þar af leiðandi ekki haft möguleikann á að finna jafnvægið milli þess að vera í sambandi og vera frjáls.

Það sem þau lærðu var að hafa eitt þýddi að missa hitt.  Annað hvort var það samband eða frelsi.

Það að ávinna sér ást og samþykki foreldra, til dæmis, þýddi það að fórna mikilvægum hlutum í lífi þeirra sjálfra,  eins og frelsinu við að tjá sig frjálslega eða að sinna eigin þörfum.

Það er í fjölskyldunni sem við ólumst upp sem hvert okkar lærði sitt persónulega svar við þessum tveimur spurningum.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Og svarið sem við tileinkuðum okkur varð að mikilvægum (þó að mestu ómeðvituðu) hluta grunnviðhorfa okkar til lífsins og sambanda okkar,  það sem höfundur kallar – okkar Plan A.

Sumir taka ákvörðun, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að hafa MIG, og til fjandans með ÞIG“ – sálfræðingar kalla þetta hið sjálfhverfa svar (The narcissistic answer.)

Önnur ákveða, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að haf ÞIG, og til fjandans með MIG“ – sem er hið „margfræga“ meðvirka svar.

Þá segir hinn sjálfhverfi maki  „ÉG fyrst,“ og hinn meðvirki svarar, „Já, elskan.“

Og þessar tvær persónugerðir enda saman með ótrúlega reglulegu millibili.

Þegar fylgst er með samskiptum þessa pars,  kemur  á óvart hversu fyrirsjáanleg samskiptin eru.  Í öllum aðstæðum finnur sjálfhverfi einstaklingurinn einhverja leið til þess að segja: „Ég fyrst/ur,“ og hinn meðvirki svarar „Já, elskan.“  Það er eins og þessir aðilar hafi sest niður fyrir langa löngu og skrifað undir samning um að gera þetta svona.

Sem þeir að hluta til gerðu.

Það hvernig þau svöruðu þessum tveimur spurningum hér að ofan,  eru að stærstum hluta ástæðan fyrir að þau löðuðust hvort að öðru.

Höfundur segir að flest pör sem leita ráðgjafar hjá honum fylgi þessu mynstri – svo mörg að hann ákvað að gefa þessu parasambandi nafn.

Hann kallar það „split-level relationship“ –  við gætum kallað það „samband á aðskildu plani“ –  eins og að par búi í pallaraðhúsi og annar aðilinn sé alltaf skör neðar en hinn.

Þessi sambönd á aðskildu plani ganga um tíma, en brotna yfirleitt alltaf upp.  Á einhverjum tímapunkti áttar annað hvort annar aðilinn eða báðir að þeir eru ekki að fá það sem þeir þarfnast úr sambandinu.

Hin meðvirku taka yfirleitt eftir því fyrst. Þegar þessi maki er kvenkyns getur þetta leitt til þess sem höfundur kalla „The Walk-Away Wife“ – „Eiginkonan sem gengur burt.“ –  Ég mun skrifa sérstaklega um það síðar.

En hin sjálfhverfu hafa tilhneygingu til að vera óhamingjösum líka. Þau kvarta um einmanaleika,  skort á nánd við hinn meðvirka maka, eða skort á virðingu og umhyggju.  Þau geta upplifað óþolinmæði,  eirðarleysi, pirring, gremju.  Stundum neyta þau áfengis, eiturlyfja, ofnota mat, lifa í reiði eða halda framhjá, og líður svo illa með það.

Allt þetta á sér stað vegna þess að þessi sambönd á misjöfnu plani eru ófrávíkjanlega óheilbrigð.

Kunnugleg, vissulega.  Jafnvel þægileg, að því leyti að fólk veit hvað það hefur.  (Öryggistilfinningin).

