Fimm ára strákur bjó í næsta húsi við mann, sem nýlega hafði misst konuna sína. Maðurinn var úti í garði og strákurinn sá að maðurinn var leiður, hann rölti yfir til hans og tók í hendina á honum og stóð hjá honum drykklanga stund. Mamma hans hafði staðið álengdar og spurði son sinn þegar hann kom til baka hvað hann hefði eiginlega sagt við manninn, en strákurinn svaraði; „Ekkert, ég var bara að hjálpa honum að gráta.“ –
Þessa sögu, eða líka sögu sá ég á netinu, – hvort hún er sönn eða ekki skiptir engu máli. –
Þessi saga lýsir samhygð. –
Margir lenda í klemmu með hvernig þeir eiga að nálgast þau sem eru í sorg. Stundum gengur óöryggið svo langt að við forðum okkur. Það er við engan að sakast, við viljum öll vel, en stundum kunnum við bara ekki betur.
Oftast er betra að segja minna en meira. – Og alls ekki fara að segja eigin reynslusögur, nema um þær sé spurt, þannig að það endi ekki með því að syrgjandinn upplifi að hann þurfi að fara að hugga okkur. – Þær geta vel dugað síðar, þegar að fer að líða á sorgarferli, en fyrst á eftir er fókusinn á þann sem er í sorg. –
Faðmlag er stundum alveg nóg og/eða samvera, – að drekka kaffibolla saman og leyfa syrgjandanum að ráða ferðinni. Kannski þarf hann að gráta, eða kannski bara að gleyma sér aðeins og tala um eitthvað allt annað.
Við sýnum best samhug með því að vera til staðar fyrir viðkomandi.
Í sumum tilfellum er líka notalegt að færa fólki mat, meðlæti, kökur – því að margir vilja oft heimsækja og í staðinn fyrir að fylla allt af blómum, er fallegt að bjóðast til að ljá hjálparhönd við að þjónusta eða elda fyrir syrgjendur. –
Þessir praktísku hlutir geta þvælst fyrir. –
Þessi saga í upphafi snerti mig og varð til þess að mig langaði að deila þessu, eflaust upplifa þetta ekki allir eins.
Litli strákurinn þurfti engin orð en fann það hjá sér að það að nærvera hans hjálpaði manninum að gráta. –
Börn eru þau sjálf, við þurfum bara að vera við sjálf. –