En þessi sambönd eru ekki heilbrigð.  Þessi svör sem mynda ójafnvægi og samböndin á misjöfnu plani eru byggð á geta ekki uppfyllt tilfinningaþörf tveggja fullorðinna einstaklinga.  Og það endar með því að báðir aðilar upplifa sig svikin,  án þess að skilja hvers vegna.

Hvernig er batinn hjá svona pari?

Þá er hlutverkum víxlað.

Hinn meðvirki einstaklingur verður að þróa með sér hugrekki og æfa sig í að standa upp fyrir sjálfum sér.

Hinn sjálfhverfi  verður að þróa með sér samhug og æfa sig í að stíga niður,  æfa sig í að gefa í stað þess að heimta.

Auðvelt?  Nei.  Fyrir hvorugt þeirra er þetta auðvelt.

Aðeins nauðsynlegt til að vera á sama plani.  (Búa á sömu hæð).

Þýðing – Jóhanna Magnúsdóttir – http://www.johannamagnusdottir.com

Uppskrift að betra lífi ..

1.  Ástundum þakklæti – því þakklæti leiðir til gleði og gleði til árangurs.

2. Gerum okkur grein fyrir að tilgangur lífsins er gleði,  og alltaf þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðunum þá veljum þá sem veitir meiri gleði.

3. Veljum góða andlega næringu,  við förum ekki í jákvæðnikúr, við breytum siðum okkar þannig að góð andleg næring er það sem við kjósum á diskinn okkar allt lífið. –  Þess meira pláss sem við gefum hinu góða því minna pláss er fyrir hið vonda. –

4. Forðumst að vera fórnarlömb,  klæðum okkur ekki í „fórnarlambsbolinn“ á morgnana heldur „sigurvegarabolinn“ –  berum höfuðið hátt.

5. Fyrirgefum, sleppum ásökunum – gerum okkur grein fyrir aðstæðum og skiljum þær, en notum hvorki fólk né aðstæður til að stimpla okkur inn í aðgerðaleysi og eymd.  Eymd er valkostur.

6.  Trúum að við fáum aðstoð lífsins, að þegar við segjum „já takk“ að lífið komi til móts við okkur.  – Trúin er þessi hlekkur sem oft vantar þegar allt hitt er komið.  Þegar við vitum allt – t.d. hvernig við eigum að ná árangri – en við trúum ekki á eigin árangur.  Trúðu á þinn mátt og megin.

7.  Veitum athygli og virðum það góða,  okkar eigin kostum og kostum þeirra sem eru í kringum okkur.  Að veita athygli er svipað og að virða,

8. Ekki leita eftir elsku, gleði, skemmtun eða  þakklæti frá öðrum. Elskum, gleðjumst, skemmtum okkur og þökkum.  Við höfum uppsprettu þessa alls innra með okkur.  Okkur skortir ekkert.  Gleði laðar að sér gleði, elska laðar að sér elsku og þakklæti laðar að sér þakklæti.

9. Leyfum okkur að skína, leyfum okkur að eiga allt gott skilið, verum að-laðandi, það þýðir að við fyllum á okkar eigin bikar – fyllum á hann með heilagleika sem við getum lært við hugleiðslu, yoga, bænir,  útiveru,  fjallgöngur eða annað sem við finnum að gefur okkur nánd við það sem er heilagt og tært.

10.  Gerum okkur grein fyrir því að hið andlega líf, vellíðan hið innra er undirstaða að betra veraldlegu lífi.

11. Verum heiðarleg og sönn,  gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Heiðarleiki er grundvöllur góðra samskipta. Tjáum okkur opinskátt og segjum það sem við meinum, en förum ekki fjallabaksleið að efninu.  Tölum út frá hjartanu,  það þýðir að segja ég en ekki þú. „Mér líður svona þegar“ .. í stað þess að ásaka „Þú ert ..“

12.  Sýnum samhug en verum ekki heimshryggðarkrossberar.  Heimurinn hefur ekkert gagn af okkur ef við erum gagntekin af sorg yfir atburðum sem gerast hinum megin á hnettinum.  Þá fjölgar bara fórnarlömbunum ef við erum orðin óstarfhæf eða máttlaus vegna þessarra atburða.

13. Lítum okkur nær.  Dokum við og lítum í eigin barm áður en við förum í það að dæma náungann.  Ef við erum vöknuð ekki dæma þau sem eru enn sofandi.

14. Þegar við lendum í stormi, myrkri, holu  – sem okkur líður illa í – hugsum ekki myrkur, heldur hugsum ljós.  Þá erum við lögð af stað út úr myrkri, holu, sorg.

15. Munum að þó að sælla sé að gefa en þiggja þá þurfum við líka að sýna þá auðmýkt að vera á þeim enda að þiggja. Þiggja hrós og þiggja hjálp. – Ekki vera of stolt,  –

15. Opnum hjörtu okkar, sýnum tilfinningar, höldum ekki leyndarmál sem skaða okkur,  virðum innri frið.

16. Elskum óvini okkar – óttann og skömmina, – „Kill them with kindness“ – það þýðir að við eyðum þeim með elsku.  Rými þeirra minnkar og endar með því að við verðum að mestu óttalaus og förum að lifa af hugrekki. – Stundum elskum við mest með að sleppa tökunum – og af hverju ekki að sleppa tökunum á ótta, kvíða og afbrýðisemi? –   Stjórnsemi – það að treysta ekki er að óttast. „Faith or fear“ –   Við óttumst það sem við þekkjum ekki, við óttumst óvissuna.  Óttinn og vantraustið er grunnur stjórnsemi og stundum verðum við hreinlega að sleppa tauminum því að okkur er farið að verkja – og leyfa lífinu að vera án okkar stjórnunar.

Biðjum um æðruleysi – til að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt – sætta okkur við fortíð og fólk og fyrirgefa, okkar vegna. Biðjum um hugrekki til að breyta því sem við getum breytt, um hugekki til betra lífs, til að tjá okkur án ótta.  Biðjum um vit til að greina a milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki. –  Fortíð verður ekki breytt og fólki verður ekki breytt.

Sættum okkur við það sem er, eins og við höfum valið það – því út frá sáttinni hefst nýr vöxtur – ekki fyrr. 

Lífskrafturinn er kærleikur,  allt sem við gerum, setjum kærleikann inn í þá jöfnu og munum að meðvirkni er ekki góðmennska,  hún er vankunnátta í góðmennsku og hún er í raun eigingjörn góðmennska. –  Við erum ekki að leyfa fólki að takast á við þeirra eigin áskoranir í lífinu,  við erum að stela sjálfstæði, stela virðingu.

Mesti kærleikurinn getur verið í þvi að setja fólki mörk.

Verum sjálf breytingin sem við viljum sjá hjá öðrum. Ergjum okkur ekki á þeirra vanmætti eða vankunnáttu, – verum okkar eigin bestu fyrirmyndir og þá um leið annarra.

Lifum heil. og höfum trú.  

1185179_423218941120300_1002824657_n

Þetta snýst allt um trú …

Þegar ég skrifa trú, þá er ég ekki að tala um trú sem trúarbrögð,  en við erum svo fátæk í íslenskunni að trú er notað um faith, belief og religion,  kannski fleira.

Trúin sem ég er að tala um hér er hugmyndir eða sú trú sem við höfum um okkur sjálf, getu okkur og um hvernig við erum og hvað við gerum. –

1174682_501815599908980_883015767_n

Snýst um trú á sjálfan sig og trú á að lífið komi til móts við okkur.

Ótti – kvíði – stjórnsemi – óöryggi o.fl eru einkenni þess að skorta trú.

Við trúum ekki á okkar hæfileika, við trúum ekki að við eigum allt gott skilið, við trúum ekki að okkur geti gengið vel,  við trúum ekki að við finnum góðan maka, við trúum ekki á að við finnum starf sem er áhugavert, við trúum ekki að við eignumst draumahúsið o.s.frv. –  Svo er það hið innra, við trúum ekki að við náum heilsu, náum sátt, náum að finna frið o.s.frv. –

Við getum lesið alla „The Secret“ – og allar sjálfshjálparbækur,  en ef við trúum engu sem þar stendur þá gera þær ekkert gagn.

EInhvers staðar stendur að trúin flytji fjöll.

Þau sem hafa trú á markmiðum sínum ná frekar árangri,  þau sem leyfa sér að leggjast í hendi trúarinnar og efast ekki þau uppskera oftast samkvæmt því. –

Það er þessi BELIEF – TRÚ  – eða HUGMYNDAFRÆÐI um okkur sjálf sem skiptir máli. – Ekki hvað aðrir hugsa, og við megum ekki gera það heldur að okkar trú eða hugmyndum – heldur hvað við hugsum í okkar höfði, eða hverju við trúum.  Ef við trúum að við séum heppin erum við fókuseruð á heppni.  Ef við trúum að við séum óheppin þá sjáum við ekki einu sinn þó að það liggi þúsund kall á götunni,  því við erum svo viss um að við séum svo óheppin.

Þetta með trúna og óheppnina sannaði Darren Brown í mynd sem hann gerði um „The Lucky Dog“ –  þar sem hann (ásamt hjálparfólki) náði að sannfæra fólk um að ef það snerti styttu af hundi – sem var algjörlega valin af handahófi,  yrði það heppnara. Og það var reyndin.  Hægt er að sjá heimildarmynd um þetta á Youtube.

Svo það þarf bara að fara að trúa, eða skipta út trúnni.

Í staðinn fyrir að nota alls konar setningar eins og

„Ég ætla að reyna að gera það“

„Ég ætla kannski að gera það“

„Ég vona að ég geti það“

„Ég er ekki viss um að ég geti það“

þá segjum við einfaldlega:

„ÉG GET ÞAГ  .. og við trúum á okkar mátt og megin,  það sem okkur er gefið hið innra. – Losum okkur við það sem íþyngir eins og ótta, skömm og efa – og höldum áfram í góðri trú.

Það munu koma hlykkir á leiðina, – og stormar,  en trúin er lykilatriðið.   Ef við erum í vanda með það,  þá þurfum við að biðja fyrir okkur að öðlast meiri trú – og fá styrk við það.   Trú á kærleika, jákvæðni og gleði. –

Við getum líka þakkað fyrir hvað við erum heppin að svo mörgu leyti. –

Við höfum öll máttinn (og dýrðina),  en við þurfum að læra að nota hann.  Leita inn á við, – leita ekki langt yfir skammt.

Þessi pistill er grundvallandi fyrir því sem ég er að fara að kenna – núna á örnámskeiði kl. 18:00 -20:00 í dag í Lausninni,  Síðumúla 13, 3. hæð.   Sjá http://www.lausnin.is

971218_563124067057884_436886814_n(1)

Er sannleikurinn alltaf sagna bestur? ..

Hvað gerðist hjá Bradley Manning?   35 ára fangelsi?

Á hverjum bitnar sannsögli hans og uppljóstranir,  jú á þeim sem beittu ofbeldi – en það bitnar mest á honum sjálfum og við þurfum ekki að efast um að maðurinn á fjölskyldu og vini,  sem það hlýtur að bitna á líka.

Allt sem við gerum hefur áhrif,  ekki bara á okkur sjálf heldur líka á þau sem eru í kringum okkur.

Oftast er ástæðan fyrir því að við segjum EKKI sannleikann – að við erum hrædd við að meiða,  meiða aðra og meiða okkur sjálf. Við erum líka hrædd við að missa þau sem okkur þykir vænt um, okkar nánustu sem eru flækt inn í kóngulóarvef þagnarinnar og vilja ekki rjúfa hann og finnst við svikarar.

Með því að meiða aðra (eða finnast við vera að því)  finnum við til. Okkur þykir (flestum væntanlega) vont að vera þess valdandi að fólk finni til, fái að upplifa sárar uppgötvanir og í hugann koma alltaf orð skáldsins: „aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ –

Ég skrifaði „að verða þess valdandi“ – en í raun er það ekki við sem verðum þess valdandi, það er atburður eða hlutur sem átti sér stað sem við erum að segja frá sem verður þess valdandi að fólk er sært. –

En það er þetta með sendiboðann eða uppljóstrarann.  Þann sem segir sannleikann,  – oft er hann skotinn niður í stað þess að athyglin fari á atburðinn eða þann sem verið er að ljóstra upp um.

Ég skrifaði stóran pistil sem hefur yfirskriftina, „Leyndarmál og lygar“ – byggðan á pistli Brené Brown.  Þar kemur mikilvægið að segja sögu sína fram.

Þá fékk ég fyrirspurn frá henni yndislegu  Millu sem er sjötug kona sem hljóðaði svona:

„Frábært að lesa þetta aftir Jóhanna mín, en hvað ef ég vil og þarf að segja sögu sanna sem mun gera fólk sem á í hlut alveg brjálað út í mig?“

„Er í vandræðum með þetta.“

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.8.2013 kl. 21:10

Já,  Bandaríkjamenn urðu brjálaðir út í Bradley Manning, svo þeir settu hann í fangelsi í 35 ár fyrir að segja sannleikann.

Ég veit ekki undir hvaða  trúnaðarsamning (meðvirknisamning) við skrifum undir sem börn,  að halda leyndu því ofbeldi sem við verðum fyrir – bæði af kynferðislegum toga sem öðrum? –

Það sem er mikilvægt að hafa í huga:

Þegar við segjum sögu okkar,  að gera það í kærleika og með virðingu fyrir lífinu.  Segjum hana á réttum forsendum,  þ.e.a.s. vegna þess að við erum að frelsa okkur úr fangelsi hugans, oft fangelsi skammar sem íþyngir okkur og e.t.v. ánauð fortíðar.   Með þessu frelsi fylgir oft að einhver annar er „afhjúpaður“ sem gerandi. –

Það þýðir ekki að viðkomandi sé endilega vond manneskja, og honum eða henni hefði reyndar verið greiði gerður (og öllum öðrum viðkomandi) ef afhjúpunin hefði komið strax,  en ekki tugum árum síðar.

Við þurfum að hafa í huga forsendurnar – af hverju?

Það hefur allt sinn tíma undir sólinni, – leyndarmálin eru best þannig að þau verði ekki til, næst best að segja frá þeim sem fyrst. Sjaldan er ein báran stök, og stundum þegar fólk fer að opna á leyndarmál þá opnast pandórubox,  það fer fleira að koma upp.

Þau sem stíga fram með leyndarmál eins og að það hafi verið brotið á þeim á einn eða annan máta,  lent í hvers konar ofbeldi, misnotkun, einelti – þau eru fyrirmyndir,  en þau þurfa að muna að festast ekki í ásökun og að fara ekki í hefndargír,  því það bindur þau enn sterkar við atburðinn.

Ef sagt er A þarf að fara alla leið og vinna úr málinu sem þarf að enda í sátt og fyrirgefningu,  – til að viðkomandi geti haldið áfram með líf sitt.   Fyrirgefningu sem þýðir að ekki sé verið að samþykkja atburð eða gjörning, aðeins að losa sig úr þessari áður nefndu ánauð fortíðar.

Allir þurfa hjálp, gerendur og þolendur og líka þau sem standa nærri.  Í raun má segja að allir séu þolendur ef við skoðum þetta út frá þeim sjónarhóli að voðaverk eða ofbeldi er aðeins framið og oftast út frá sársauka.

Það þýðir þó ekki að – ekki eigi að segja sannleikann – því sannleikurinn,  eins og hann er sár, frelsar ekki einungis þann sem verður fyrir ofbeldi heldur líka þann sem hefur beitt því, því hann situr svo sannarlega uppi með verknaðinn líka og þeir sem í kringum hann lifa og hrærast finna fyrir því.  Manneskja með erfiða fortíð og ljóta gjörninga í farteskinu á erfitt með að elska og vera heil,  og er það reyndar ómögulegt.

Það er manneskja á flótta frá sjálfri sér og lífinu,  eflaust manneskja sem leitar í fíkn.

Það sem situr eftir er spurningin: „Af hverju erum við að segja frá?“ Ef það frelsar þig úr ánauð fortíðar og skammar,  þá á að segja frá. Það þarf bara að gera það á réttan hátt,  án ásökunar, og í samráði við þau sem kunna til verka.   Það þarf að leita sér hjálpar.

Ég viðurkenni að ég veit allt of lítið um Bradley Manning, en ég held það séu fæstir siðmenntaðir í vafa um að það sem hann gerði, það að uppljóstra þrátt fyrir undirritaða þagnareiða,  sé rangt.

Það eru þessir óskrifuðu þagnareiðar fjölskyldna sem við þurfum aðeins að íhuga,  hvort að þar leynist hættan á að ofbeldi sé falið og leyndarmál séu haldin sem séu skaðleg, ekki bara þeim aðilum sem eru á bak við heldur vegna komandi kynslóðar.

Þá er betra að tala og rjúfa e.t.v. keðju sem verður aldrei með öðru móti slitin en að segja sannleikann.

Þó hann sé hræðilega sár þá er hann frelsandi þegar upp er staðið.

Ef öllum frásögnum er pakkað inn í elsku,  þá verður umgjörðin mýkri.  Viðtakendur taki við með auðmýkt og átti sig á því að þetta snýst fyrst og fremst um þann sem þarf frelsið til að vera hann/hún sjálfur en ekki um þá.

Öll erum við perlur,  sálir sem upprunalega fæddumst saklaus og frjáls.  Ef við fáum ekki að vera við og fáum ekki að segja sögu okkar,  erum við ekki heima hjá okkur.

Við þurfum að komast heim.

936714_203765759778261_1356573995_n

Ég er nóg

Í bata  er best að lifa

og þegar ég kem auga á sársauka minn

tek ég ákvörðun um að breyta um farveg

kveð sárin sem urðu til við rangar hugsanir

vegna þess að ég hef lært að ég er verðmæt

grímulaus og allslaus fyrir Guði og mönnum

og ég á allt gott skilið, eins og við öll

ég reisi mér ekki tjaldbúðir í sorginni

ekki frekar en skömminni

sleppi íþyngjandi  lóðum höfnunar og hefndar

því ég hef frelsað sjálfa mig

og þá þarf ég ekki að spyrna frá botni

heldur  flýg af stað sem fis

inn í nýja og betri tíma

þar sem óttinn fær engu stjórnað

hugrekkið heldur mér á lofti

hjarta mitt er heilt og sátt

ég fyrirgef vegna mín

sleppi tökum á fortíð og fólki

og leyfi því að koma sem koma skal

set ekki upp hindranir og farartálma

og kvíði engu

heldur brosi breiðu brosi eftirvæntingar

við vissum ekki betur

kunnum ekki betur

kærleikurinn kemur og kyssir á bágtið

þakklætið þerrar tárin

Gleðin valhoppar í kringum mig

bíður spennt og segir í sífellu:

„komdu út að leika“  🙂

Mér er frjálst að elska

og þess meira sem ég elska

vex kærleikurinn til lífsins

ég kallaði áður „elskaðu mig!“

en nú þarf ég ekki að betla

bara elska

það er nóg

ég hef nóg

ég er nóg

quote